Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 04:24 • Sest 14:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:18 • Síðdegis: 21:34 í Reykjavík

Hvaða rökvilla nefnist alhæfing?

Kristian Guttesen

Stysta svarið, sem hægt er að gefa við þessari spurningu, styðst við þónokkur íðorð eða tæknileg heiti, sem kalla aftur á nánari útskýringar. En byrjum á stutta svarinu:

Alhæfing er rökvilla sem notar tilleiðslu til að álykta um hið almenna út frá hinu einstaka.

Rökvilla er röksemdafærsla sem kann að virðast gild, það er að niðurstaða hennar sé sönn og óhjákvæmilega afleiðing af sönnum forsendunum, en reynist þegar grannt er skoðað ekki vera það. Hér skal þess látið getið að það er ekki sjálfgefið að tilleiðsla sé rökvilla. Tilleiðsla getur verið skynsamleg eða jafnvel áreiðanleg, en þá er henni heldur ekki beinlínis teflt fram sem sönnun á einhverju. Dæmi:

Sólin hefur hingað til komið upp á hverjum morgni og ætti því líka að gera það á morgun.

Kemur sólin upp á morgun?

Þetta væri tilleiðsla sem mörgum, ef ekki allflestum, þætti skynsamlegt að treysta á, en samt sem áður færir hún ekki sönnur á sólarupprás næsta dag. Hér hefur samt ekki verið alhæft um neitt og því ekki hægt að segja að um rökvillu sé að ræða. En væri fullyrðingin notuð til að styðja ályktanir, þá þyrfti að skoða rökleiðsluna í því samhengi. Ef sú skoðun leiðir í ljós að verið sé að rökstyðja eitthvað sem ekki er fótur fyrir, þá er hægt að kalla röksemdafærsluna (eða tilleiðsluna) alhæfingu og um leið rökvillu.

Í rökræðum og orðaskaki er alhæfingum oft beitt til að sýna fram á eitthvað eða til að slá ryk í augu fólks. Forðast ber að treysta alhæfingum að óathuguðu máli og þegar maður metur þær getur oft reynst gagnlegt að athuga á hvaða grunni þær eru reistar. Við slíka athugun er reynt að kanna rökleg tengsl forsendanna (þess sem maður gefur sér) og niðurstöðunnar (þess sem ætlað er að sýna fram á). Þótt mér finnist, svo dæmi sé nefnt, einhver tiltekinn þingmaður úr röðum Vinstri grænna vera réttsýnn og sanngjarn er ekki víst að ég geti leyft mér að fullyrða að „allir vinstrimenn séu réttlátir“ eða þótt mér finnist íslenskt vatn bragðast vel gæti verið hæpið af mér að halda því fram að „íslenskt vatn sé best í heimi“. Forsendurnar styðja ekki niðurstöðurnar þannig að hægt sé að álykta nokkuð út frá þeim.

Ekki verður hjá því komist að gera greinarmun á sönnum og ósönnum alhæfingum, en í ágætri samantekt segir heimspekingurinn Hrannar Baldursson:
Þegar ég tala um að staðhæfing sé sönn, meina ég alltaf og við allar aðstæður. Alhæfingar eru staðhæfingar sem fullyrða að ákveðinn flokkur tilheyri eða tilheyri ekki stærri flokki. Þegar sönnum alhæfingum er snúið við verða þær ekki lengur sannar, nema um klifanir séu að ræða, en klifanir eru alhæfingar um samsemdir; eins og:

allt H2O er vatn

sem er satt, og ef maður snýr henni við kemur út setningin:

allt vatn er H2O,

sem er líka satt, af því að um klifun er að ræða

(Hrannar Baldursson 2007).

Af þessu leiðir að klifanir, það er alhæfingar sem eru „sannar á báða vegu“, eru ekki rökvillur samkvæmt fyrstu skilgreiningunni sem gengið var út frá efst í þessu svari. Hún er þó engu að síður til marks um algengustu og hættulegustu tegund alhæfingar sem hér hefur verið fjallað um að hollast sé að forðast. Viðbótarskilgreiningin veltir ef til vill upp þeirri spurningu hvort við getum yfirleitt, þegar öllu er á botninn hvolft, alhæft um nokkurn skapaðan hlut?

Heimild:

Mynd:

Höfundur

Kristian Guttesen

meistaranemi í heimspeki

Útgáfudagur

26.5.2014

Spyrjandi

Helga Kristjánsdóttir, Ólafur Kristinn

Tilvísun

Kristian Guttesen. „Hvaða rökvilla nefnist alhæfing?“ Vísindavefurinn, 26. maí 2014. Sótt 8. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=58506.

Kristian Guttesen. (2014, 26. maí). Hvaða rökvilla nefnist alhæfing? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58506

Kristian Guttesen. „Hvaða rökvilla nefnist alhæfing?“ Vísindavefurinn. 26. maí. 2014. Vefsíða. 8. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58506>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða rökvilla nefnist alhæfing?
Stysta svarið, sem hægt er að gefa við þessari spurningu, styðst við þónokkur íðorð eða tæknileg heiti, sem kalla aftur á nánari útskýringar. En byrjum á stutta svarinu:

Alhæfing er rökvilla sem notar tilleiðslu til að álykta um hið almenna út frá hinu einstaka.

Rökvilla er röksemdafærsla sem kann að virðast gild, það er að niðurstaða hennar sé sönn og óhjákvæmilega afleiðing af sönnum forsendunum, en reynist þegar grannt er skoðað ekki vera það. Hér skal þess látið getið að það er ekki sjálfgefið að tilleiðsla sé rökvilla. Tilleiðsla getur verið skynsamleg eða jafnvel áreiðanleg, en þá er henni heldur ekki beinlínis teflt fram sem sönnun á einhverju. Dæmi:

Sólin hefur hingað til komið upp á hverjum morgni og ætti því líka að gera það á morgun.

Kemur sólin upp á morgun?

Þetta væri tilleiðsla sem mörgum, ef ekki allflestum, þætti skynsamlegt að treysta á, en samt sem áður færir hún ekki sönnur á sólarupprás næsta dag. Hér hefur samt ekki verið alhæft um neitt og því ekki hægt að segja að um rökvillu sé að ræða. En væri fullyrðingin notuð til að styðja ályktanir, þá þyrfti að skoða rökleiðsluna í því samhengi. Ef sú skoðun leiðir í ljós að verið sé að rökstyðja eitthvað sem ekki er fótur fyrir, þá er hægt að kalla röksemdafærsluna (eða tilleiðsluna) alhæfingu og um leið rökvillu.

Í rökræðum og orðaskaki er alhæfingum oft beitt til að sýna fram á eitthvað eða til að slá ryk í augu fólks. Forðast ber að treysta alhæfingum að óathuguðu máli og þegar maður metur þær getur oft reynst gagnlegt að athuga á hvaða grunni þær eru reistar. Við slíka athugun er reynt að kanna rökleg tengsl forsendanna (þess sem maður gefur sér) og niðurstöðunnar (þess sem ætlað er að sýna fram á). Þótt mér finnist, svo dæmi sé nefnt, einhver tiltekinn þingmaður úr röðum Vinstri grænna vera réttsýnn og sanngjarn er ekki víst að ég geti leyft mér að fullyrða að „allir vinstrimenn séu réttlátir“ eða þótt mér finnist íslenskt vatn bragðast vel gæti verið hæpið af mér að halda því fram að „íslenskt vatn sé best í heimi“. Forsendurnar styðja ekki niðurstöðurnar þannig að hægt sé að álykta nokkuð út frá þeim.

Ekki verður hjá því komist að gera greinarmun á sönnum og ósönnum alhæfingum, en í ágætri samantekt segir heimspekingurinn Hrannar Baldursson:
Þegar ég tala um að staðhæfing sé sönn, meina ég alltaf og við allar aðstæður. Alhæfingar eru staðhæfingar sem fullyrða að ákveðinn flokkur tilheyri eða tilheyri ekki stærri flokki. Þegar sönnum alhæfingum er snúið við verða þær ekki lengur sannar, nema um klifanir séu að ræða, en klifanir eru alhæfingar um samsemdir; eins og:

allt H2O er vatn

sem er satt, og ef maður snýr henni við kemur út setningin:

allt vatn er H2O,

sem er líka satt, af því að um klifun er að ræða

(Hrannar Baldursson 2007).

Af þessu leiðir að klifanir, það er alhæfingar sem eru „sannar á báða vegu“, eru ekki rökvillur samkvæmt fyrstu skilgreiningunni sem gengið var út frá efst í þessu svari. Hún er þó engu að síður til marks um algengustu og hættulegustu tegund alhæfingar sem hér hefur verið fjallað um að hollast sé að forðast. Viðbótarskilgreiningin veltir ef til vill upp þeirri spurningu hvort við getum yfirleitt, þegar öllu er á botninn hvolft, alhæft um nokkurn skapaðan hlut?

Heimild:

Mynd: