Eftir því sem ég best veit hefur ekki verið tekinn saman listi yfir þá sem töldust víkingar eða vitað var að héldu í víking. Til er stuttur kafli um nöfn sem þekkt eru frá víkingatímanum í bók Assars Janzéns um norræn eiginnöfn (1948:28-29). Þau eru ekki sérstaklega nöfn á þeim sem héldu í víking heldur heimildir um nöfn karla og kvenna frá þeim tíma sem kallaður hefur verið víkingaöld (um 800-1050).
Í Íslendingasögum og öðrum norrænum miðaldaritum er víða nefnt að menn hafi haldið í víking, sem virðist hafa verið blanda af ráns- og verslunarferðum, og báru þeir algeng norræn nöfn sem flest þekkjast enn í dag, sömu nöfn og nefnd eru til dæmis í Landnámu. Þar sem tíðni nafna frá þessum tíma er ekki aðgengileg er ekki unnt að segja neitt með vissu um algeng nöfn víkinga. Það vekur hins vegar athygli hversu nafn þrumuguðsins Þórs var algengt um það leyti sem Ísland byggðist þótt aldrei kæmi það fram ósamsett. Nefna má Þorbjörn, Þorgeir, Þorgrímur, Þorkell, Þorsteinn, Þórður, Þórir, Þórarinn. Önnur algeng karlmannsnöfn voru til dæmis Helgi, Ketill, Björn, Grímur, Einar og Eyvindur. Áhugavert verkefni væri að tína saman nöfn þeirra manna sem héldu í víking en það bíður betri tíma.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Eru til einhver séríslensk mannanöfn? eftir Guðrúnu Kvaran
- Er rökrétt að fullyrða að landnámsmenn á Íslandi hafi verið víkingar? eftir Gunnar Karlsson
- Hvar hafa leifar um víkinga varðveist? eftir Orra Vésteinsson
- Hvaðan komu víkingarnir og hvaða áhrif höfðu þeir í öðrum löndum? eftir Sverrir Jakobsson
- Í hverju bjuggu víkingar? eftir Hildi Guðmundsdóttur
- Hver voru helstu vopn víkinga og voru þeir bardagaglaðir? eftir Gunnar Karlsson
- Assar Janzén. 1948. Personnamn. Nordisk kultur VII. Oslo, Stockholm, København.
- is.wikipedia.org - Víkingar. Sótt 10.5.2011.
