Í augum katta eru bæði svokallaðar keilur og stafir. Stafir og keilur eru sérhæfðar frumur sem nema ljós og senda taugaboð upp í heila. Frumurnar eru viðkvæmar og þess vegna stjórna augun því ljósmagni sem berst þeim með því að draga saman ljósopin í birtu og stækka þau í dimmu.Sökum þess hvernig augu katta eru uppbyggð sjá þeir betur en við mennirnir í myrkri en verr í dagsbirtu. Kettir geta séð í allt að sjö sinnum minni birtu heldur en við mannfólkið og eru jafnframt viðkvæmari fyrir mikilli birtu. Sjónsvið katta er einnig ívið víðara en okkar mannanna eða um 200° á móti 180° og er það einkum vegna staðsetningar augnanna í höfðinu. Kettir virðast geta séð í litum en litasjón þeirra er þó ekki eins þróuð og hjá okkur mannfólkinu. Rannsóknir benda til þess að kettir sjái liti eins og fjólubláan, bláan, grænan og gulan frekar en liti á hinum enda litrófsins eins og rauðan og appelsínugulan. Köttum sýnist rauður vera svartur eða mjög dökkur, en grænn virðist fölgrænn enda liggur grænn við jaðar sjónskynjunar kattarins. Þar sem kettir eru rándýr og eltast við bráð sem fellur yfirleitt vel að umhverfi sínu þurfa þeir ekki mjög mikið á litaskynjun að halda, en virðast hins vegar sjá og skynja hreyfingar þeim mun betur. Nánari upplýsingar má finna í eftirfarandi svörum á Vísindavefnum: Frekari upplýsingar má finna með því að nota leitarvél Vísindavefsins eða smella á efnisorðin hér fyrir neðan.- - - Stafirnir nýtast köttum í myrkri við það að greina snöggar hreyfingar í umhverfinu en keilurnar nýtast í birtu sérstaklega við greiningu á litum.
Sjá kettir liti í myrkri, ef já hvernig liti?
Útgáfudagur
12.5.2006
Spyrjandi
Anna Guðmundsdóttir
Tilvísun
MBS og ÞV. „Sjá kettir liti í myrkri, ef já hvernig liti?“ Vísindavefurinn, 12. maí 2006, sótt 6. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5914.
MBS og ÞV. (2006, 12. maí). Sjá kettir liti í myrkri, ef já hvernig liti? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5914
MBS og ÞV. „Sjá kettir liti í myrkri, ef já hvernig liti?“ Vísindavefurinn. 12. maí. 2006. Vefsíða. 6. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5914>.