Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað er átt við með hugtakinu aflandskrónur og hvernig ber að skilja hugmyndina um uppboð á þeim?

Stefán Jóhann Stefánsson

Að undanförnu hefur orðið aflandskróna verið notað í almennri umræðu hér á landi. Orðhlutinn afland (e. offshore) vísar til þess að um sé að ræða starfsemi sem eigi sér ekki stað hér innanlands heldur erlendis (svo þarf þó ekki að vera). Þessu tengt er orðið aflandsgengi sem vísar til gengis á gjaldmiðli sem er tilkomið vegna viðskipta með gjaldmiðilinn utan heimalandsins og er það þá annað gengi en hið skráða gengi á heimamarkaði.

Í umræðunni hefur orðið aflandskróna verið látið ná yfir verðmæti í innlendum gjaldeyri (krónum) í eigu eða vörslu útlendinga í flestum tilvikum, eða ávísun á slík verðmæti, sem lúta sérstökum takmörkunum vegna hafta á fjármagnshreyfingar sem komið var á eftir hrun íslenska bankakerfisins haustið 2008. Þetta geta verið verðbréf útgefin í krónum eða fjármunir á krónureikningum í fjármálastofunum hér á landi eða erlendis. Þannig hafa svokölluð jöklabréf, sem svo voru nefnd, verið flokkuð sem hluti aflandskróna, en jöklabréf eru verðbréf í krónum sem gefin voru út erlendis, í flestum tilvikum af erlendum aðilum.

Þegar verðbréf þessi koma á gjalddaga hafa eigendur þeirra í mörgum tilvikum fengið andvirðið greitt inn á bankareikninga, ýmist innlenda krónureikninga eða í erlendum bönkum sem eiga innstæður í innlendum bönkum. Hugtakið aflandskrónur getur því sem sagt átt við hvort tveggja; krónuinnstæður í erlendum bönkum, eða mótsvarandi innstæður erlendra fjármálafyrirtækja í innlendum bönkum.

Mynd af höfuðstöðum Deutsche Bank í Frankfurt.

Sumir fjárfestar hafa fjárfest andvirði jöklabréfa í íslenskum ríkisbréfum og –víxlum. Innlendir og erlendir aðilar hafa einnig keypt aflandskrónur á erlendum mörkuðum á svokölluðu aflandsgengi, það er að segja gengi sem myndast á íslenskum krónum í viðskiptum á milli aðila utan hins innlenda gjaldeyrismarkaðar. Vegna þess að takmarkanir eru á viðskiptum og fjármagnsflutningum þar sem þessar krónur eiga í hlut er gengið sem myndast á þessum markaði annað en gengi krónunnar sem er skráð hér á landi.

Orðið aflandskróna hefur í umræðunni því verið látið ná yfir hluta þeirra fjármuna sem svokölluð gjaldeyrishöft takmarka hreyfingar á (höftin takmarka líka hreyfingar annarra króna). Þetta eru sem sagt að verulegu leyti fjáreignir erlendra aðila í krónum og er talin hætta á að ef þær yrðu færðar úr landi hratt og í stórum stíl, til dæmis með kaupum hér á erlendum gjaldeyri, þá gæti það valdið þrýstingi í átt til lækkunar á gengi krónunnar. Það gæti jafnframt haft í för með sér mikil áföll fyrir fjármálakerfið, þar sem á einu andartaki gæti orðið umtalsverður skortur eða jafnvel fullkomin þurrð á gjaldeyri í fjármálakerfinu, sem og jafnvel krónum í einstaka fjármálastofnunum. Það gæti svo valdið óstöðugleika í íslensku efnahagslífi og tafið frekari efnahagsbata. Af þessum sökum hafa sérstakar hömlur verið settar tímabundið á flutninga og viðskipti með þessa fjármuni. Talið er að undir lok árs 2011 hafi þessir fjármunir verið nálægt 400 milljörðum króna, eða sem nemur um 40% af gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Fjárhæðin lækkaði nokkuð á árinu, meðal annars vegna útboða á gjaldeyri og viðskipta með aflandskrónur, en talið er að fjárhæðin hafi numið um 465 milljörðum króna í mars 2011. Stefnt er að því að lækka þessa fjárhæð, meðal annars með áframhaldandi gjaldeyrisútboðum, en þó getur fjárhæðin sveiflast eitthvað til þegar föllnu bankarnir verða gerðir upp.

Þar sem spurt er um uppboð, þá er líklega vísað til þess að nýverið kynnti Seðlabanki Íslands fyrirhuguð gjaldeyrisútboð þar sem bankinn mun kaupa erlendan gjaldeyri í skiptum fyrir krónur til innlendrar fjárfestingar, enda sé fjárfestingin ætluð til langs tíma hér á landi. Markmið bankans með viðskiptunum er að auðvelda losun gjaldeyrishafta, án þess að það valdi verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum eða tefli fjármálastöðugleika í tvísýnu. Aukin fjárfesting er þýðingarmikill þáttur þess að unnt verði að losa um gjaldeyrishöftin, samanber áætlun Seðlabankans um afléttingu gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011.

Gjaldeyrisútboðin fara þannig fram að fjárfestar sem hyggjast fjárfesta á Íslandi og sem selja erlendan gjaldeyri í innlendri fjármálastofnun geta tekið þátt í gjaldeyrisútboði, þar sem fjárfestir býður Seðlabankanum að kaupa jafnmikinn erlendan gjaldeyri og hann selur til innlendrar fjármálastofnunar.

Þá er annar liður í þessu ferli sá að fjárfestir sem selur, eða hyggst selja erlendan gjaldeyri hjá innlendri fjármálastofnun getur sent inn umsókn til Seðlabankans um að flytja til landsins aflandskrónur, sem hafa verið í samfelldu eignarhaldi fjárfestis frá 28. nóvember 2008. Fjárhæð aflandskróna sem fjárfestir getur óskað eftir að flytja til landsins samsvarar jafnvirði þess erlenda gjaldeyris sem fjárfestir selur, eða mun selja innlendri fjármálastofnun, miðað við gengi sem kallað verður fjárfestingargengi og ræðst af því gengi sem ákvarðast í síðasta útboði Seðlabankans.

Eins og fram kemur að ofan er tilgangur gjaldeyrishaftanna að tryggja stöðugleika í gengi krónunnar eftir hrun innlendra fjármálastofnana og tryggja greiðsluhæfi landsins gagnvart útlöndum. Gjaldeyrishöftin byggja á lögum um gjaldeyrismál. Seðlabanki Íslands hefur í samstarfi við efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafið losun gjaldeyrishaftanna í áföngum. Þeir fela það meðal annars í sér að beina aflandskrónum í langtímafjárfestingu hér á landi. Áætluninni er lýst nánar í skýrslu Seðlabanka Íslands til efnahags- og viðskiptaráðherra 25. mars 2011.

Sjá nánar:

Mynd:


Spurning Einars hljóðaði upprunalega svona:
Mikið er talað um aflandskrónur í fjölmiðlum en lítið er um upplýsingar til almennings um hvað aflandskrónur eru. Getið þið útskýrt aflandskrónur?

Höfundur

Stefán Jóhann Stefánsson

ritstjóri í Seðlabanka Íslands

Útgáfudagur

10.1.2012

Spyrjandi

Jón Ingólfur Magnússon, Einar Ólafsson, Karl K. H. Guðmundsson, Sigurður Ingi Sigurpálsson

Tilvísun

Stefán Jóhann Stefánsson. „Hvað er átt við með hugtakinu aflandskrónur og hvernig ber að skilja hugmyndina um uppboð á þeim?“ Vísindavefurinn, 10. janúar 2012. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60143.

Stefán Jóhann Stefánsson. (2012, 10. janúar). Hvað er átt við með hugtakinu aflandskrónur og hvernig ber að skilja hugmyndina um uppboð á þeim? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60143

Stefán Jóhann Stefánsson. „Hvað er átt við með hugtakinu aflandskrónur og hvernig ber að skilja hugmyndina um uppboð á þeim?“ Vísindavefurinn. 10. jan. 2012. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60143>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er átt við með hugtakinu aflandskrónur og hvernig ber að skilja hugmyndina um uppboð á þeim?
Að undanförnu hefur orðið aflandskróna verið notað í almennri umræðu hér á landi. Orðhlutinn afland (e. offshore) vísar til þess að um sé að ræða starfsemi sem eigi sér ekki stað hér innanlands heldur erlendis (svo þarf þó ekki að vera). Þessu tengt er orðið aflandsgengi sem vísar til gengis á gjaldmiðli sem er tilkomið vegna viðskipta með gjaldmiðilinn utan heimalandsins og er það þá annað gengi en hið skráða gengi á heimamarkaði.

Í umræðunni hefur orðið aflandskróna verið látið ná yfir verðmæti í innlendum gjaldeyri (krónum) í eigu eða vörslu útlendinga í flestum tilvikum, eða ávísun á slík verðmæti, sem lúta sérstökum takmörkunum vegna hafta á fjármagnshreyfingar sem komið var á eftir hrun íslenska bankakerfisins haustið 2008. Þetta geta verið verðbréf útgefin í krónum eða fjármunir á krónureikningum í fjármálastofunum hér á landi eða erlendis. Þannig hafa svokölluð jöklabréf, sem svo voru nefnd, verið flokkuð sem hluti aflandskróna, en jöklabréf eru verðbréf í krónum sem gefin voru út erlendis, í flestum tilvikum af erlendum aðilum.

Þegar verðbréf þessi koma á gjalddaga hafa eigendur þeirra í mörgum tilvikum fengið andvirðið greitt inn á bankareikninga, ýmist innlenda krónureikninga eða í erlendum bönkum sem eiga innstæður í innlendum bönkum. Hugtakið aflandskrónur getur því sem sagt átt við hvort tveggja; krónuinnstæður í erlendum bönkum, eða mótsvarandi innstæður erlendra fjármálafyrirtækja í innlendum bönkum.

Mynd af höfuðstöðum Deutsche Bank í Frankfurt.

Sumir fjárfestar hafa fjárfest andvirði jöklabréfa í íslenskum ríkisbréfum og –víxlum. Innlendir og erlendir aðilar hafa einnig keypt aflandskrónur á erlendum mörkuðum á svokölluðu aflandsgengi, það er að segja gengi sem myndast á íslenskum krónum í viðskiptum á milli aðila utan hins innlenda gjaldeyrismarkaðar. Vegna þess að takmarkanir eru á viðskiptum og fjármagnsflutningum þar sem þessar krónur eiga í hlut er gengið sem myndast á þessum markaði annað en gengi krónunnar sem er skráð hér á landi.

Orðið aflandskróna hefur í umræðunni því verið látið ná yfir hluta þeirra fjármuna sem svokölluð gjaldeyrishöft takmarka hreyfingar á (höftin takmarka líka hreyfingar annarra króna). Þetta eru sem sagt að verulegu leyti fjáreignir erlendra aðila í krónum og er talin hætta á að ef þær yrðu færðar úr landi hratt og í stórum stíl, til dæmis með kaupum hér á erlendum gjaldeyri, þá gæti það valdið þrýstingi í átt til lækkunar á gengi krónunnar. Það gæti jafnframt haft í för með sér mikil áföll fyrir fjármálakerfið, þar sem á einu andartaki gæti orðið umtalsverður skortur eða jafnvel fullkomin þurrð á gjaldeyri í fjármálakerfinu, sem og jafnvel krónum í einstaka fjármálastofnunum. Það gæti svo valdið óstöðugleika í íslensku efnahagslífi og tafið frekari efnahagsbata. Af þessum sökum hafa sérstakar hömlur verið settar tímabundið á flutninga og viðskipti með þessa fjármuni. Talið er að undir lok árs 2011 hafi þessir fjármunir verið nálægt 400 milljörðum króna, eða sem nemur um 40% af gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Fjárhæðin lækkaði nokkuð á árinu, meðal annars vegna útboða á gjaldeyri og viðskipta með aflandskrónur, en talið er að fjárhæðin hafi numið um 465 milljörðum króna í mars 2011. Stefnt er að því að lækka þessa fjárhæð, meðal annars með áframhaldandi gjaldeyrisútboðum, en þó getur fjárhæðin sveiflast eitthvað til þegar föllnu bankarnir verða gerðir upp.

Þar sem spurt er um uppboð, þá er líklega vísað til þess að nýverið kynnti Seðlabanki Íslands fyrirhuguð gjaldeyrisútboð þar sem bankinn mun kaupa erlendan gjaldeyri í skiptum fyrir krónur til innlendrar fjárfestingar, enda sé fjárfestingin ætluð til langs tíma hér á landi. Markmið bankans með viðskiptunum er að auðvelda losun gjaldeyrishafta, án þess að það valdi verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum eða tefli fjármálastöðugleika í tvísýnu. Aukin fjárfesting er þýðingarmikill þáttur þess að unnt verði að losa um gjaldeyrishöftin, samanber áætlun Seðlabankans um afléttingu gjaldeyrishafta frá 25. mars 2011.

Gjaldeyrisútboðin fara þannig fram að fjárfestar sem hyggjast fjárfesta á Íslandi og sem selja erlendan gjaldeyri í innlendri fjármálastofnun geta tekið þátt í gjaldeyrisútboði, þar sem fjárfestir býður Seðlabankanum að kaupa jafnmikinn erlendan gjaldeyri og hann selur til innlendrar fjármálastofnunar.

Þá er annar liður í þessu ferli sá að fjárfestir sem selur, eða hyggst selja erlendan gjaldeyri hjá innlendri fjármálastofnun getur sent inn umsókn til Seðlabankans um að flytja til landsins aflandskrónur, sem hafa verið í samfelldu eignarhaldi fjárfestis frá 28. nóvember 2008. Fjárhæð aflandskróna sem fjárfestir getur óskað eftir að flytja til landsins samsvarar jafnvirði þess erlenda gjaldeyris sem fjárfestir selur, eða mun selja innlendri fjármálastofnun, miðað við gengi sem kallað verður fjárfestingargengi og ræðst af því gengi sem ákvarðast í síðasta útboði Seðlabankans.

Eins og fram kemur að ofan er tilgangur gjaldeyrishaftanna að tryggja stöðugleika í gengi krónunnar eftir hrun innlendra fjármálastofnana og tryggja greiðsluhæfi landsins gagnvart útlöndum. Gjaldeyrishöftin byggja á lögum um gjaldeyrismál. Seðlabanki Íslands hefur í samstarfi við efnahags- og viðskiptaráðuneytið hafið losun gjaldeyrishaftanna í áföngum. Þeir fela það meðal annars í sér að beina aflandskrónum í langtímafjárfestingu hér á landi. Áætluninni er lýst nánar í skýrslu Seðlabanka Íslands til efnahags- og viðskiptaráðherra 25. mars 2011.

Sjá nánar:

Mynd:


Spurning Einars hljóðaði upprunalega svona:
Mikið er talað um aflandskrónur í fjölmiðlum en lítið er um upplýsingar til almennings um hvað aflandskrónur eru. Getið þið útskýrt aflandskrónur?
...