Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Af hverju gagnast það íþróttamönnum að sprauta í sig blóði í miðri keppni og er það leyfilegt?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Rauðkornin í blóði flytja súrefni um líkamann. Vöðvar þurfa súrefni til starfsemi sinnar. Það er mikilvægt fyrir íþróttamenn, einkum þá sem stunda greinar sem krefjast góðs úthalds og þols, að vera með nægilegt blóð, nánar tiltekið rauð blóðkorn, til að koma nægilegu súrefni til vöðvanna. Með hærri súrefnismettun geta íþróttamenn lagt harðar að sér og haldið lengur út. Þannig fá þeir forskot á aðra keppendur.

Hjólreiðar eru ein þeirra íþróttagreina þar sem íþróttamenn hafa beitt ýmsum ráðum til að auka súrefnisupptökuna.

Við þjálfun manna fyrir keppni hafa þróast þrjár leiðir til að ná hámarkssúrefnismettun blóðs. Elsta aðferðin er blóðgjöf. Þá er tekið blóð úr einstaklingi sem tilheyrir sama blóðflokki og íþróttamaðurinn. Blóðið er geymt í frysti eða kæli þar til rétt fyrir keppni þegar því er dælt í líkama hans. Þetta er bannað og til eru próf til að komast að því hvort þetta hefur verið gert. Afbrigði af þessu er þegar íþróttamaðurinn tekur nokkrar einingar af sínu eigin blóði, geymir það og bætir því síðan aftur í líkamann rétt fyrir keppni. Þetta er líka bannað og það er hægt að komast að þessu með blóðprufu.

Önnur aðferð til að auka súrefnismettun blóðs er að auka rauðkornamyndun í líkamanum með hormóni. Á níunda áratug síðustu aldar komust menn að því að nýrun framleiða hormón sem hefur verið kallað rauðkornahormón (e. erythropoietin = EPO). Í nýrunum eru sérstakar frumur sem fylgjast með súrefnismettun blóðs. Ef hún lækkar bregðast nýrun við með því að mynda meira af þessu hormóni. Það berst til blóðmergs í beinum og örvar hann til að mynda meira af rauðkornum. Með fleiri rauðkornum eykst súrefnismettunin og árangur íþróttamannsins eykst. Þegar nýrun skynja aukna súrefnismettun í kjölfarið draga þau úr aukinni myndun EPO í bili.

Íþróttamenn geta nýtt sér þetta á tvo vegu. Annars vegar er hægt að sprauta tilbúnu rauðkornahormóni í blóðið. Slík lyf voru þróuð til að koma í veg fyrir blóðleysi af völdum þrálátrar nýrnabilunar, krabbameins, alnæmis og til að meðhöndla fyrirbura. Hins vegar geta íþróttamenn búið á stöðum þar sem súrefnismagn andrúmsloftsins er lægra en gengur og gerist en við slíkar aðstæður auka nýrun myndun á EPO.

Í mikilli hæð yfir sjávarmáli er mun minna magn af súrefni í andrúmsloftinu og því minni súrefnismettun í blóði þeirra sem búa á slíkum stöðum. Það verður því súrefnisskortur sem leiðir til rauðkornamyndunar eins og lýst var hér að ofan. Þetta hafa sumir íþróttamenn og þjálfarar þeirra nýtt sér. Íþróttamennirnir eru þá látnir lifa í mikilli hæð, til að rauðkornamyndun örvist, en æfa sig niðri við sjávarmál þar sem súrefnismettun er meiri og þeir geta því lagt meira á sig. Enn fremur eru til íbúðir sem líkja eftir slíkum aðstæðum en eru við sjávarmál. Þá er meira af nitri og minna súrefni í loftinu í íbúðinni. Íþróttamenn sofa í slíkum íbúðum til að auka EPO myndun sína en þjálfa í venjulegu andrúmslofti.

Óvenjuhátt hlutfall rauðkorna í blóði íþróttamanns getur verið vísbending um að eitthvað hafi verið gert til að auka súrefnismettun blóðsins.

Þriðja aðferðin sem er notuð til að auka súrefnismettun í blóði íþróttamanna er notkun tilbúinna súrefnisbera. Blóðrauði (e. hemoglobin) er það efni í líkamanum sem bindur súrefnið sem við öndum að okkur og ber það til vefja líkamans. Blóðrauði er aðalefni rauðkornanna og gefur blóðinu rauða lit sinn eins og nafnið gefur til kynna. Reynt hefur verið að einangra blóðrauða úr rauðkornum og dæla því síðan beint í blóðið. Þetta hefur því miður ekki gengið vel því að þegar slíkum blóðrauða er komið út í blóðið er hann brotinn niður í eitruð efni.

Reynt hefur verið að komast hjá þessu vandamáli með því að setja blóðrauðann inn í gervirauðkorn með gervihimnum. Tilraunir með þetta hafa gefið nokkuð góða von um árangur. Einnig eru til perflúrefni (e. PFCs) sem eru tilbúnar lausnir sem súrefni leysist upp í. PFC-kornum er sprautað í blóðið og berast með því til lungna, þar sem þau taka upp súrefni. Þau bera síðan súrefnið áfram með blóðinu til vefja líkamans, þar með talið vöðva.

En allt þetta getur verið hættulegt. Með því að auka fjölda rauðkorna í blóðinu eykst seigja þess sem gerir það að verkum að það storknar auðveldara. Það hefur í för með sér hættu á myndun blóðtappa sem eykur hættu á hjartaáfalli, heilaáfalli (slagi) og blóðreki í lungu. Einnig fylgir sýkingarhætta blóðtöku, geymslu blóðs og blóðgjöf. Sum lyf sem auka rauðkornamyndun geta dregið úr lifrarstarfsemi og leitt til lifrarbilunar, vandamála í heiladingli og aukningu á kólesteróli í blóði. Þrátt fyrir þetta er mikill fjöldi atvinnuíþróttamanna tilbúinn að taka þessa áhættu. Þess vegna heldur kapphlaupið áfram milli þeirra sem vilja koma upp um þessi tilfelli og þeirra sem vilja leyna þeim fyrir eftirlitsmönnum.

Heimildir og mynd:

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Getið þið útskýrt fyrir mér hvernig hjólreiðakappar og aðrir þolþrautakappar hagnast á því að sprauta í sig blóði í miðri keppni sem þeir tóku úr sér áður en keppni hófst?

Höfundur

Útgáfudagur

15.5.2012

Spyrjandi

Sindri Svavarsson

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Af hverju gagnast það íþróttamönnum að sprauta í sig blóði í miðri keppni og er það leyfilegt?“ Vísindavefurinn, 15. maí 2012. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60178.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2012, 15. maí). Af hverju gagnast það íþróttamönnum að sprauta í sig blóði í miðri keppni og er það leyfilegt? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60178

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Af hverju gagnast það íþróttamönnum að sprauta í sig blóði í miðri keppni og er það leyfilegt?“ Vísindavefurinn. 15. maí. 2012. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60178>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Af hverju gagnast það íþróttamönnum að sprauta í sig blóði í miðri keppni og er það leyfilegt?
Rauðkornin í blóði flytja súrefni um líkamann. Vöðvar þurfa súrefni til starfsemi sinnar. Það er mikilvægt fyrir íþróttamenn, einkum þá sem stunda greinar sem krefjast góðs úthalds og þols, að vera með nægilegt blóð, nánar tiltekið rauð blóðkorn, til að koma nægilegu súrefni til vöðvanna. Með hærri súrefnismettun geta íþróttamenn lagt harðar að sér og haldið lengur út. Þannig fá þeir forskot á aðra keppendur.

Hjólreiðar eru ein þeirra íþróttagreina þar sem íþróttamenn hafa beitt ýmsum ráðum til að auka súrefnisupptökuna.

Við þjálfun manna fyrir keppni hafa þróast þrjár leiðir til að ná hámarkssúrefnismettun blóðs. Elsta aðferðin er blóðgjöf. Þá er tekið blóð úr einstaklingi sem tilheyrir sama blóðflokki og íþróttamaðurinn. Blóðið er geymt í frysti eða kæli þar til rétt fyrir keppni þegar því er dælt í líkama hans. Þetta er bannað og til eru próf til að komast að því hvort þetta hefur verið gert. Afbrigði af þessu er þegar íþróttamaðurinn tekur nokkrar einingar af sínu eigin blóði, geymir það og bætir því síðan aftur í líkamann rétt fyrir keppni. Þetta er líka bannað og það er hægt að komast að þessu með blóðprufu.

Önnur aðferð til að auka súrefnismettun blóðs er að auka rauðkornamyndun í líkamanum með hormóni. Á níunda áratug síðustu aldar komust menn að því að nýrun framleiða hormón sem hefur verið kallað rauðkornahormón (e. erythropoietin = EPO). Í nýrunum eru sérstakar frumur sem fylgjast með súrefnismettun blóðs. Ef hún lækkar bregðast nýrun við með því að mynda meira af þessu hormóni. Það berst til blóðmergs í beinum og örvar hann til að mynda meira af rauðkornum. Með fleiri rauðkornum eykst súrefnismettunin og árangur íþróttamannsins eykst. Þegar nýrun skynja aukna súrefnismettun í kjölfarið draga þau úr aukinni myndun EPO í bili.

Íþróttamenn geta nýtt sér þetta á tvo vegu. Annars vegar er hægt að sprauta tilbúnu rauðkornahormóni í blóðið. Slík lyf voru þróuð til að koma í veg fyrir blóðleysi af völdum þrálátrar nýrnabilunar, krabbameins, alnæmis og til að meðhöndla fyrirbura. Hins vegar geta íþróttamenn búið á stöðum þar sem súrefnismagn andrúmsloftsins er lægra en gengur og gerist en við slíkar aðstæður auka nýrun myndun á EPO.

Í mikilli hæð yfir sjávarmáli er mun minna magn af súrefni í andrúmsloftinu og því minni súrefnismettun í blóði þeirra sem búa á slíkum stöðum. Það verður því súrefnisskortur sem leiðir til rauðkornamyndunar eins og lýst var hér að ofan. Þetta hafa sumir íþróttamenn og þjálfarar þeirra nýtt sér. Íþróttamennirnir eru þá látnir lifa í mikilli hæð, til að rauðkornamyndun örvist, en æfa sig niðri við sjávarmál þar sem súrefnismettun er meiri og þeir geta því lagt meira á sig. Enn fremur eru til íbúðir sem líkja eftir slíkum aðstæðum en eru við sjávarmál. Þá er meira af nitri og minna súrefni í loftinu í íbúðinni. Íþróttamenn sofa í slíkum íbúðum til að auka EPO myndun sína en þjálfa í venjulegu andrúmslofti.

Óvenjuhátt hlutfall rauðkorna í blóði íþróttamanns getur verið vísbending um að eitthvað hafi verið gert til að auka súrefnismettun blóðsins.

Þriðja aðferðin sem er notuð til að auka súrefnismettun í blóði íþróttamanna er notkun tilbúinna súrefnisbera. Blóðrauði (e. hemoglobin) er það efni í líkamanum sem bindur súrefnið sem við öndum að okkur og ber það til vefja líkamans. Blóðrauði er aðalefni rauðkornanna og gefur blóðinu rauða lit sinn eins og nafnið gefur til kynna. Reynt hefur verið að einangra blóðrauða úr rauðkornum og dæla því síðan beint í blóðið. Þetta hefur því miður ekki gengið vel því að þegar slíkum blóðrauða er komið út í blóðið er hann brotinn niður í eitruð efni.

Reynt hefur verið að komast hjá þessu vandamáli með því að setja blóðrauðann inn í gervirauðkorn með gervihimnum. Tilraunir með þetta hafa gefið nokkuð góða von um árangur. Einnig eru til perflúrefni (e. PFCs) sem eru tilbúnar lausnir sem súrefni leysist upp í. PFC-kornum er sprautað í blóðið og berast með því til lungna, þar sem þau taka upp súrefni. Þau bera síðan súrefnið áfram með blóðinu til vefja líkamans, þar með talið vöðva.

En allt þetta getur verið hættulegt. Með því að auka fjölda rauðkorna í blóðinu eykst seigja þess sem gerir það að verkum að það storknar auðveldara. Það hefur í för með sér hættu á myndun blóðtappa sem eykur hættu á hjartaáfalli, heilaáfalli (slagi) og blóðreki í lungu. Einnig fylgir sýkingarhætta blóðtöku, geymslu blóðs og blóðgjöf. Sum lyf sem auka rauðkornamyndun geta dregið úr lifrarstarfsemi og leitt til lifrarbilunar, vandamála í heiladingli og aukningu á kólesteróli í blóði. Þrátt fyrir þetta er mikill fjöldi atvinnuíþróttamanna tilbúinn að taka þessa áhættu. Þess vegna heldur kapphlaupið áfram milli þeirra sem vilja koma upp um þessi tilfelli og þeirra sem vilja leyna þeim fyrir eftirlitsmönnum.

Heimildir og mynd:

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Getið þið útskýrt fyrir mér hvernig hjólreiðakappar og aðrir þolþrautakappar hagnast á því að sprauta í sig blóði í miðri keppni sem þeir tóku úr sér áður en keppni hófst?

...