Sólin Sólin Rís 07:22 • sest 19:15 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 07:47 • Sest 19:34 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:35 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hver var Kurt Martin Hahn og hvert var hans framlag til skólamála?

Haukur Ingi Jónasson

Þýska skólamanninum Kurt Martin Hahn hefði ekki líkað við þá óvirku athöfn að glápa á síður veraldarvefsins í tíma og ótíma. Hann vildi að ungt fólk væri virkt, skapandi og áræðið. Hahn fæddist í Berlín 5. júní 1886. Hann var þýskur gyðingur, undir sterkum áhrifum af Ríkinu eftir Platon og hafði mikil áhrif á skólamál. Hahn var frumkvöðull sem stofnaði skóla sem einkennast enn af nýsköpun og afburðaárangri í skólastarfi og hann var einarður talsmaður þess að reynsluþekking (e. experimental learning) væri nýtt í skólastarfi. Hahn var þekktur bæði fyrir þá trú sína að ungt fólki gæti tekist á við nánast hvaða verkefni sem væri og að nám ætti að reyna á þolgæði, styrk og aga og gefa nemendum kosta á að taka góðar ákvarðanir við erfiðustu aðstæður. Hugmyndir Hahns endurspeglast vel í orðum hans: „Þú skalt vaxa upp í að verða sá sem þú ert” og „það býr meira í þér en þú heldur!”

Hahn stundaði nám í Berlín, Oxford, Heidelberg, Freiburg og Göttingen. Í fyrri heimsstyrjöldinni starfaði hann hjá þýska utanríkisráðuneytinu við greiningu á breskum dagblöðum. Hann hafði verið einkaritari Max von Baden prins sem var síðasti keisari Þýskalands og stofnaði Schloss Salem-skólann við Bodensee með fulltingi prinsins. Skólinn var einkarekinn heimavistarskóli og var Hahn skólastjóri þar 1920-1933.

Skólastarf í Salem byggði á kenningum Platons í Ríkinu og þar var blandað saman bóklegri þekkingu, íþróttum og líkamlegri vinnu. Hahn var ekki talsmaður þess að nemendur fengju að velja námsgreinar því hann taldi að smekkur barns væri ekki mælikvarði á hvar hæfileikar þess lægju. Hann vildi heldur ekki að skólinn uppgötvaði afburðamenn fyrir ríkið. Skóli í anda Platons miðar „að því að hjálpa nemendum til að finna sinn innri mann og velja sér hlutverk við hæfi í lífinu. Það verður einungis gert með því að kynna þeim sem flesta þætti mannlífsins.” (Samvinnan, 1967)

Þegar þýski nasistaflokkurinn komst til valda árið 1933 með ofbeldisdýrkun sinni og þjóðernisrembu var Hahn skólameistari í hinum gyðinglega Salem-skóla. Hahn mótmælti harðlega tilburðum þeirra eftir að ungur kommúnisti var drepinn fyrir framan móður sína af stormsveitum nasista. Eftir þetta atvik varð ekki aftur snúið og þá stóð val nemenda og kennara í Salem um það að fylgja fordæmi mannvinarins Hahns eða einræðisherrans Hitlers. Hahn var handtekinn af nasistum og hafður í haldi dagana 11.-16. mars 1933 en var þá sleppt að beiðni breska forsætisráðherrans Ramsays MacDonalds. Hahn flúði Þýskaland og fluttist til Skotlands í júlí 1933. Hann tók kristni og átti það til að predika í kirkjunni við hringtogið (e. Church on the Round Square).

Á Norður-Skotlandi stofnaði hann hinn þekkta Gordonstoun-skóla sem byggði á sömu gildum og Salem-skólinn. Hann var skólastjóri þar til ársins 1953. Hann tók líka þátt í að stofna Outward Bound Organization, Atlantic College í Wales, United World College-hreyfinguna, og björgunarsveitir á sjó og landi, auk þess sem hann kom ýmsu öðru til leiðar.

Hugmyndir Hahns fjalla um mannlegan þroska og getu, uppeldi og skólamál. Hann taldi unglinga búa yfir innra siðgæði og siðviti en að þeim væri spillt af samfélaginu eftir því sem þeir yrðu eldri. Hann taldi að menntun ætti að koma í veg fyrir þessa firringu og að besta leiðin til þess væri að gefa nemendum tækifæri til að taka að sér leiðtogahlutverk og sjá árangurinn af athöfnum sínum. Þetta er ein ástæða þess að útivera er í hávegum höfð í öllu skólastarfi í anda Hahn. Hann taldi að fyrri heimsstyrjöldin sannaði kenningu sína um spillingu samfélagsins og boðaði róttækt uppgjör ef fólki — og þá ekki síst Evrópumönnum — yrði ekki kennt með nýjum aðferðum.

Hahn kenndi sjálfur sögu, stjórnmálafræði, klassíska grísku, leikrit breska leikskáldsins Shakespeares og ljóð þýska ljóðskáldsins Schillers. Megingildi hans voru áhugi og samúð með öðrum, vilji til að axla ábyrgð, og einörð sannleiksleit. „Grundvallarhugmyndin í skólakerfi Hahns er samstjórn nemenda. Þeir mynda svonefnt „skólaríki" þar sem höfuðáherzla er lögð á ábyrgðartilfinningu, þegnskap, sjálfsaga og tillit til annarra. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á aga í skólanum, námi sínu og vinnu” (Samvinnan, 1967). Refsingum var aðeins beitt ef ekkert annað dugði.

Þegar Hahn var með fyrirlestur í London á vegum New Education Fellowship, kynntist hann skólamanninum T. C. Worsley og fékk hann til að koma til Gordonstoun sem ráðgjafa. Worsley lýsir Kahn í æviminningum sínum Flannelled Fool: A Slice of a Life in the Thirties, sem krefjandi persónu með óþrjótandi áhuga á mannlegum þroska og þróun. Hann átti síðar eftir að verða gagnrýninn á valdsmannstilburði Hahns sem var í senn skapmikill og tapsár.

Í kenningum sínum telur Hahn að merki um hnignum ungdómsins megi sjá í: Verri líkamsburðum vegna nútímafararskjóta; minna frumkvæði og skapandi starfi vegna óvirks gláps og iðjuleysis; skertu minni og takmarkaðri ímyndun vegna ístöðu- og hvíldarleysis sem einkenna nútímalífshætti; minni færni og alúð í verkum vegna skorts á handverksþekkingu; minni sjálfstjórn vegna möguleika á að neyta örvandi og róandi efna — og það sem honum þótti hvað verst — minni samhygð vegna þess að nútímamaðurinn gefur sér ekki tíma til að sinna öðrum. Skort á samhygð taldi Hahn leiða til andlegs dauða.


Félagar úr Björgunarsveit Hafnarfjarðar að bjarga kind úr sprungu í Krísuvíkurbjargi.

Lausina á þessari hnignun ungmenna áleit Hahn að mætti finna í:

 1. Líkamsþjálfun þar sem menn keppa við sjálfan sig og aga hugann og þjálfa einurð.
 2. Löngum og krefjandi leiðöngrum á sjó eða landi þar sem tekist er á við verkefni sem krefjast áræðis og þolgæðis.
 3. Verkefnavinnu sem krefst fagmennsku, yfirlegu og góðs handverks.
 4. Björgunarstörfum á borð við björgunar- og hjálparsveitastörf, slökkviliðsstörf og fyrstu hjálp.
Hahn setti fram tíu grunnviðmið sem ættu að einkenna menningu í skólastarfi og kennslu í svonefndum leiðangurslærdómsskólum (e. Expeditionary Learning Outward Bound Schools (ELOB)). Viðmiðin eru:

 1. Sjálfuppgötvun og sjálfsnám. Hahn taldi að nemendur lærðu best þegar áhugi þeirra er vakinn og þeir eru snortnir í tilfinningu sinni. Þetta gerist helst þegar nemendur þurfa að takast á við krefjandi verkefni og fá nauðsynlegan stuðning til að leysa þau. Þeir uppgötva með þessum hætti getu sína, gildi sín og ástríður, og þurfa að taka ábyrgð í óvæntum og ævintýralegum aðstæðum. Verkefni nemenda þurfa að kalla á einurð, líkamsþjálfun, handverk, virka beitingu ímyndunaraflsins og sjálfstjórn. Markmið þurfa að vera háleit og nemendur þurfa að ná árangri. Hlutverk kennarans er að hjálpa nemendum að yfirvinna ótta sinn og uppgötva að þeir geta meira en þeir halda.
 2. Hugmyndaauðgi. Skapandi hugsun verður til þegar nemendur verða forvitnir um umheiminn og þeir eru settir í áhugaverðar aðstæður. Hugsun nemenda er jafnframt örvuð og þeim gefinn tími til að gaumgæfa og draga skynsamlegar ályktarnir.
 3. Ábyrgð á eigin lærdómi. Hahn taldi lærdóm vera bæði einstaklingsbundinn og eiga sér stað í félagslegu samhengi. Tileinkun á sér stað bæði hjá einstaklingnum og hjá hópnum. Námsefni í leiðangurslærdómsskólum hvetur því nemendur til að verða ábyrga fyrir námi sínu og framlagi sínu til hópsins.
 4. Hluttekning og umhyggja. Hahn vildi að nemendur lærðu saman í vinsamlegu samfélagi þar sem hugmyndir bæði nemenda og kennara fá vægi og þar sem gagnkvæmt traust ríkir. Mikið er unnið í litlum hópum sem umhyggjusamur kennari fylgist með, eldri nemendur leiðbeina nýliðum og nemendur eru líkamlega og tilfinningalega öruggir.
 5. Árangur og mistök. Nemendur þurfa að öðlast sjálfstraust og geta tekið áhættu. Því markmiði er náð með því að láta þá takast á við stöðugt erfiðari viðfangsefni. Þeir læra líka af mistökum sínum og þurfa að sýna þolgæði þegar illa gengur. Námið á að hjálpa nemendum til að snúa takmörkunum í tækifæri.
 6. Samstarf og samkeppni. Þroski einstaklingsins og þróun hópsins sem hann tilheyrir tengjast órjúfanlegum böndum. Allt starf er grundvallað á vináttu, trausti og kröfur um hegðun hópsins eru skýrar. Hahn taldi að ekki ætti að hvetja til samkeppni nemenda heldur að láta þá keppa við sjálfa sig og við háleit markmið
 7. Fjölbreytni og eining. Bæði fjölbreytni og eining eykur hugmyndauðgi, sköpun, getu til að leysa vandamál, og skapar virðingu fyrir öðrum. Mikilvægt er því að hvetja nemendur til að skoða í sameiningu virði þess sem þeir koma með inn í hópinn.
 8. Tengsl við náttúruna. Kahn trúði því að beint samband við náttúruna endurnýjaði hugann og kenndi nemandanum að skilja tengsl orsakar og afleiðingar. Nemendur læra þannig að vera ráðsmenn jarðarinnar og leiðtogar komandi kynslóða.
 9. Einvera og íhugun. Nemendur og kennarar þurfa tíma til að hugsa, tengja saman hugmyndir og skapa nýjar. Þeim ætti því að vera gefið næði til að hugsa og til íhugunar bæði í einveru og samveru.
 10. Þjónusta og samúð. Hahn sagði einhverju sinni að nemendur hans væru áhöfn en ekki farþegar og þess vegna hvatti hann bæði nemendur og kennara til að huga að þörfum annarra og þjóna þeim með viðeigandi hætti. Hjálpsemi krefst þess hins vegar að sá sem hjálpar hafi bæði rétt viðhorf og getu til að veita hjálpina og hvoru tveggja þarf að leggja ástund á í skólastarfinu. Í anda þess sagði Hahn að „þráin að bjarga öðrum opinberar mikilvægasta eiginleika mannsálarinnar”.
Nú eru að minnsta kosti um 80 skólar víðs vegar um heiminn sem kenna starfsemi sína við Hahn.

Hahn fluttist aftur til Þýskalands eftir seinni heimsstyrjöldina en hélt góðu sambandi við skóla sína bæði á Bretlandseyjum og annars staðar þar sem hugmyndir hans eru í hávegum hafðar. Talsverða hliðstæðu má sjá með hugsjónum Hahns og nýliðastarfi íslenskra hjálpar- og flugbjörgunarsveita. Spyrja má hvort ekki sé enn mikill og óplægður akur í íslensku skólastarfi hvað þetta varðar eða hvaða áhrif það myndi hafa á þjóðina ef allt ungt fólk lærði að takast á við óblíða íslenska náttúru í hópi með öðrum og leggja sig jafnframt fram um að sýna samhug og samstarfsvilja? Nokkuð hefur verið fjallað um Hahn á Íslandi og lausleg skoðun sýndi að fjallað var um hann í Samvinnunni árið 1967. Kurt Markus Hahn lést 4. desember 1974.

Heimildir:
 • Flannelled Fool. London: The Hogarth Press. 1985.
 • Ýmsar greinar á Wikipedia.org, meðal annars Kurt Hahn.
Ítarefni:
 • Brereton, H.L. (1950). Gordonstoun. Aberdeen: The University Press Aberdeen.
 • Röhrs, Hermann (1970). Kurt Hahn. London: Routledge & Kegan Paul.
 • Arnold-Brown, Adam (1962). Unfolding Character: The Impact of Gordonstoun. London: Routledge & Kegan Paul.
 • Knoll, Michael (2011). School Reform Through „Experiential Therapy“: Kurt Hahn - An Effiacious Educator. Eric-online document 515256
 • Knoll, Michael, ed. (1998). Kurt Hahn: Reform mit Augenmaß. Ausgewählte Schriften eines Politikers und Pädagogen. Stuttgart: Klett-Cotta.
 • KurtHahn.org.
 • Outward Bound International.

Myndir:

Höfundur

forstöðumaður meistaranáms í verkefnastjórnun við HR

Útgáfudagur

17.8.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Haukur Ingi Jónasson. „Hver var Kurt Martin Hahn og hvert var hans framlag til skólamála?“ Vísindavefurinn, 17. ágúst 2011. Sótt 26. september 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=60453.

Haukur Ingi Jónasson. (2011, 17. ágúst). Hver var Kurt Martin Hahn og hvert var hans framlag til skólamála? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60453

Haukur Ingi Jónasson. „Hver var Kurt Martin Hahn og hvert var hans framlag til skólamála?“ Vísindavefurinn. 17. ágú. 2011. Vefsíða. 26. sep. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60453>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Kurt Martin Hahn og hvert var hans framlag til skólamála?
Þýska skólamanninum Kurt Martin Hahn hefði ekki líkað við þá óvirku athöfn að glápa á síður veraldarvefsins í tíma og ótíma. Hann vildi að ungt fólk væri virkt, skapandi og áræðið. Hahn fæddist í Berlín 5. júní 1886. Hann var þýskur gyðingur, undir sterkum áhrifum af Ríkinu eftir Platon og hafði mikil áhrif á skólamál. Hahn var frumkvöðull sem stofnaði skóla sem einkennast enn af nýsköpun og afburðaárangri í skólastarfi og hann var einarður talsmaður þess að reynsluþekking (e. experimental learning) væri nýtt í skólastarfi. Hahn var þekktur bæði fyrir þá trú sína að ungt fólki gæti tekist á við nánast hvaða verkefni sem væri og að nám ætti að reyna á þolgæði, styrk og aga og gefa nemendum kosta á að taka góðar ákvarðanir við erfiðustu aðstæður. Hugmyndir Hahns endurspeglast vel í orðum hans: „Þú skalt vaxa upp í að verða sá sem þú ert” og „það býr meira í þér en þú heldur!”

Hahn stundaði nám í Berlín, Oxford, Heidelberg, Freiburg og Göttingen. Í fyrri heimsstyrjöldinni starfaði hann hjá þýska utanríkisráðuneytinu við greiningu á breskum dagblöðum. Hann hafði verið einkaritari Max von Baden prins sem var síðasti keisari Þýskalands og stofnaði Schloss Salem-skólann við Bodensee með fulltingi prinsins. Skólinn var einkarekinn heimavistarskóli og var Hahn skólastjóri þar 1920-1933.

Skólastarf í Salem byggði á kenningum Platons í Ríkinu og þar var blandað saman bóklegri þekkingu, íþróttum og líkamlegri vinnu. Hahn var ekki talsmaður þess að nemendur fengju að velja námsgreinar því hann taldi að smekkur barns væri ekki mælikvarði á hvar hæfileikar þess lægju. Hann vildi heldur ekki að skólinn uppgötvaði afburðamenn fyrir ríkið. Skóli í anda Platons miðar „að því að hjálpa nemendum til að finna sinn innri mann og velja sér hlutverk við hæfi í lífinu. Það verður einungis gert með því að kynna þeim sem flesta þætti mannlífsins.” (Samvinnan, 1967)

Þegar þýski nasistaflokkurinn komst til valda árið 1933 með ofbeldisdýrkun sinni og þjóðernisrembu var Hahn skólameistari í hinum gyðinglega Salem-skóla. Hahn mótmælti harðlega tilburðum þeirra eftir að ungur kommúnisti var drepinn fyrir framan móður sína af stormsveitum nasista. Eftir þetta atvik varð ekki aftur snúið og þá stóð val nemenda og kennara í Salem um það að fylgja fordæmi mannvinarins Hahns eða einræðisherrans Hitlers. Hahn var handtekinn af nasistum og hafður í haldi dagana 11.-16. mars 1933 en var þá sleppt að beiðni breska forsætisráðherrans Ramsays MacDonalds. Hahn flúði Þýskaland og fluttist til Skotlands í júlí 1933. Hann tók kristni og átti það til að predika í kirkjunni við hringtogið (e. Church on the Round Square).

Á Norður-Skotlandi stofnaði hann hinn þekkta Gordonstoun-skóla sem byggði á sömu gildum og Salem-skólinn. Hann var skólastjóri þar til ársins 1953. Hann tók líka þátt í að stofna Outward Bound Organization, Atlantic College í Wales, United World College-hreyfinguna, og björgunarsveitir á sjó og landi, auk þess sem hann kom ýmsu öðru til leiðar.

Hugmyndir Hahns fjalla um mannlegan þroska og getu, uppeldi og skólamál. Hann taldi unglinga búa yfir innra siðgæði og siðviti en að þeim væri spillt af samfélaginu eftir því sem þeir yrðu eldri. Hann taldi að menntun ætti að koma í veg fyrir þessa firringu og að besta leiðin til þess væri að gefa nemendum tækifæri til að taka að sér leiðtogahlutverk og sjá árangurinn af athöfnum sínum. Þetta er ein ástæða þess að útivera er í hávegum höfð í öllu skólastarfi í anda Hahn. Hann taldi að fyrri heimsstyrjöldin sannaði kenningu sína um spillingu samfélagsins og boðaði róttækt uppgjör ef fólki — og þá ekki síst Evrópumönnum — yrði ekki kennt með nýjum aðferðum.

Hahn kenndi sjálfur sögu, stjórnmálafræði, klassíska grísku, leikrit breska leikskáldsins Shakespeares og ljóð þýska ljóðskáldsins Schillers. Megingildi hans voru áhugi og samúð með öðrum, vilji til að axla ábyrgð, og einörð sannleiksleit. „Grundvallarhugmyndin í skólakerfi Hahns er samstjórn nemenda. Þeir mynda svonefnt „skólaríki" þar sem höfuðáherzla er lögð á ábyrgðartilfinningu, þegnskap, sjálfsaga og tillit til annarra. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á aga í skólanum, námi sínu og vinnu” (Samvinnan, 1967). Refsingum var aðeins beitt ef ekkert annað dugði.

Þegar Hahn var með fyrirlestur í London á vegum New Education Fellowship, kynntist hann skólamanninum T. C. Worsley og fékk hann til að koma til Gordonstoun sem ráðgjafa. Worsley lýsir Kahn í æviminningum sínum Flannelled Fool: A Slice of a Life in the Thirties, sem krefjandi persónu með óþrjótandi áhuga á mannlegum þroska og þróun. Hann átti síðar eftir að verða gagnrýninn á valdsmannstilburði Hahns sem var í senn skapmikill og tapsár.

Í kenningum sínum telur Hahn að merki um hnignum ungdómsins megi sjá í: Verri líkamsburðum vegna nútímafararskjóta; minna frumkvæði og skapandi starfi vegna óvirks gláps og iðjuleysis; skertu minni og takmarkaðri ímyndun vegna ístöðu- og hvíldarleysis sem einkenna nútímalífshætti; minni færni og alúð í verkum vegna skorts á handverksþekkingu; minni sjálfstjórn vegna möguleika á að neyta örvandi og róandi efna — og það sem honum þótti hvað verst — minni samhygð vegna þess að nútímamaðurinn gefur sér ekki tíma til að sinna öðrum. Skort á samhygð taldi Hahn leiða til andlegs dauða.


Félagar úr Björgunarsveit Hafnarfjarðar að bjarga kind úr sprungu í Krísuvíkurbjargi.

Lausina á þessari hnignun ungmenna áleit Hahn að mætti finna í:

 1. Líkamsþjálfun þar sem menn keppa við sjálfan sig og aga hugann og þjálfa einurð.
 2. Löngum og krefjandi leiðöngrum á sjó eða landi þar sem tekist er á við verkefni sem krefjast áræðis og þolgæðis.
 3. Verkefnavinnu sem krefst fagmennsku, yfirlegu og góðs handverks.
 4. Björgunarstörfum á borð við björgunar- og hjálparsveitastörf, slökkviliðsstörf og fyrstu hjálp.
Hahn setti fram tíu grunnviðmið sem ættu að einkenna menningu í skólastarfi og kennslu í svonefndum leiðangurslærdómsskólum (e. Expeditionary Learning Outward Bound Schools (ELOB)). Viðmiðin eru:

 1. Sjálfuppgötvun og sjálfsnám. Hahn taldi að nemendur lærðu best þegar áhugi þeirra er vakinn og þeir eru snortnir í tilfinningu sinni. Þetta gerist helst þegar nemendur þurfa að takast á við krefjandi verkefni og fá nauðsynlegan stuðning til að leysa þau. Þeir uppgötva með þessum hætti getu sína, gildi sín og ástríður, og þurfa að taka ábyrgð í óvæntum og ævintýralegum aðstæðum. Verkefni nemenda þurfa að kalla á einurð, líkamsþjálfun, handverk, virka beitingu ímyndunaraflsins og sjálfstjórn. Markmið þurfa að vera háleit og nemendur þurfa að ná árangri. Hlutverk kennarans er að hjálpa nemendum að yfirvinna ótta sinn og uppgötva að þeir geta meira en þeir halda.
 2. Hugmyndaauðgi. Skapandi hugsun verður til þegar nemendur verða forvitnir um umheiminn og þeir eru settir í áhugaverðar aðstæður. Hugsun nemenda er jafnframt örvuð og þeim gefinn tími til að gaumgæfa og draga skynsamlegar ályktarnir.
 3. Ábyrgð á eigin lærdómi. Hahn taldi lærdóm vera bæði einstaklingsbundinn og eiga sér stað í félagslegu samhengi. Tileinkun á sér stað bæði hjá einstaklingnum og hjá hópnum. Námsefni í leiðangurslærdómsskólum hvetur því nemendur til að verða ábyrga fyrir námi sínu og framlagi sínu til hópsins.
 4. Hluttekning og umhyggja. Hahn vildi að nemendur lærðu saman í vinsamlegu samfélagi þar sem hugmyndir bæði nemenda og kennara fá vægi og þar sem gagnkvæmt traust ríkir. Mikið er unnið í litlum hópum sem umhyggjusamur kennari fylgist með, eldri nemendur leiðbeina nýliðum og nemendur eru líkamlega og tilfinningalega öruggir.
 5. Árangur og mistök. Nemendur þurfa að öðlast sjálfstraust og geta tekið áhættu. Því markmiði er náð með því að láta þá takast á við stöðugt erfiðari viðfangsefni. Þeir læra líka af mistökum sínum og þurfa að sýna þolgæði þegar illa gengur. Námið á að hjálpa nemendum til að snúa takmörkunum í tækifæri.
 6. Samstarf og samkeppni. Þroski einstaklingsins og þróun hópsins sem hann tilheyrir tengjast órjúfanlegum böndum. Allt starf er grundvallað á vináttu, trausti og kröfur um hegðun hópsins eru skýrar. Hahn taldi að ekki ætti að hvetja til samkeppni nemenda heldur að láta þá keppa við sjálfa sig og við háleit markmið
 7. Fjölbreytni og eining. Bæði fjölbreytni og eining eykur hugmyndauðgi, sköpun, getu til að leysa vandamál, og skapar virðingu fyrir öðrum. Mikilvægt er því að hvetja nemendur til að skoða í sameiningu virði þess sem þeir koma með inn í hópinn.
 8. Tengsl við náttúruna. Kahn trúði því að beint samband við náttúruna endurnýjaði hugann og kenndi nemandanum að skilja tengsl orsakar og afleiðingar. Nemendur læra þannig að vera ráðsmenn jarðarinnar og leiðtogar komandi kynslóða.
 9. Einvera og íhugun. Nemendur og kennarar þurfa tíma til að hugsa, tengja saman hugmyndir og skapa nýjar. Þeim ætti því að vera gefið næði til að hugsa og til íhugunar bæði í einveru og samveru.
 10. Þjónusta og samúð. Hahn sagði einhverju sinni að nemendur hans væru áhöfn en ekki farþegar og þess vegna hvatti hann bæði nemendur og kennara til að huga að þörfum annarra og þjóna þeim með viðeigandi hætti. Hjálpsemi krefst þess hins vegar að sá sem hjálpar hafi bæði rétt viðhorf og getu til að veita hjálpina og hvoru tveggja þarf að leggja ástund á í skólastarfinu. Í anda þess sagði Hahn að „þráin að bjarga öðrum opinberar mikilvægasta eiginleika mannsálarinnar”.
Nú eru að minnsta kosti um 80 skólar víðs vegar um heiminn sem kenna starfsemi sína við Hahn.

Hahn fluttist aftur til Þýskalands eftir seinni heimsstyrjöldina en hélt góðu sambandi við skóla sína bæði á Bretlandseyjum og annars staðar þar sem hugmyndir hans eru í hávegum hafðar. Talsverða hliðstæðu má sjá með hugsjónum Hahns og nýliðastarfi íslenskra hjálpar- og flugbjörgunarsveita. Spyrja má hvort ekki sé enn mikill og óplægður akur í íslensku skólastarfi hvað þetta varðar eða hvaða áhrif það myndi hafa á þjóðina ef allt ungt fólk lærði að takast á við óblíða íslenska náttúru í hópi með öðrum og leggja sig jafnframt fram um að sýna samhug og samstarfsvilja? Nokkuð hefur verið fjallað um Hahn á Íslandi og lausleg skoðun sýndi að fjallað var um hann í Samvinnunni árið 1967. Kurt Markus Hahn lést 4. desember 1974.

Heimildir:
 • Flannelled Fool. London: The Hogarth Press. 1985.
 • Ýmsar greinar á Wikipedia.org, meðal annars Kurt Hahn.
Ítarefni:
 • Brereton, H.L. (1950). Gordonstoun. Aberdeen: The University Press Aberdeen.
 • Röhrs, Hermann (1970). Kurt Hahn. London: Routledge & Kegan Paul.
 • Arnold-Brown, Adam (1962). Unfolding Character: The Impact of Gordonstoun. London: Routledge & Kegan Paul.
 • Knoll, Michael (2011). School Reform Through „Experiential Therapy“: Kurt Hahn - An Effiacious Educator. Eric-online document 515256
 • Knoll, Michael, ed. (1998). Kurt Hahn: Reform mit Augenmaß. Ausgewählte Schriften eines Politikers und Pädagogen. Stuttgart: Klett-Cotta.
 • KurtHahn.org.
 • Outward Bound International.

Myndir:...