Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvaðan eru kleinur upprunnar? Eru þær íslenskt fyrirbæri?

Sólveig Ólafsdóttir og Guðrún Hallgrímsdóttir

Kleinur eru í sínu einfaldasta formi mjöl og vökvi eins og öll önnur brauðdeig veraldarinnar íblandað eggjum og fitu sem er soðið eða steikt upp úr feiti. Það sem einkennir kleinur frá öðru soðbrauði er formið sem er einskonar slaufuform sem myndað er með því að gera rifu í miðjuna á útflöttum, tígullaga eða ferhyrntum deigbút og draga endann í gegnum rifuna. Þá myndast slaufan. Stundum voru rifurnar og hafðar tvær, sitt hvorum megin við miðjuna og þannig er það haft í fyrstu íslensku kleinuuppskriftinni sem birtist á prenti árið 1800.1

Kleinudeigið er flatt út, skorið í tígla og rauf gerð í miðjuna. Slaufan fæst með því að öðru hvassa horninu er stungið í gegnum rifuna og kleinunni snúið.

Slaufulagið á kleinunum kemur í veg fyrir að þær séu hráar í miðjunni þegar þær eru fullsteiktar að utan. Það sama má segja um lagið á kleinuhringnum sem er náskyldur ættingi kleinunnar sem fluttist búferlum til Bandaríkjanna frá Hollandi á fyrri hluta 19. aldar.2

Kleinur í því formi sem við þekkjum þær spretta úr menningu Norður- og Vestur-Evrópu og þá sérstaklega Norður-Þýskalandi, Suður-Svíþjóð og Danmörku þar sem þær koma fyrst fyrir í miðaldaheimildum um mat sem sérstaklega er tengdur jólum.3 Nafnið ber það enda með sér að vera dregið af þýska orðinu „klein“ eða lítið. Í Noregi eru þær ekki tengdar „klein“ heldur kallast þær „Fattigmann“ eða fátæklingur og sambærilegur bakstur í Frakklandi nefnist Merveilles sem þýðir eitthvað gott eða stórkostlegt.4 Í Póllandi tíðkast að steikja sambærilegan slaufubakstur á jólum og heita pólsku kleinurnar „Chrust“ sem þýðir sprek.5

Matur sem tengdur er jólum er eðli málsins samkvæmt enginn hversdagsmatur enda var dýrt og fyrirhafnarmikið að steikja eða sjóða úr feiti. Það er danskt orðatiltæki sem segir að það þurfi tvo til að steikja kleinur til að varðveita jólafriðinn.6

Það er því ekkert séríslenskt við kleinur en þær eru samt sem áður eitt elsta nafngreinda bakkelsi á Íslandi á prenti í lok 18. aldar.7 Enn eldri heimildir eru fyrir smíðum á kleinujárni úr hvalbeini sem vísa til kleinubaksturs löngu fyrir þann tíma.8

Ólíkt því sem gerist í nágrannalöndunum eru kleinur frekar hversdagsbakkelsi á Íslandi en hátíðarkaffibrauð.

Það er ekki sama tenging milli jóla og kleinubaksturs á Íslandi eins og sannarlega er á Norðurlöndunum og þar fyrir sunnan og kleinurnar hafðar frekar hvunndags en spari hér á landi á síðari öldum. Þær hafa einnig farið stækkandi með árunum og á það sérstaklega við kleinur sem eru bakaðar í brauð- og kökugerðum ýmiskonar.

Kleinurnar fluttust til Vesturheims með íslenskum innflytjendum á síðari hluta 19. aldar og í upphafi 20. aldar og urðu þar að séríslenskri matarhefð ásamt Vínartertunni. Þær eru hafðar í hávegum meðal afkomenda Vestur-Íslendinga í Bandaríkjunum og Kanada.9

Tilvísanir

Myndir:

Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Er kleinan alíslenskt bakkelsi?
  • Af hverju eru kleinur svona í laginu?
  • Finnst eitthvað sambærilegt við kleinur hjá öðrum þjóðum og hvað heitir það þá?

Höfundar

Sólveig Ólafsdóttir

sagnfræðingur

Guðrún Hallgrímsdóttir

matvælaverkfræðingur

Útgáfudagur

7.12.2012

Spyrjandi

Árni Geir, Ingibjörg Magnúsdóttir, Ævar Þór Benediktsson, Þórhallur Kristjánsson

Tilvísun

Sólveig Ólafsdóttir og Guðrún Hallgrímsdóttir . „Hvaðan eru kleinur upprunnar? Eru þær íslenskt fyrirbæri?“ Vísindavefurinn, 7. desember 2012. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60765.

Sólveig Ólafsdóttir og Guðrún Hallgrímsdóttir . (2012, 7. desember). Hvaðan eru kleinur upprunnar? Eru þær íslenskt fyrirbæri? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60765

Sólveig Ólafsdóttir og Guðrún Hallgrímsdóttir . „Hvaðan eru kleinur upprunnar? Eru þær íslenskt fyrirbæri?“ Vísindavefurinn. 7. des. 2012. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60765>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaðan eru kleinur upprunnar? Eru þær íslenskt fyrirbæri?
Kleinur eru í sínu einfaldasta formi mjöl og vökvi eins og öll önnur brauðdeig veraldarinnar íblandað eggjum og fitu sem er soðið eða steikt upp úr feiti. Það sem einkennir kleinur frá öðru soðbrauði er formið sem er einskonar slaufuform sem myndað er með því að gera rifu í miðjuna á útflöttum, tígullaga eða ferhyrntum deigbút og draga endann í gegnum rifuna. Þá myndast slaufan. Stundum voru rifurnar og hafðar tvær, sitt hvorum megin við miðjuna og þannig er það haft í fyrstu íslensku kleinuuppskriftinni sem birtist á prenti árið 1800.1

Kleinudeigið er flatt út, skorið í tígla og rauf gerð í miðjuna. Slaufan fæst með því að öðru hvassa horninu er stungið í gegnum rifuna og kleinunni snúið.

Slaufulagið á kleinunum kemur í veg fyrir að þær séu hráar í miðjunni þegar þær eru fullsteiktar að utan. Það sama má segja um lagið á kleinuhringnum sem er náskyldur ættingi kleinunnar sem fluttist búferlum til Bandaríkjanna frá Hollandi á fyrri hluta 19. aldar.2

Kleinur í því formi sem við þekkjum þær spretta úr menningu Norður- og Vestur-Evrópu og þá sérstaklega Norður-Þýskalandi, Suður-Svíþjóð og Danmörku þar sem þær koma fyrst fyrir í miðaldaheimildum um mat sem sérstaklega er tengdur jólum.3 Nafnið ber það enda með sér að vera dregið af þýska orðinu „klein“ eða lítið. Í Noregi eru þær ekki tengdar „klein“ heldur kallast þær „Fattigmann“ eða fátæklingur og sambærilegur bakstur í Frakklandi nefnist Merveilles sem þýðir eitthvað gott eða stórkostlegt.4 Í Póllandi tíðkast að steikja sambærilegan slaufubakstur á jólum og heita pólsku kleinurnar „Chrust“ sem þýðir sprek.5

Matur sem tengdur er jólum er eðli málsins samkvæmt enginn hversdagsmatur enda var dýrt og fyrirhafnarmikið að steikja eða sjóða úr feiti. Það er danskt orðatiltæki sem segir að það þurfi tvo til að steikja kleinur til að varðveita jólafriðinn.6

Það er því ekkert séríslenskt við kleinur en þær eru samt sem áður eitt elsta nafngreinda bakkelsi á Íslandi á prenti í lok 18. aldar.7 Enn eldri heimildir eru fyrir smíðum á kleinujárni úr hvalbeini sem vísa til kleinubaksturs löngu fyrir þann tíma.8

Ólíkt því sem gerist í nágrannalöndunum eru kleinur frekar hversdagsbakkelsi á Íslandi en hátíðarkaffibrauð.

Það er ekki sama tenging milli jóla og kleinubaksturs á Íslandi eins og sannarlega er á Norðurlöndunum og þar fyrir sunnan og kleinurnar hafðar frekar hvunndags en spari hér á landi á síðari öldum. Þær hafa einnig farið stækkandi með árunum og á það sérstaklega við kleinur sem eru bakaðar í brauð- og kökugerðum ýmiskonar.

Kleinurnar fluttust til Vesturheims með íslenskum innflytjendum á síðari hluta 19. aldar og í upphafi 20. aldar og urðu þar að séríslenskri matarhefð ásamt Vínartertunni. Þær eru hafðar í hávegum meðal afkomenda Vestur-Íslendinga í Bandaríkjunum og Kanada.9

Tilvísanir

Myndir:

Hér er einnig svarað spurningunum:
  • Er kleinan alíslenskt bakkelsi?
  • Af hverju eru kleinur svona í laginu?
  • Finnst eitthvað sambærilegt við kleinur hjá öðrum þjóðum og hvað heitir það þá?
...