Sólin Sólin Rís 05:09 • sest 21:54 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:44 • Sest 04:42 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:28 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:27 • Síðdegis: 12:35 í Reykjavík

Hvað getur þú sagt mér um Skaftafell og hver er saga þjóðgarðsins þar?

Guðmundur Ögmundsson

Skaftafell er gömul bújörð og vinsæll áfangastaður ferðamanna í Öræfum í Austur-Skaftafellssýslu. Nafnið er dregið af fjallsrana sem gengur til suðurs úr Vatnajökli. Skriðjöklar falla fram beggja vegna Skaftafells og setja sterkan svip á umhverfið. Yfir þeim gnæfa tignarleg og brött fjöll þar sem Hvannadalshnúk í Öræfajökli ber hæst. Framan Skaftafells er Skeiðarársandur, víðáttumikið sandflæmi sem myndast hefur í áranna rás af framburði jökulvatna og jökulhlaupa.

Skaftafell þykir veðursælt, ekki síst vegna þess mikla skjóls sem það nýtur af Öræfajökli. Þar getur þó verið úrkomusamt, því suðlægar áttir bera með sér rakt og milt loft af hafi. Þessir samverkandi þættir skapa kjöraðstæður fyrir gróður sem er bæði gróskumikill og fjölbreyttur. Friðun lands og hlýnandi loftslag hafa líka haft góð áhrif á gróðurfar. Ýmsar plöntutegundir sem varla sjást á beittu landi eru nú algengar, og birki og víðir hafa numið land þar sem áður voru svartir sandar og jökulaurar.

Skaftafell var áður stórbýli og þingstaður, en fór í eyði ásamt allri nærliggjandi byggð þegar Öræfajökull gaus miklu vikurgosi 1362. Skaftafell og fleiri bæir byggðust fljótt aftur. Búskilyrði fóru þó sífellt versnandi vegna langvarandi kuldaskeiðs sem þá var hafið. Við það bættust tíð eldgos í Grímsvötnum og jökulhlaup sem eyddu túnum á láglendi neðan Skaftafellsheiðar. Neyddust Skaftafellsbændur um miðja 19. öld til að flytja byggð ofar í Skaftafellsheiðina og urðu úr því þrjú nýbýli: Hæðir, Bölti og Sel.

Áætlað er að um eða yfir 200 þúsund gestir heimsæki Skaftafell árlega.

Ytri aðstæður fóru batnandi fyrir bændur á 20. öld, bæði vegna hagstæðara tíðarfars og tækniframfara í landbúnaði. Skaftafellsjarðirnar þóttu hins vegar henta illa fyrir nútímalandbúnað því tún voru flest í miklu brattlendi og undirlendi lítið. Því var erfitt að koma vélum að. Þetta átti ríkan þátt í því að hefðbundinn búskapur lagðist af í Skaftafelli. Lengst var búskapur í Hæðum en þar var fjárbú til ársins 1988.

Um þremur áratugum áður hafði kviknað sú hugmynd hjá Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi að Skaftafell yrði þjóðgarður. Að höfðu samráði við heimamenn gerði hann tillögu um það til Náttúruverndarráðs og var hún samþykkt í febrúar 1961. Hófst þá undirbúningur að stofnun þjóðgarðs og í september 1967 festi ríkið kaup á bæjunum þremur í Skaftafelli. Reglugerð um Skaftafellsþjóðgarð tók svo gildi 23. ágúst 1968.

Um stofndag Skaftafellsþjóðgarðs er ekki full sátt. Í reglugerð um Skaftafellsþjóðgarð segir að hann hafi verið stofnaður 15. september 1967 og er þeirri dagsetningu oft haldið á lofti. Aðrir telja eðlilegra að miða við dagsetninguna sem reglugerðin sjálf tók gildi, líkt og gert er með Vatnajökulsþjóðgarð og þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður 7. júní 2008 og féll þá Skaftafellsþjóðgarður saman við hinn nýja garð ásamt þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum.

Áætlað er að um eða yfir 200 þúsund gestir heimsæki Skaftafell árlega. Stærstur hluti þeirra eru erlendir ferðamenn. Vatnajökulsþjóðgarður rekur gestastofu í Skaftafelli og er hún opin allt árið. Á sumrin bætist við rekstur tjaldsvæðis og veitingasölu. Þá starfa nálægt 30 manns í Skaftafelli á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs. Við það bætast starfsmenn afþreyingarfyrirtækja í ferðaþjónustu sem hafa komið sér upp aðstöðu í Skaftafelli. Má ætla að nálægt 50 manns starfi í Skaftafelli yfir háannatímann.

Mynd:

Hér er einnig svarað spurningunni:
Er Vatnajökulsþjóðgarður það sama og Skaftafell?

Höfundur

aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

Útgáfudagur

2.11.2011

Spyrjandi

Ásdís Arna Björnsdóttir, Lóa Yona Fenzy, f. 1998

Tilvísun

Guðmundur Ögmundsson. „Hvað getur þú sagt mér um Skaftafell og hver er saga þjóðgarðsins þar?“ Vísindavefurinn, 2. nóvember 2011. Sótt 12. ágúst 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=60999.

Guðmundur Ögmundsson. (2011, 2. nóvember). Hvað getur þú sagt mér um Skaftafell og hver er saga þjóðgarðsins þar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60999

Guðmundur Ögmundsson. „Hvað getur þú sagt mér um Skaftafell og hver er saga þjóðgarðsins þar?“ Vísindavefurinn. 2. nóv. 2011. Vefsíða. 12. ágú. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60999>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um Skaftafell og hver er saga þjóðgarðsins þar?
Skaftafell er gömul bújörð og vinsæll áfangastaður ferðamanna í Öræfum í Austur-Skaftafellssýslu. Nafnið er dregið af fjallsrana sem gengur til suðurs úr Vatnajökli. Skriðjöklar falla fram beggja vegna Skaftafells og setja sterkan svip á umhverfið. Yfir þeim gnæfa tignarleg og brött fjöll þar sem Hvannadalshnúk í Öræfajökli ber hæst. Framan Skaftafells er Skeiðarársandur, víðáttumikið sandflæmi sem myndast hefur í áranna rás af framburði jökulvatna og jökulhlaupa.

Skaftafell þykir veðursælt, ekki síst vegna þess mikla skjóls sem það nýtur af Öræfajökli. Þar getur þó verið úrkomusamt, því suðlægar áttir bera með sér rakt og milt loft af hafi. Þessir samverkandi þættir skapa kjöraðstæður fyrir gróður sem er bæði gróskumikill og fjölbreyttur. Friðun lands og hlýnandi loftslag hafa líka haft góð áhrif á gróðurfar. Ýmsar plöntutegundir sem varla sjást á beittu landi eru nú algengar, og birki og víðir hafa numið land þar sem áður voru svartir sandar og jökulaurar.

Skaftafell var áður stórbýli og þingstaður, en fór í eyði ásamt allri nærliggjandi byggð þegar Öræfajökull gaus miklu vikurgosi 1362. Skaftafell og fleiri bæir byggðust fljótt aftur. Búskilyrði fóru þó sífellt versnandi vegna langvarandi kuldaskeiðs sem þá var hafið. Við það bættust tíð eldgos í Grímsvötnum og jökulhlaup sem eyddu túnum á láglendi neðan Skaftafellsheiðar. Neyddust Skaftafellsbændur um miðja 19. öld til að flytja byggð ofar í Skaftafellsheiðina og urðu úr því þrjú nýbýli: Hæðir, Bölti og Sel.

Áætlað er að um eða yfir 200 þúsund gestir heimsæki Skaftafell árlega.

Ytri aðstæður fóru batnandi fyrir bændur á 20. öld, bæði vegna hagstæðara tíðarfars og tækniframfara í landbúnaði. Skaftafellsjarðirnar þóttu hins vegar henta illa fyrir nútímalandbúnað því tún voru flest í miklu brattlendi og undirlendi lítið. Því var erfitt að koma vélum að. Þetta átti ríkan þátt í því að hefðbundinn búskapur lagðist af í Skaftafelli. Lengst var búskapur í Hæðum en þar var fjárbú til ársins 1988.

Um þremur áratugum áður hafði kviknað sú hugmynd hjá Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi að Skaftafell yrði þjóðgarður. Að höfðu samráði við heimamenn gerði hann tillögu um það til Náttúruverndarráðs og var hún samþykkt í febrúar 1961. Hófst þá undirbúningur að stofnun þjóðgarðs og í september 1967 festi ríkið kaup á bæjunum þremur í Skaftafelli. Reglugerð um Skaftafellsþjóðgarð tók svo gildi 23. ágúst 1968.

Um stofndag Skaftafellsþjóðgarðs er ekki full sátt. Í reglugerð um Skaftafellsþjóðgarð segir að hann hafi verið stofnaður 15. september 1967 og er þeirri dagsetningu oft haldið á lofti. Aðrir telja eðlilegra að miða við dagsetninguna sem reglugerðin sjálf tók gildi, líkt og gert er með Vatnajökulsþjóðgarð og þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður 7. júní 2008 og féll þá Skaftafellsþjóðgarður saman við hinn nýja garð ásamt þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum.

Áætlað er að um eða yfir 200 þúsund gestir heimsæki Skaftafell árlega. Stærstur hluti þeirra eru erlendir ferðamenn. Vatnajökulsþjóðgarður rekur gestastofu í Skaftafelli og er hún opin allt árið. Á sumrin bætist við rekstur tjaldsvæðis og veitingasölu. Þá starfa nálægt 30 manns í Skaftafelli á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs. Við það bætast starfsmenn afþreyingarfyrirtækja í ferðaþjónustu sem hafa komið sér upp aðstöðu í Skaftafelli. Má ætla að nálægt 50 manns starfi í Skaftafelli yfir háannatímann.

Mynd:

Hér er einnig svarað spurningunni:
Er Vatnajökulsþjóðgarður það sama og Skaftafell?
...