Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:03 • Sest 01:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:37 • Síðdegis: 16:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:53 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Hvers vegna er kaldara á suðurpólnum en norðurpólnum?

Trausti Jónsson

Sé miðað við nákvæmlega þá staði á yfirborði jarðar þar sem skautin eru skiptir mestu að suðurskautið er inni á mikilli hásléttu meginlands í meir en 2800 metra hæð en norðurskautið er á hafísbreiðu við sjávarmál. Sé miðað við stærri svæði ræður landaskipan hitamuninum að meira leyti.

Amundsen-Scott-rannsóknarstöðin er á suðurpólnum sjálfum, langt inni í landi, í um 2.800 m hæð yfir sjó. Þar hefur frostið farið niður fyrir -80°C. Hæsti hiti (eða minnsta frost) sem þar hefur mælst er -12,3°C.

Norðurskautssvæðið er í miðju Norðuríshafsins. Þar er því „láglent“ og þótt ísinn sé þykkur berst samt varmi til loftsins frá sjónum undir í gegnum vakir og sprungur, jafnvel lítillega í gegnum ísþekjuna sjálfa. Suðurskautið er ofan á jökli langt inni á meginlandi. Varmastreymi að neðan er þar hverfandi.

Aðstæður til kólnunar lofts eru einnig ólíkar. Loftið sem kólnar inni á hálendi Suðurskautslandsins streymir til allra átta og niður hlíðar þess fyrir tilverknað þyngdaraflsins. Niðurstreymið verður til þess að leysa upp ský þannig að oftast er léttskýjað yfir jökulbreiðunni miklu. Varmageislun út í geiminn er þá nánast óhindruð sumar sem vetur. Þegar samfellt sólskin er að sumarlagi endurkastast megnið af því beint út í geiminn aftur af jöklinum án þess að nýtast til upphitunar yfirborðsins.

Á norðurskautinu er oftar skýjað og útgeislun því minni. Á helsta bráðnunartíma á sumrin er oft þoka á svæðinu. Hún endurkastar miklu sólarljósi, en samt nýtist sólarylur að nokkru til að bræða hafísinn – þótt hann endurkasti einnig miklu. Hiti er því oftast í kringum frostmark á þeim tíma árs við norðurskautið en hart frost við suðurskautið þegar sumar er þar.

Norðurpóllinn á „láglendri“ ísbreiðu í miðju Norðuríshafinu. Þar er meðalhiti á kaldasta tíma ársins um -35°C. Yfir hásumarið er meðalhitinn hins vegar nálægt frostmarki.

Suðurskautslandið er umkringt af hafi. Það út af fyrir sig gæti gefið tilefni til upphitunar – en vindur blæs frekar hringinn í kringum landið heldur en inn yfir það. Loftið úr tempraða beltinu á ekki greiða leið í gegnum hringekjuna. Á suðurheimskautssvæðinu er loft því illa blandað lofti úr tempraða beltinu. Á norðurhveli eru miklu fleiri fjallgarðar heldur en á suðurhveli. Þeir aflaga vindrastir og beina þeim í miklar bylgjur þar sem tiltölulega hlýtt loft berst langt að sunnan í átt til norðurskautssvæðisins (og kalt loft til suðurs). Loft á norðurheimskautssvæðinu er því í betra sambandi við hlýrri svæði, blöndun meiri og lofthitinn þar með hærri.

Myndir:

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

6.6.2012

Spyrjandi

Sigrún Björgvins

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Hvers vegna er kaldara á suðurpólnum en norðurpólnum?“ Vísindavefurinn, 6. júní 2012. Sótt 18. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61701.

Trausti Jónsson. (2012, 6. júní). Hvers vegna er kaldara á suðurpólnum en norðurpólnum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61701

Trausti Jónsson. „Hvers vegna er kaldara á suðurpólnum en norðurpólnum?“ Vísindavefurinn. 6. jún. 2012. Vefsíða. 18. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61701>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna er kaldara á suðurpólnum en norðurpólnum?
Sé miðað við nákvæmlega þá staði á yfirborði jarðar þar sem skautin eru skiptir mestu að suðurskautið er inni á mikilli hásléttu meginlands í meir en 2800 metra hæð en norðurskautið er á hafísbreiðu við sjávarmál. Sé miðað við stærri svæði ræður landaskipan hitamuninum að meira leyti.

Amundsen-Scott-rannsóknarstöðin er á suðurpólnum sjálfum, langt inni í landi, í um 2.800 m hæð yfir sjó. Þar hefur frostið farið niður fyrir -80°C. Hæsti hiti (eða minnsta frost) sem þar hefur mælst er -12,3°C.

Norðurskautssvæðið er í miðju Norðuríshafsins. Þar er því „láglent“ og þótt ísinn sé þykkur berst samt varmi til loftsins frá sjónum undir í gegnum vakir og sprungur, jafnvel lítillega í gegnum ísþekjuna sjálfa. Suðurskautið er ofan á jökli langt inni á meginlandi. Varmastreymi að neðan er þar hverfandi.

Aðstæður til kólnunar lofts eru einnig ólíkar. Loftið sem kólnar inni á hálendi Suðurskautslandsins streymir til allra átta og niður hlíðar þess fyrir tilverknað þyngdaraflsins. Niðurstreymið verður til þess að leysa upp ský þannig að oftast er léttskýjað yfir jökulbreiðunni miklu. Varmageislun út í geiminn er þá nánast óhindruð sumar sem vetur. Þegar samfellt sólskin er að sumarlagi endurkastast megnið af því beint út í geiminn aftur af jöklinum án þess að nýtast til upphitunar yfirborðsins.

Á norðurskautinu er oftar skýjað og útgeislun því minni. Á helsta bráðnunartíma á sumrin er oft þoka á svæðinu. Hún endurkastar miklu sólarljósi, en samt nýtist sólarylur að nokkru til að bræða hafísinn – þótt hann endurkasti einnig miklu. Hiti er því oftast í kringum frostmark á þeim tíma árs við norðurskautið en hart frost við suðurskautið þegar sumar er þar.

Norðurpóllinn á „láglendri“ ísbreiðu í miðju Norðuríshafinu. Þar er meðalhiti á kaldasta tíma ársins um -35°C. Yfir hásumarið er meðalhitinn hins vegar nálægt frostmarki.

Suðurskautslandið er umkringt af hafi. Það út af fyrir sig gæti gefið tilefni til upphitunar – en vindur blæs frekar hringinn í kringum landið heldur en inn yfir það. Loftið úr tempraða beltinu á ekki greiða leið í gegnum hringekjuna. Á suðurheimskautssvæðinu er loft því illa blandað lofti úr tempraða beltinu. Á norðurhveli eru miklu fleiri fjallgarðar heldur en á suðurhveli. Þeir aflaga vindrastir og beina þeim í miklar bylgjur þar sem tiltölulega hlýtt loft berst langt að sunnan í átt til norðurskautssvæðisins (og kalt loft til suðurs). Loft á norðurheimskautssvæðinu er því í betra sambandi við hlýrri svæði, blöndun meiri og lofthitinn þar með hærri.

Myndir:...