Sólin Sólin Rís 08:01 • sest 18:27 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:43 • Síðdegis: 22:11 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 16:13 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:01 • sest 18:27 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:43 • Síðdegis: 22:11 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 16:13 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaðan er leikurinn 'Fram, fram fylking' upprunninn og hvaðan kemur textinn sem sunginn er í honum?

Una Margrét Jónsdóttir

“Fram, fram fylking” hefur verið vinsæll leikur meðal íslenskra barna í meir en 100 ár. Vitað er að höfundur textans var Ari Jónsson (1833-1907), bóndi á Þverá í Eyjafirði. Nafn hans kemur fram í bókinni Kvæði og leikir handa börnum eftir Halldóru Bjarnadóttur (1873-1981) en sú bók kom út árið 1917 og var ein fyrsta leikjabók sem gefin var út á Íslandi. Þar er textinn við “Fram, fram fylking” birtur ásamt nafni höfundar og með fylgja nótur að laginu, sama lagi og sungið er enn þann dag í dag.

Lagið er að líkindum komið til okkar frá Danmörku, en þar var leikinn við það samskonar leikur, og hófst textinn á orðunum “Bro bro brille”. Texti Ara er hins vegar alls engin þýðing á danska textanum þó að leikurinn sé eins. Um lagið er annars það að segja að það er þekkt á flestum Norðurlöndum og er svipað lag notað þar við fleiri leikjasöngva og barnasöngva, til dæmis við “Vindum vindum vefjum band” (Vinde vinde nøglegarn) og “Gekk ég yfir sjó og land” (Jeg gik mig over sø og land). Lagið er einnig þekkt utan Norðurlanda og ljóst að það er gamalt því Johann Sebastian Bach (1685-1750) notar það í Goldberg-tilbrigðum sínum (tilbrigði nr. 30, Quodlibet) sem út komu 1741.

"Fram, fram fylking, forðum okkur hættu frá ..."

Texti Ara við lagið er að líkindum kominn fram í kringum 1880. Heimildin um það er æviminningabók Ásmundar Helgasonar, Á sjó og landi. Ásmundur var fæddur 1872 og alinn upp í Vaðlavík. Árið 1883 var hann í brúðkaupsveislu á Kirkjubóli þar sem menn höfðu ýmislegt sér til skemmtunar. Ásmundur segir:
Þá fóru menn og konur í ýmsa leiki úti. Var byrjað á “Fram, fram, fylking, forðum okkur hættu frá” o.s.frv. Sá leikur var þá nýþekktur þar.

Á 19. öld, áður en texti Ara breiddist út léku Reykjavíkurbörn leikinn við afbökun á danska textanum.

Enn eldri er þó leikurinn sjálfur: að tvö börn taki saman báðum höndum og hin marseri undir hendurnar í halarófu þangað til einn er fangaður. Þess háttar leikir eru þekktir víða, og má sem dæmi nefna enska leikinn “London Bridge”. Textarnir “Bro bro brille” og “London Bridge” eiga það sameiginlegt að í þeim er minnst á brú, og í fleiri Evrópulöndum hafa textar um brú fylgt þessum leik, til dæmis “Ziege durch die goldne Bröke” í Þýskalandi og “Is de steenen brug gemaakt” í Hollandi. Í samræmi við það voru leikir af þessu tagi oft kallaðir brúarleikir. Hægt er að rekja þá til 16. aldar að minnsta kosti.

Sennilega hefur leikurinn sprottið af því að algengt var að menn þyrftu að greiða toll til þess að fá að fara yfir brýr. Í leiknum er tollurinn greiddur með einum af mönnunum sem fara yfir brúna. Það styrkir þessa skýringu að samkvæmt bók Thyregod, Børnenes Leg (1907), er beinlínis spurt: “Har I Bropenge” (Hafið þið brúarpeninga?) í dönsku gerðinni af leiknum, og hinir svara með því að bjóða fram þann síðasta í röðinni, “annars fáið þið ekkert”.

Í textanum “Fram, fram fylking” er ekkert minnst á brú, en hann er líka miklu yngri en erlendu textarnir. Fyrr á öldum tíðkaðist hins vegar leikur á Íslandi sem kallaður var brúarleikur og hófst á orðunum “Flyttu mig yfir brú brú breiða”. Hann virðist ekki hafa verið sunginn, en textinn var engu að síður í bundnu máli. Samkvæmt lýsingum virðist brúarleikur hafa verið mjög líkur leiknum “Fram, fram fylking”, en notað var band í stað handanna. Brúarleikur er meðal annars nefndur í Crymogæu-þýðingu frá 17. öld og Jón Ólafsson frá Grunnavík (1705–1779) hefur hann í orðabók sinni frá miðri 18. öld.

Í bók Ólafs Davíðssonar (1862-1903) og Jóns Árnasonar (1819-1888), Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur má finna ýmsar gerðir af brúarleik og Jón Árnason segir skemmtilega þjóðsögu um uppruna leiksins. Samkvæmt henni á leikurinn að hafa orðið til þegar Jón Loftsson í Odda átti í illdeilum við Þorlák biskup helga á 12. öld. Jón sat þá einhverju sinni fyrir biskupi við brú nokkra. Lét hann tvo menn sína strengja band yfir brúarsporðinn og áttu þeir að hleypa fylgdarmönnum biskups undir bandið, en bregða því utan um biskup þegar hann nálgaðist og handsama hann.

Helstu heimildir og mynd:

  • Ásmundur Helgason. Á sjó og landi. Reykjavík 1949.
  • Bach Goldberg Variations. Richard Egarr, semball. Geislaplata útg. hjá Harmonia mundi 2006.
  • Halldóra Bjarnadóttir. Kvæði og leikir handa börnum. Kristjaníu 1917.
  • Holst, Elling og Nielsen, Eivind. Norsk Billedbok for Barn. Osló 1888, 1945.
  • Jón Ólafsson úr Grunnavík. Orðabókarhandrit. 433 fol. Afrit varðveitt hjá Orðabók Háskólans.
  • Opie, Iona og Peter. The Singing Game. Oxford og New York 1985.
  • Ólafur Davíðsson og Jón Árnason. Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur I-IV. Kaupmannahöfn 1887-1903.
  • Thyregod, S.T. og O. Børnenes Leg. Gamle danske Sanglege. Kaupmannahöfn 1907.
  • Una Margrét Jónsdóttir. Allir í leik I. Reykjavík 2009.
  • Mynd: Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Sótt 19. 1. 2012.


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvaðan er leikurinn 'Fram, fram fylking' upprunninn?

Höfundur

Una Margrét Jónsdóttir

dagskrárgerðarmaður á Rás 1

Útgáfudagur

20.1.2012

Spyrjandi

Þóra Katrín Þórsdóttir

Tilvísun

Una Margrét Jónsdóttir. „Hvaðan er leikurinn 'Fram, fram fylking' upprunninn og hvaðan kemur textinn sem sunginn er í honum?“ Vísindavefurinn, 20. janúar 2012, sótt 9. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=61714.

Una Margrét Jónsdóttir. (2012, 20. janúar). Hvaðan er leikurinn 'Fram, fram fylking' upprunninn og hvaðan kemur textinn sem sunginn er í honum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=61714

Una Margrét Jónsdóttir. „Hvaðan er leikurinn 'Fram, fram fylking' upprunninn og hvaðan kemur textinn sem sunginn er í honum?“ Vísindavefurinn. 20. jan. 2012. Vefsíða. 9. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=61714>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaðan er leikurinn 'Fram, fram fylking' upprunninn og hvaðan kemur textinn sem sunginn er í honum?
“Fram, fram fylking” hefur verið vinsæll leikur meðal íslenskra barna í meir en 100 ár. Vitað er að höfundur textans var Ari Jónsson (1833-1907), bóndi á Þverá í Eyjafirði. Nafn hans kemur fram í bókinni Kvæði og leikir handa börnum eftir Halldóru Bjarnadóttur (1873-1981) en sú bók kom út árið 1917 og var ein fyrsta leikjabók sem gefin var út á Íslandi. Þar er textinn við “Fram, fram fylking” birtur ásamt nafni höfundar og með fylgja nótur að laginu, sama lagi og sungið er enn þann dag í dag.

Lagið er að líkindum komið til okkar frá Danmörku, en þar var leikinn við það samskonar leikur, og hófst textinn á orðunum “Bro bro brille”. Texti Ara er hins vegar alls engin þýðing á danska textanum þó að leikurinn sé eins. Um lagið er annars það að segja að það er þekkt á flestum Norðurlöndum og er svipað lag notað þar við fleiri leikjasöngva og barnasöngva, til dæmis við “Vindum vindum vefjum band” (Vinde vinde nøglegarn) og “Gekk ég yfir sjó og land” (Jeg gik mig over sø og land). Lagið er einnig þekkt utan Norðurlanda og ljóst að það er gamalt því Johann Sebastian Bach (1685-1750) notar það í Goldberg-tilbrigðum sínum (tilbrigði nr. 30, Quodlibet) sem út komu 1741.

"Fram, fram fylking, forðum okkur hættu frá ..."

Texti Ara við lagið er að líkindum kominn fram í kringum 1880. Heimildin um það er æviminningabók Ásmundar Helgasonar, Á sjó og landi. Ásmundur var fæddur 1872 og alinn upp í Vaðlavík. Árið 1883 var hann í brúðkaupsveislu á Kirkjubóli þar sem menn höfðu ýmislegt sér til skemmtunar. Ásmundur segir:
Þá fóru menn og konur í ýmsa leiki úti. Var byrjað á “Fram, fram, fylking, forðum okkur hættu frá” o.s.frv. Sá leikur var þá nýþekktur þar.

Á 19. öld, áður en texti Ara breiddist út léku Reykjavíkurbörn leikinn við afbökun á danska textanum.

Enn eldri er þó leikurinn sjálfur: að tvö börn taki saman báðum höndum og hin marseri undir hendurnar í halarófu þangað til einn er fangaður. Þess háttar leikir eru þekktir víða, og má sem dæmi nefna enska leikinn “London Bridge”. Textarnir “Bro bro brille” og “London Bridge” eiga það sameiginlegt að í þeim er minnst á brú, og í fleiri Evrópulöndum hafa textar um brú fylgt þessum leik, til dæmis “Ziege durch die goldne Bröke” í Þýskalandi og “Is de steenen brug gemaakt” í Hollandi. Í samræmi við það voru leikir af þessu tagi oft kallaðir brúarleikir. Hægt er að rekja þá til 16. aldar að minnsta kosti.

Sennilega hefur leikurinn sprottið af því að algengt var að menn þyrftu að greiða toll til þess að fá að fara yfir brýr. Í leiknum er tollurinn greiddur með einum af mönnunum sem fara yfir brúna. Það styrkir þessa skýringu að samkvæmt bók Thyregod, Børnenes Leg (1907), er beinlínis spurt: “Har I Bropenge” (Hafið þið brúarpeninga?) í dönsku gerðinni af leiknum, og hinir svara með því að bjóða fram þann síðasta í röðinni, “annars fáið þið ekkert”.

Í textanum “Fram, fram fylking” er ekkert minnst á brú, en hann er líka miklu yngri en erlendu textarnir. Fyrr á öldum tíðkaðist hins vegar leikur á Íslandi sem kallaður var brúarleikur og hófst á orðunum “Flyttu mig yfir brú brú breiða”. Hann virðist ekki hafa verið sunginn, en textinn var engu að síður í bundnu máli. Samkvæmt lýsingum virðist brúarleikur hafa verið mjög líkur leiknum “Fram, fram fylking”, en notað var band í stað handanna. Brúarleikur er meðal annars nefndur í Crymogæu-þýðingu frá 17. öld og Jón Ólafsson frá Grunnavík (1705–1779) hefur hann í orðabók sinni frá miðri 18. öld.

Í bók Ólafs Davíðssonar (1862-1903) og Jóns Árnasonar (1819-1888), Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur má finna ýmsar gerðir af brúarleik og Jón Árnason segir skemmtilega þjóðsögu um uppruna leiksins. Samkvæmt henni á leikurinn að hafa orðið til þegar Jón Loftsson í Odda átti í illdeilum við Þorlák biskup helga á 12. öld. Jón sat þá einhverju sinni fyrir biskupi við brú nokkra. Lét hann tvo menn sína strengja band yfir brúarsporðinn og áttu þeir að hleypa fylgdarmönnum biskups undir bandið, en bregða því utan um biskup þegar hann nálgaðist og handsama hann.

Helstu heimildir og mynd:

  • Ásmundur Helgason. Á sjó og landi. Reykjavík 1949.
  • Bach Goldberg Variations. Richard Egarr, semball. Geislaplata útg. hjá Harmonia mundi 2006.
  • Halldóra Bjarnadóttir. Kvæði og leikir handa börnum. Kristjaníu 1917.
  • Holst, Elling og Nielsen, Eivind. Norsk Billedbok for Barn. Osló 1888, 1945.
  • Jón Ólafsson úr Grunnavík. Orðabókarhandrit. 433 fol. Afrit varðveitt hjá Orðabók Háskólans.
  • Opie, Iona og Peter. The Singing Game. Oxford og New York 1985.
  • Ólafur Davíðsson og Jón Árnason. Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur I-IV. Kaupmannahöfn 1887-1903.
  • Thyregod, S.T. og O. Børnenes Leg. Gamle danske Sanglege. Kaupmannahöfn 1907.
  • Una Margrét Jónsdóttir. Allir í leik I. Reykjavík 2009.
  • Mynd: Menningarmiðstöð Hornafjarðar. Sótt 19. 1. 2012.


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvaðan er leikurinn 'Fram, fram fylking' upprunninn?
...