Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:54 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:02 • Síðdegis: 20:23 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:45 • Síðdegis: 14:25 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað skýrir loftslag við strönd Kaliforníu?

Trausti Jónsson

Tveir samtengdir þættir ráða mestu um hitafar við strönd Kaliforníu. Annars vegar er árstíðasveifla mismunar lands- og sjávarhita en hins vegar kaldur sjór úti fyrir ströndinni.

Á sumrin er þrýstingur minni yfir landi heldur en sjó. Yfirborð lands hitnar mun meira heldur en yfirborð sjávar á sumrin þegar sól er hátt á lofti. Þetta hefur það í för með sér að þrýstingur er lægri á sumrin yfir meginlandi Norður-Ameríku heldur en á hafsvæðunum í kring. Á vetrum er þessu öfugt farið. Þá er þrýstingur að jafnaði hærri á meginlöndum heldur en á hafi úti.

Á norðurhveli er vindur úr norðri vestan við lægðir en af suðri austan við þær. Vesturströnd Norður-Ameríku er vestan sumarlægðar meginlandsins. Þegar lægðin myndast á vorin eykst tíðni norðlægra átta við ströndina. Þar sem norðanátt er að jafnaði kaldari heldur en sunnanvindur hækkar hiti á vorin ekki eins mikið á þessum slóðum eins og við mætti búast af breytingu á sólarhæð eingöngu.

Þetta er ekki óalgeng sjón í San Francisco, Golden Gate-brúin, frægasta kennileiti borgarinnar, sveipuð þoku.

Sjórinn hitnar líka að sumarlagi, en stór hluti sólarorkunnar fer í uppgufun. Hitunarinnar gætir þó lítt við Kaliforníustrendur vegna þess að núningur sem norðanáttin veldur dregur yfirborð sjávars með sér út frá ströndinni, um 20° til 30° til hægri við vindáttina. Í stað sjávarins sem dreginn er út rís sjór upp af nokkru dýpi. Uppstreymissjórinn hefur ekki notið sólaryls og er því vetrarkaldur. Það eykur hitamun lands og sjávar.

Við strönd Kaliforníu er september hlýjasti mánuður ársins að meðaltali. Þá er farið að draga úr norðanáttinni og þar með sjávaruppdrættinum og sjórinn getur hlýnað. Eftir það fer kólnandi veðurlags haustsins og lægri sólarhæðar að gæta.

Áhrif sjávarins eru langmest við bláströndina en mun minni inni í dölum landsins. Kalda loftið sleppur þó oft inn til San Francisco að sumarlagi. Misjafnt er hversu mikil hrifning er á sumarveðurlagi á þessum slóðum.

Á austurströnd Bandaríkjanna víkur öðru við. Þar blæs vindur oft úr suðri af mjög hlýjum sjó á sumrin og rakaþrungið loft berst langt inn á land. En fleira kemur þar við sögu.

Kaliforníustrandarloftslag er stundum kennt við Miðjarðarhafið og ríkir það á fáeinum stöðum öðrum í heiminum. Kanaríeyjar eða jafnvel Madeira koma þar í hugann, sunnanverður Pýreneaskagi, Höfðahérað í Suður-Afríku og svæðið kringum Perth í Ástralíu. Einnig má nefna svæði á ofurlangri strönd Síle.

Aðeins sunnan við Kaliforníu er Kaliforníuskagi, langur og mjór, en mjög þurr og minnir á Marokkó, Vestur-Sahara og strendur Máritaníu, einnig strönd Namibíu og svæði á Síleströnd.

Mynd:


Í heild hljóðaði spurningin svona:
Hvað skýrir loftslag við strönd Kaliforníu og hvar annars staðar eru skilyrðin svipuð? Saman fer þægilegt raka- og hitastig við sjó.

Höfundur

Trausti Jónsson

veðurfræðingur

Útgáfudagur

1.6.2012

Spyrjandi

Ingólfur Oddgeir Georgsson

Tilvísun

Trausti Jónsson. „Hvað skýrir loftslag við strönd Kaliforníu?“ Vísindavefurinn, 1. júní 2012, sótt 4. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=62074.

Trausti Jónsson. (2012, 1. júní). Hvað skýrir loftslag við strönd Kaliforníu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=62074

Trausti Jónsson. „Hvað skýrir loftslag við strönd Kaliforníu?“ Vísindavefurinn. 1. jún. 2012. Vefsíða. 4. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=62074>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað skýrir loftslag við strönd Kaliforníu?
Tveir samtengdir þættir ráða mestu um hitafar við strönd Kaliforníu. Annars vegar er árstíðasveifla mismunar lands- og sjávarhita en hins vegar kaldur sjór úti fyrir ströndinni.

Á sumrin er þrýstingur minni yfir landi heldur en sjó. Yfirborð lands hitnar mun meira heldur en yfirborð sjávar á sumrin þegar sól er hátt á lofti. Þetta hefur það í för með sér að þrýstingur er lægri á sumrin yfir meginlandi Norður-Ameríku heldur en á hafsvæðunum í kring. Á vetrum er þessu öfugt farið. Þá er þrýstingur að jafnaði hærri á meginlöndum heldur en á hafi úti.

Á norðurhveli er vindur úr norðri vestan við lægðir en af suðri austan við þær. Vesturströnd Norður-Ameríku er vestan sumarlægðar meginlandsins. Þegar lægðin myndast á vorin eykst tíðni norðlægra átta við ströndina. Þar sem norðanátt er að jafnaði kaldari heldur en sunnanvindur hækkar hiti á vorin ekki eins mikið á þessum slóðum eins og við mætti búast af breytingu á sólarhæð eingöngu.

Þetta er ekki óalgeng sjón í San Francisco, Golden Gate-brúin, frægasta kennileiti borgarinnar, sveipuð þoku.

Sjórinn hitnar líka að sumarlagi, en stór hluti sólarorkunnar fer í uppgufun. Hitunarinnar gætir þó lítt við Kaliforníustrendur vegna þess að núningur sem norðanáttin veldur dregur yfirborð sjávars með sér út frá ströndinni, um 20° til 30° til hægri við vindáttina. Í stað sjávarins sem dreginn er út rís sjór upp af nokkru dýpi. Uppstreymissjórinn hefur ekki notið sólaryls og er því vetrarkaldur. Það eykur hitamun lands og sjávar.

Við strönd Kaliforníu er september hlýjasti mánuður ársins að meðaltali. Þá er farið að draga úr norðanáttinni og þar með sjávaruppdrættinum og sjórinn getur hlýnað. Eftir það fer kólnandi veðurlags haustsins og lægri sólarhæðar að gæta.

Áhrif sjávarins eru langmest við bláströndina en mun minni inni í dölum landsins. Kalda loftið sleppur þó oft inn til San Francisco að sumarlagi. Misjafnt er hversu mikil hrifning er á sumarveðurlagi á þessum slóðum.

Á austurströnd Bandaríkjanna víkur öðru við. Þar blæs vindur oft úr suðri af mjög hlýjum sjó á sumrin og rakaþrungið loft berst langt inn á land. En fleira kemur þar við sögu.

Kaliforníustrandarloftslag er stundum kennt við Miðjarðarhafið og ríkir það á fáeinum stöðum öðrum í heiminum. Kanaríeyjar eða jafnvel Madeira koma þar í hugann, sunnanverður Pýreneaskagi, Höfðahérað í Suður-Afríku og svæðið kringum Perth í Ástralíu. Einnig má nefna svæði á ofurlangri strönd Síle.

Aðeins sunnan við Kaliforníu er Kaliforníuskagi, langur og mjór, en mjög þurr og minnir á Marokkó, Vestur-Sahara og strendur Máritaníu, einnig strönd Namibíu og svæði á Síleströnd.

Mynd:


Í heild hljóðaði spurningin svona:
Hvað skýrir loftslag við strönd Kaliforníu og hvar annars staðar eru skilyrðin svipuð? Saman fer þægilegt raka- og hitastig við sjó.
...