Ef heimskort er skoðað er til dæmis augljóst að Belgía er í Evrópu, Argentína í Suður-Ameríku og Nígería í Afríku. Hins vegar vandast málið þegar um er að ræða lönd sem liggja á mörkum tveggja heimsálfa, eins og Rússland og Tyrkland, eða þegar landsvæði heyrir undir ríki sem er í annarri heimsálfu. Um þetta er fjallað í svari við spurningunni Hversu mörg ríki eru í fleiri en einni heimsálfu? Þar er einmitt minnst á Kanaríeyjar og sagt að landfræðilega tilheyri Kanaríeyjar Afríku enda aðeins rúmlega 100 km úti fyrir strönd norðvestur Afríku, en stjórnarfarslega heyri eyjarnar undir Spán sem er í Evrópu.
Það fer sem sagt svolítið eftir því hvaða nálgun við viljum nota. Ef við eigum við landfræðilega staðsetningu, sem er það viðmið sem gjarnan er notað þegar lönd eða svæði eru tengd heimsálfum þá er eðlilegt að telja Kanaríeyjar hluta af Afríku, þótt stjórnartaumarnir liggi í annarri heimsálfu. Þetta er rétt eins og Cayman-eyjar, Arúba, Martiník og fleiri eyjar í Karíbahafinu tilheyra Norður-Ameríku þótt þær lúti að einhverju leyti stjórn Evrópuríkja svo einhver dæmi séu nefnd.
Hins vegar getur vel verið að út frá menningu, sögu, stjórnmálatengslum eða öðrum þáttum samsami lönd eða svæði sig annarri heimsálfu en landfræðileg mörk segja til um.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:- Í hvaða heimsálfu er Mexíkó, Norður- eða Suður-Ameríku?
- Í hvaða heimsálfu eru Vestur-Indíur?
- Til hvaða heimsálfu teljast Hawaii-eyjar, Norður-Ameríku eða Eyjaálfu?
- Hvaða lönd tilheyra Bretlandi?
- Hvað eru mörg ríki í Norður- og Suður-Ameríku?