Sólin Sólin Rís 02:55 • sest 24:04 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:03 • Sest 01:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:37 • Síðdegis: 16:15 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:53 • Síðdegis: 22:30 í Reykjavík

Hvað er mótpáfi eða það sem kallast á ensku antipope?

Hjalti Hugason

Mótpáfi er einstaklingur sem gerir kröfu til páfaembættisins gegn sitjandi páfa eða öðrum einstaklingi sem álitinn er réttkjörinn til embættisins. Þegar staða af þessu tagi kom upp gat kaþólska kirkjan klofnað þar sem einstakir hlutar hennar fylgdu hvor sínum páfanum. Slíkar aðstæður kallast páfaklofningur.

Klofningur af þessu tagi þurfti ekki að fela í sér deilur um kenningu, helgisiði eða önnur kirkjuleg mál en hafði oft pólitískan undirtón þar sem á miklu gat oltið hvorum páfanum keisari og/eða einstakir konungar álfunnar fylgdu. Þá lá alls ekki alltaf ljóst fyrir hvor af páfunum sem tókust á um embættið hverju sinni yrði talinn réttkjörinn páfi og hver mótpáfi þegar fram liðu stundir. Fyrst kom til páfaklofnings af þessu tagi árið 217 er átök stóðu milli Callistusar I. (217–222) og Hippolýtusar (217– um 235). Af lauslegri athugun virðist páfaklofningur hafa komið upp 37 sinnum en réttkjörnir páfar eru nú taldir hafa verið 265 að Benedikt XVI. (frá 2005) meðtöldum.

Hippolýtus, fyrsti mótpáfinn, hlaut grimmileg örlög samkvæmt rómverska skáldinu Prudentiusi, en hann var slitinn sundur af hestum.

Síðasti páfaklofningurinn var langvinnur og illvígur og var hluti af deilu sem nefnd hefur verið vestræni klofningurinn (klofningur = scism) til aðgreiningar frá austur-vestur klofningnum 1054 er klauf kirkjuna í kaþólsku kirkjuna og rétttrúnaðarkirkjuna. Forsaga málsins var sú að Clemens V. (1305–1314), sem var Frakki og hafði verið biskup af Bordeaux áður en hann var kjörinn páfi, flúði Ítalíu árið 1309. Hann settist að í Avignon sem tilheyrði þýska keisaradæminu en var umlukin áhrifasvæði Frakka. Næstu sex páfar voru einnig franskir og keypti páfi borgina 1348. Þá var meirihluti kúríunnar eða páfahirðarinnar einnig franskur. Úrbanus V. (1362–1370) flutti til Rómar 1369 eftir þrýsting frá Englandskonungi. Eftirmaður hans Gregoríus XI. (1370–1378) var þó kjörinn í Avignon og sat þar til 1377 er hann flutti aðsetur sitt til Rómar. Að þessu sinni var það dulhyggjukonan Katarína frá Siena (1347–1380) sem þrýsti á um flutninginn. Ekki vildi þó betur til að það að nýr páfi var enn kjörinn í Avignon og skiptist Vestur-Evrópa nú upp í tvær blokkir eftir því hvort þjóðhöfðingjar fylgdu Rómar-páfa eða páfanum í Avignon að málum. Klofningurinn afhjúpaði veikleika kirkjunnar og sýndi fram á hve háð hún var veraldlegum valdhöfum.

Páfahöllin í Avignon. Byrjað var að byggja hana árið 1252.

Í byrjun 15. aldar ruddi svokölluð kirkjuþingahreyfing (conciliarismus) sér til rúms. Í anda hennar voru kölluð saman kirkjuþing er skyldu siðbæta kirkjuna, efla einingu hennar og sjálfstæði. Kom til mikilla átaka um hver væri í raun handhafi hins æðsta valds í kirkjunni, kirkjuþing eða páfi. Dró páfaklofningurinn mjög úr slagkrafti embættisins í kapphlaupi þess við þingin. Kaus kirkjuþing í Písa 1409 nýjan páfa og lýsti hina tvo af setta. Hvorugur beygði sig þó fyrir þeirri niðurstöðu.

Kirkjuþing stóð í Basel 1431–1449 og ríkti mikil spenna milli þess páfa er þingið viðurkenndi og þingfulltrúa (biskupa og fulltrúa ýmissa reglna). Flutti Eugenius IV. (1431–1447) páfi þingið til Ferrara en sumir þingfulltrúanna sátu eftir, lýstu páfa af settan og kusu nýjan, Felix V. (1439–1449) sem nokkru síðar var lýstur mótpáfi og varð þar með síðasti mótpáfinn. Loks tóks Nikulási V. (1447–1455) að leiða klofninginn til lykta með því að Felix V. viðurkenndi embættismissinn og kirkjuþingið í Basel féllst á vald Nikulásar V. og leysti sig upp.

Myndir:

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

4.4.2012

Spyrjandi

Alexander Gunnar Kristjánsson

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hvað er mótpáfi eða það sem kallast á ensku antipope?“ Vísindavefurinn, 4. apríl 2012. Sótt 18. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=62212.

Hjalti Hugason. (2012, 4. apríl). Hvað er mótpáfi eða það sem kallast á ensku antipope? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62212

Hjalti Hugason. „Hvað er mótpáfi eða það sem kallast á ensku antipope?“ Vísindavefurinn. 4. apr. 2012. Vefsíða. 18. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62212>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er mótpáfi eða það sem kallast á ensku antipope?
Mótpáfi er einstaklingur sem gerir kröfu til páfaembættisins gegn sitjandi páfa eða öðrum einstaklingi sem álitinn er réttkjörinn til embættisins. Þegar staða af þessu tagi kom upp gat kaþólska kirkjan klofnað þar sem einstakir hlutar hennar fylgdu hvor sínum páfanum. Slíkar aðstæður kallast páfaklofningur.

Klofningur af þessu tagi þurfti ekki að fela í sér deilur um kenningu, helgisiði eða önnur kirkjuleg mál en hafði oft pólitískan undirtón þar sem á miklu gat oltið hvorum páfanum keisari og/eða einstakir konungar álfunnar fylgdu. Þá lá alls ekki alltaf ljóst fyrir hvor af páfunum sem tókust á um embættið hverju sinni yrði talinn réttkjörinn páfi og hver mótpáfi þegar fram liðu stundir. Fyrst kom til páfaklofnings af þessu tagi árið 217 er átök stóðu milli Callistusar I. (217–222) og Hippolýtusar (217– um 235). Af lauslegri athugun virðist páfaklofningur hafa komið upp 37 sinnum en réttkjörnir páfar eru nú taldir hafa verið 265 að Benedikt XVI. (frá 2005) meðtöldum.

Hippolýtus, fyrsti mótpáfinn, hlaut grimmileg örlög samkvæmt rómverska skáldinu Prudentiusi, en hann var slitinn sundur af hestum.

Síðasti páfaklofningurinn var langvinnur og illvígur og var hluti af deilu sem nefnd hefur verið vestræni klofningurinn (klofningur = scism) til aðgreiningar frá austur-vestur klofningnum 1054 er klauf kirkjuna í kaþólsku kirkjuna og rétttrúnaðarkirkjuna. Forsaga málsins var sú að Clemens V. (1305–1314), sem var Frakki og hafði verið biskup af Bordeaux áður en hann var kjörinn páfi, flúði Ítalíu árið 1309. Hann settist að í Avignon sem tilheyrði þýska keisaradæminu en var umlukin áhrifasvæði Frakka. Næstu sex páfar voru einnig franskir og keypti páfi borgina 1348. Þá var meirihluti kúríunnar eða páfahirðarinnar einnig franskur. Úrbanus V. (1362–1370) flutti til Rómar 1369 eftir þrýsting frá Englandskonungi. Eftirmaður hans Gregoríus XI. (1370–1378) var þó kjörinn í Avignon og sat þar til 1377 er hann flutti aðsetur sitt til Rómar. Að þessu sinni var það dulhyggjukonan Katarína frá Siena (1347–1380) sem þrýsti á um flutninginn. Ekki vildi þó betur til að það að nýr páfi var enn kjörinn í Avignon og skiptist Vestur-Evrópa nú upp í tvær blokkir eftir því hvort þjóðhöfðingjar fylgdu Rómar-páfa eða páfanum í Avignon að málum. Klofningurinn afhjúpaði veikleika kirkjunnar og sýndi fram á hve háð hún var veraldlegum valdhöfum.

Páfahöllin í Avignon. Byrjað var að byggja hana árið 1252.

Í byrjun 15. aldar ruddi svokölluð kirkjuþingahreyfing (conciliarismus) sér til rúms. Í anda hennar voru kölluð saman kirkjuþing er skyldu siðbæta kirkjuna, efla einingu hennar og sjálfstæði. Kom til mikilla átaka um hver væri í raun handhafi hins æðsta valds í kirkjunni, kirkjuþing eða páfi. Dró páfaklofningurinn mjög úr slagkrafti embættisins í kapphlaupi þess við þingin. Kaus kirkjuþing í Písa 1409 nýjan páfa og lýsti hina tvo af setta. Hvorugur beygði sig þó fyrir þeirri niðurstöðu.

Kirkjuþing stóð í Basel 1431–1449 og ríkti mikil spenna milli þess páfa er þingið viðurkenndi og þingfulltrúa (biskupa og fulltrúa ýmissa reglna). Flutti Eugenius IV. (1431–1447) páfi þingið til Ferrara en sumir þingfulltrúanna sátu eftir, lýstu páfa af settan og kusu nýjan, Felix V. (1439–1449) sem nokkru síðar var lýstur mótpáfi og varð þar með síðasti mótpáfinn. Loks tóks Nikulási V. (1447–1455) að leiða klofninginn til lykta með því að Felix V. viðurkenndi embættismissinn og kirkjuþingið í Basel féllst á vald Nikulásar V. og leysti sig upp.

Myndir:

...