Sólin Sólin Rís 08:36 • sest 17:47 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:06 • Sest 09:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:40 • Síðdegis: 18:55 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:34 • Síðdegis: 12:51 í Reykjavík

Hvernig þróast sullaveiki í mönnum, frá því að smit berst frá hundi og þar til maðurinn deyr?

Karl Skírnisson

Það sem hér verður sagt á við bandorminn Echinococcus granulosus, tegundina sem olli á sínum tíma sullaveiki í mönnum á Íslandi en var útrýmt á síðustu öld. Í nágrannalöndunum hefur skyld tegund (E. multilocularis) breiðst út á undanförnum árum og áratugum. Sú lifir ekki á Íslandi og mun vonandi aldrei ná hér fótfestu því hún er ekki síður skæð en sullaveikin sem hér herjaði öldum saman á hunda, búpening og menn.

Áður en lengra er haldið er rétt að undirstrika að í spurningunni hér að ofan er falin röng staðhæfing, því þótt menn fái sullaveiki er ekki þar með sagt að hún leiði menn til dauða. Kemur þar ýmislegt til. Í fyrsta lagi er nú á dögum hægt að gefa mönnum lyf sem drepa sullinn, einnig er hægt að fjarlægja sulli með skurðaðgerð. Fyrr á árum og öldum lifðu menn það iðulega af að verða sullaveikir. Mannslíkaminn leitast nefnilega við að einangra aðskotahluti eins og sulli sem eru vökvafylltar blöðrur (oftast staðsettar í lifur eða lungum en geta verið víða annars staðar í líkamanum) með því að hlaða utan um þá kalki. Þannig tekst oft að einangra sullina svo kyrfilega að næringarflæði til þeirra stöðvast og innihaldið drepst. Vegna þessa viðbragða líkamans fundust iðulega löngu dauðir, kalkaðir sullir við krufningar á fólki mörgum áratugum eftir að viðkomandi hafði smitast og lirfurnar drepist.

Menn smituðust á sama hátt og sauðfé, af eggjum sem upphaflega komu úr hundaskít en bárust á einhvern hátt óviljandi niður í meltingarveg.

Áður fyrr á árum létust menn þó oft af völdum sullaveiki. Óljóst er hversu algengt það var en Jón Hjaltalín, sem var landlæknir á Íslandi á árunum 1855-1881, lét hafa það eftir sér að allt að fimmtungur þeirra sem smituðust af sullaveiki gætu hafa látist af völdum sjúkdómsins. Í upphafi starfstíma Jóns Hjaltalíns var sullaveiki á Íslandi talin algengari en í nokkru öðru landi heimsins og olli hún hér miklu heilsutjóni og ólýsanlegum þjáningum. Oft hefur því verið haldið fram að á þessum árum hafi allt að sjötti hver maður verið með sull.

Algjör umskipti urðu í baráttunni við sullaveikina árið 1863 þegar Harald Krabbe, danskur læknir, sem síðar á ævinni helgaði sig að mestu rannsóknum á bandormum, kom til Íslands og tók að rannsaka orsakir og eðli sullaveikinnar. Áttuðu menn sig strax á því hvað varast bæri og í framhaldinu voru ýmsar aðgerðir framkvæmdar sem leiddu til þess að menn hættu fljótlega að smitast af sullaveiki á Íslandi. Mikilvægast var auðvitað að rjúfa lífsferilinn með því að koma í veg fyrir að hundar fengju að éta hráa sulli á blóðvelli þar sem bændur slátruðu sauðfé. Jafnframt var hundum í landinu stórlega fækkað og mikið kynningarstarf sett af stað sem miðaði að því að upplýsa þjóðina um smitleiðir og hvað það væri sem varast bæri. Árangurinn kom fljótt í ljós og nýsmitun manna var að mestu hætt í lok 19. aldar, nokkrum áratugum eftir að baráttan gegn sullaveiki hófst af alvöru.

Í stuttu máli er lífsferillinn þannig að fullorðni bandormurinn lifir í þörmum hunda og þar verpir hann eggjum sínum. Eggin berast út í umhverfið með skít hundsins. Hundarnir eru svonefndir lokahýslar í lífsferlinum en algengasti millihýsill tegundarinnar hér á landi var sauðfé. Smitaðist það við að éta óviljandi ofan í sig egg þegar gróður var bitinn þar sem eggin voru til staðar. Í kindinni þroskast hvert egg um sig í sull, í honum safnaðist svo saman gífurlegur fjöldi af lirfum, oft nefndar sullungar, við kynlausa æxlun sníkjudýrsins. Ef hundur komst í að éta hráan sull þroskaðist hver lirfa yfir í bandorm í meltingarfærum hundsins. Menn smituðust á sama hátt og sauðfé, af eggjum sem upphaflega komu úr hundaskít en bárust á einhvern hátt óviljandi niður í meltingarveg. Sullir í mönnum urðu stundum mjög stórir. Stærsti sullur sem sögur fara af í manni hér á landi innihélt 16 lítra af sullungum og vökva. Þeir sem á annað borð dóu úr sullaveiki voru oft lengi að dragast upp eftir að þeir smituðust, oft stóðu veikindin árum saman áður en yfir lauk.

Heimildir:

 • Arinbjarnar, G. (1989) Fjögur sullatilvik á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 1984-1988. Læknablaðið, 75, 399-403.
 • Beard, T.C. (1973) The elimination of echinococcosis from Iceland. Bull. Wld. Hlth Org. 48, 653-660.
 • Dungal, N. (1946) Echinococcosis in Iceland. American Journal of the Medical Sciences, 212, 12-17.
 • Dungal, N. (1957) Eradication of hydatid disease in Iceland. New Zealand Medical Journal, 56, 212-222.
 • Health reports (1881-1990) Annual reports compiled and published by the Directorate General of Health, Iceland. Reykjavík: Gutenberg. (In Icelandic with English summary).
 • Jónsson, B. (1962) Síðasti sullurinn? Læknablaðið, 46, 1-13.
 • Krabbe. H. (1865) Helmintologiske Undersøgelser i Danmark og paa Island med særligt Hensyn til Blæreormlidelserne paa Island. Det Kongel. Danske Videnskabernes Selskabs Skrifter, 5, 1-71.
 • Magnússon, G. (1913) Yfirlit yfir sögu sullaveikinnar á Íslandi. Reykjavík: Prentsmiðjan Gutenberg.
 • Ólafsson, G. (1979) Er sullaveiki útdauð á Íslandi? Læknablaðið, 65, 139-142.
 • Pálsson, P.A. (1984) Echinococcosis and its elimination in Iceland. Historia Medicinae Veterinariae, 1, 4-10.
 • Pálsson, P.A., Sigurðsson, B. and Hendriksen, K. (1953) Sullaveikin á undanhaldi (Echinococcosis diminishing). Læknablaðið, 37, 1-13. (In Icelandic with English summary).
 • Pálsson, P.A, Vigfússon, H. and Henriksen, K. (1971) Heldur sullaveikin velli? Læknablaðið, 57, 39-51.
 • Pétursson, J. (1834) Lækningabók fyrir almúga. Kaupmannahöfn: Möller.
 • Skírnisson Karl, Sigurður H. Richter & Matthías Eydal. 2003. Prevalence of human parasites in Iceland: Past and present status. Chapter 4, pp. 34-44 in: Parasites of the Colder Climates (Ritstj. Hannah Akkuffo, Inger Ljungström, Ewert Linder and Mats Whalgren). Taylor & Francis, London and New York.
 • Mynd: Novartis Animal Health. Sótt 7. 5. 2012.

Höfundur

Karl Skírnisson

dýrafræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Útgáfudagur

9.5.2012

Spyrjandi

Guðmundur Þór Ásmundsson

Tilvísun

Karl Skírnisson. „Hvernig þróast sullaveiki í mönnum, frá því að smit berst frá hundi og þar til maðurinn deyr?“ Vísindavefurinn, 9. maí 2012. Sótt 21. október 2021. http://visindavefur.is/svar.php?id=62476.

Karl Skírnisson. (2012, 9. maí). Hvernig þróast sullaveiki í mönnum, frá því að smit berst frá hundi og þar til maðurinn deyr? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62476

Karl Skírnisson. „Hvernig þróast sullaveiki í mönnum, frá því að smit berst frá hundi og þar til maðurinn deyr?“ Vísindavefurinn. 9. maí. 2012. Vefsíða. 21. okt. 2021. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62476>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig þróast sullaveiki í mönnum, frá því að smit berst frá hundi og þar til maðurinn deyr?
Það sem hér verður sagt á við bandorminn Echinococcus granulosus, tegundina sem olli á sínum tíma sullaveiki í mönnum á Íslandi en var útrýmt á síðustu öld. Í nágrannalöndunum hefur skyld tegund (E. multilocularis) breiðst út á undanförnum árum og áratugum. Sú lifir ekki á Íslandi og mun vonandi aldrei ná hér fótfestu því hún er ekki síður skæð en sullaveikin sem hér herjaði öldum saman á hunda, búpening og menn.

Áður en lengra er haldið er rétt að undirstrika að í spurningunni hér að ofan er falin röng staðhæfing, því þótt menn fái sullaveiki er ekki þar með sagt að hún leiði menn til dauða. Kemur þar ýmislegt til. Í fyrsta lagi er nú á dögum hægt að gefa mönnum lyf sem drepa sullinn, einnig er hægt að fjarlægja sulli með skurðaðgerð. Fyrr á árum og öldum lifðu menn það iðulega af að verða sullaveikir. Mannslíkaminn leitast nefnilega við að einangra aðskotahluti eins og sulli sem eru vökvafylltar blöðrur (oftast staðsettar í lifur eða lungum en geta verið víða annars staðar í líkamanum) með því að hlaða utan um þá kalki. Þannig tekst oft að einangra sullina svo kyrfilega að næringarflæði til þeirra stöðvast og innihaldið drepst. Vegna þessa viðbragða líkamans fundust iðulega löngu dauðir, kalkaðir sullir við krufningar á fólki mörgum áratugum eftir að viðkomandi hafði smitast og lirfurnar drepist.

Menn smituðust á sama hátt og sauðfé, af eggjum sem upphaflega komu úr hundaskít en bárust á einhvern hátt óviljandi niður í meltingarveg.

Áður fyrr á árum létust menn þó oft af völdum sullaveiki. Óljóst er hversu algengt það var en Jón Hjaltalín, sem var landlæknir á Íslandi á árunum 1855-1881, lét hafa það eftir sér að allt að fimmtungur þeirra sem smituðust af sullaveiki gætu hafa látist af völdum sjúkdómsins. Í upphafi starfstíma Jóns Hjaltalíns var sullaveiki á Íslandi talin algengari en í nokkru öðru landi heimsins og olli hún hér miklu heilsutjóni og ólýsanlegum þjáningum. Oft hefur því verið haldið fram að á þessum árum hafi allt að sjötti hver maður verið með sull.

Algjör umskipti urðu í baráttunni við sullaveikina árið 1863 þegar Harald Krabbe, danskur læknir, sem síðar á ævinni helgaði sig að mestu rannsóknum á bandormum, kom til Íslands og tók að rannsaka orsakir og eðli sullaveikinnar. Áttuðu menn sig strax á því hvað varast bæri og í framhaldinu voru ýmsar aðgerðir framkvæmdar sem leiddu til þess að menn hættu fljótlega að smitast af sullaveiki á Íslandi. Mikilvægast var auðvitað að rjúfa lífsferilinn með því að koma í veg fyrir að hundar fengju að éta hráa sulli á blóðvelli þar sem bændur slátruðu sauðfé. Jafnframt var hundum í landinu stórlega fækkað og mikið kynningarstarf sett af stað sem miðaði að því að upplýsa þjóðina um smitleiðir og hvað það væri sem varast bæri. Árangurinn kom fljótt í ljós og nýsmitun manna var að mestu hætt í lok 19. aldar, nokkrum áratugum eftir að baráttan gegn sullaveiki hófst af alvöru.

Í stuttu máli er lífsferillinn þannig að fullorðni bandormurinn lifir í þörmum hunda og þar verpir hann eggjum sínum. Eggin berast út í umhverfið með skít hundsins. Hundarnir eru svonefndir lokahýslar í lífsferlinum en algengasti millihýsill tegundarinnar hér á landi var sauðfé. Smitaðist það við að éta óviljandi ofan í sig egg þegar gróður var bitinn þar sem eggin voru til staðar. Í kindinni þroskast hvert egg um sig í sull, í honum safnaðist svo saman gífurlegur fjöldi af lirfum, oft nefndar sullungar, við kynlausa æxlun sníkjudýrsins. Ef hundur komst í að éta hráan sull þroskaðist hver lirfa yfir í bandorm í meltingarfærum hundsins. Menn smituðust á sama hátt og sauðfé, af eggjum sem upphaflega komu úr hundaskít en bárust á einhvern hátt óviljandi niður í meltingarveg. Sullir í mönnum urðu stundum mjög stórir. Stærsti sullur sem sögur fara af í manni hér á landi innihélt 16 lítra af sullungum og vökva. Þeir sem á annað borð dóu úr sullaveiki voru oft lengi að dragast upp eftir að þeir smituðust, oft stóðu veikindin árum saman áður en yfir lauk.

Heimildir:

 • Arinbjarnar, G. (1989) Fjögur sullatilvik á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 1984-1988. Læknablaðið, 75, 399-403.
 • Beard, T.C. (1973) The elimination of echinococcosis from Iceland. Bull. Wld. Hlth Org. 48, 653-660.
 • Dungal, N. (1946) Echinococcosis in Iceland. American Journal of the Medical Sciences, 212, 12-17.
 • Dungal, N. (1957) Eradication of hydatid disease in Iceland. New Zealand Medical Journal, 56, 212-222.
 • Health reports (1881-1990) Annual reports compiled and published by the Directorate General of Health, Iceland. Reykjavík: Gutenberg. (In Icelandic with English summary).
 • Jónsson, B. (1962) Síðasti sullurinn? Læknablaðið, 46, 1-13.
 • Krabbe. H. (1865) Helmintologiske Undersøgelser i Danmark og paa Island med særligt Hensyn til Blæreormlidelserne paa Island. Det Kongel. Danske Videnskabernes Selskabs Skrifter, 5, 1-71.
 • Magnússon, G. (1913) Yfirlit yfir sögu sullaveikinnar á Íslandi. Reykjavík: Prentsmiðjan Gutenberg.
 • Ólafsson, G. (1979) Er sullaveiki útdauð á Íslandi? Læknablaðið, 65, 139-142.
 • Pálsson, P.A. (1984) Echinococcosis and its elimination in Iceland. Historia Medicinae Veterinariae, 1, 4-10.
 • Pálsson, P.A., Sigurðsson, B. and Hendriksen, K. (1953) Sullaveikin á undanhaldi (Echinococcosis diminishing). Læknablaðið, 37, 1-13. (In Icelandic with English summary).
 • Pálsson, P.A, Vigfússon, H. and Henriksen, K. (1971) Heldur sullaveikin velli? Læknablaðið, 57, 39-51.
 • Pétursson, J. (1834) Lækningabók fyrir almúga. Kaupmannahöfn: Möller.
 • Skírnisson Karl, Sigurður H. Richter & Matthías Eydal. 2003. Prevalence of human parasites in Iceland: Past and present status. Chapter 4, pp. 34-44 in: Parasites of the Colder Climates (Ritstj. Hannah Akkuffo, Inger Ljungström, Ewert Linder and Mats Whalgren). Taylor & Francis, London and New York.
 • Mynd: Novartis Animal Health. Sótt 7. 5. 2012.

...