Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Eru einhver sníkjudýr eða aðrar lífverur í eða á líkamanum, aðrar en rykmaurar?

Karl Skírnisson

Spurningin sem svo var orðuð árið 2002 og höfundur svaraði þá á Vísindavefnum felur í sér tvær rangar fullyrðingar. Enn fremur hafa í millitíðinni komið fram nýjar upplýsingar um uppruna rykmítla í húsakynnum hérlendis þannig að rétt þykir að uppfæra svarið.

Í fyrsta lagi hefur orðið breyting á hugtakanotkun en dýrafræðingar á Íslandi hafa sammælst um að hætta að nota maurahugtakið um ýmsar áttfætlur (Acarina) og nota þess í stað orðið mítill. Þannig tala menn ekki lengur um mannakláðamaur heldur mannakláðamítil, á sama hátt um rykmítla í stað rykmaura og hársekkjamítla, svo nokkur dæmi séu tekin. Maurahugtakið er nú eingöngu notað um félagsskordýr (Insecta). Um þetta er fjallað í svari sama höfundar við spurningunni Eru rykmaurar það sama og rykmítlar?

Hin ranga fullyrðingin sem spurning fyrirspyrjanda felur í sér er sú að rykmítlar teljast ekki til mannasníkjudýra. Rykmítlar eru hvorki háðir manninum um skjól né næringu til að ljúka lífsferli sínum en þessar lífverur gera vel þekktar kröfur um hentuga fæðu og tiltölulega hátt rakastig til að dafna og fjölga sér.

Rykmítill (Dermatophagoides pteronyssinus).

Um árabil var það trú manna að rykmítlar lifðu á húðflögum og væru algengir í rúmum og teppum innan húss, til dæmis í svefnherbergjum. Öpuðu menn þetta hver upp eftir öðrum og standa þessar fullyrðingar víða á prenti. Nú hafa rannsóknir Thorkil Hallas hér á landi sýnt að ofangreind fullyrðing á ekki við rök að styðjast. Hallas, sem er danskur mítlafræðingur, vann rannsóknir sínar á Íslandi meðal annars í samvinnu við læknana Þórarinn og Davíð Gíslasyni. Í kafla 27 í ritinu Hypotheses in Clinical Medicine sem út kom árið 2013 telur Hallas að rykmítlar fjölgi sér ekki innanhúss á Íslandi og þar séu þeir raunar sárasjaldgæfir. Þau fáu dýr sem hann náði að góma innanhúss og rannsaka telur hann hafa borist utanfrá eins og hvert annað ryk. Rökstyður hann þá fullyrðingu meðal annars með því að þar hafi verið á ferðinni dreifingarstig mítlanna (fullorðin kvendýr og karldýr) en ekki ungviði í vexti (lirfur, gyðlur) en mest ber á ungviðinu þar sem mítlar eru að fjölga sér. Telur Hallas sem sagt að fjölgun rykmítla fari fram utanhúss. Kollvarpar þessi kenning því sem áður var talið og almennt viðurkennt. Rykmítlaofnæmi er vel þekktur, mjög útbreiddur, iðulega alvarlegur sjúkdómur í fólki en kenning Hallas og félaga þess efnis að orsakavaldurinn komi utan frá en verði ekki til innanhúss í dýnum og teppum hlýtur að breyta viðnámsaðgerðum í tengslum við ofnæmi manna.

Fjölmargar tegundir sníkjudýra hrjá menn um allan heim. Hér á landi er aðeins að finna lítið brot af þeim sníkjudýrum sem þekkt eru að því að sníkja á eða í mönnum. Mannasníkjudýrum má í grófum dráttum skipta í tvo hópa: Sníkjudýr sem lifa utan á mönnum, útsníkla, og dýr sem lifa innan í mönnum (innri sníkjudýr, innsníklar).

Höfuðlús (Pediculus humanus capitis).

Hér á landi verður enn þann dag í dag reglulega vart við þrjár tegundir útsníkla, mannakláðamítil, höfuðlús og flatlús. Allar teljast þær enn vera landlægar þótt sumir virðist halda að menn nái í þessar óværutegundir erlendis. Auðvitað gerist það einnig af og til. Undirstrikað skal að allar þessar tegundir hafa lifað góðu lífi á Íslendingum um alda raðir. Sumum finnst örugglega forvitnilegt að frétta að flatlýs hafi til dæmis fundist í Reykholti við rannsóknir á fornleifum frá síðari hluta miðalda! Tveimur óværutegundum til viðbótar hefur nú verið útrýmt á Íslandi. Þær eru fatalús (einnig nefnd búklús og er náskyld höfuðlúsinni) og mannafló. Það var ekki hvað síst með tilkomu sérvirkra skordýralyfja um miðbik 20. aldarinnar sem aldalöng barátta Íslendinga gegn óværu fór loks að skila eftirtektarverðum árangri.

Ekki má þó gleyma ýmsum öðrum hryggleysingjum sem stundum erta, bíta eða stinga fólk hér á landi. Í þessum hópi eru til dæmis lirfur fuglablóðagða. Þær þroskast í vatnabobbum en yfirgefa svo sniglana og taka strax til við að synda um í vatni í leit að löppum lokahýslanna sem geta til dæmis verið andfuglar (álftir, endur og gæsir). Beri leitin árangur melta lirfurnar sér leið í gegn um húðina og komast þannig inn í líkama fuglsins þar sem hver lirfa þroskast í kynþroska orm á nokkrum vikum. Lirfurnar ruglast iðulega á fuglshúð og mannshörundi og valda þá kláðabólum á fólki. Oftast eru lirfurnar taldar drepast í spendýrum en þó eru þekkt dæmi um að þær geti náð einhverjum þroska. Erlendis kallast þetta fyrirbæri sundmannakláði. Fólk er hvatt til að forðast þær aðstæður sem geta leitt til sundmannakláða þar sem ekki er hægt að útiloka að lirfurnar valdi sjúkdómi.

Sundmannakláði. Kláðabólur á baki.

Ýmsar mítlategundir tilheyra einnig þeim hópi hryggleysingja sem stundum erta, bíta eða stinga fólk. Hér má nefna mítla sem venjulega lifa annað hvort á fuglum (til dæmis lundamítill, áður oft nefnd lundalús) eða spendýrum (bæði stórir nagdýramítlar og litlir mítlar sem stundum hafa fundist á hundum eða köttum), tvær tegundir fuglaflóa, rottu- og músaflær, veggjalýs sem stöðugt verða algengari hér á landi með auknum fjölda ferðamanna, og síðast en ekki hvað síst bitmý, sem algengt er á sumrin í námunda við rennandi vatn. Eins og þessi upptalning sýnir eru þær hreint ekki svo fáar tegundirnar sem geta angrað fólk á Íslandi! Sumarið 2015 bættist lúsmý í þennan hóp þegar sérstök veðurskilyrði virðast hafa orðið til þess að þessi blóðsjúgandi skordýr sem áður voru ókunn hér á landi tóku að leggjast á fólk, meðal annars í Kjósinni. Margt er enn óljóst um hvað hér var á ferðinni.

Í hinum hópnum eru sníkjudýr sem lifa innan í fólki. Innsníklarnir halda oftast til í meltingarvegi en geta einnig verið í ýmsum vefjum eða líffærum líkamans eða þá í blóðrás. Eini ormurinn sem nú er algengur í meltingarfærum manna hérlendis er njálgur. Rannsóknir hafa raunar sýnt að sýkingartíðnin getur stundum orðið allhá í leikskóla- og grunnskólabörnum. Þess má einnig geta að um aldamótin 1900 fundu íslenskir læknar alloft spóluorma í mönnum. Bendir það til þess að mannaspóluormur kunni þá að hafa verið landlægur sums staðar. Náskyld tegund, svínaspóluormur, getur einnig stundum lifað í mönnum. Er sá enn í dag landlægur í svínum hérlendis.

Sullaveiki var mjög algeng í mönnum og dýrum (einkum í sauðfé) á Íslandi allt fram á fyrri hluta tuttugustu aldar. Eftir að bandorminum sem olli sullaveiki hafði verið útrýmt í hundum hvarf nýsmitun, bæði í mönnum og dýrum. Sjúkdómurinn fjaraði hratt út uns hann hvarf algjörlega.

Rétt er að nefna hér einnig lirfur hunda- og kattaspóluorma. Svonefndar annars stigs lirfur þessara orma eru þekktar að því að geta farið á flakk í mannslíkamanum lendi þroskuð egg ormanna niður í meltingarvegi manna. Þessi sníkjudýr eru allalgeng í mönnum erlendis, einkum þar sem mikið ormasmit er í hundum og köttum. Eggin eru sérlega lífseig og geta verið smithæf í umhverfinu mánuðum og jafnvel árum saman. Ekkert er enn sem komið er vitað um lirfuflakk hunda- og kattaspóluorma í mönnum hér á landi. Trúlega er þó mest hætta á því að börn fái ofan í sig egg kattaspóluorms í óvörðum sandkössum. Kettir grafa nefnilega úr sér skítinn og sækja í að urða hægðir sínar í þurrum, lausum sandi eins og á leiksvæðum barna. Einkum ber á þessu að vetrarlagi þegar frost er í jörðu og erfitt fyrir kettina að grafa skítinn annars staðar.

Að endingu skal nefnt að þekktar eru sex tegundir einfrumu sníkjudýra sem geta lifað í meltingarfærum manna hér á landi. Ekki hafa þó nema þrjár þeirra fundist í mönnum enn sem komið er en hinar hafa fundist hér í dýrum.

Myndir:

Svar við þessari spurningu birtist upprunalega 13.5.2002. Það var uppfært og endurbirt 25.2.2016.

Höfundur

Karl Skírnisson

dýrafræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Útgáfudagur

25.2.2016

Spyrjandi

Halldór Þormar, f. 1984

Tilvísun

Karl Skírnisson. „Eru einhver sníkjudýr eða aðrar lífverur í eða á líkamanum, aðrar en rykmaurar? “ Vísindavefurinn, 25. febrúar 2016. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2378.

Karl Skírnisson. (2016, 25. febrúar). Eru einhver sníkjudýr eða aðrar lífverur í eða á líkamanum, aðrar en rykmaurar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2378

Karl Skírnisson. „Eru einhver sníkjudýr eða aðrar lífverur í eða á líkamanum, aðrar en rykmaurar? “ Vísindavefurinn. 25. feb. 2016. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2378>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru einhver sníkjudýr eða aðrar lífverur í eða á líkamanum, aðrar en rykmaurar?
Spurningin sem svo var orðuð árið 2002 og höfundur svaraði þá á Vísindavefnum felur í sér tvær rangar fullyrðingar. Enn fremur hafa í millitíðinni komið fram nýjar upplýsingar um uppruna rykmítla í húsakynnum hérlendis þannig að rétt þykir að uppfæra svarið.

Í fyrsta lagi hefur orðið breyting á hugtakanotkun en dýrafræðingar á Íslandi hafa sammælst um að hætta að nota maurahugtakið um ýmsar áttfætlur (Acarina) og nota þess í stað orðið mítill. Þannig tala menn ekki lengur um mannakláðamaur heldur mannakláðamítil, á sama hátt um rykmítla í stað rykmaura og hársekkjamítla, svo nokkur dæmi séu tekin. Maurahugtakið er nú eingöngu notað um félagsskordýr (Insecta). Um þetta er fjallað í svari sama höfundar við spurningunni Eru rykmaurar það sama og rykmítlar?

Hin ranga fullyrðingin sem spurning fyrirspyrjanda felur í sér er sú að rykmítlar teljast ekki til mannasníkjudýra. Rykmítlar eru hvorki háðir manninum um skjól né næringu til að ljúka lífsferli sínum en þessar lífverur gera vel þekktar kröfur um hentuga fæðu og tiltölulega hátt rakastig til að dafna og fjölga sér.

Rykmítill (Dermatophagoides pteronyssinus).

Um árabil var það trú manna að rykmítlar lifðu á húðflögum og væru algengir í rúmum og teppum innan húss, til dæmis í svefnherbergjum. Öpuðu menn þetta hver upp eftir öðrum og standa þessar fullyrðingar víða á prenti. Nú hafa rannsóknir Thorkil Hallas hér á landi sýnt að ofangreind fullyrðing á ekki við rök að styðjast. Hallas, sem er danskur mítlafræðingur, vann rannsóknir sínar á Íslandi meðal annars í samvinnu við læknana Þórarinn og Davíð Gíslasyni. Í kafla 27 í ritinu Hypotheses in Clinical Medicine sem út kom árið 2013 telur Hallas að rykmítlar fjölgi sér ekki innanhúss á Íslandi og þar séu þeir raunar sárasjaldgæfir. Þau fáu dýr sem hann náði að góma innanhúss og rannsaka telur hann hafa borist utanfrá eins og hvert annað ryk. Rökstyður hann þá fullyrðingu meðal annars með því að þar hafi verið á ferðinni dreifingarstig mítlanna (fullorðin kvendýr og karldýr) en ekki ungviði í vexti (lirfur, gyðlur) en mest ber á ungviðinu þar sem mítlar eru að fjölga sér. Telur Hallas sem sagt að fjölgun rykmítla fari fram utanhúss. Kollvarpar þessi kenning því sem áður var talið og almennt viðurkennt. Rykmítlaofnæmi er vel þekktur, mjög útbreiddur, iðulega alvarlegur sjúkdómur í fólki en kenning Hallas og félaga þess efnis að orsakavaldurinn komi utan frá en verði ekki til innanhúss í dýnum og teppum hlýtur að breyta viðnámsaðgerðum í tengslum við ofnæmi manna.

Fjölmargar tegundir sníkjudýra hrjá menn um allan heim. Hér á landi er aðeins að finna lítið brot af þeim sníkjudýrum sem þekkt eru að því að sníkja á eða í mönnum. Mannasníkjudýrum má í grófum dráttum skipta í tvo hópa: Sníkjudýr sem lifa utan á mönnum, útsníkla, og dýr sem lifa innan í mönnum (innri sníkjudýr, innsníklar).

Höfuðlús (Pediculus humanus capitis).

Hér á landi verður enn þann dag í dag reglulega vart við þrjár tegundir útsníkla, mannakláðamítil, höfuðlús og flatlús. Allar teljast þær enn vera landlægar þótt sumir virðist halda að menn nái í þessar óværutegundir erlendis. Auðvitað gerist það einnig af og til. Undirstrikað skal að allar þessar tegundir hafa lifað góðu lífi á Íslendingum um alda raðir. Sumum finnst örugglega forvitnilegt að frétta að flatlýs hafi til dæmis fundist í Reykholti við rannsóknir á fornleifum frá síðari hluta miðalda! Tveimur óværutegundum til viðbótar hefur nú verið útrýmt á Íslandi. Þær eru fatalús (einnig nefnd búklús og er náskyld höfuðlúsinni) og mannafló. Það var ekki hvað síst með tilkomu sérvirkra skordýralyfja um miðbik 20. aldarinnar sem aldalöng barátta Íslendinga gegn óværu fór loks að skila eftirtektarverðum árangri.

Ekki má þó gleyma ýmsum öðrum hryggleysingjum sem stundum erta, bíta eða stinga fólk hér á landi. Í þessum hópi eru til dæmis lirfur fuglablóðagða. Þær þroskast í vatnabobbum en yfirgefa svo sniglana og taka strax til við að synda um í vatni í leit að löppum lokahýslanna sem geta til dæmis verið andfuglar (álftir, endur og gæsir). Beri leitin árangur melta lirfurnar sér leið í gegn um húðina og komast þannig inn í líkama fuglsins þar sem hver lirfa þroskast í kynþroska orm á nokkrum vikum. Lirfurnar ruglast iðulega á fuglshúð og mannshörundi og valda þá kláðabólum á fólki. Oftast eru lirfurnar taldar drepast í spendýrum en þó eru þekkt dæmi um að þær geti náð einhverjum þroska. Erlendis kallast þetta fyrirbæri sundmannakláði. Fólk er hvatt til að forðast þær aðstæður sem geta leitt til sundmannakláða þar sem ekki er hægt að útiloka að lirfurnar valdi sjúkdómi.

Sundmannakláði. Kláðabólur á baki.

Ýmsar mítlategundir tilheyra einnig þeim hópi hryggleysingja sem stundum erta, bíta eða stinga fólk. Hér má nefna mítla sem venjulega lifa annað hvort á fuglum (til dæmis lundamítill, áður oft nefnd lundalús) eða spendýrum (bæði stórir nagdýramítlar og litlir mítlar sem stundum hafa fundist á hundum eða köttum), tvær tegundir fuglaflóa, rottu- og músaflær, veggjalýs sem stöðugt verða algengari hér á landi með auknum fjölda ferðamanna, og síðast en ekki hvað síst bitmý, sem algengt er á sumrin í námunda við rennandi vatn. Eins og þessi upptalning sýnir eru þær hreint ekki svo fáar tegundirnar sem geta angrað fólk á Íslandi! Sumarið 2015 bættist lúsmý í þennan hóp þegar sérstök veðurskilyrði virðast hafa orðið til þess að þessi blóðsjúgandi skordýr sem áður voru ókunn hér á landi tóku að leggjast á fólk, meðal annars í Kjósinni. Margt er enn óljóst um hvað hér var á ferðinni.

Í hinum hópnum eru sníkjudýr sem lifa innan í fólki. Innsníklarnir halda oftast til í meltingarvegi en geta einnig verið í ýmsum vefjum eða líffærum líkamans eða þá í blóðrás. Eini ormurinn sem nú er algengur í meltingarfærum manna hérlendis er njálgur. Rannsóknir hafa raunar sýnt að sýkingartíðnin getur stundum orðið allhá í leikskóla- og grunnskólabörnum. Þess má einnig geta að um aldamótin 1900 fundu íslenskir læknar alloft spóluorma í mönnum. Bendir það til þess að mannaspóluormur kunni þá að hafa verið landlægur sums staðar. Náskyld tegund, svínaspóluormur, getur einnig stundum lifað í mönnum. Er sá enn í dag landlægur í svínum hérlendis.

Sullaveiki var mjög algeng í mönnum og dýrum (einkum í sauðfé) á Íslandi allt fram á fyrri hluta tuttugustu aldar. Eftir að bandorminum sem olli sullaveiki hafði verið útrýmt í hundum hvarf nýsmitun, bæði í mönnum og dýrum. Sjúkdómurinn fjaraði hratt út uns hann hvarf algjörlega.

Rétt er að nefna hér einnig lirfur hunda- og kattaspóluorma. Svonefndar annars stigs lirfur þessara orma eru þekktar að því að geta farið á flakk í mannslíkamanum lendi þroskuð egg ormanna niður í meltingarvegi manna. Þessi sníkjudýr eru allalgeng í mönnum erlendis, einkum þar sem mikið ormasmit er í hundum og köttum. Eggin eru sérlega lífseig og geta verið smithæf í umhverfinu mánuðum og jafnvel árum saman. Ekkert er enn sem komið er vitað um lirfuflakk hunda- og kattaspóluorma í mönnum hér á landi. Trúlega er þó mest hætta á því að börn fái ofan í sig egg kattaspóluorms í óvörðum sandkössum. Kettir grafa nefnilega úr sér skítinn og sækja í að urða hægðir sínar í þurrum, lausum sandi eins og á leiksvæðum barna. Einkum ber á þessu að vetrarlagi þegar frost er í jörðu og erfitt fyrir kettina að grafa skítinn annars staðar.

Að endingu skal nefnt að þekktar eru sex tegundir einfrumu sníkjudýra sem geta lifað í meltingarfærum manna hér á landi. Ekki hafa þó nema þrjár þeirra fundist í mönnum enn sem komið er en hinar hafa fundist hér í dýrum.

Myndir:

Svar við þessari spurningu birtist upprunalega 13.5.2002. Það var uppfært og endurbirt 25.2.2016.

...