Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Bessi sem Bessastaðir á Álftanesi heita eftir?

Ekki er vitað með vissu hver sá Bessi (Bersi) var sem Bessastaðir á Álftanesi eru kenndir við. Dönsk fræðikona, Jenny Jochens, telur að Snorri Sturluson hafi nefnt staðinn eftir Bersa Vermundarsyni hinum auðga á Borg, tengdaföður sínum (d. 1202) (Jenny Jochens, 85-86).

Danska fræðikonan Jenny Jochens telur að Snorri Sturluson hafi nefnt Bessastaði eftir Bersa Vermundarsyni tengdaföður sínum. Loftmynd af Bessastöðum.

Bessastaðir eiga sér langa og merkilega sögu. Á vefnum forseti.is er að finna ýmsan fróðleik um staðinn. Þar kemur meðal annars fram að rannsóknir fornleifafræðinga hafi leitt í ljós að fyrstu íbúar á Bessastöðum settust þar að á landnámsöld. Búseta hefur verið þar óslitin síðan.

Á þjóðveldisöld bjó skáldið og höfðinginn Snorri Sturluson (1178-1241) um tíma á Bessastöðum eins og getið er um í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar (1214-1284) en Snorri átti miklar jarðeignir og rak stórbú víða um vestan- og sunnarvert landið þegar veldi hans stóð hæst. Eftir að Snorri var veginn í Reykholti komust Bessastaðir í hendur Noregskonungs og síðari hluta miðalda sátu í konungsgarði á Bessastöðum æðstu fulltrúar erlends valds á Íslandi. Við einveldistöku Danakonungs breyttist stjórnsýslan talsvert og árið 1688 urðu Bessastaðir embættisbústaður fulltrúa konungs, landfógeta og amtmanns allt þar til yfirstjórn landsins fluttist til Reykjavíkur.

Í byrjun 19. aldar var Hólavallaskóli, sem þá var æðsta menntastofnun landsins, fluttur frá Reykjavík til Bessastaða. Þar starfaði skólinn óslitið til ársins 1846 þegar hann var aftur færður til Reykjavíkur. Margir þjóðkunnir Íslendingar voru kennarar við Bessastaðaskóla eða stunduðu þar nám. Eftir að skólahaldi lauk á Bessastöðum bjuggu þar ýmsir merkir menn, svo sem skáldið Grímur Thomsen (1820-1896) og Skúli Thoroddsen (1859-1916) ritstjóri og alþingismaður.

Árið 1941 fékk íslenska ríkið staðinn að gjöf frá Sigurði Jónassyni (1896-1965) forstjóra, svo þar mætti verða bústaður ríkisstjóra og síðar forsetasetur.

Heimildir og mynd:

  • Jenny Jochens. Navnet Bessastaðir. Frejas psalter. En psalter i 40 afdelinger til brug for Jonna Louis-Jensen. Kbh. 1997, 85-89.
  • forseti.is. (Skoðað 19. 2. 2013).
  • Mynd: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 18. 1. 2013).

Útgáfudagur

11.3.2013

Spyrjandi

Björg Karítas Jónsdóttir

Höfundar

Svavar Sigmundsson

fyrrv. forstöðumaður Örnefnastofnunar

Tilvísun

Svavar Sigmundsson og EDS. „Hver var Bessi sem Bessastaðir á Álftanesi heita eftir?“ Vísindavefurinn, 11. mars 2013. Sótt 19. janúar 2020. http://visindavefur.is/svar.php?id=62868.

Svavar Sigmundsson og EDS. (2013, 11. mars). Hver var Bessi sem Bessastaðir á Álftanesi heita eftir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62868

Svavar Sigmundsson og EDS. „Hver var Bessi sem Bessastaðir á Álftanesi heita eftir?“ Vísindavefurinn. 11. mar. 2013. Vefsíða. 19. jan. 2020. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62868>.

Chicago | APA | MLA

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Sigurjón Baldur Hafsteinsson

1964

Sigurjón Baldur Hafsteinsson er prófessor í safnafræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Rannsóknir Sigurjóns Baldurs hafa meðal annars snúið að viðhorfi Íslendinga til dauða og sorgar, en þau viðhorf eru tengd félagspólitískum breytingum sem orðið hafa á Íslandi á undanförnum þrjátíu árum.