- Orðið "þetta" vísar til sjálfs sín. Við getum þá lesið setninguna svona:
Ef "þetta" er spurning hvert er þá svarið?
En orðið "þetta" eitt og sér er augljóslega ekki spurning þannig að setningin í heild er þá ekki heldur spurning. Með henni er ekki verið að biðja um neinar upplýsingar, samanber svör Erlendar Jónssonar við spurningunni Er þetta spurning? og fleiri spurningum í svipuðum dúr. Með öðrum orðum: Ef við skiljum setninguna svona þá kallar hún ekki á neinar aðgerðir af hálfu viðtakandans eða þess sem henni er beint að. - Orðið "þetta" vísar til setningarinnar í heild. Við getum þá umritað textann í reitnum svona:
Ef setningin "Ef þetta er spurning hvert er þá svarið?" er spurning, hvert er þá svarið við henni?
Við sjáum ekki betur en að við getum nú fellt textann í reitnum í þann flokk sem hefur verið kallaður staðlaus á íslensku (e. counterfactual); textinn er þá staðlaus spurning. Við fáum á Vísindavefinn dálítið af slíkum „spurningum“ sem eru byggðar á forsendum sem standast ekki. Samkvæmt þessum skilningi er setningin í reitnum sama eðlis og ef við segðum:Ef tunglið er úr osti hvað er þá klukkan?
Vonandi er öllum ljóst að þessi setning kallar ekki á neinar aðgerðir af okkar hálfu; sá sem segir þetta er í raun ekki að spyrja okkur hvað klukkan er og textinn er í þeim skilningi ekki spurning! Og á sama hátt er setningin í svarsreitnum í rauninni ekki spurning ef þessi skilningur er lagður í hana. - En í þriðja lagi getur verið að orðið "þetta" vísi á eitthvað sérstakt. Til dæmis getur verið að sá sem segir þessa setningu bendi um leið á dagblaðsfyrirsögn þar sem stendur skýrum stöfum: "HVAÐ ER AUÐGUN ÚRANS?" Við getum þá sagt honum að nú sé setningin spurning, bent honum á snotran texta um auðgun úrans og sagt um leið: Þetta er svarið. Ef hann bendir á textann "ER ÍSLAND EYJA?" getum við sagt honum að það sé spurning og svarið við henni sé "Já".
Ef þetta er spurning hvert er þá svarið?
Útgáfudagur
10.10.2006
Spyrjandi
Simmi Jónsson, f. 1994
Tilvísun
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Ef þetta er spurning hvert er þá svarið?“ Vísindavefurinn, 10. október 2006, sótt 13. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6290.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2006, 10. október). Ef þetta er spurning hvert er þá svarið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6290
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Ef þetta er spurning hvert er þá svarið?“ Vísindavefurinn. 10. okt. 2006. Vefsíða. 13. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6290>.