Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er hagkvæmt að setja upp vindmyllur til raforkuframleiðslu á Íslandi?

Hákon Aðalsteinsson og Sigurður Ingi Friðleifsson

Vindorkan, líkt og vatnsorkan, rekur uppruna sinn til geislunar frá sólinni og hringrásar orku frá miðbaugssvæðunum norður á bóginn. Vindorkan er þannig endurnýjanleg auðlind. Mikil þróun hefur orðið í hönnun á vindmyllum undanfarin ár. Fyrir um áratug var orkuframleiðsla stærstu myllanna um og innan við 1 MW, en nú framleiða stærstu myllurnar um 5 MW. Það er fyrst og fremst bætt efnistækni við hönnun og smíði á spöðum vindmyllanna sem hefur gert þessa þróun mögulega.

Uppsetningarkostnaður á vindmyllu er svipaður á afleiningu og í hagkvæmri vatnsaflsstöð, en framleiðslukostnaður orkunnar er hins vegar umtalsvert hærri vegna skemmri nýtingartíma. Margar nágrannaþjóðir okkar, eins og Danir og Þjóðverjar, hafa kosið að greiða með vindorkustöðvum til að reyna að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Vindmyllur þurfa aðeins lágmarksvindstyrk og detta út þegar vindur fer yfir tiltekin mörk. Til þess að hægt sé að reka vindmyllur sem hluta af nútímaraforkukerfi þarf kerfið því að geta gripið til einhvers varaafls, þar sem miklar kröfur eru gerðar um afhendingaröryggi. Það er því mikilvægt að geta séð fyrir með viðunandi nákvæmni hvort hætta sé á að vindmyllurnar detti út. Þetta á þó einkum við ef það eru varmastöðvar (kola-, olíu- eða gasstöðvar) sem sjá um varaaflið þar sem þær þurfa tíma til að hitna og ná upp vinnslu. Slíkar varastöðvar kosta talsverða fjármuni auk þess sem þær losa umtalsvert magn af koltvíoxíð (CO2). Það þarf hins vegar mun minni fyrirvara til að nýta sér varaafl vatnsorkukerfis og það getur því nýst án þess að truflanir verði á orkudreifingunni.


Íslendingar hafa lítið notað jarðefnaeldsneyti til hitunar eða raforkuframleiðslu, því að við höfum hér bæði jarðvarma og vatnsorku. Við þurfum því ekki á vindorku að halda til að koma í stað jarðefnaeldsneytis líkt og Danir og Þjóðverjar. Af þessum sökum myndi þurfa að sýna sérstaklega fram á að vindrafstöðvar gætu staðið undir sér og væru hagkvæmari kostir en þeir sem fyrir eru. Fyrir rekstur vindorkustöðva skiptir miklu máli á hvaða verði viðbragðsorkan er sem grípa þarf til þegar vindmyllan dettur út. Erfitt er að velja forsendur slíkra útreikninga, ekki síst vegna þess að viðskipti með orku eru á frjálsum samkeppnismarkaði. Hins vegar er áhugavert að kanna samspil vatnsorku og vindorku, til dæmis hvort hagkvæmt gæti verið að nýta vindorku til að dæla vatni í miðlunarlón.

Orkustofnun og Veðurstofa Íslands hafa í samstarfi við aðila úr orkuiðnaðnum verið að vinna að því að gera vindorkuatlas af öllu landinu. Unnið hefur verið úr gögnum frá öllum tiltækum veðurstöðvum þar sem vindur er mældur. Niðurstöður má sjá á gagnavefsja.is. Í náinni framtíð verða þessi gögn tengd vindlíkani, en út frá því má fara nærri um möguleika til uppsetningar á vindmyllum nánast hvar sem er á landinu. Þá verður mögulegt að reikna nýtanlega vindorku út frá mismunandi forsendum, til dæmis miðað við tiltekna fjarlægð frá byggð eða hentugum flutningslínum og tengistöðvum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Höfundar

sérfræðingur við Orkustofnun

framkvæmdastjóri Orkuseturs

Útgáfudagur

16.10.2006

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Hákon Aðalsteinsson og Sigurður Ingi Friðleifsson. „Er hagkvæmt að setja upp vindmyllur til raforkuframleiðslu á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 16. október 2006, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6315.

Hákon Aðalsteinsson og Sigurður Ingi Friðleifsson. (2006, 16. október). Er hagkvæmt að setja upp vindmyllur til raforkuframleiðslu á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6315

Hákon Aðalsteinsson og Sigurður Ingi Friðleifsson. „Er hagkvæmt að setja upp vindmyllur til raforkuframleiðslu á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 16. okt. 2006. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6315>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er hagkvæmt að setja upp vindmyllur til raforkuframleiðslu á Íslandi?
Vindorkan, líkt og vatnsorkan, rekur uppruna sinn til geislunar frá sólinni og hringrásar orku frá miðbaugssvæðunum norður á bóginn. Vindorkan er þannig endurnýjanleg auðlind. Mikil þróun hefur orðið í hönnun á vindmyllum undanfarin ár. Fyrir um áratug var orkuframleiðsla stærstu myllanna um og innan við 1 MW, en nú framleiða stærstu myllurnar um 5 MW. Það er fyrst og fremst bætt efnistækni við hönnun og smíði á spöðum vindmyllanna sem hefur gert þessa þróun mögulega.

Uppsetningarkostnaður á vindmyllu er svipaður á afleiningu og í hagkvæmri vatnsaflsstöð, en framleiðslukostnaður orkunnar er hins vegar umtalsvert hærri vegna skemmri nýtingartíma. Margar nágrannaþjóðir okkar, eins og Danir og Þjóðverjar, hafa kosið að greiða með vindorkustöðvum til að reyna að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Vindmyllur þurfa aðeins lágmarksvindstyrk og detta út þegar vindur fer yfir tiltekin mörk. Til þess að hægt sé að reka vindmyllur sem hluta af nútímaraforkukerfi þarf kerfið því að geta gripið til einhvers varaafls, þar sem miklar kröfur eru gerðar um afhendingaröryggi. Það er því mikilvægt að geta séð fyrir með viðunandi nákvæmni hvort hætta sé á að vindmyllurnar detti út. Þetta á þó einkum við ef það eru varmastöðvar (kola-, olíu- eða gasstöðvar) sem sjá um varaaflið þar sem þær þurfa tíma til að hitna og ná upp vinnslu. Slíkar varastöðvar kosta talsverða fjármuni auk þess sem þær losa umtalsvert magn af koltvíoxíð (CO2). Það þarf hins vegar mun minni fyrirvara til að nýta sér varaafl vatnsorkukerfis og það getur því nýst án þess að truflanir verði á orkudreifingunni.


Íslendingar hafa lítið notað jarðefnaeldsneyti til hitunar eða raforkuframleiðslu, því að við höfum hér bæði jarðvarma og vatnsorku. Við þurfum því ekki á vindorku að halda til að koma í stað jarðefnaeldsneytis líkt og Danir og Þjóðverjar. Af þessum sökum myndi þurfa að sýna sérstaklega fram á að vindrafstöðvar gætu staðið undir sér og væru hagkvæmari kostir en þeir sem fyrir eru. Fyrir rekstur vindorkustöðva skiptir miklu máli á hvaða verði viðbragðsorkan er sem grípa þarf til þegar vindmyllan dettur út. Erfitt er að velja forsendur slíkra útreikninga, ekki síst vegna þess að viðskipti með orku eru á frjálsum samkeppnismarkaði. Hins vegar er áhugavert að kanna samspil vatnsorku og vindorku, til dæmis hvort hagkvæmt gæti verið að nýta vindorku til að dæla vatni í miðlunarlón.

Orkustofnun og Veðurstofa Íslands hafa í samstarfi við aðila úr orkuiðnaðnum verið að vinna að því að gera vindorkuatlas af öllu landinu. Unnið hefur verið úr gögnum frá öllum tiltækum veðurstöðvum þar sem vindur er mældur. Niðurstöður má sjá á gagnavefsja.is. Í náinni framtíð verða þessi gögn tengd vindlíkani, en út frá því má fara nærri um möguleika til uppsetningar á vindmyllum nánast hvar sem er á landinu. Þá verður mögulegt að reikna nýtanlega vindorku út frá mismunandi forsendum, til dæmis miðað við tiltekna fjarlægð frá byggð eða hentugum flutningslínum og tengistöðvum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:...