Uppsetningarkostnaður á vindmyllu er svipaður á afleiningu og í hagkvæmri vatnsaflsstöð, en framleiðslukostnaður orkunnar er hins vegar umtalsvert hærri vegna skemmri nýtingartíma. Margar nágrannaþjóðir okkar, eins og Danir og Þjóðverjar, hafa kosið að greiða með vindorkustöðvum til að reyna að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.
Vindmyllur þurfa aðeins lágmarksvindstyrk og detta út þegar vindur fer yfir tiltekin mörk. Til þess að hægt sé að reka vindmyllur sem hluta af nútímaraforkukerfi þarf kerfið því að geta gripið til einhvers varaafls, þar sem miklar kröfur eru gerðar um afhendingaröryggi. Það er því mikilvægt að geta séð fyrir með viðunandi nákvæmni hvort hætta sé á að vindmyllurnar detti út. Þetta á þó einkum við ef það eru varmastöðvar (kola-, olíu- eða gasstöðvar) sem sjá um varaaflið þar sem þær þurfa tíma til að hitna og ná upp vinnslu. Slíkar varastöðvar kosta talsverða fjármuni auk þess sem þær losa umtalsvert magn af koltvíoxíð (CO2). Það þarf hins vegar mun minni fyrirvara til að nýta sér varaafl vatnsorkukerfis og það getur því nýst án þess að truflanir verði á orkudreifingunni.
Íslendingar hafa lítið notað jarðefnaeldsneyti til hitunar eða raforkuframleiðslu, því að við höfum hér bæði jarðvarma og vatnsorku. Við þurfum því ekki á vindorku að halda til að koma í stað jarðefnaeldsneytis líkt og Danir og Þjóðverjar. Af þessum sökum myndi þurfa að sýna sérstaklega fram á að vindrafstöðvar gætu staðið undir sér og væru hagkvæmari kostir en þeir sem fyrir eru. Fyrir rekstur vindorkustöðva skiptir miklu máli á hvaða verði viðbragðsorkan er sem grípa þarf til þegar vindmyllan dettur út. Erfitt er að velja forsendur slíkra útreikninga, ekki síst vegna þess að viðskipti með orku eru á frjálsum samkeppnismarkaði. Hins vegar er áhugavert að kanna samspil vatnsorku og vindorku, til dæmis hvort hagkvæmt gæti verið að nýta vindorku til að dæla vatni í miðlunarlón. Orkustofnun og Veðurstofa Íslands hafa í samstarfi við aðila úr orkuiðnaðnum verið að vinna að því að gera vindorkuatlas af öllu landinu. Unnið hefur verið úr gögnum frá öllum tiltækum veðurstöðvum þar sem vindur er mældur. Niðurstöður má sjá á gagnavefsja.is. Í náinni framtíð verða þessi gögn tengd vindlíkani, en út frá því má fara nærri um möguleika til uppsetningar á vindmyllum nánast hvar sem er á landinu. Þá verður mögulegt að reikna nýtanlega vindorku út frá mismunandi forsendum, til dæmis miðað við tiltekna fjarlægð frá byggð eða hentugum flutningslínum og tengistöðvum. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvernig er hægt að geyma og nýta orku frá vindrafstöðvum? eftir Egil B. Hreinsson
- Hvað er að segja um vetni sem orkugjafa framtíðarinnar? eftir Braga Árnason
- Af hverju er vindur? eftir Harald Ólafsson
- Hvað eru vind- og sólarorka? eftir Guðmund Kára Stefánsson