Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:49 • sest 15:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:52 • Síðdegis: 19:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:36 • Síðdegis: 13:09 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Hannes Finnsson?

Hjalti Hugason

Hannes Finnsson (1739-1796) fæddist í Reykholti í Borgarfirði. Hann var sonur Guðríðar Gísladóttur (1707-1766) og Finns Jónssonar (1704-1789). Guðríður var sonardóttir Jóns Vigfússonar (Bauka-Jóns, 1643-1690) sem varð biskup á Hólum eftir nokkuð ævintýralegan feril sem sýslumaður. Finnur var af prestaætt sem lengi hafði setið Reykholt en lagði líka grunn að íslenskri sagnaritun í seinni tíð ekki síst á sviði kirkjusögu. Ber þar einkum að geta afa Hannesar, Jóns Halldórssonar (1665-1736) í Hítardal, en á gögnum úr safni hans byggði Finnur mikið rit um íslenska kirkjusögu, Historia ecclesiastica Islandiæ, sem kom út í fjórum bindum (1772-1778). Vann Hannes að frágangi ritsins. Má því líta á það sem verk þriggja kynslóða.

Hannes Finnsson (1736-1796).

Sextán ára gamall innritaðist Hannes í Kaupmannahafnarháskóla. Þaðan útskrifaðist hann sem guðfræðingur 1763 en dvaldi áfram ytra við fræðastörf til 1767. Námsferill guðfræðistúdents var með mikið öðrum hætti fyrr á öldum en síðar varð og lögðu þeir meiri eða minni stund á fjölda annarra fræðigreina. Þá mótuðu menntaviðhorf upplýsingarstefnunnar nám Hannesar en henni fylgdi aukin áhersla á raungreinar, hagnýt fræði og hinar „nýju“ þjóðtungur álfunnar í stað latínu og klassískra fræða áður.

Kaupmannahafnardvöl Hannesar var með öðrum hætti en almennt gerðist um Hafnarstúdenta sem oft bjuggu við félagslega einangrun og efnalegan skort er Garðvist og námsstyrk sem þeir nutu að minnsta kosti framan af námi sínu þraut. Jón Eiríksson (1728-1787) konferensráð sem þekktur er í íslenskri sögu var tilsjónarmaður Hannesar frá upphafi. Vegna tengsla við hann og upphefðar föðurins hefur Hannes átt kost á fjölþættari tengslum við embættismannastéttina í Kaupmannahöfn og greiðara aðgengi að menningar- og félagslífi borgarinnar en gerðist um landa hans. Þetta hefur mótað viðhorf hans ekki síður en háskólanámið sjálft.

Fræðasviðum þeim sem við sögu komu í námsferli Hannesar má skipta í nokkur svið: Fornfræði, norræn og íslensk auk klassísku málanna, latínu, grísku og hebresku sem að nokkru tengdust guðfræðinni; stærðfræði, náttúruvísindi, „þjóðhagfræði“ og þjóðarétti; nýmál, frönsku og þýsku og loks heimspeki og guðfræði. Hannesi stóðu ýmsir kostir til boða að námi loknu meðal annars að gerast þýðandi við hirð Frakkakonungs sem hann afþakkaði vegna lútherskrar trúar sinnar. Þá bauðst honum staða stærðfræðikennara við skóla fyrir unga aðalsmenn. Síðar bauðst honum kennarastaða í norrænum fornfræðum í Kaupmannahöfn en sviptingarnar í kringum Johann Friedrich Struensee á árunum 1770-1772 komu í veg fyrir að það gengi eftir. Hannes dvaldi öðru sinni í Kaupmannahöfn á árunum 1770-1777 og vann meðal annars að kirkjusögu föður síns og var ritari í Árnasafni.

Finnur biskup kallaði Hannes til aðstoðar við sig og sem eftirmann sinn og fékk því framgengt en konungur veitti á þessum tíma biskupsembættið. Hannes vígðist prestsvígslu í Kaupmannahöfn 1776 og biskupsvígslu ári síðar. Fræðilega séð var Hannes mótaður af upplýsingartímanum og hefur honum verið legið á hálsi fyrir að hafa verið óþjóðlegur á ýmsa lund en upplýsingarstefnan var mun alþjóðlegri í áherslum sínum en rómantíkin sem lá þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga til grundvallar á 19. öld og mótaði lengi íslenska söguritun. Sú ákvörðun Hannesar að helga Íslandi krafta sína á því erfiða tímabili sem öld hans var í sögu þess bendir þó tvímælalaust til átthagatryggðar. Í guðfræðilegu tilliti var Hannes fylgjandi svokallaðri frumupplýsingu sem leit svo á að guðleg opinberun væri samrýmanleg mannlegri skynsemi og lagði áherslu á síðarnefnda þáttinn sem uppistöðu í trúarhugsuninni í stað tilfinningar, innsæis eða samsömunar.

Heim kominn kvæntist Hannes Þórunni Ólafsdóttur Stefánssonar (Stephensen) amtmanns (1764-1786) og tengdist þar með helstu valdastétt landsins. Varð hann meðal annars mágur Magnúsar Stephensen (1762-1833) dómsstjóra. Þremur árum eftir dauða Þórunnar kvæntist hann Valgerði Jónsdóttur (1771-1856) sýslumannsdóttur frá Móeiðarhvoli sem síðar átti Steingrím Jónsson (1769-1845) biskup. Í sjálfsævisögu Jóns Steingrímssonar (1728-1791) eldklerks er að finna fremur nöturlega mynd af samskiptum þeirra sem bent gæti til þess að Hannes hafi verið fjarrænn háembættismaður (Jón Steingrímsson: Æfisagan og önnur rit. Reykjavík 1973: 218). Ekki skulu þó dregnar of víðtækar ályktanir af þeirri lýsingu. Hannes varð ýmiss heiðurs aðnjótandi erlendis. Hann varð heiðursdoktor í guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla (1790), heiðursfélagi í norska vísindafélaginu í Þrándheimi, fornfræðafélagi í Lundúnum, Hinu konunglega íslenska lærdómslistafélagi í Kaupmannahöfn og danska landbúnaðarfélaginu.

Kvöldvökur voru alþýðulestrarbók sem Hannes biskup Finnsson tók saman. Bókin kom út í tveimur bindum á árunum 1796-1797.

Á Hafnarárum sínum fékkst Hannes einkum við forn fræði, samdi verðlaunaritgerð um fornan, norrænan kirkjurétt, starfaði að rannsóknum og útgáfu íslenskra fornrita og vann að kirkjusögu Finns föður síns eins og fram er komið en samdi og skýrslu um Heklugosið 1766. Er heim var komið beindust ritstörf hans einkum í hagnýtan farveg og samdi hann fjölda uppfræðandi ritsmíða af ýmsu tagi sem birtust í Kvöldvökum 1794 sem út komu í Leirárgörðum (1796 og 1797) og öðrum ritum Lærdóms- og Landsuppfræðingarfélaganna. Má raunar segja að meginhluta starfsævi Hannesar á Íslandi hafi árað illa fyrir vísindastörf í landinu og embætti hans líklega ekki gefið mikið svigrúm til slíks. Með Kvöldvökunum miðlaði hann þó viðhorfum upplýsingarinnar til almennings og kostaði kapps um að stuðla að framförum.

Það rit sem lengst mun halda minningu Hannesar á lofti er þó ekki guðfræðilegs eðlis heldur veraldlegs. Er þar átt við Mannfækkun af hallærum á Íslandi. Þar rekur Hannes áhrif hallæra og hungursneyða á afkomu þjóðarinnar og mannfjölda í landinu. Hann getur á hinn bóginn varla mannfækkunar af öðrum ástæðum til dæmis vegna skæðra sjúkdóma. Spannar ritið sögu þjóðarinnar frá landnámi og fram til ritunartímans. Það byggir einkum á annálum en einnig ýmsum öðrum rituðum heimildum og varpar ljósi á mikla þekkingu Hannesar á því svið en þess ber að gæta að á hans tíma var útgáfa sögulegra heimilda rétt hafin. Líklega er Mannfækkun af hallærum einn af ávöxtum þess mikla heimildabanka sem byggður hafði verið upp í Hítardal og gerði meðal annars kirkjusögu Finns mögulega.

Guðfræðin er þó raunar ekki langt undan í Mannfækkun af hallærum. Ritgerðin birtist í næstsíðasta árgangi í ritum Lærdómslitafélagsins 1796 eða rúmum áratug eftir upphaf móðuharðindanna og var yfirlýstur tilgangur þess að sýna fram á að þjóðin hefði áður gengið í gegnum mikil áföll vegna eldgosa, harðinda, hafíss og hungursneyða en náð að rétta við aftur. Því væri og von til þess að svo færi líka í yfirstandandi harðæri. Hér er því á ferðinni söguleg þjóðhagslýsing með samtímaskírskotun og hvetjandi boðskap.

Myndir:

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

15.10.2012

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hver var Hannes Finnsson?“ Vísindavefurinn, 15. október 2012, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=63185.

Hjalti Hugason. (2012, 15. október). Hver var Hannes Finnsson? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=63185

Hjalti Hugason. „Hver var Hannes Finnsson?“ Vísindavefurinn. 15. okt. 2012. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=63185>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Hannes Finnsson?
Hannes Finnsson (1739-1796) fæddist í Reykholti í Borgarfirði. Hann var sonur Guðríðar Gísladóttur (1707-1766) og Finns Jónssonar (1704-1789). Guðríður var sonardóttir Jóns Vigfússonar (Bauka-Jóns, 1643-1690) sem varð biskup á Hólum eftir nokkuð ævintýralegan feril sem sýslumaður. Finnur var af prestaætt sem lengi hafði setið Reykholt en lagði líka grunn að íslenskri sagnaritun í seinni tíð ekki síst á sviði kirkjusögu. Ber þar einkum að geta afa Hannesar, Jóns Halldórssonar (1665-1736) í Hítardal, en á gögnum úr safni hans byggði Finnur mikið rit um íslenska kirkjusögu, Historia ecclesiastica Islandiæ, sem kom út í fjórum bindum (1772-1778). Vann Hannes að frágangi ritsins. Má því líta á það sem verk þriggja kynslóða.

Hannes Finnsson (1736-1796).

Sextán ára gamall innritaðist Hannes í Kaupmannahafnarháskóla. Þaðan útskrifaðist hann sem guðfræðingur 1763 en dvaldi áfram ytra við fræðastörf til 1767. Námsferill guðfræðistúdents var með mikið öðrum hætti fyrr á öldum en síðar varð og lögðu þeir meiri eða minni stund á fjölda annarra fræðigreina. Þá mótuðu menntaviðhorf upplýsingarstefnunnar nám Hannesar en henni fylgdi aukin áhersla á raungreinar, hagnýt fræði og hinar „nýju“ þjóðtungur álfunnar í stað latínu og klassískra fræða áður.

Kaupmannahafnardvöl Hannesar var með öðrum hætti en almennt gerðist um Hafnarstúdenta sem oft bjuggu við félagslega einangrun og efnalegan skort er Garðvist og námsstyrk sem þeir nutu að minnsta kosti framan af námi sínu þraut. Jón Eiríksson (1728-1787) konferensráð sem þekktur er í íslenskri sögu var tilsjónarmaður Hannesar frá upphafi. Vegna tengsla við hann og upphefðar föðurins hefur Hannes átt kost á fjölþættari tengslum við embættismannastéttina í Kaupmannahöfn og greiðara aðgengi að menningar- og félagslífi borgarinnar en gerðist um landa hans. Þetta hefur mótað viðhorf hans ekki síður en háskólanámið sjálft.

Fræðasviðum þeim sem við sögu komu í námsferli Hannesar má skipta í nokkur svið: Fornfræði, norræn og íslensk auk klassísku málanna, latínu, grísku og hebresku sem að nokkru tengdust guðfræðinni; stærðfræði, náttúruvísindi, „þjóðhagfræði“ og þjóðarétti; nýmál, frönsku og þýsku og loks heimspeki og guðfræði. Hannesi stóðu ýmsir kostir til boða að námi loknu meðal annars að gerast þýðandi við hirð Frakkakonungs sem hann afþakkaði vegna lútherskrar trúar sinnar. Þá bauðst honum staða stærðfræðikennara við skóla fyrir unga aðalsmenn. Síðar bauðst honum kennarastaða í norrænum fornfræðum í Kaupmannahöfn en sviptingarnar í kringum Johann Friedrich Struensee á árunum 1770-1772 komu í veg fyrir að það gengi eftir. Hannes dvaldi öðru sinni í Kaupmannahöfn á árunum 1770-1777 og vann meðal annars að kirkjusögu föður síns og var ritari í Árnasafni.

Finnur biskup kallaði Hannes til aðstoðar við sig og sem eftirmann sinn og fékk því framgengt en konungur veitti á þessum tíma biskupsembættið. Hannes vígðist prestsvígslu í Kaupmannahöfn 1776 og biskupsvígslu ári síðar. Fræðilega séð var Hannes mótaður af upplýsingartímanum og hefur honum verið legið á hálsi fyrir að hafa verið óþjóðlegur á ýmsa lund en upplýsingarstefnan var mun alþjóðlegri í áherslum sínum en rómantíkin sem lá þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga til grundvallar á 19. öld og mótaði lengi íslenska söguritun. Sú ákvörðun Hannesar að helga Íslandi krafta sína á því erfiða tímabili sem öld hans var í sögu þess bendir þó tvímælalaust til átthagatryggðar. Í guðfræðilegu tilliti var Hannes fylgjandi svokallaðri frumupplýsingu sem leit svo á að guðleg opinberun væri samrýmanleg mannlegri skynsemi og lagði áherslu á síðarnefnda þáttinn sem uppistöðu í trúarhugsuninni í stað tilfinningar, innsæis eða samsömunar.

Heim kominn kvæntist Hannes Þórunni Ólafsdóttur Stefánssonar (Stephensen) amtmanns (1764-1786) og tengdist þar með helstu valdastétt landsins. Varð hann meðal annars mágur Magnúsar Stephensen (1762-1833) dómsstjóra. Þremur árum eftir dauða Þórunnar kvæntist hann Valgerði Jónsdóttur (1771-1856) sýslumannsdóttur frá Móeiðarhvoli sem síðar átti Steingrím Jónsson (1769-1845) biskup. Í sjálfsævisögu Jóns Steingrímssonar (1728-1791) eldklerks er að finna fremur nöturlega mynd af samskiptum þeirra sem bent gæti til þess að Hannes hafi verið fjarrænn háembættismaður (Jón Steingrímsson: Æfisagan og önnur rit. Reykjavík 1973: 218). Ekki skulu þó dregnar of víðtækar ályktanir af þeirri lýsingu. Hannes varð ýmiss heiðurs aðnjótandi erlendis. Hann varð heiðursdoktor í guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla (1790), heiðursfélagi í norska vísindafélaginu í Þrándheimi, fornfræðafélagi í Lundúnum, Hinu konunglega íslenska lærdómslistafélagi í Kaupmannahöfn og danska landbúnaðarfélaginu.

Kvöldvökur voru alþýðulestrarbók sem Hannes biskup Finnsson tók saman. Bókin kom út í tveimur bindum á árunum 1796-1797.

Á Hafnarárum sínum fékkst Hannes einkum við forn fræði, samdi verðlaunaritgerð um fornan, norrænan kirkjurétt, starfaði að rannsóknum og útgáfu íslenskra fornrita og vann að kirkjusögu Finns föður síns eins og fram er komið en samdi og skýrslu um Heklugosið 1766. Er heim var komið beindust ritstörf hans einkum í hagnýtan farveg og samdi hann fjölda uppfræðandi ritsmíða af ýmsu tagi sem birtust í Kvöldvökum 1794 sem út komu í Leirárgörðum (1796 og 1797) og öðrum ritum Lærdóms- og Landsuppfræðingarfélaganna. Má raunar segja að meginhluta starfsævi Hannesar á Íslandi hafi árað illa fyrir vísindastörf í landinu og embætti hans líklega ekki gefið mikið svigrúm til slíks. Með Kvöldvökunum miðlaði hann þó viðhorfum upplýsingarinnar til almennings og kostaði kapps um að stuðla að framförum.

Það rit sem lengst mun halda minningu Hannesar á lofti er þó ekki guðfræðilegs eðlis heldur veraldlegs. Er þar átt við Mannfækkun af hallærum á Íslandi. Þar rekur Hannes áhrif hallæra og hungursneyða á afkomu þjóðarinnar og mannfjölda í landinu. Hann getur á hinn bóginn varla mannfækkunar af öðrum ástæðum til dæmis vegna skæðra sjúkdóma. Spannar ritið sögu þjóðarinnar frá landnámi og fram til ritunartímans. Það byggir einkum á annálum en einnig ýmsum öðrum rituðum heimildum og varpar ljósi á mikla þekkingu Hannesar á því svið en þess ber að gæta að á hans tíma var útgáfa sögulegra heimilda rétt hafin. Líklega er Mannfækkun af hallærum einn af ávöxtum þess mikla heimildabanka sem byggður hafði verið upp í Hítardal og gerði meðal annars kirkjusögu Finns mögulega.

Guðfræðin er þó raunar ekki langt undan í Mannfækkun af hallærum. Ritgerðin birtist í næstsíðasta árgangi í ritum Lærdómslitafélagsins 1796 eða rúmum áratug eftir upphaf móðuharðindanna og var yfirlýstur tilgangur þess að sýna fram á að þjóðin hefði áður gengið í gegnum mikil áföll vegna eldgosa, harðinda, hafíss og hungursneyða en náð að rétta við aftur. Því væri og von til þess að svo færi líka í yfirstandandi harðæri. Hér er því á ferðinni söguleg þjóðhagslýsing með samtímaskírskotun og hvetjandi boðskap.

Myndir:...