Mig langar að heyra hvort það geti passað á ég sé i blóðflokki A en foreldrar minir báðir i O?Já, það er mögulegt, en afar sjaldgæft. Blóðflokkarnir eru fjórir talsins; A, AB, B og O. Fólk í A-blóðflokki hefur A-mótefnisvaka á rauðum blóðkornum sínum, fólk í B-blóðflokki hefur B-mótefnisvaka, fólk í AB-blóðflokki hefur þá báða og í O-blóðflokki hefur fólk hvorugan.
Mögulegar arfgerðir og svipgerðir barna foreldra sem hafa arfgerðirnar AO og BO. Undantekningar eru á þessu, til að mynda í Bombay-svipgerðinni.
Mótefnavakar A og B eru báðir búnir til úr annars konar mótefnavaka, svokölluðum H-mótefnavaka. Þessi forveri (e. precursor) A- og B-mótefnavaka er einnig til staðar á rauðum blóðkornum fólks í O-flokki. Fólk með svokallaða Bombay-svipgerð (nefnt eftir borginni Bombay á Indlandi) hefur aftur á móti enga slíka H-mótefnisvaka og getur því hvorki myndað A-mótefnavaka né B-mótefnavaka jafnvel þótt það ætti samkvæmt arfgerð sinni að gera það. Þetta fólk myndi þess vegna alltaf mælast í O-blóðflokki sama hvaða genasamsætur ABO-blóðflokkakerfisins það erfði frá foreldrum sínum. Sé barn manns í AB-blóðflokki af Bombay-svipgerð væri því hægt að svara upphaflegu spurningunni játandi.Því gæti það verið að annað foreldrið í þessu dæmi hafi arfgerð fyrir A-blóðflokk en hafi síðan Bombay-svipgerðina. Arfgerðin fyrir A-blóðflokkinn gæti svo hafa erfst til barnsins sem er því í blóðflokki A og hefur ekki Bombay-svipgerðina. Bombay-svipgerðin er þó afar sjaldgæf, en einungis um 0,0004% fólks er talið hafa hana. Fólk með Bombay-svipgerðina getur gefið flestum blóð, en einungis þegið blóð frá öðrum með svipgerðina. Mynd:
- Wikipedia - ABO system codominance. (Sótt 17.11.2018).