Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Aðrir spyrjendur eru: Einar Hauksson, Þórunn Heimisdóttir f. 1990, Steinar K. f. 1992, Guðrún Þóroddsdóttir og Andri Ásgrímsson f. 1988.
Ágætt er að gera nokkurn greinarmun á prótíndufti og öðrum svokölluðum fæðubótarefnum, en prótínduft er í raun bara hreint prótín. Fullorðin manneskja þarf að jafnaði 0,8 g af prótíni á hvert kílógramm líkamans eða um 50-80 g á dag. Þessi þörf getur aukist töluvert ef viðkomandi vinnur erfiðisvinnu eða æfir íþróttir af miklu kappi. Algengt er að langhlauparar og aðrir íþróttamenn sem æfa í yfir 15 klukkustundir á viku hafi allt að tvöfalda prótínþörf á við meðalmann.
Í þessu sambandi er þumalputtareglan sú að í 100 g af kjöti eða fiski eru 20-30 g af hreinu prótíni. Best er að einstaklingurinn fái allt prótín úr venjulegu fæði, en auðvitað er betra að fullnægja prótínþörfinni með prótíndufti ef ekki er hægt að gera það á annan hátt.
Flest fólk getur fullnægt prótínþörf sinni með því að neyta venjulegs matar. Egg eru til að mynda mjög prótínrík.
Frá Landlæknisembættinu birtist árið 2002 pistill um fæðubótarefni og gildi þeirra fyrir venjulegt fólk. Þar kemur fram að inntaka fæðubótarefna hefur í besta falli engin sérstök áhrif og í versta falli geta þau beinlínis verið skaðleg. Reyndar hafa áhrif langvarandi neyslu þeirra flestra ekki verið rannsökuð. Með því að taka inn fæðubótarefni er fólk því að taka ákveðna áhættu án þess að fullljóst sé í hverju sú áhætta er fólgin. Í þessu sambandi má einnig benda á önnur svör hér á Vísindavefnum um einstök fæðubótarefni, svo sem kreatín, DHEA og orkudrykkinn Ripped Fuel.
Þar sem glútamín er sérstaklega nefnt í spurningunni og ekki hefur áður verið fjallað um það á Vísindavefnum þá er vert að taka stuttlega saman hver virkni þess er. Glútamín er amínósýra svipuð kreatíni að því leyti að líkaminn býr hana til sjálfur; fólk ætti því að geta fullnægt þörf sinni fyrir glútamín að fullu án þess að taka það inn sem fæðubótarefni.
Þó má nefna að við mikið líkamlegt álag, til dæmis í ofurmaraþoni (það er hlaup lengra en 42 km), getur komið upp sú staða að líkaminn hafi ekki undan að framleiða glútamín. Þar er sjálfsagt komin ástæða þess að það er selt sem fæðubótarefni. Einnig hefur verið sýnt fram á margvísleg jákvæð áhrif af neyslu þess þegar viðkomandi á við tiltekna sjúkdóma að stríða eða er að jafna sig eftir skurðaðgerð (sjá vefsíðu Háskólans í Maryland).
Eins má benda á að glútamín finnst í töluverðum mæli í kjöti, fiski, baunum, mjólk og nánast hvaða prótínríkri fæðu sem er. Menn fá því töluvert af þessari amínósýru úr venjulegri fæðu. Engar rannsóknir á langvarandi áhrifum aukinnar glútamínneyslu hafa farið fram, en líklegt má telja að slíkt hafi svipuð áhrif og neysla of mikils prótíns, það er valdi auknu álagi á lifur og nýru.
Frekara lesefni:
Sigurður V. Smárason. „Eru fæðubótarefni eins og prótínduft, kreatín og glútamín gagnslaus og peningasóun?“ Vísindavefurinn, 2. febrúar 2007, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6488.
Sigurður V. Smárason. (2007, 2. febrúar). Eru fæðubótarefni eins og prótínduft, kreatín og glútamín gagnslaus og peningasóun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6488
Sigurður V. Smárason. „Eru fæðubótarefni eins og prótínduft, kreatín og glútamín gagnslaus og peningasóun?“ Vísindavefurinn. 2. feb. 2007. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6488>.