Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvað hefði gerst ef Evrópusambandið hefði ekki verið stofnað?

Guðni Th. Jóhannesson

Síðla árs 2012 hlaut Evrópusambandið friðarverðlaun Nóbels. Það val vakti víða undrun. Ekki hafði sambandinu tekist að stilla til friðar á Balkanskaga, í eigin bakgarði, þegar blóðug átök blossuðu þar upp eftir hrun kommúnismans 1989. Ekki hafði sambandið haft úrslitaáhrif um þau straumhvörf, þegar helmingur Evrópu losnaði undan oki harðstjórnar og kúgunar. Í suðurhluta Evrópu voru einræðisstjórnir líka við völd lengi vel.

Engu að síður má segja að Evrópusambandið hafi verið vel að heiðrinum komið. Fyrri hluta tuttugustu aldar blossuðu upp tvær heimsstyrjaldir í álfunni. Eftir það hefur friður hins vegar ríkt. Hefði rás viðburðanna getað orðið önnur? Þegar Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, tók við friðarverðlaununum við hátíðlega athöfn í Osló sagði hann þetta: „Auðvitað má vera að friður hefði orðið í Evrópu án sambandsins. Kannski. Við vitum það ekki. En hann hefði aldrei orðið eins traustur, ekki friður til frambúðar heldur kalt vopnahlé.“

Evrópusamruninn hófst fljótlega eftir seinni heimsstyrjöld. Á þeim tíma skiptu kol og stál miklu í hernaði og samvinna um framleiðslu þessara efna og viðskipti með þau hófst með stofnun Kola- og stálbandalagsins sem var fyrsti vísirinn að Evrópusambandinu. Myndin er frá innrás bandamanna í Normandí í Frakklandi, 6. júní 1944.

Spurningin sem hér er leitað svara við vekur því upp sömu álitamál og aðrar „hvað ef“-spurningar. Ómögulegt er að segja með fullri vissu hvað hefði gerst hefði Evrópusambandið ekki verið stofnað. Rannsóknir á liðinni tíð fara ekki fram á tilraunastofu þar sem unnt er að hella efnum í tilraunaglas á mismunandi vegu og sjá hvað gerist hverju sinni. Ekki getum við heldur sett fortíðina upp eins og stærðfræðijöfnu þar sem við breytum einni stærð til að sjá hvaða áhrif það hefur á útkomuna. Sagan gerist bara einu sinni.

Engu að síður er fullkomlega eðlilegt að spyrja hvað hefði gerst hverju sinni. Það hjálpar okkur til að átta okkur á gangi viðburða, vægi tilviljana hverju sinni gagnvart hinum þunga straumi sögunnar þar sem eitt virðist óhjákvæmilega leiða af öðru. Þannig virðist afskaplega rökrétt, og nær óumflýjanlegt, að Evrópusamruninn hæfist fljótlega eftir seinni heimsstyrjöld. Fyrri hildarleikurinn hafði átt að vera „stríð til að benda enda á öll stríð“ eins og Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti komst að orði. Þjóðabandalaginu var ætlað að stuðla að því markmiði og í Evrópu áttu hugmyndir um sameiningu álfunnar nokkru fylgi að fagna. Síðan dundu hörmungar aftur yfir og sá lærdómur var dreginn að grípa yrði til róttækra ráða svo slíkt gerðist ekki eina ferðina enn.

Þess vegna var Kola- og stálbandalag Evrópu stofnað árið 1952 og eftir það leiddi eitt af öðru. Einna mestu umskiptin urðu 1993 þegar Evrópubandalagið breyttist í Evrópusambandið. Eftir það hefur verið tekist harkalega á um framtíð þess, hvort áfram skuli stefna að sífellt auknari samruna uns aðildarríkin líkist helst fylkjum í Bandaríkjunum að völdum eða hvort vernda skuli og tryggja sjálfstæði þeirra innan sambandsins. Því mætti líka líta á spurninguna um hvað gerst hefði ef Evrópusambandið hefði ekki verið stofnað á þann veg að staldra við tímamótin 1993: Voru það kannski reginmistök að stefna að sífellt meiri samruna aðildarríkjanna? Úr því mun tíminn skera.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Guðni Th. Jóhannesson

forseti Íslands og prófessor í sagnfræði

Útgáfudagur

8.11.2013

Spyrjandi

Marín Laufey Davíðsdóttir

Tilvísun

Guðni Th. Jóhannesson. „Hvað hefði gerst ef Evrópusambandið hefði ekki verið stofnað?“ Vísindavefurinn, 8. nóvember 2013. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=65159.

Guðni Th. Jóhannesson. (2013, 8. nóvember). Hvað hefði gerst ef Evrópusambandið hefði ekki verið stofnað? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=65159

Guðni Th. Jóhannesson. „Hvað hefði gerst ef Evrópusambandið hefði ekki verið stofnað?“ Vísindavefurinn. 8. nóv. 2013. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=65159>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað hefði gerst ef Evrópusambandið hefði ekki verið stofnað?
Síðla árs 2012 hlaut Evrópusambandið friðarverðlaun Nóbels. Það val vakti víða undrun. Ekki hafði sambandinu tekist að stilla til friðar á Balkanskaga, í eigin bakgarði, þegar blóðug átök blossuðu þar upp eftir hrun kommúnismans 1989. Ekki hafði sambandið haft úrslitaáhrif um þau straumhvörf, þegar helmingur Evrópu losnaði undan oki harðstjórnar og kúgunar. Í suðurhluta Evrópu voru einræðisstjórnir líka við völd lengi vel.

Engu að síður má segja að Evrópusambandið hafi verið vel að heiðrinum komið. Fyrri hluta tuttugustu aldar blossuðu upp tvær heimsstyrjaldir í álfunni. Eftir það hefur friður hins vegar ríkt. Hefði rás viðburðanna getað orðið önnur? Þegar Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, tók við friðarverðlaununum við hátíðlega athöfn í Osló sagði hann þetta: „Auðvitað má vera að friður hefði orðið í Evrópu án sambandsins. Kannski. Við vitum það ekki. En hann hefði aldrei orðið eins traustur, ekki friður til frambúðar heldur kalt vopnahlé.“

Evrópusamruninn hófst fljótlega eftir seinni heimsstyrjöld. Á þeim tíma skiptu kol og stál miklu í hernaði og samvinna um framleiðslu þessara efna og viðskipti með þau hófst með stofnun Kola- og stálbandalagsins sem var fyrsti vísirinn að Evrópusambandinu. Myndin er frá innrás bandamanna í Normandí í Frakklandi, 6. júní 1944.

Spurningin sem hér er leitað svara við vekur því upp sömu álitamál og aðrar „hvað ef“-spurningar. Ómögulegt er að segja með fullri vissu hvað hefði gerst hefði Evrópusambandið ekki verið stofnað. Rannsóknir á liðinni tíð fara ekki fram á tilraunastofu þar sem unnt er að hella efnum í tilraunaglas á mismunandi vegu og sjá hvað gerist hverju sinni. Ekki getum við heldur sett fortíðina upp eins og stærðfræðijöfnu þar sem við breytum einni stærð til að sjá hvaða áhrif það hefur á útkomuna. Sagan gerist bara einu sinni.

Engu að síður er fullkomlega eðlilegt að spyrja hvað hefði gerst hverju sinni. Það hjálpar okkur til að átta okkur á gangi viðburða, vægi tilviljana hverju sinni gagnvart hinum þunga straumi sögunnar þar sem eitt virðist óhjákvæmilega leiða af öðru. Þannig virðist afskaplega rökrétt, og nær óumflýjanlegt, að Evrópusamruninn hæfist fljótlega eftir seinni heimsstyrjöld. Fyrri hildarleikurinn hafði átt að vera „stríð til að benda enda á öll stríð“ eins og Woodrow Wilson Bandaríkjaforseti komst að orði. Þjóðabandalaginu var ætlað að stuðla að því markmiði og í Evrópu áttu hugmyndir um sameiningu álfunnar nokkru fylgi að fagna. Síðan dundu hörmungar aftur yfir og sá lærdómur var dreginn að grípa yrði til róttækra ráða svo slíkt gerðist ekki eina ferðina enn.

Þess vegna var Kola- og stálbandalag Evrópu stofnað árið 1952 og eftir það leiddi eitt af öðru. Einna mestu umskiptin urðu 1993 þegar Evrópubandalagið breyttist í Evrópusambandið. Eftir það hefur verið tekist harkalega á um framtíð þess, hvort áfram skuli stefna að sífellt auknari samruna uns aðildarríkin líkist helst fylkjum í Bandaríkjunum að völdum eða hvort vernda skuli og tryggja sjálfstæði þeirra innan sambandsins. Því mætti líka líta á spurninguna um hvað gerst hefði ef Evrópusambandið hefði ekki verið stofnað á þann veg að staldra við tímamótin 1993: Voru það kannski reginmistök að stefna að sífellt meiri samruna aðildarríkjanna? Úr því mun tíminn skera.

Heimildir og mynd:

...