Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Stórt er spurt og kannski ekkert annað en dæmi um guðsduld að ætla sér að svara þessari spurningu, sérstaklega ef svarið á að vera fullkomið! Með það í huga er þó hægt að benda á einhverjar leiðir til þess að hugsa um fullkomnun og þá sérstaklega af hverju við leitum hennar í ótal myndum.
En fyrst er gott að huga að „hvað-inu“ í spurningunni. Hvað er það sem er fullkomið? Er til einhver almennur mælikvarði sem tilgreinir fullkomnun? Ef svo er, er þá til kvarði á milli fullkomnunar og ófullkomnunar?
Glottsýslukötturinn er frægur fyrir brosið sitt. Kannski að það lýsi fullkomnun?
Ekki er óalgengt að fólk tengi hlutverk og markmið í lífi sínu við hugmyndina um fullkomnun eða ófullkomnun. Mörg okkar nota myndmál leiks eða keppni til að lýsa lífinu; við tölum um að hafa sigrast á einhverju eða að við séum „lúserar“. Eins heyrist oft að einhverjir séu haldnir fullkomnunaráráttu og er þá átt við að þeir geti ekki sleppt einhverju ákveðnu verkefni án þess að líða eins og það sé fullkomið. En hverjir eru mælikvarðarnir á fullkomnun í þessu samhengi?
Í heimspeki er gerður munur á a priori- og a posteriori-þekkingu þar sem hið síðarnefnda er þekking sem byggð er á reynsluheiminum og um hana er aldrei hægt að vera hundrað prósent öruggur um. A priori-þekking er hins vegar sú sem maður getur öðlast án nokkurrar tilvísunar til reynsluheimsins. Stærðfræðidæmi á þess kost að tilheyra þeim hópi þegar það vísar aðeins til sjálfs síns og eigin lögmála.
Það mætti segja að mun auðveldara sé að ná fullkomnun í stærðfræðidæmi en lífinu þar sem alls kyns óvæntar „reynslubreytur“ skjóta upp kollinum. Engu að síður þá höfum við þessa fullkomnun fyrir sjónum okkur þegar við leysum stærðfræðidæmi og langar kannski að geta yfirfært reglufestu þess yfir á reynsluheiminn og líf okkar. Að öðlast fullkomið vald á hverjum þeim mælikvörðum sem við setjum okkur fyrir, að allar breytur orki á hverja aðra eftir fullkomlega fyrirframgefnum lögmálum þannig að líf okkar gangi upp eins og snoturt stærðfræðidæmi.
Hægt er að hugsa sér fullkomnun í alls kyns samhengi sem hafa ekkert með tilvist okkar eða stærðfræðidæmi að gera. Engu að síður er fullkomnun kannski fyrst og fremst ákveðin hugmynd sem við gerum okkur um heiminn og okkur sjálf. Þannig er fullkomnun leið til þess að hugsa um eitthvað sem er fullklárað og þarf ekki breytinga við. Til þess að geta ímyndað sér fullkomnun virðist mikilvægt að miða við neitun hennar, við hið ófullkomna. Í þessum skilningi virðist fullkomnun verða samanburðartól fyrir hugsun og athafnir.
Græni litur grassins getur verið fallegur. Er hann þá fullkominn?
En allir þeir mælikvarðar sem hafa breytur úr hinum empíríska reynsluheimi eiga þess í raun ekki kost að ná „sannri“ fullkomnun. Mannkynssagan virðist þó uppfull af tilraunum til þess að búa til slíkan mælikvarða og ná fullkomnun eftir öllum mögulegum leiðum. Oft hafa slíkar hugmyndir um einhvers konar samfélagslega fullkomnun leitt til hörmunga fyrir þá sem passa ekki inn í hina fullkomnu mynd. Velþekkt dæmi um slíkt eru útrýmingarbúðir nasista.
Er þá slæmt að hafa hugmynd um fullkomnun í reynsluheiminum? Það þarf alls ekki að vera svo og raunar er kannski nauðsynlegt að hafa slíka hugmynd vilji maður gera nokkuð yfirhöfuð. Öll okkar iðja miðar að því að breyta tilteknu viðfangsefni og til þess þurfum við að hafa einhvers konar stefnu, hugsjón, draumsýn um hvað viðfangsefnið gæti orðið. Í raun er það hugmynd um fullkomnun. En flestir hafa eflaust upplifað það að ná sjaldnast að uppfylla slíka draumsýn í iðju sinni. Hugmyndin um fullkomnun verður kannski fyrst vafasöm þegar við gerum allt til þess að uppfylla þessa draumsýn án tillits til fólks í kringum okkur.
Þetta er ein leið til þess að hugsa um fullkomnun en ótal aðrar leiðir eru til þess mögulegar. Að spyrja um fullkomnun virðist að einhverju leyti fela í sér von um ákveðið „véfréttarsvar“; einfalt svar sem gæti leyst lífsvandamálin í eitt skipti fyrir öll. Slík svör gætu litið svona út:
Grænt gras.
42.
iPhone.
Bros.
Sum augnablik í lífinu finnast okkur eflaust vera eins konar fullkomnun. Til dæmis þegar við erum í lautarferð í góðu veðri og dáumst af grænni breiðu grassins. Eða þegar við fyllumst hlýju við bros einhvers. Kannski er mikilvægt að leyfa slíkum augnablikum að lýsa fullkomnun.
Myndir: