Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hinar rómversku Vestumeyjar voru sex talsins. Þeirra meginhlutverk var að gæta þess að eldurinn slokknaði aldrei í opinberu eldstæði ríkisins sem kennt var við gyðjuna Vestu, en grískt heiti hennar er Hestía. Hún var hjarta Rómar og heiti hennar var nafnhvörf fyrir borgina sjálfa hjá rómverskum skáldum. Embætti Vestumeyjanna var komið á af Numa, öðrum konungi Rómar sem ríkti á árunum 715 til 673 f.Kr. en var lagt niður árið 394 e.Kr. Þó Vestumeyjarnar hafi verið einu kvenprestarnir í Róm bendir ekkert til sérstakrar samkenndar milli meyjanna og rómverskra kvenna almennt.
Stúlkur þurftu að uppfylla ýmis skilyrði til að verða Vestumær. Þær þurftu að vera á aldrinum sex til tíu ára, eiga foreldra á lífi sem væru ekki af þrælum komnir og stúlkurnar máttu ekki vera markaðar neinum líkamlegum göllum. Þegar stúlka hafði orðið fyrir valinu tók æðsti presturinn, pontifex maximus, hana inn í Vestumeyjaregluna með því að leiða hana burt frá föðurnum sem hafði fram að því haft vald yfir henni. Við það rauf hún öll tengsl við fjölskyldu sína og öðlaðist mun meira sjálfstæði en venja var meðal rómverskra kvenna. Við tilefnið var hárgreiðsla hennar svipuð þeirri sem brúðir báru á brúðkaupsdaginn en fötin aftur á móti eins og klæði giftra kvenna. Með því að ganga í regluna skuldbatt Vestumey sig til þess að þjóna gyðjunni í þrjátíu ár og strengdi jafnframt strangt skírlífisheit. Upp frá því bjó hún í híbýlum Vestumeyjanna skammt frá helgidómi Vestu á Rómartorgi, Forum Romanum.
Stytta af Vestumeyju á Rómartorgi.
Auk þess að gæta eldsins sem brann í helgidómi Vestu bar meyjunum að sækja vatn, þrífa hús sitt og helgidóminn, gæta birgðageymslu sinnar og tína fyrstu kornöxin við uppskeruna, mala þau og baka úr þeim svonefnt mola salsa sem notað var til að hreinsa fórnarlömb áður en þeim var fórnað. Þess utan var Vestumeyjum treyst fyrir varðveislu ýmissa hluta, svo sem erfðaskráa og samninga, og helgra gripa sem Eneas, ættfaðir Rómverja, var sagður hafa komið með frá Tróju. Einnig tóku þær þátt í ýmsum helgiathöfnum um alla Rómaborg og þegar þær voru á ferð um borgina lá dauðarefsing við því að fara undir stólinn sem þær voru bornar á. Ef þær mættu af tilviljun glæpamanni á leið til aftöku var honum þyrmt.
Vestumeyjum var refsað harðlega ef þær vanræktu skyldur sínar. Æðsti presturinn hafði rétt á því að hýða Vestumey nakta í gegnum tjald fyrir smávægilegar yfirsjónir, hvað þá fyrir að leyfa hinum helga eldi að deyja út. Alvarlegasti glæpurinn var þó að rjúfa skírlífisheitið. Það jafngilti því að mærin hefði svikið bæði trúna og ríkið í heild sinni þar sem meydómur Vestumeyjanna þótti táknrænn fyrir órofna borgarmúra Rómar og því tryggingin fyrir öryggi hennar. Á erfiðleikatímum kom fyrir að skuldinni væri skellt á Vestumeyjarnar og því haldið fram að þær hefðu tekið þátt í kynferðislegum athöfnum. Eins var hægt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til varnar borgarinnar – að fórna Vestumey. Krafan um skírlífi þykir einnig benda til þess að að frjósemisdýrkun hafi búið að baki tignun Vestumeyjanna þar eð óspjallaðar meyjar voru ekki álitnar ófrjóar heldur uppfullar af tímgunarkrafti. Þegar svo fór að Vestumey var sakfelld fyrir skírlífisbrot var hún grafin lifandi við Collinahliðið í Róm. Ef karlkyns sökudólgurinn (eða sökudólgarnir) fannst og var dæmdur sekur af sömu dómurum og mærin, var hann hýddur á Rómartorgi þangað til hann var örendur.
Mikilvægi Vestumeyjanna fyrir rómverskt samfélag fólst í stöðu þeirra sem holdgerving Rómaborgar. Vestumeyjarnar féllu ekki inn í neina samfélagshópa vegna þess að þær tilheyrðu engum í hinu stranga feðraveldi, þær voru skírlífar og höfðu mun meira sjálfstæði en þekktist meðal kvenna í Róm. Á sama tíma voru þær virtar af öllum. Þær voru hin fullkomnu fórnarlömb þar sem enginn átti harma að hefna ef meyjunum var fórnað Róm til bjargar.
Heimildir:
Beard, Mary. „The Sexual Status of Vestal Virgins“, The Journal of Roman Studies 70 (1980): 12-27.
Beard, Mary, John North og Simon Price. Religions of Rome 1: A History (Cambridge: Cambridge University Press, 1998).
Cadoux, T. J. „Catiline and the Vestal Virgins“, Historia: Zeitschrift für Alte Geschichte 54 (2) (2005): 162-179.
Cancik-Lindemaier, Hildegard. „Vestalin“, hjá Hubert Cancik og Helmuth Schneider (ritstj.), Der Neue Pauly: Enzyklopädie der Antike (12/2) (Stuttgart; Weimar: Verlag J. B. Metzler, 2002): 132-133.
Gordon, Richard L. „Vesta, Vestals“, hjá Simon Hornblower og Antony Spawforth (ritstj.), Oxford Classical Dictionary (Oxford; New York: Oxford University Press, 2003): 1591.
Parker, Holt N. „Why Were the Vestals Virgins? Or the Chastity of Women and the Safety of the Roman State“, The American Journal of Philology 125 (4) (2004): 563-601.
Svala Lind Birnudóttir. „Hvaða hlutverki gegndu Vestumeyjar í Róm til forna?“ Vísindavefurinn, 1. október 2013, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65915.
Svala Lind Birnudóttir. (2013, 1. október). Hvaða hlutverki gegndu Vestumeyjar í Róm til forna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65915
Svala Lind Birnudóttir. „Hvaða hlutverki gegndu Vestumeyjar í Róm til forna?“ Vísindavefurinn. 1. okt. 2013. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65915>.