Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er „strax“ teygjanlegt hugtak?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Orðið ‚strax‘ tilheyrir þeim flokki orða sem kalla má vísiorð eða ábendingarorð (e. indexicals) en um þau er fjallað í svari við spurningunni Hvenær er núna? Sagt er að slík orð eða orðasambönd einkennist af því að merking þeirra sé breytileg eftir samhengi.

Þetta er að vísu heldur ónákvæm lýsing því segja má að merking allra orða, orðasambanda og setninga verði fyrir áhrifum af samhengi og aðstæðum, sem er eitt af viðfangsefnum málnotkunarfræði (e. pragmatics). Í hvert sinn sem einn segir eitthvað við annan er hluti merkingarinnar eitthvað sem liggur í sameiginlegri þekkingu beggja á aðstæðum og samhengi. Ef Jón segir við Gunnu „Kötturinn hefur ekki komið heim í viku“ gerir hann væntanlega ráð fyrir að Gunna viti hvaða kött hann er að tala um, hvar heimili hans sé og hvaða dagur er. Sameiginleg túlkun á samhengi og aðstæðum er í raun forsenda tjáskipta og án hennar getur Jón ekki komið merkingu orða sinna til skila til Gunnu.

Þegar túlkun á samhengi og aðstæðum er ólík geta ýmis tjáskiptavandræði komið upp. Lítum á nokkra möguleika:

  1. Gunna veit ekki og telur sig ekki vita hvernig hún eigi að túlka samhengi og aðstæður: Hér veit Gunna ekkert hvaða kött Jón er að tala um. Kannski á hann marga ketti og hún veit ekki hvern þeirra hann á við. Kannski vissi hún ekki til þess að Jón ætti kött og orð hans koma henni þannig á óvart. Í stuttu máli má segja að Gunna skilji ekki það sem Jón er að segja.
  2. Gunna heldur að Jón eigi við köttinn Snúð en Jón á hins vegar við köttinn Snældu. Gunna telur sig skilja Jón en heldur, eftir að hafa heyrt orð Jóns, að Snúður sé týndur þegar Jón er að reyna að segja henni að Snælda sé týnd. Þetta er það sem við köllum misskilning.
  3. Gunna veit nákvæmlega hvaða kött Jón á við, hvar hann á heima og hvaða dagur er. Hún þykist hins vegar ekki vita það og setur orð hans í annað samhengi en hann ætlaðist til. Þetta er það sem við köllum útúrsnúning. Útúrsnúningur er oft notaður til gamans og getur verið skemmtilegur fyrir báða aðila. Stundum er útúrsnúningur notaður sem áróðursbragð eða til að hafa einhvern undir í kappræðum. Það þykir ekki eins skemmtilegt, að minnsta kosti ekki fyrir þann sem er að reyna að koma einhverju til skila án árangurs.
  4. Jón lætur af ásettu ráði sem samhengi orða hans sé annað en það er. Hugsum okkur að Jón og Gunna búi saman og eigi kött. Gunna kemur heim úr ferðalagi og Jón segir „Kötturinn hefur ekki komið heim í viku“. Gunna skilur hann sem svo að kötturinn þeirra sé týndur. Hún rekur svo augun í köttinn sem liggur makindalega í uppáhaldsstólnum sínum. Jón segist þá hafa átt við allt annan kött sem hann sá að auglýst var eftir, skellir sér á lær og hlær yfir því að hafa platað Gunnu. Þarna villir sá sem talar um fyrir viðmælandanum með því að gefa til kynna annað samhengi og beitir því sem við köllum blekkingu. Erfitt er að væna hann beinlínis um lygar því hann getur haldið því fram að um misskilning hafi verið að ræða hjá viðmælandanum, að hann hafi ekki vísvitandi ætlað að villa um fyrir honum. Blekkingar eru notaðar í ýmsum tilgangi, stundum sem stríðni og stundum til að hafa einhvers konar áhrif á hegðun viðmælanda eða veita einhverjum fyrirætlunum brautargengi.

Þegar orðið ‚strax‘ er notað er mikilvægt fyrir árangursrík tjáskipti að gagnkvæmur skilningur sé á samhenginu sem orðið er notað í. Annars er hætta á að um blekkingu eða útúrsnúning sé að ræða.

Ýmsir heimspekingar hafa fjallað um áhrif samhengis, túlkunar og annars sem heyrir undir hið ósagða eða óorðaða á skilning okkar á því sem sagt er. Einn af brautryðjendum slíkrar umfjöllunar á 20. öld var breski heimspekingurinn Paul Grice (1913-1988). Grice talaði um nokkrar grundvallarreglur sem þurfa að gilda til að tjáskipti geti átt sér stað, þar á meðal að sá sem talar segi satt, að það sem sagt er komi umræðuefninu við og að magn upplýsinga sé hæfilegt miðað við tilefni og aðstæður. Hann tekur svo ýmis dæmi til að sýna hvernig við brjótum oft þessar grundvallarreglur í því skyni að koma hlutum óbeint til skila. Það hvernig við brjótum grundvallarreglurnar fylgir líka ákveðnum reglum sem báðum aðilum þurfa að vera kunnugar og sameiginlegur skilningur á samhengi er þar í lykilhlutverki. Dæmi um slíkt gæti verið þegar prófessor er beðinn að skrifa meðmæli með nemanda sem sækir um doktorsnám og skrifar fátt annað í bréfið en „Hann hefur fallega rithönd“. Þarna eru bæði gefnar of litlar upplýsingar og talað um eitthvað sem kemur umræðuefninu lítið við en viðtakandi bréfsins les væntanlega nákvæmlega það sama út úr því og prófessorinn vill koma til skila: að þessi nemandi ætti nú kannski ekki að vera efstur á lista hæfra umsækjenda.

Svo vikið sé aftur að vísiorðunum þá má segja að merking þeirra sé bundin samhengi og aðstæðum á afmarkaðri hátt en merking margra annarra orða. Merkingin er breytileg eftir stað eða tíma og í sumum tilvikum þarf jafnvel að beita líkamstjáningu eins og bendingum (til dæmis þegar við segjum „þetta“). Orðið ‚strax‘ hefur merkingu sem er afstæð við tímann sem það er látið falla á. „Ég kem strax“ sagt af einhverjum árið 1814 vísar til annarrar manneskju og annars tíma en „Ég kem strax“ sagt af mér á þessari stundu.

Auk tímasetningarinnar sem orðið ‚strax‘ er notað á skiptir máli hvers konar atburð eða athöfn er verið að tala um sem á að fara fram strax. „Sjúkrabíllinn kemur strax“ vísar vonandi til einhvers sem gerist innan fáeinna mínútna en „Strax verður hafist handa við smíði nýrrar geimrannsóknarstöðvar“ vísar til lengra tímabils. Hönnunarvinna og skipulagning geimrannsóknarstöðvarinnar gæti til dæmis hafist innan nokkurra vikna, en engu að síður fallið undir hugtakið strax, ólíkt sjúkrabílnum sem þarf að fara af stað helst á næstu mínútunni. Í þessum skilningi má segja að ‚strax‘ sé teygjanlegt hugtak. Það er að segja að sá tími sem gera má ráð fyrir að líði frá því að orðið er látið falla þangað til atburðurinn sem það tengist á sér stað er mislangur eftir því hvers konar atburð er um að ræða.

Í ljósi þess sem hér kemur fram má segja að þegar orðið ‚strax‘ er notað sé mikilvægt fyrir árangursrík tjáskipti að gagnkvæmur skilningur sé á samhenginu sem orðið er notað í. Það getur verið á ábyrgð beggja aðila að ganga úr skugga um að svo sé. Sá sem talar þarf að hafa í huga hvaða samhengi sá sem á hann hlustar sé líklegur til að setja orðið í og sá sem hlustar getur líka þurft að hafa í huga í hvaða samhengi orðið sé sett fram. Bregðist annar hvor því hlutverki sínu eru líkur á að um blekkingu eða útúrsnúning sé að ræða. Með öðrum orðum þá þarf gagnkvæmur skilningur á samhengi að vera til staðar til að báðir aðilar komi sér saman um hve langt sé í teygjunni.

Mynd:

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

7.10.2013

Spyrjandi

Arnbjörn Ólafsson

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er „strax“ teygjanlegt hugtak?“ Vísindavefurinn, 7. október 2013, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=65997.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2013, 7. október). Er „strax“ teygjanlegt hugtak? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=65997

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er „strax“ teygjanlegt hugtak?“ Vísindavefurinn. 7. okt. 2013. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=65997>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er „strax“ teygjanlegt hugtak?
Orðið ‚strax‘ tilheyrir þeim flokki orða sem kalla má vísiorð eða ábendingarorð (e. indexicals) en um þau er fjallað í svari við spurningunni Hvenær er núna? Sagt er að slík orð eða orðasambönd einkennist af því að merking þeirra sé breytileg eftir samhengi.

Þetta er að vísu heldur ónákvæm lýsing því segja má að merking allra orða, orðasambanda og setninga verði fyrir áhrifum af samhengi og aðstæðum, sem er eitt af viðfangsefnum málnotkunarfræði (e. pragmatics). Í hvert sinn sem einn segir eitthvað við annan er hluti merkingarinnar eitthvað sem liggur í sameiginlegri þekkingu beggja á aðstæðum og samhengi. Ef Jón segir við Gunnu „Kötturinn hefur ekki komið heim í viku“ gerir hann væntanlega ráð fyrir að Gunna viti hvaða kött hann er að tala um, hvar heimili hans sé og hvaða dagur er. Sameiginleg túlkun á samhengi og aðstæðum er í raun forsenda tjáskipta og án hennar getur Jón ekki komið merkingu orða sinna til skila til Gunnu.

Þegar túlkun á samhengi og aðstæðum er ólík geta ýmis tjáskiptavandræði komið upp. Lítum á nokkra möguleika:

  1. Gunna veit ekki og telur sig ekki vita hvernig hún eigi að túlka samhengi og aðstæður: Hér veit Gunna ekkert hvaða kött Jón er að tala um. Kannski á hann marga ketti og hún veit ekki hvern þeirra hann á við. Kannski vissi hún ekki til þess að Jón ætti kött og orð hans koma henni þannig á óvart. Í stuttu máli má segja að Gunna skilji ekki það sem Jón er að segja.
  2. Gunna heldur að Jón eigi við köttinn Snúð en Jón á hins vegar við köttinn Snældu. Gunna telur sig skilja Jón en heldur, eftir að hafa heyrt orð Jóns, að Snúður sé týndur þegar Jón er að reyna að segja henni að Snælda sé týnd. Þetta er það sem við köllum misskilning.
  3. Gunna veit nákvæmlega hvaða kött Jón á við, hvar hann á heima og hvaða dagur er. Hún þykist hins vegar ekki vita það og setur orð hans í annað samhengi en hann ætlaðist til. Þetta er það sem við köllum útúrsnúning. Útúrsnúningur er oft notaður til gamans og getur verið skemmtilegur fyrir báða aðila. Stundum er útúrsnúningur notaður sem áróðursbragð eða til að hafa einhvern undir í kappræðum. Það þykir ekki eins skemmtilegt, að minnsta kosti ekki fyrir þann sem er að reyna að koma einhverju til skila án árangurs.
  4. Jón lætur af ásettu ráði sem samhengi orða hans sé annað en það er. Hugsum okkur að Jón og Gunna búi saman og eigi kött. Gunna kemur heim úr ferðalagi og Jón segir „Kötturinn hefur ekki komið heim í viku“. Gunna skilur hann sem svo að kötturinn þeirra sé týndur. Hún rekur svo augun í köttinn sem liggur makindalega í uppáhaldsstólnum sínum. Jón segist þá hafa átt við allt annan kött sem hann sá að auglýst var eftir, skellir sér á lær og hlær yfir því að hafa platað Gunnu. Þarna villir sá sem talar um fyrir viðmælandanum með því að gefa til kynna annað samhengi og beitir því sem við köllum blekkingu. Erfitt er að væna hann beinlínis um lygar því hann getur haldið því fram að um misskilning hafi verið að ræða hjá viðmælandanum, að hann hafi ekki vísvitandi ætlað að villa um fyrir honum. Blekkingar eru notaðar í ýmsum tilgangi, stundum sem stríðni og stundum til að hafa einhvers konar áhrif á hegðun viðmælanda eða veita einhverjum fyrirætlunum brautargengi.

Þegar orðið ‚strax‘ er notað er mikilvægt fyrir árangursrík tjáskipti að gagnkvæmur skilningur sé á samhenginu sem orðið er notað í. Annars er hætta á að um blekkingu eða útúrsnúning sé að ræða.

Ýmsir heimspekingar hafa fjallað um áhrif samhengis, túlkunar og annars sem heyrir undir hið ósagða eða óorðaða á skilning okkar á því sem sagt er. Einn af brautryðjendum slíkrar umfjöllunar á 20. öld var breski heimspekingurinn Paul Grice (1913-1988). Grice talaði um nokkrar grundvallarreglur sem þurfa að gilda til að tjáskipti geti átt sér stað, þar á meðal að sá sem talar segi satt, að það sem sagt er komi umræðuefninu við og að magn upplýsinga sé hæfilegt miðað við tilefni og aðstæður. Hann tekur svo ýmis dæmi til að sýna hvernig við brjótum oft þessar grundvallarreglur í því skyni að koma hlutum óbeint til skila. Það hvernig við brjótum grundvallarreglurnar fylgir líka ákveðnum reglum sem báðum aðilum þurfa að vera kunnugar og sameiginlegur skilningur á samhengi er þar í lykilhlutverki. Dæmi um slíkt gæti verið þegar prófessor er beðinn að skrifa meðmæli með nemanda sem sækir um doktorsnám og skrifar fátt annað í bréfið en „Hann hefur fallega rithönd“. Þarna eru bæði gefnar of litlar upplýsingar og talað um eitthvað sem kemur umræðuefninu lítið við en viðtakandi bréfsins les væntanlega nákvæmlega það sama út úr því og prófessorinn vill koma til skila: að þessi nemandi ætti nú kannski ekki að vera efstur á lista hæfra umsækjenda.

Svo vikið sé aftur að vísiorðunum þá má segja að merking þeirra sé bundin samhengi og aðstæðum á afmarkaðri hátt en merking margra annarra orða. Merkingin er breytileg eftir stað eða tíma og í sumum tilvikum þarf jafnvel að beita líkamstjáningu eins og bendingum (til dæmis þegar við segjum „þetta“). Orðið ‚strax‘ hefur merkingu sem er afstæð við tímann sem það er látið falla á. „Ég kem strax“ sagt af einhverjum árið 1814 vísar til annarrar manneskju og annars tíma en „Ég kem strax“ sagt af mér á þessari stundu.

Auk tímasetningarinnar sem orðið ‚strax‘ er notað á skiptir máli hvers konar atburð eða athöfn er verið að tala um sem á að fara fram strax. „Sjúkrabíllinn kemur strax“ vísar vonandi til einhvers sem gerist innan fáeinna mínútna en „Strax verður hafist handa við smíði nýrrar geimrannsóknarstöðvar“ vísar til lengra tímabils. Hönnunarvinna og skipulagning geimrannsóknarstöðvarinnar gæti til dæmis hafist innan nokkurra vikna, en engu að síður fallið undir hugtakið strax, ólíkt sjúkrabílnum sem þarf að fara af stað helst á næstu mínútunni. Í þessum skilningi má segja að ‚strax‘ sé teygjanlegt hugtak. Það er að segja að sá tími sem gera má ráð fyrir að líði frá því að orðið er látið falla þangað til atburðurinn sem það tengist á sér stað er mislangur eftir því hvers konar atburð er um að ræða.

Í ljósi þess sem hér kemur fram má segja að þegar orðið ‚strax‘ er notað sé mikilvægt fyrir árangursrík tjáskipti að gagnkvæmur skilningur sé á samhenginu sem orðið er notað í. Það getur verið á ábyrgð beggja aðila að ganga úr skugga um að svo sé. Sá sem talar þarf að hafa í huga hvaða samhengi sá sem á hann hlustar sé líklegur til að setja orðið í og sá sem hlustar getur líka þurft að hafa í huga í hvaða samhengi orðið sé sett fram. Bregðist annar hvor því hlutverki sínu eru líkur á að um blekkingu eða útúrsnúning sé að ræða. Með öðrum orðum þá þarf gagnkvæmur skilningur á samhengi að vera til staðar til að báðir aðilar komi sér saman um hve langt sé í teygjunni.

Mynd:

...