Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Virka einhver hljóðfæri ekki í þyngdarleysi?

Emelía Eiríksdóttir

Hljóð þarf efni til að geta borist á milli staða, það berst ekki í tómarúmi. Vel heyrist í hljóðfærum sem leikið er á í geimstöðvum, en fyrir utan stöðvarnar heyrist ekkert, enda eru þar nánast engar agnir.

Um borð í geimstöðvum ríkir örþyngd (e. microgravity) sem veldur nánast algjöru þyngdarleysi. Þar er engu að síður venjulegt loft enda þurfa geimfararnir súrefni til að geta andað. Hljóð berst eins um borð í geimstöð og niðri á jörðinni og hljóðfæri hljóma eins inni í geimstöðvunum og á jörðinni. Það er þó einn hængur á þegar spilað er í þyngdarleysi, það reynist erfitt að leika á mörg hljóðfæranna því bæði þau og hljóðfæraleikararnir fljóta auðveldlega um.

Geimfarinn Chris Hadfield er einn þeirra sem hefur spilað á hljóðfæri í geimnum. Hann hefur meðal annars flutt lagið Space Oddity eftir David Bowie og gert myndskeið þar sem hann útskýrir hvernig myndbandið við lagið var tekið upp við raunverulegar aðstæður í geimnum: Astronaut Chris Hadfield Breaks Down His 'Space Oddity' Video.

Þegar spilað er á gítar á jörðu niðri er til dæmis hægt að sitja með hann í kjöltunni og helst hann þar auðveldlega því þyngdarafl jarðar togar gítarinn niður að okkur, okkur niður að stólnum og stólinn niður að jörðinni. Við og gítarinn höldumst því auðveldlega á sama stað meðan spilað er. Í þyngdarleysi er hins vegar erfiðara að hafa gítarinn kyrran, hann færist auðveldlega til þegar hendinni er rennt eftir gítarhálsinum við spilun eins og Chris Hadfield geimfari upplifði þegar hann lék á gítar í Alþjóðlegu geimstöðinni (e. International Space Station, ISS). Það sama á við þegar spilað er á hljómborð; þegar slegið er á nóturnar á hljómborðinu ýtist það frá hljóðfæraleikaranum. Og þegar blásið er í flautu þrýstist hljóðfæraleikarinn aftur á bak. Til að auðvelda hljóðfæraleik í þyngdarleysi bregða hljóðfæraleikararnir því oft á það ráð að festa hljóðfærin við sig og/eða festa fæturna við eitthvað.

Fjölmargir geimfarar hafa spilað á hljóðfæri í geimstöðvum eða geimförum í áranna rás enda er það góð dægrastytting. Fyrsti hljóðfæraleikurinn og hljóðupptakan í geimnum er frá 1965 þegar geimfararnir Walter Schirra og Thomas Stafford um borð í geimfarinu Gemini 6 spiluðu Jingle Bells á munnhörpu og bjöllur (heyra má leik þeirra með því að smella hér). Einnig hefur verið spilað á kassagítar, rafmagnsgítar, flautu, saxófón, sekkjapípu og hljómborð í geimnum.

Geimfarinn Catherine Coleman leikur á flautu í Alþjóðlegu geimstöðinni.

Áður en hljóðfæri geimfara fá að fara um borð í geimskip eru þau könnuð í bak og fyrir með tilliti til áhrifa rafmagns eða hættulegra lofttegunda sem geta borist frá þeim. Það er lítið mál fyrir hljóðfæraleikara á jörðinni þótt einhver tæki gefi frá sér örlítið af óæskilegum efnum, því efnin berast einfaldlega út um glugga eða dyr að lokum. Þetta getur hins vegar verið vandamál í geimstöðvum því þar er ekki hægt að opna glugga til að lofta út. Hljóðfæraleikarar á jörðinni eru heldur ekki vanir að hafa áhyggjur af rafsegulbylgjum sem rafmagnshljóðfæri gefa frá sér því þær hafa ekki áhrif á okkar daglega líf en geta truflað stjórntæki í geimstöðvum.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Emelía Eiríksdóttir

efnafræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

29.12.2021

Spyrjandi

Sigurbjörn Kristjánsson

Tilvísun

Emelía Eiríksdóttir. „Virka einhver hljóðfæri ekki í þyngdarleysi?“ Vísindavefurinn, 29. desember 2021. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=66237.

Emelía Eiríksdóttir. (2021, 29. desember). Virka einhver hljóðfæri ekki í þyngdarleysi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=66237

Emelía Eiríksdóttir. „Virka einhver hljóðfæri ekki í þyngdarleysi?“ Vísindavefurinn. 29. des. 2021. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=66237>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Virka einhver hljóðfæri ekki í þyngdarleysi?
Hljóð þarf efni til að geta borist á milli staða, það berst ekki í tómarúmi. Vel heyrist í hljóðfærum sem leikið er á í geimstöðvum, en fyrir utan stöðvarnar heyrist ekkert, enda eru þar nánast engar agnir.

Um borð í geimstöðvum ríkir örþyngd (e. microgravity) sem veldur nánast algjöru þyngdarleysi. Þar er engu að síður venjulegt loft enda þurfa geimfararnir súrefni til að geta andað. Hljóð berst eins um borð í geimstöð og niðri á jörðinni og hljóðfæri hljóma eins inni í geimstöðvunum og á jörðinni. Það er þó einn hængur á þegar spilað er í þyngdarleysi, það reynist erfitt að leika á mörg hljóðfæranna því bæði þau og hljóðfæraleikararnir fljóta auðveldlega um.

Geimfarinn Chris Hadfield er einn þeirra sem hefur spilað á hljóðfæri í geimnum. Hann hefur meðal annars flutt lagið Space Oddity eftir David Bowie og gert myndskeið þar sem hann útskýrir hvernig myndbandið við lagið var tekið upp við raunverulegar aðstæður í geimnum: Astronaut Chris Hadfield Breaks Down His 'Space Oddity' Video.

Þegar spilað er á gítar á jörðu niðri er til dæmis hægt að sitja með hann í kjöltunni og helst hann þar auðveldlega því þyngdarafl jarðar togar gítarinn niður að okkur, okkur niður að stólnum og stólinn niður að jörðinni. Við og gítarinn höldumst því auðveldlega á sama stað meðan spilað er. Í þyngdarleysi er hins vegar erfiðara að hafa gítarinn kyrran, hann færist auðveldlega til þegar hendinni er rennt eftir gítarhálsinum við spilun eins og Chris Hadfield geimfari upplifði þegar hann lék á gítar í Alþjóðlegu geimstöðinni (e. International Space Station, ISS). Það sama á við þegar spilað er á hljómborð; þegar slegið er á nóturnar á hljómborðinu ýtist það frá hljóðfæraleikaranum. Og þegar blásið er í flautu þrýstist hljóðfæraleikarinn aftur á bak. Til að auðvelda hljóðfæraleik í þyngdarleysi bregða hljóðfæraleikararnir því oft á það ráð að festa hljóðfærin við sig og/eða festa fæturna við eitthvað.

Fjölmargir geimfarar hafa spilað á hljóðfæri í geimstöðvum eða geimförum í áranna rás enda er það góð dægrastytting. Fyrsti hljóðfæraleikurinn og hljóðupptakan í geimnum er frá 1965 þegar geimfararnir Walter Schirra og Thomas Stafford um borð í geimfarinu Gemini 6 spiluðu Jingle Bells á munnhörpu og bjöllur (heyra má leik þeirra með því að smella hér). Einnig hefur verið spilað á kassagítar, rafmagnsgítar, flautu, saxófón, sekkjapípu og hljómborð í geimnum.

Geimfarinn Catherine Coleman leikur á flautu í Alþjóðlegu geimstöðinni.

Áður en hljóðfæri geimfara fá að fara um borð í geimskip eru þau könnuð í bak og fyrir með tilliti til áhrifa rafmagns eða hættulegra lofttegunda sem geta borist frá þeim. Það er lítið mál fyrir hljóðfæraleikara á jörðinni þótt einhver tæki gefi frá sér örlítið af óæskilegum efnum, því efnin berast einfaldlega út um glugga eða dyr að lokum. Þetta getur hins vegar verið vandamál í geimstöðvum því þar er ekki hægt að opna glugga til að lofta út. Hljóðfæraleikarar á jörðinni eru heldur ekki vanir að hafa áhyggjur af rafsegulbylgjum sem rafmagnshljóðfæri gefa frá sér því þær hafa ekki áhrif á okkar daglega líf en geta truflað stjórntæki í geimstöðvum.

Heimildir og myndir:...