Forseti heitir sonr Baldrs ok Nönnu Nepsdóttur. Hann á þann sal á himni, er Glitnir heitir. En allir, er til hans koma með sakarvandræði, þá fara allir sáttir á braut. Sá er dómstaðr beztr með goðum ok mönnum.Uppruni nafnsins Forseti er að vísu óljós en samnafnið er venjulega skýrt ‘sá sem stýrir þingi eða ráðstefnu, situr í forsæti.’ Litlum sögum fer af þessu orði í íslensku máli fyrr en komið er fram á 18. öld að það er notað sem samnafn og er þá í fyrstu haft um þann sem stjórnar samkomu, mannfundi. Síðar er orðið svo notað um formann félags, til dæmis segir í samþykktum Lærdómslistafélagsins frá 1787 að sérhver félagi kunni að verða kosinn forseti.

Jón Sigurðsson var forseti Kaupmannahafnardeildar Bókmenntafélagsins og hlaut af því viðurnefnið forseti.
- Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989: Orðabók Háskólans.
- Baldur Jónsson. Forseti. Starfsheitið og upphaf þess. Yrkja. Afmælisrit til Vigdísar Finnbogadóttur 15. apríl 1990. Bls. 17–25.
- Edda Snorra Sturlusonar. Nafnaþulur og skáldatal. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Akureyri 1954: Íslendingasagnaútgáfan.
- Gunnlaugur Ingólfsson. ‘Lítil samantekt um orðið forseti.’ Flutt við lýsingu Ríkisútvarpsins á embættistöku Vigdísar Finnbogadóttur 1. ágúst 1980.
- Mynd: Alþingi. Málverk eftir August Schiøtt (1823 - 1895). (Sótt 29. 11. 2013.)
Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.