Sólin Sólin Rís 02:58 • sest 23:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 12:00 • Sest 02:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:15 • Síðdegis: 17:25 í Reykjavík
1944

Hvað gerir forseti Íslands og hvaða völd hefur hann?

Guðni Th. Jóhannesson

Hver forseti mótar embættið eftir eigin höfði. Það þarf hann þó að gera innan þeirra marka sem stjórnarskrá, venjur og jafnvel tíðarandi setja honum. Starfssviði og völdum forseta má í grófum dráttum skipta í sex hluta:

 1. Formlegt hlutverk í stjórnskipun.
 2. Vald til synjunar laga.
 3. Pólitískt áhrifavald.
 4. Landkynning.
 5. Störf í samfélagsþágu.
 6. Sameiningartákn.

Formlegt hlutverk í stjórnskipun.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá 1944 er kveðið á um að forseti fari með löggjafarvaldið ásamt Alþingi og framkvæmdarvaldið með öðrum stjórnarvöldum. Jafnframt segir meðal annars að hann skipi ráðherra, geri samninga við önnur ríki, geti látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og rofið þing. Öll þessi ákvæði verður þó að skoða í ljósi fyrstu greinar stjórnarskrárinnar, þess grundvallar að Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Þar að auki kveður stjórnarskráin á um ábyrgðarleysi forseta á stjórnarathöfnum enda láti hann ráðherra framkvæma vald sitt. Að þessu leyti eru völd forseta því í orði en ekki á borði.

Forseti gegnir þó mikilvægu formlegu hlutverki. Hann undirritar lög og ýmis skipunarbréf svo þau taki gildi og hann tekur á móti sendimönnum erlendra ríkja þegar þeir afhenda trúnaðarbréf sín. Forsetinn er þjóðhöfðingi Íslands. Hann fer því í opinberar heimsóknir til konunga, drottninga og annarra þjóðhöfðingja og er gestgjafi þeirra hér á landi.

Embættisbústaður forseta er að Bessastöðum á Álftanesi.

Vald til synjunar laga.

Í 26. grein stjórnarskrárinnar segir að forseti geti synjað um staðfestingu laga frá Alþingi og taki þau þá engu að síður gildi en verði lögð í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar unnið var að gerð stjórnarskrárinnar á sínum tíma var sérstaklega tekið fram að þetta gæti forseti gert án þess að atbeini ráðherra þyrfti að koma til. Lengstum töldu þó bæði lagaspekingar og forsetar að synjunarvaldið hæfði ekki í þingræðisríki nema í algerum undantekningartilfellum. Sumir sögðu jafnvel að í raun hefði forseti það ekki á hendi.

Þetta breyttist eftir að Ólafur Ragnar Grímsson synjaði lögum frá Alþingi um staðfestingu árið 2004 (fjölmiðlalögin svonefndu) og aftur árin 2010 og 2011 (lög um lausn Icesave-deilunnar). Í dag reynir nær enginn að halda því fram að stjórnarskráin heimili forseta ekki að leggja lög frá Alþingi í dóm kjósenda.

Pólitískt áhrifavald.

Forseti getur látið til sín taka á hinu pólitíska sviði, einkum þegar mynda þarf ríkisstjórnir. Forseti afhendir þá þeim formanni stjórnmálaflokks sem hann telur líklegastan til að geta myndað ríkisstjórn svokallað stjórnarmyndunarumboð. Í krafti þess hefur formaðurinn stjórnarmyndunarviðræður en mistakist þær lætur hann umboðið af hendi. Forseti færir það þá næsta formanni og svo koll af kolli eins og þörf krefur. En þyki forseta einsýnt að leiðtogum stjórnmálaflokka á Alþingi muni ekki takast að mynda ríkisstjórn er honum heimilt að skipa utanþingsstjórn. Forseti velur sér þá forsætisráðherra og ráðherra og situr sú stjórn uns mál hafa þróast á þann veg að unnt er mynda ríkisstjórn sem nýtur stuðnings meirihluta eða minnihlutastjórn sem getur staðið af sér tillögu um vantraust.

Fyrrum tóku stjórnarmyndunarviðræður gjarnan langan tíma og forseti gat ráðið talsverðu um þróun mála með ákvörðun sinni um afhendingu umboðs til stjórnarmyndunar hverju sinni. Síðustu áratugi hafa leiðtogar stjórnmálaflokka hins vegar haft hraðari hendur við stjórnarmyndun og atbeini forseta hefur skipt minna máli en áður.

Loks má vera að forseti vilji hafa áhrif á pólitískar ákvarðanir. Í samtölum við forsætisráðherra eða aðra ráðherra getur hann lýst stuðningi eða andstöðu við tiltekin áform stjórnvalda og látið í veðri vaka að hann muni segja þá skoðun sína í ræðum og ávörpum, undir rós eða tæpitungulaust. Þetta hafa allir forsetar gert, í mismiklum mæli þó.

Landkynning.

Þar sem forseti Íslands er þjóðhöfðingi landsins, fulltrúi þess í opinberum heimsóknum, liggur í augum uppi að hann getur glætt áhuga útlendinga á Íslandi og jafnframt aukið hróður þess með því að vera góður heim að sækja. Til þessa var hugsað þegar embættið var stofnað 1944 en þetta hlutverk hefur fengið meira vægi á síðustu áratugum.

Vigdís Finnbogadóttir gegndi embætti forseta Íslands frá 1980 til 1996.

Kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta 1980 vakti heimsathygli enda varð hún þá fyrsta konan sem kosin var í stöðu þjóðhöfðingja. Útflutningsfyrirtæki og aðilar í ferðaþjónustu nutu góðs af þeirri hylli og athygli sem Vigdís naut ytra. Að sama skapi gerðist Ólafur Ragnar Grímsson ötull málsvari íslenskra fyrirtækja sem vildu hasla sér völl erlendis. Í embættistíð Ólafs Ragnars fjölgaði einnig til muna óopinberum ferðum forseta þar sem hann kynnti íslensk fyrirtæki og lofaði dugnað þeirra og þor.

Eftir bankahrunið mikla 2008 vöknuðu áleitnar spurningar um náið samband forseta og útrásarvíkinganna svokölluðu. Í deilunum um Icesave-samningana eftir hrun lagðist Ólafur Ragnar Grímsson í vörn fyrir málstað Íslands eins og hann túlkaði hann, og naut þá stuðnings almennings. Á hinn bóginn var afstaða hans gjarnan á skjön við sjónarmið ríkisstjórnarinnar.

Störf í samfélagsþágu.

Forseti Íslands er verndari ýmissa samtaka og viðburða auk tímabundinna verkefna í þágu góðra málefna. Auk þess veitir hann verðlaun og viðurkenningar og sæmir fólk fálkaorðunni. Forseta er einnig ætlað að rækta samband sitt við þjóðina með heimsóknum í byggðarlög og vinnustaði, til dæmis stofnanir og skóla. Forseti tekur jafnframt á móti gestum á Bessastöðum.

Sameiningartákn.

Forseti Íslands er eini embættismaður ríkisins sem kosinn er beinni kosningu allra kjósenda. Frá upphafi var þess vegna litið svo á forseti ætti að stefna að því að vera „sameiningartákn“ Íslendinga. Með því var átt við að í embætti sínu kæmi hann fram fyrir hönd þjóðarinnar allrar innanlands sem utan. Í störfum sínum myndi hann sýna fyllstu hlutlægni; hygla ekki einum stjórnmálaflokki og ganga ekki erinda sérstakra hagsmunahópa. Þar að auki er forseta ætlað að tala til þjóðar sinnar á tímamótum og örlagastundum. Má þar nefna nýársávörp og ræður við setningu Alþingis, og einnig þegar voði eða vá dynur yfir, til dæmis eldgos eða snjóflóð. Með þessum hætti er forseta ætlað að stuðla að einingu fólks og viðhalda jafnframt virðingu Íslendinga fyrir eigin sögu, tungu og náttúru, þeim þáttum sem saman gera þá öðrum fremur að sérstakri þjóð meðal þjóða.

Heimildir:
 • Guðjón Friðriksson (2008), Saga af forseta. Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Útrás, athafnir, átök og einkamál. Reykjavík.
 • Guðni Th. Jóhannesson (2005), Völundarhús valdsins. Stjórnarmyndanir, stjórnarslit og staða forseta Íslands í embættistíð Kristján Eldjárns. Reykjavík.
 • Gunnar G. Schram (2. útg. 1999), Stjórnskipunarréttur. Reykjavík. Ritið er í meginatriðum byggt á verki Ólafs Jóhannessonar sem hér er líka vísað til.
 • Gylfi Gröndal (1991), Kristján Eldjárn: Ævisaga. Reykjavík.
 • Gylfi Gröndal (1992), Ásgeir Ásgeirsson: Ævisaga. Reykjavík.
 • Gylfi Gröndal (1994), Sveinn Björnsson: Ævisaga. Reykjavík.
 • Ólafur Jóhannesson (1960), Stjórnskipun Íslands. Reykjavík.
 • Páll Valsson (2009), Vigdís. Kona verður forseti. Reykjavík.
 • Sigurður Líndal (1992), „Stjórnskipuleg staða forseta Íslands“, Skírnir 166 (haust), s. 425-439.
 • Steinunn Sigurðardóttir (1988), Ein á forsetavakt: Dagar í lífi Vigdísar Finnbogadóttur. Reykjavík.
 • Sveinn Björnsson (1957), Endurminningar Sveins Björnssonar. Reykjavík.
 • Vefsíður:

Myndir:

Höfundur

Guðni Th. Jóhannesson

forseti Íslands og prófessor í sagnfræði

Útgáfudagur

29.5.2012

Spyrjandi

Hinrik Sigurjónsson, Steingrímur Páll Þórðarson, Davíð Björnsson

Tilvísun

Guðni Th. Jóhannesson. „Hvað gerir forseti Íslands og hvaða völd hefur hann?“ Vísindavefurinn, 29. maí 2012. Sótt 13. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=22085.

Guðni Th. Jóhannesson. (2012, 29. maí). Hvað gerir forseti Íslands og hvaða völd hefur hann? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=22085

Guðni Th. Jóhannesson. „Hvað gerir forseti Íslands og hvaða völd hefur hann?“ Vísindavefurinn. 29. maí. 2012. Vefsíða. 13. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=22085>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað gerir forseti Íslands og hvaða völd hefur hann?
Hver forseti mótar embættið eftir eigin höfði. Það þarf hann þó að gera innan þeirra marka sem stjórnarskrá, venjur og jafnvel tíðarandi setja honum. Starfssviði og völdum forseta má í grófum dráttum skipta í sex hluta:

 1. Formlegt hlutverk í stjórnskipun.
 2. Vald til synjunar laga.
 3. Pólitískt áhrifavald.
 4. Landkynning.
 5. Störf í samfélagsþágu.
 6. Sameiningartákn.

Formlegt hlutverk í stjórnskipun.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá 1944 er kveðið á um að forseti fari með löggjafarvaldið ásamt Alþingi og framkvæmdarvaldið með öðrum stjórnarvöldum. Jafnframt segir meðal annars að hann skipi ráðherra, geri samninga við önnur ríki, geti látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og rofið þing. Öll þessi ákvæði verður þó að skoða í ljósi fyrstu greinar stjórnarskrárinnar, þess grundvallar að Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn. Þar að auki kveður stjórnarskráin á um ábyrgðarleysi forseta á stjórnarathöfnum enda láti hann ráðherra framkvæma vald sitt. Að þessu leyti eru völd forseta því í orði en ekki á borði.

Forseti gegnir þó mikilvægu formlegu hlutverki. Hann undirritar lög og ýmis skipunarbréf svo þau taki gildi og hann tekur á móti sendimönnum erlendra ríkja þegar þeir afhenda trúnaðarbréf sín. Forsetinn er þjóðhöfðingi Íslands. Hann fer því í opinberar heimsóknir til konunga, drottninga og annarra þjóðhöfðingja og er gestgjafi þeirra hér á landi.

Embættisbústaður forseta er að Bessastöðum á Álftanesi.

Vald til synjunar laga.

Í 26. grein stjórnarskrárinnar segir að forseti geti synjað um staðfestingu laga frá Alþingi og taki þau þá engu að síður gildi en verði lögð í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar unnið var að gerð stjórnarskrárinnar á sínum tíma var sérstaklega tekið fram að þetta gæti forseti gert án þess að atbeini ráðherra þyrfti að koma til. Lengstum töldu þó bæði lagaspekingar og forsetar að synjunarvaldið hæfði ekki í þingræðisríki nema í algerum undantekningartilfellum. Sumir sögðu jafnvel að í raun hefði forseti það ekki á hendi.

Þetta breyttist eftir að Ólafur Ragnar Grímsson synjaði lögum frá Alþingi um staðfestingu árið 2004 (fjölmiðlalögin svonefndu) og aftur árin 2010 og 2011 (lög um lausn Icesave-deilunnar). Í dag reynir nær enginn að halda því fram að stjórnarskráin heimili forseta ekki að leggja lög frá Alþingi í dóm kjósenda.

Pólitískt áhrifavald.

Forseti getur látið til sín taka á hinu pólitíska sviði, einkum þegar mynda þarf ríkisstjórnir. Forseti afhendir þá þeim formanni stjórnmálaflokks sem hann telur líklegastan til að geta myndað ríkisstjórn svokallað stjórnarmyndunarumboð. Í krafti þess hefur formaðurinn stjórnarmyndunarviðræður en mistakist þær lætur hann umboðið af hendi. Forseti færir það þá næsta formanni og svo koll af kolli eins og þörf krefur. En þyki forseta einsýnt að leiðtogum stjórnmálaflokka á Alþingi muni ekki takast að mynda ríkisstjórn er honum heimilt að skipa utanþingsstjórn. Forseti velur sér þá forsætisráðherra og ráðherra og situr sú stjórn uns mál hafa þróast á þann veg að unnt er mynda ríkisstjórn sem nýtur stuðnings meirihluta eða minnihlutastjórn sem getur staðið af sér tillögu um vantraust.

Fyrrum tóku stjórnarmyndunarviðræður gjarnan langan tíma og forseti gat ráðið talsverðu um þróun mála með ákvörðun sinni um afhendingu umboðs til stjórnarmyndunar hverju sinni. Síðustu áratugi hafa leiðtogar stjórnmálaflokka hins vegar haft hraðari hendur við stjórnarmyndun og atbeini forseta hefur skipt minna máli en áður.

Loks má vera að forseti vilji hafa áhrif á pólitískar ákvarðanir. Í samtölum við forsætisráðherra eða aðra ráðherra getur hann lýst stuðningi eða andstöðu við tiltekin áform stjórnvalda og látið í veðri vaka að hann muni segja þá skoðun sína í ræðum og ávörpum, undir rós eða tæpitungulaust. Þetta hafa allir forsetar gert, í mismiklum mæli þó.

Landkynning.

Þar sem forseti Íslands er þjóðhöfðingi landsins, fulltrúi þess í opinberum heimsóknum, liggur í augum uppi að hann getur glætt áhuga útlendinga á Íslandi og jafnframt aukið hróður þess með því að vera góður heim að sækja. Til þessa var hugsað þegar embættið var stofnað 1944 en þetta hlutverk hefur fengið meira vægi á síðustu áratugum.

Vigdís Finnbogadóttir gegndi embætti forseta Íslands frá 1980 til 1996.

Kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta 1980 vakti heimsathygli enda varð hún þá fyrsta konan sem kosin var í stöðu þjóðhöfðingja. Útflutningsfyrirtæki og aðilar í ferðaþjónustu nutu góðs af þeirri hylli og athygli sem Vigdís naut ytra. Að sama skapi gerðist Ólafur Ragnar Grímsson ötull málsvari íslenskra fyrirtækja sem vildu hasla sér völl erlendis. Í embættistíð Ólafs Ragnars fjölgaði einnig til muna óopinberum ferðum forseta þar sem hann kynnti íslensk fyrirtæki og lofaði dugnað þeirra og þor.

Eftir bankahrunið mikla 2008 vöknuðu áleitnar spurningar um náið samband forseta og útrásarvíkinganna svokölluðu. Í deilunum um Icesave-samningana eftir hrun lagðist Ólafur Ragnar Grímsson í vörn fyrir málstað Íslands eins og hann túlkaði hann, og naut þá stuðnings almennings. Á hinn bóginn var afstaða hans gjarnan á skjön við sjónarmið ríkisstjórnarinnar.

Störf í samfélagsþágu.

Forseti Íslands er verndari ýmissa samtaka og viðburða auk tímabundinna verkefna í þágu góðra málefna. Auk þess veitir hann verðlaun og viðurkenningar og sæmir fólk fálkaorðunni. Forseta er einnig ætlað að rækta samband sitt við þjóðina með heimsóknum í byggðarlög og vinnustaði, til dæmis stofnanir og skóla. Forseti tekur jafnframt á móti gestum á Bessastöðum.

Sameiningartákn.

Forseti Íslands er eini embættismaður ríkisins sem kosinn er beinni kosningu allra kjósenda. Frá upphafi var þess vegna litið svo á forseti ætti að stefna að því að vera „sameiningartákn“ Íslendinga. Með því var átt við að í embætti sínu kæmi hann fram fyrir hönd þjóðarinnar allrar innanlands sem utan. Í störfum sínum myndi hann sýna fyllstu hlutlægni; hygla ekki einum stjórnmálaflokki og ganga ekki erinda sérstakra hagsmunahópa. Þar að auki er forseta ætlað að tala til þjóðar sinnar á tímamótum og örlagastundum. Má þar nefna nýársávörp og ræður við setningu Alþingis, og einnig þegar voði eða vá dynur yfir, til dæmis eldgos eða snjóflóð. Með þessum hætti er forseta ætlað að stuðla að einingu fólks og viðhalda jafnframt virðingu Íslendinga fyrir eigin sögu, tungu og náttúru, þeim þáttum sem saman gera þá öðrum fremur að sérstakri þjóð meðal þjóða.

Heimildir:
 • Guðjón Friðriksson (2008), Saga af forseta. Forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar. Útrás, athafnir, átök og einkamál. Reykjavík.
 • Guðni Th. Jóhannesson (2005), Völundarhús valdsins. Stjórnarmyndanir, stjórnarslit og staða forseta Íslands í embættistíð Kristján Eldjárns. Reykjavík.
 • Gunnar G. Schram (2. útg. 1999), Stjórnskipunarréttur. Reykjavík. Ritið er í meginatriðum byggt á verki Ólafs Jóhannessonar sem hér er líka vísað til.
 • Gylfi Gröndal (1991), Kristján Eldjárn: Ævisaga. Reykjavík.
 • Gylfi Gröndal (1992), Ásgeir Ásgeirsson: Ævisaga. Reykjavík.
 • Gylfi Gröndal (1994), Sveinn Björnsson: Ævisaga. Reykjavík.
 • Ólafur Jóhannesson (1960), Stjórnskipun Íslands. Reykjavík.
 • Páll Valsson (2009), Vigdís. Kona verður forseti. Reykjavík.
 • Sigurður Líndal (1992), „Stjórnskipuleg staða forseta Íslands“, Skírnir 166 (haust), s. 425-439.
 • Steinunn Sigurðardóttir (1988), Ein á forsetavakt: Dagar í lífi Vigdísar Finnbogadóttur. Reykjavík.
 • Sveinn Björnsson (1957), Endurminningar Sveins Björnssonar. Reykjavík.
 • Vefsíður:

Myndir:

...