Sólin Sólin Rís 11:08 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:06 • Sest 03:07 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:24 • Síðdegis: 13:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:38 • Síðdegis: 20:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:08 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:06 • Sest 03:07 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:24 • Síðdegis: 13:51 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:38 • Síðdegis: 20:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er grettistak?

Sigurður Steinþórsson

Þorleifur Einarsson svarar spurningunni stutt og laggott í Jarðfræði1 sinni: „Stór jökulborin björg nefnast grettistök.“ Sú viska opinberaðist mönnum samt ekki fyrr en um miðja 19. öld þegar ljóst varð að fyrrum höfðu jöklar þakið stór svæði sem síðan urðu jökulvana. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna (1772) segir í 693. grein sem fjallar um fornminjar í Dalasýslu og á Vestfjörðum:2

Grettistök heita stóreflisbjörg, sem sagt er, að Grettir sterki hafi lyft upp á smærri steina, sem þau hvíla á. Grettistak er á Þingmannaheiði og annað á Trékyllisheiði. Grettir lifði fram á 11. öld, og er til saga af honum, sem er allmjög þjóðsagnakennd. Hefur hún nýlega verið gefin út á Hólum. Steinatök þessi eru svo stór, að óhugsandi er, að nokkur maður hefði getað náð tökum á þeim til þess að hreyfa þau, enda þótt hann hefði haft næga krafta til þess. En í fornöld, þegar landið var miklu fólksfleira en nú og menn riðu í hópum um fjallvegu þessa, þá er trúlegt, að margir menn í sameiningu hafi lyft þessum björgum, en það gátu þeir auðveldlega, ef þeir hafa haft með sér reipi. En líklega hafa þeir skemmt sér við tilhugsunina um það, að seinni tíma menn héldu, að forfeður þeirra hafi verið svo miklu sterkari og stærri en þeir, og þekkjast þess dæmi frá öðrum stöðum. Á Grettistakið á Þingmannaheiði er krotaður rúnastafur, sem sagt er, að sé nafn Grettis, en þetta er einungis 100 ára gamalt fangamark og því enginn eiginlegur rúnastafur.
Sjötíu árum eftir að Eggert Ólafsson setti þessar hugsanir á blað kom út fyrsta bindi jarðfræðibókar Charles Lyell, Lögmál jarðfræðinnar (1830).3 Lyell velti fyrir sér grettistökum (e. (glacial) erratics) og þegar hann frétti af fyrirhugaðri strandmælingaferð skipsins Beagle til Suður-Ameríku hafði hann samband við FitzRoy skipstjóra, færði honum eintak af bókinni og bað hann að svipast um eftir grettistökum á ferð sinni. Á síðustu stundu var hinn ungi Charles Darwin ráðinn sem náttúrufræðingur Beagle í ferðinni og FitzRoy gaf honum eintak sitt af bók Lyells. Það hefði hann sennilega ekki átt að gera, því FitzRoy vonaðist til þess að Darwin mundi uppgötva í ferðinni sannanir fyrir sköpunarsögu Biblíunnar, en eins og alkunna er fór það á annan veg.

Klöpp með jökulrispum á Keldudalsheiði fyrir sunnan Mýrdalsjökul. Myndin er tekin eftir skriðstefnu jökulsins eins og rispurnar sýna sem er frá jökli og til sjávar. Jökullinn hefur skilið eftir sig grettistak á miðri klöppinni sem er líka kölluð hvalbak.

Á fyrri hluta 19. aldar voru jökulminjar sem algengar eru víða um Evrópu, þar á meðal grettistök, taldar hafa myndast í gríðarlegum vatnsflóðum og nefndar diluvium – flóðframburður. Þetta vildu margir tengja syndaflóðinu og sanna þannig frásagnir Biblíunnar. Darwin leysti að vísu ekki þessa gátu á fimm ára langri ferð sinni kringum heiminn (desember 1831 - nóvember 1836), en hann gerði margar merkar jarðfræði-athuganir og engin þótti honum unun slík sem að „jarðfræða“ – geólógísera – og sjá jörðina „með augum Lyells.“ Mikilvægast var þó að með Lögmáli jarðfræðinnar var borin til sigurs hugmyndin um nánast ómælanlegan aldur jarðar,4 og þar með nógu langan tíma fyrir þróun lífvera.

Tilvísanir:

1 Þorleifur Einarsson: Jarðfræði. Saga bergs og lands. Bókaútgáfa Máls og menningar 1968.

2 Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757. Gefin út í Sórey í Danmörku 1772. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenzkaði árið 1942. Bókaútg. Örn og Örlygur 1978.

3 Charles Lyell: Principles of Geology I-III. London, John Murrey 1830-1833.

4 Sjá pistla um Lyell og Hutton á Vísindavefnum.

Mynd:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

17.1.2014

Spyrjandi

Karen Bjarnadóttir

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er grettistak?“ Vísindavefurinn, 17. janúar 2014, sótt 10. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66458.

Sigurður Steinþórsson. (2014, 17. janúar). Hvað er grettistak? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66458

Sigurður Steinþórsson. „Hvað er grettistak?“ Vísindavefurinn. 17. jan. 2014. Vefsíða. 10. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66458>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er grettistak?
Þorleifur Einarsson svarar spurningunni stutt og laggott í Jarðfræði1 sinni: „Stór jökulborin björg nefnast grettistök.“ Sú viska opinberaðist mönnum samt ekki fyrr en um miðja 19. öld þegar ljóst varð að fyrrum höfðu jöklar þakið stór svæði sem síðan urðu jökulvana. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna (1772) segir í 693. grein sem fjallar um fornminjar í Dalasýslu og á Vestfjörðum:2

Grettistök heita stóreflisbjörg, sem sagt er, að Grettir sterki hafi lyft upp á smærri steina, sem þau hvíla á. Grettistak er á Þingmannaheiði og annað á Trékyllisheiði. Grettir lifði fram á 11. öld, og er til saga af honum, sem er allmjög þjóðsagnakennd. Hefur hún nýlega verið gefin út á Hólum. Steinatök þessi eru svo stór, að óhugsandi er, að nokkur maður hefði getað náð tökum á þeim til þess að hreyfa þau, enda þótt hann hefði haft næga krafta til þess. En í fornöld, þegar landið var miklu fólksfleira en nú og menn riðu í hópum um fjallvegu þessa, þá er trúlegt, að margir menn í sameiningu hafi lyft þessum björgum, en það gátu þeir auðveldlega, ef þeir hafa haft með sér reipi. En líklega hafa þeir skemmt sér við tilhugsunina um það, að seinni tíma menn héldu, að forfeður þeirra hafi verið svo miklu sterkari og stærri en þeir, og þekkjast þess dæmi frá öðrum stöðum. Á Grettistakið á Þingmannaheiði er krotaður rúnastafur, sem sagt er, að sé nafn Grettis, en þetta er einungis 100 ára gamalt fangamark og því enginn eiginlegur rúnastafur.
Sjötíu árum eftir að Eggert Ólafsson setti þessar hugsanir á blað kom út fyrsta bindi jarðfræðibókar Charles Lyell, Lögmál jarðfræðinnar (1830).3 Lyell velti fyrir sér grettistökum (e. (glacial) erratics) og þegar hann frétti af fyrirhugaðri strandmælingaferð skipsins Beagle til Suður-Ameríku hafði hann samband við FitzRoy skipstjóra, færði honum eintak af bókinni og bað hann að svipast um eftir grettistökum á ferð sinni. Á síðustu stundu var hinn ungi Charles Darwin ráðinn sem náttúrufræðingur Beagle í ferðinni og FitzRoy gaf honum eintak sitt af bók Lyells. Það hefði hann sennilega ekki átt að gera, því FitzRoy vonaðist til þess að Darwin mundi uppgötva í ferðinni sannanir fyrir sköpunarsögu Biblíunnar, en eins og alkunna er fór það á annan veg.

Klöpp með jökulrispum á Keldudalsheiði fyrir sunnan Mýrdalsjökul. Myndin er tekin eftir skriðstefnu jökulsins eins og rispurnar sýna sem er frá jökli og til sjávar. Jökullinn hefur skilið eftir sig grettistak á miðri klöppinni sem er líka kölluð hvalbak.

Á fyrri hluta 19. aldar voru jökulminjar sem algengar eru víða um Evrópu, þar á meðal grettistök, taldar hafa myndast í gríðarlegum vatnsflóðum og nefndar diluvium – flóðframburður. Þetta vildu margir tengja syndaflóðinu og sanna þannig frásagnir Biblíunnar. Darwin leysti að vísu ekki þessa gátu á fimm ára langri ferð sinni kringum heiminn (desember 1831 - nóvember 1836), en hann gerði margar merkar jarðfræði-athuganir og engin þótti honum unun slík sem að „jarðfræða“ – geólógísera – og sjá jörðina „með augum Lyells.“ Mikilvægast var þó að með Lögmáli jarðfræðinnar var borin til sigurs hugmyndin um nánast ómælanlegan aldur jarðar,4 og þar með nógu langan tíma fyrir þróun lífvera.

Tilvísanir:

1 Þorleifur Einarsson: Jarðfræði. Saga bergs og lands. Bókaútgáfa Máls og menningar 1968.

2 Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757. Gefin út í Sórey í Danmörku 1772. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenzkaði árið 1942. Bókaútg. Örn og Örlygur 1978.

3 Charles Lyell: Principles of Geology I-III. London, John Murrey 1830-1833.

4 Sjá pistla um Lyell og Hutton á Vísindavefnum.

Mynd: