Tvö þúsund króna seðill hefur ekkert sérstakt verðmæti umfram það sem á honum segir. Hann er sem sé tvö þúsund króna virði. Það má því kaupa fyrir hann jafnmikið og fyrir til dæmis tvo þúsund krónu seðla eða fjóra fimm hundruð króna seðla.
Tvö þúsund krónu seðlar eru hins vegar frekar lítið notaðir og því algengara að rekast á aðra seðla. Í lok apríl 2007 voru rétt tæplega 200 þúsund slíkir seðlar í umferð á Íslandi en til samanburðar voru fimm þúsund krónu seðlar meira en átta sinnum fleiri og þúsund krónu seðlar meira en tólf sinnum fleiri.
Þess má geta að tvö þúsund krónu seðillinn er yngstur þeirra seðla sem Seðlabanki Íslands gefur út. Hann kom fyrst í umferð árið 1995. Elsti seðillinn af þeim sem eru enn í notkun er hins vegar 500 krónu seðillinn. Hann var fyrst settur í umferð við gjaldmiðilsbreytinguna árið 1981. Fimm hundruð krónu seðillinn er sá eini frá þeim tíma sem enn er í notkun. Síðan hafa bæst við þúsund krónu seðill árið 1984, fimm þúsund krónu seðill árið 1986 og nú síðast tvö þúsund krónu seðillinn.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hvað eru margir 500 króna seðlar í umferð á Íslandi? eftir Einar Örn Þorvaldsson
- Hvað er mikið til af íslenskum seðlum og myntum? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað duga peningaseðlar og mynt lengi? eftir Stefán Arnarson
- Hvar eru íslensku peningarnir prentaðir, eða má enginn vita það? eftir Gylfa Magnússon