Sólin Sólin Rís 07:58 • sest 18:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:00 • Síðdegis: 21:18 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:48 • Síðdegis: 15:22 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:58 • sest 18:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:00 • Síðdegis: 21:18 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:48 • Síðdegis: 15:22 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju mega hvorki loftbólur komast í æðar né vatn í lungun?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Þegar loft kemst í blóðið og fer á flakk með blóðrásinni kallast það blóðrek lofts (e. air embolism). Komist loft í blóðrásina, til dæmis við skurðaðgerðir eða slys, getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar.

Dæmi um slys af þessu tagi er ef lungnavefurinn rofnar, til dæmis vegna áverka eftir hnífsstungu eða ef brotið rifbein stingst í vefinn. Loftbólur úr lungnablöðrum flæða þá í nærliggjandi háræðar og bláæðar. Flestar eyðast þær í lungunum og blóðrek lofts í bláæðum er oftast einkennalaust. Berist loftbólur aftur á móti með lungnabláæðum til vinstri hjartahelmings er hætta á að þær stífli kransæðar og valdi hjartaáfalli. Algengara er þó að þær berist áfram úr hjartanu og endi í heilanum. Ef æðar þar stíflast af lofti hindrar það að heilinn fái súrefni og næringarefni. Heilavefur sem er án þessara lífsnauðsynlegu efna í um fimm mínútur hlýtur óafturkræfan skaða sem lýsir sér líkt og heilaáfall með flogum, meðvitundarleysi, öndunarerfiðleikum og að lokum dauða ef ekki er gripið í taumana.



Loftbólur í blóðrásarkerfinu geta borist í hjarta eða heila og stíflað þar æðar með alvarlegum afleiðingum.

Loft getur líka komist í blóð þó enginn vefur rofni, blóðrek lofts er til dæmis eitt af því sem gerist við kafaraveiki. Ef kafari kemur of hratt úr kafi losna lofttegundir sem voru uppleystar í blóðinu úr líkamsvökvanum vegna minnkandi þrýstings og loftbólur myndast. Nánar er fjallað um kafaraveiki í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er kafaraveiki og hvernig er hægt að losna við hana?

Seinni hluti spurningarinnar fjallar um vatn í lungum en vatn getur komist í lungu bæði utan frá og innan. Þegar fólk er nálægt því að drukkna getur vatn komist utan frá niður í lungun og við getum fengið vatn innan frá í lungun vegna sjúkdóms.

Ástæðan fyrir því að það er hættulegt að fá vatn í lungun utan frá er sú að við getum ekki nýtt okkur súrefnið sem er uppleyst í vatninu til að halda lífi. Styrkur þess er alltof lágur í vatni til að lungu geti nýtt sér það, enda hafa þau þróast til þess að afla súrefnis úr andrúmslofti. Afleiðingin getur orðið drukknum vegna súrefnisskorts.

Þegar vatn kemur í lungun innan frá eru hugsanlegar orsakir nokkrar. Hjartabilun er algengasta orsökin en þá er blóðrásin treg vegna þess að hjartavöðvinn er slappur, til dæmis eftir hjartaáfall, bilun er í ósæðarloku eða vinstri hjartaloku, svokallaðri tvíblöðkuloku. Þá streymir blóðið ekki eðlilega úr vinstri slegli í ósæðina og þaðan um allan líkamann, heldur verður bakflæði á blóðinu úr slegli í gátt. Bakflæðið getur orðið svo mikið að það þrýstir á blóð í lungnabláæðum með þeim afleiðingum að blóðvökvi síast úr æðunum í lungnablöðrur, sem sagt „vatn safnast í lungun“. Þessi vökvi hindrar eðlilegt flæði súrefnis úr andrúmslofti í lungnablöðrur og einstaklingurinn verður andstuttur eða móður.

Lungnasjúkdómar, áverkar á lungum, eiturefni eða sýkingar geta einnig valdið vökvasöfnun í lungum. Þá getur nýrnabilun leitt til óeðlilegrar vökvasöfnunar í líkamanum og þar með í lungunum.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

24.5.2007

Spyrjandi

Sigurður Ingi Þórðarson
Arna Hjörleifsdóttir
Óðinn Bergsteinsson

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Af hverju mega hvorki loftbólur komast í æðar né vatn í lungun?“ Vísindavefurinn, 24. maí 2007, sótt 8. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6653.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2007, 24. maí). Af hverju mega hvorki loftbólur komast í æðar né vatn í lungun? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6653

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Af hverju mega hvorki loftbólur komast í æðar né vatn í lungun?“ Vísindavefurinn. 24. maí. 2007. Vefsíða. 8. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6653>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju mega hvorki loftbólur komast í æðar né vatn í lungun?
Þegar loft kemst í blóðið og fer á flakk með blóðrásinni kallast það blóðrek lofts (e. air embolism). Komist loft í blóðrásina, til dæmis við skurðaðgerðir eða slys, getur það haft mjög alvarlegar afleiðingar.

Dæmi um slys af þessu tagi er ef lungnavefurinn rofnar, til dæmis vegna áverka eftir hnífsstungu eða ef brotið rifbein stingst í vefinn. Loftbólur úr lungnablöðrum flæða þá í nærliggjandi háræðar og bláæðar. Flestar eyðast þær í lungunum og blóðrek lofts í bláæðum er oftast einkennalaust. Berist loftbólur aftur á móti með lungnabláæðum til vinstri hjartahelmings er hætta á að þær stífli kransæðar og valdi hjartaáfalli. Algengara er þó að þær berist áfram úr hjartanu og endi í heilanum. Ef æðar þar stíflast af lofti hindrar það að heilinn fái súrefni og næringarefni. Heilavefur sem er án þessara lífsnauðsynlegu efna í um fimm mínútur hlýtur óafturkræfan skaða sem lýsir sér líkt og heilaáfall með flogum, meðvitundarleysi, öndunarerfiðleikum og að lokum dauða ef ekki er gripið í taumana.



Loftbólur í blóðrásarkerfinu geta borist í hjarta eða heila og stíflað þar æðar með alvarlegum afleiðingum.

Loft getur líka komist í blóð þó enginn vefur rofni, blóðrek lofts er til dæmis eitt af því sem gerist við kafaraveiki. Ef kafari kemur of hratt úr kafi losna lofttegundir sem voru uppleystar í blóðinu úr líkamsvökvanum vegna minnkandi þrýstings og loftbólur myndast. Nánar er fjallað um kafaraveiki í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er kafaraveiki og hvernig er hægt að losna við hana?

Seinni hluti spurningarinnar fjallar um vatn í lungum en vatn getur komist í lungu bæði utan frá og innan. Þegar fólk er nálægt því að drukkna getur vatn komist utan frá niður í lungun og við getum fengið vatn innan frá í lungun vegna sjúkdóms.

Ástæðan fyrir því að það er hættulegt að fá vatn í lungun utan frá er sú að við getum ekki nýtt okkur súrefnið sem er uppleyst í vatninu til að halda lífi. Styrkur þess er alltof lágur í vatni til að lungu geti nýtt sér það, enda hafa þau þróast til þess að afla súrefnis úr andrúmslofti. Afleiðingin getur orðið drukknum vegna súrefnisskorts.

Þegar vatn kemur í lungun innan frá eru hugsanlegar orsakir nokkrar. Hjartabilun er algengasta orsökin en þá er blóðrásin treg vegna þess að hjartavöðvinn er slappur, til dæmis eftir hjartaáfall, bilun er í ósæðarloku eða vinstri hjartaloku, svokallaðri tvíblöðkuloku. Þá streymir blóðið ekki eðlilega úr vinstri slegli í ósæðina og þaðan um allan líkamann, heldur verður bakflæði á blóðinu úr slegli í gátt. Bakflæðið getur orðið svo mikið að það þrýstir á blóð í lungnabláæðum með þeim afleiðingum að blóðvökvi síast úr æðunum í lungnablöðrur, sem sagt „vatn safnast í lungun“. Þessi vökvi hindrar eðlilegt flæði súrefnis úr andrúmslofti í lungnablöðrur og einstaklingurinn verður andstuttur eða móður.

Lungnasjúkdómar, áverkar á lungum, eiturefni eða sýkingar geta einnig valdið vökvasöfnun í lungum. Þá getur nýrnabilun leitt til óeðlilegrar vökvasöfnunar í líkamanum og þar með í lungunum.

Heimildir og mynd:...