Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hver var munur á vinnumönnum/konum og húsmönnum/konum? Ég tek eftir báðum þessum starfsheitum langt fram á 19. öld.
Í íslensku fornmáli koma orðin húsmaður og húskona ekki fyrir í þeirri merkingu sem þessi orð hafa á síðari öldum. Á elsta stigi sem við þekkjum eftir að þrælahald lagðist af var vinnuhæfri alþýðu manna skipt í þrjú stig:
Bændur og húsfreyjur héldu eigið heimili og höfðu nógu margt búfé til að geta lifað á því.
Búðsetumenn [og konur þeirra] héldu heimili en höfðu fátt eða ekkert búfé og þurftu því að sækja sér vinnu utan heimilis, oft við sjósókn.
Hjú, vinnufólk, griðfólk, karlmenn líka kallaðir húskarlar. Þetta fólk bjó inni á heimilum bænda og hafði oftast vinnuskyldu hjá þeim allt árið. Fyrir það fékk fólk húsnæði (lítið meira en rúm til að sofa í), fæði og líklega oftast vinnulaun, að minnsta kosti karlmenn.
Sjálfsagt hafa verið ýmis millistig í milli þessara flokka, enda vottar fyrir þeim í lögum. En skýrast mun að hugsa um málið út frá þessum þremur flokkum.
Á síðari öldum kemur húsmennskuhugtakið inn í íslenskt mál og íslenskan rétt, vafalaust fyrir áhrif frá Danmörku þar sem húsfólk var lengi afar fjölmenn starfsstétt, á efnahagsstigi milli bænda og vinnufólks. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans um orðið húsmaður er í skjali frá upphafi 16. aldar, en húskonur virðast ekki vera nefndar í varðveittum textum fyrr en á 17. öld. Kannski vegna þess að orðið kom inn í málið áður en það varð lagalegt hugtak var það varla nokkurn tímann skilgreint nákvæmlega í íslensku. Samt var farið að nota orðið í opinberum gögnum. Í fyrsta manntali Íslendinga, árið 1703, voru taldir 1.124 manns í húsmennsku, sem var 2,6% þjóðarinnar. Þar af voru 110 hjón, 370 einhleypar konur, 272 einhleypir karlar. Þetta fólk átti 194 börn, sá fyrir 35 fósturbörnum og öðrum ættingjum, hafði 32 vinnumenn og vinnukonur og einn lausamann á heimili sínu. Þetta sýnir að húskonur hafa verið talsvert fleiri en húsmenn. Á þessum tölum sést líka að húsfólk hefur verið af ýmsu tagi, allt frá því að vera einstaklingar upp í að halda umtalsverð heimili með vinnufólki og hlýtur þá að hafa stundað einhverja sjálfstæða atvinnu, líklega oftast sjósókn. Til þess bendir líka að árið 1703 var húsmennska algengust í sjósóknarhéruðum, Ísafjarðarsýslu, Barðastrandarsýslu og á Snæfellsnesi.
Væntanlega hafa einhverjir húsmenn sótt sjóinn frá þessari 19. aldar verbúð í Ósvör í Bolungarvík.
Á 19. öld var húsfólk og þurrabúðarfólk oft flokkað saman þegar unnið var úr manntölum. Síðast er flokkurinn húsmennska notaður í skýrslum um manntal árið 1901. Þá voru 1.606 manns skráðir í flokkinn eða rúm 2% þjóðarinnar. En þá bregður svo við að húsfólk er orðið flest í Suður-Þingeyjarsýslu. Mér dettur í hug að það stafi af því að þar hafi myndast venja að skipta öðruvísi en annars staðar á milli flokka þurrabúðarmanna og húsmanna, jafnvel hjáleigubænda og húsmanna.
Það voru nefnilega aldrei skýr mörk á milli þessara flokka fólks. Hjáleigubændur töldust að vísu til bænda, en þeir gátu haft svo lítinn bústofn að þeir lentu í flokki með þurrabúðarfólki og húsfólki, á milli bænda og vinnufólks. Þurrabúðarmenn voru í meginatriðum þeir sem höfðu verið kallaðir búðsetumenn að fornu, þeir sem héldu heimili án þess að hafa umtalsvert búfé. Húsfólk var fyrst og fremst leigjendur í húsnæði bænda án þess að hafa vinnuskyldu eða vistarskyldu hjá þeim eins og vinnufólk hafði. Meginreglan var sú að húsfólk eldaði sér mat sérstaklega, og líklega hefur það oftast haft sérstakt íbúðarherbergi. Á 19. öld að minnsta kosti var nokkuð um að hjón ættu heima í húsakynnum bónda, karlinn var vinnumaður þar en konan húskona. Þá hefur konan væntanlega haft einhverja sérstaka atvinnu, kannski saumaskap og prjónavinnu.
Síðast voru sett lög um húsfólk á Íslandi árið 1907, Lög um lausamenn, húsmenn og þurrabúðarmenn. Þar var mælt fyrir um að þeir sem vildu setjast að í húsmennsku eða þurrabúð skyldu tilkynna lögreglustjóra eða hreppstjóra frá því með að minnsta kosti fjögurra vikna fyrirvara og vera tilbúnir að sanna að þeir ættu vísan samastað í sveitarfélaginu að minnsta kosti heilt ár. En þá var íslenskt samfélag að komast á mikla hreyfingu, og lögin urðu strax úrelt. Ekki var einu sinni hirt um að afnema þau; lögin voru enn prentuð í íslenskum lagasöfnum allt fram á síðari hluta 20. aldar.
Heimildir og mynd:
Einar Laxness: Íslandssaga a–h. Reykjavík, Vaka-Helgafell, 1995.
Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
Lagasafn. Gildandi lög íslenzk vorið 1945. Gefin út að tilhlutan dómsmálaráðuneytisins af Ólafi Lárussyni. Reykjavík 1947.
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hver var munurinn á vinnufólki og húsfólki?“ Vísindavefurinn, 26. júní 2014, sótt 2. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66806.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2014, 26. júní). Hver var munurinn á vinnufólki og húsfólki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66806
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hver var munurinn á vinnufólki og húsfólki?“ Vísindavefurinn. 26. jún. 2014. Vefsíða. 2. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66806>.