Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað hefur Vísindavefurinn að segja um Harry Potter?

Heiða María Sigurðardóttir

Bókaflokkurinn um galdrastrákinn Harry Potter eftir J. K. Rowling er einn vinsælasti, ef ekki sá allra vinsælasti, í heimi. Þegar þetta er skrifað hafa komið út sex bækur og sú sjöunda og síðasta er væntanleg. Allnokkur svör má finna á Vísindavefnum sem beint eða óbeint tengjast Harry Potter og ævintýrum hans. Hér á eftir er bent á mörg þeirra, en athugið þó að í textanum leynast spillar (e. spoilers) þar sem greint er frá hluta söguþráðar. Engir spillar eru þó úr sjöundu og síðustu bókinni heldur einungis getgátur.

Skrunið niður til að lesa svarið.


Hér má sjá Harry Potter og ugluna hans, Hedwig. Harry ber ör á enni sér eftir galdraáverka. Nær öll sár skilja eftir sig einhvers konar ör, en líkaminn myndar svokallaðan örvef í stað upphaflega vefsins (sjá Af hverju skilja sár eftir sig ör? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur).

Fyrsta bókin í bókaflokkinum nefnist Harry Potter og viskusteinninn (e. Harry Potter and the Philosopher's Stone). Þar er sagt frá því hvernig hinn 11 ára gamli Harry Potter kemst að því að hann er enginn venjulegur strákur heldur galdramaður. Galdramenn eru líka stundum kallaðir seiðskrattar, eins og lesa má um í svari Aðalheiðar Guðmundsdóttur, Hvað er seiðskratti?

Ólína Þorvarðardóttir segir í svari sínu við spurningunni Eru galdrar til?

Hugtakið galdur (lat. magice, magica) hefur í gegnum tíðina verið nátengt bæði trúarbrögðum og vísindum. Annars vegar felur galdurinn í sér yfirskilvitlega getu galdramanns til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður. Hins vegar felur hann í sér gjörning sem getur verið allt að því listræn athöfn. Í báðum tilvikum þarf galdramaðurinn að búa yfir einhverskonar verkkunnáttu...

Þessa kunnáttu öðlast Harry Potter í Hogwarts, skóla galdra og seiða, þar sem ungir breskir galdramenn og galdranornir læra til verka. Í fjórðu bókinni, Harry Potter og eldbikarinn (Harry Potter and the Goblet of Fire), eru nefndir til sögunnar fleiri galdraskólar, svo sem Beauxbatons í Frakklandi. Íslendingurinn Sæmundur fróði Sigfússon (1056-1133), goðorðsmaður og prestur, er einmitt oft sagður hafa gengið í galdraskóla í Frakklandi, Svartaskóla, og lært þar „fjölkynngi eður svartra rúna list“ (sjá Hvar var Svartiskóli sem Sæmundur fróði sótti? eftir Sverri Jakobsson).

Eins og í raunheimum fara nemendur í Hogwarts í tíma, reyndar ekki efnafræði, líffræði og aðra slíka, heldur taka fremur áfanga eins og töfradrykki (e. potions) og jurtafræði (e. herbology). Hálfgerð töfradrykkja- og jurtafræði hefur lengi verið iðkuð í alvörunni, en jurtir hafa gegnum tíðina verið mikið notaðar til galdra og lækninga. Símon Jón Jóhannsson segir til dæmis í svari sínu, Hvaða jurtir voru notaðar til galdraverka og lækninga?

Draumagras, eða klóelfting, er sagt vaxa allra grasa fyrst og á það að vera fullsprottið 16. maí. Þann dag skulu menn taka það, setja inn í Biblíuna og geyma í guðspjalli 16. sunnudags eftir trínitatis. Því næst skal láta það í hársrætur sér fyrir svefninn og dreymir mann þá það sem maður vill vita. Einnig er hægt að mylja draumagrasið saman við messuvín og taka inn á fastandi maga á hverjum morgni. Þessi blanda ver menn gegn holdsveiki.


Svona gæti Hogwarts, skóli galdra og seiða, litið út.

Eins og nafnið bendir til fjallar Harry Potter og viskusteinninn að nokkru leyti um töfrastein, viskusteininn, sem sagður er geta gefið mönnum eilíft líf. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú voru til svipaðir steinar, svokallaðir lífsteinar, sem lífgað gátu við dauðvona manneskjur. Einnig var talað um huliðshjálmssteina sem gerðu mann ósýnilegan (sjá Hvað er vitað um töfrasteina eins og óskasteina og huliðshjálmssteina? eftir Ólínu Þorvarðardóttur). Í bókunum eignast Harry einmitt huliðsskikkju sem gegnir sama hlutverki; sveipi Harry utan um sig skikkjunni getur hann ferðast um óséður.

Harry Potter kynnist fljótt hinum risavaxna Rubeus Hagrid sem er skógarvörður við Hogwartsskóla. Hugsanlegt er að höfundurinn Rowling hafi nefnt Hagrid eftir risanum Agríosi sem lýst er í grískum goðsögum (sjá Er Hagrid í Harry Potter-bókunum til í grískri eða rómverskri goðafræði? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur). Síðar í bókaflokkinum kemur í ljós að Hagrid á hálfbróðurinn Gráp sem er einmitt risi. Í ævintýrum eru risar oft sagðir gæta gulls og eiga glersali, en risar í Harry Potter bókunum búa yfirleitt á fjöllum uppi. Að því leyti líkjast þeir frekar hinum íslensku tröllum sem oft eru sögð bergbúar. Tröll koma líka fyrir í Harry Potter bókunum, en þar eru tröllin í fjöllunum sögð frekar grunnhyggin og heldur minni en risar. Fleiri en Rowling gera greinarmun á risum, tröllum og öðrum stórum vættum, eins og lesa má nánar um í svari Ólínu Þorvarðardóttur við spurningunni Hver er munurinn á trölli, jötni og risa? Þar segir meðal annars:

Vanalega er gerður greinarmunur á hugtökunum jötunn, tröll og risi, þó að vissulega skarist merking þeirra og skil geti verið óljós. Þannig tilheyra jötnar jafnan norrænni goðafræði, risar eiga heima í evrópskum ævintýrum en tröllin byggja kletta og klungur íslenskra þjóðsagna.

Nemendur í Hogwarts mega taka með sér gæludýr í skólann, til dæmis uglur, svo að Hagrid gefur Harry snæugluna Hedwig. Ron Weasley, einn besti vinur Harrys, eignast síðar ugluna Grísling (e. Pigwidgeon), sem er skopugla. Báðar þessar uglutegundir hafa fundist á Íslandi; snæuglur flækjast reglulega hingað til lands, líklega frá Grænlandi, og skopuglur eru sjaldgæfir flækingar (sjá Getið þið sýnt mér myndir af öllum uglutegundum á Íslandi og þeim sem hafa komið hingað? eftir Jón Má Halldórsson).

Hagrid er sjálfur sagður eiga margar furðuskepnur, svo sem þríhöfða hundinn Hnoðra (e. Fluffy) sem gætir fallhlera í Hogwartskastala. Hnoðri er byggður á hundinum Kerberosi sem gætir undirheimanna samkvæmt grískri goðafræði. Báða þessa hunda má svæfa með því að leika fyrir þá tónlist (sjá Hver er Kerberos og hvernig lítur hann út? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson).

Hagrid eignast einnig drekaungann Norbert, og aðrir drekar koma líka mikið við sögu í Harry Potter og eldbikarnum, eins og í svo mörgum öðrum ævintýrum. Rakel Pálsdóttir segir í svari sínu við spurningunni Af hverju eru drekar svona algengir í „þjóðsögum“ allra landa?

Drekinn er alþjóðlegt tákn og getur bæði vísað í hið góða og hið illa... Í vestrænni menningu er drekinn oftast illt og eyðileggjandi afl sem vinna þarf bug á.

Harry Potter þarf einmitt að sýna kjark sinn og dug með því að kljást við dreka í Þrígaldraleikunum, keppni á milli galdraskóla sem haldin er á fimm ára fresti.


Harry og Ron misstu eitt sinn af lestinni til Hogwarts. Því tóku þeir flugbíl Weasley-fjölskyldunnar traustataki. Þorsteinn Vilhjálmsson segir í svarinu Er líklegt að hægt verði að smíða flugbíla í framtíðinni? að ekki sé líklegt að slík farartæki verði almenningseign sökum tæknilegra og eðlisfræðilegra hindrana. Myndin er úr kvikmyndinni Harry Potter og leyniklefinn (Harry Potter and the Chamber of Secrets).

Margar vættir finnast í Forboðna skóginum (e. Forbidden Forest) við Hogwartsskóla. Þar búa kentárar (e. centaurs) sem eru hálfir menn og hálfir hestar. Kentárar eru til í mörgum sögnum og eru í raun bara ein tegund finngálkna, sem eru menn að ofan en dýr að neðan. Einnig eru til sögur af svipuðum skepnum sem nefnast hippopodes, en þeir voru menn sem höfðu hófa hests í stað fóta (sjá Hvað er finngálkn sem minnst er á í Njáls sögu? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson).

Í skóginum búa líka einhyrningar sem einnig líkjast hestum en hafa horn á höfði. Ekki ber þó öllum sögum saman um útlit einhyrninga. Pliníus eldri (23-79 e.Kr.) lýsir þeim til dæmis svo (sjá Hvað eru einhyrningar og fyrir hvað standa þeir? eftir Ulriku Andersson):

Einhyrningar hafa skrokk sem líkist hrossi, hjartarhöfuð, fílafætur, galtardindil. Horn einhyrninga er alveg svart en hljóðin sem dýrið gefur frá sér líkjast bauli.

Einhyrningar eru þó yfirleitt sagðir einkar glæsilegir og fallegir.

Í Forboðna skóginum lifa öllu viðskotaillri skepnur; þar finnst hópur af risaköngulóm (e. Acromantulas), hræðilegum ófreskjum sem éta gjarnan fólk sem álpast inn á yfirráðasvæði þeirra. Fuglaætuköngulær, stærstu köngulær sem til eru í raunveruleikanum, eru smávaxnar í samanburði við Acromantúlurnar, aðeins um 25 cm. Þær éta sem betur fer ekki menn, heldur nærast helst á skordýrum, músum og smávöxnum skriðdýrum (Hver er stærsta köngulóin í heiminum? En á Íslandi? eftir Jón Má Halldórsson).

Acromantúlurnar hræðast helst eina skepnu sem verður að teljast enn ógnvænlegri: Basilíuslönguna (e. basilisk). Í Harry Potter og leyniklefanum (Harry Potter and the Chamber of Secrets) er basilíuslangan sögð „konungur snákanna“ (e. King of Serpents), en gríska orðið „basilius“ merkir einmitt „konungur“. Hún getur drepið menn með augnaráðinu einu saman, en láti menn basilíuslönguna horfa á sig í spegli dettur hún sjálf dauð niður (sjá Getið þið sagt mér allt um hina ógnvænlegu basilíuslöngu?).


Augnaráð basilíkuslöngunnar er banvænt.

Samkvæmt þjóðsögum klekst basilíuslangan úr eggi sjö vetra hana, sem verpir þegar stjarnan Síríus sést á himni. Síríus er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stórahundi og er stundum kölluð hundastjarnan (sjá Hvaðan kemur orðið hundadagar?). Það er því líklega engin tilviljun að ein aðalpersónan úr bókinni Harry Potter og fanginn frá Azkaban (Harry Potter and the Prisoner of Azkaban) heitir Sirius Black, enda getur Sirius þessi breytt sér í svartan hund.

Það eru fleiri hamhleypur í Harry Potter bókunum, þeirra á meðal galdrakennarinn Remus Lupin. Lupin breytist þó ekki viljandi heldur er hann varúlfur og tekur því á sig úlfsmynd einu sinni í mánuði við fullt tungl. Orðið „varúlfur“ merkir bókstaflega „mannúlfur“, en „var“ er sama orð og „ver“, sem þýðir „maður“ (sjá Hvað getið þið sagt mér um varúlfa? eftir Símon Jón Jóhannsson).

Líkt og hjá Siriusi gefur nafn Lupins vísbendingu um eðli hans og ásýnd. „Lupus“ merkir „úlfur“, eins og sést til dæmis á latneska fræðiheiti gráúlfsins, Canis lupus (sjá Getið þið sagt mér frá þróun úlfa? eftir Jón Má Halldórsson). Tvíburarnir Rómúlus og Remus, sem samkvæmt þjóðsögum stofnuðu Rómaborg 753 f.Kr., lifðu svo af með því að nærast á úlfamjólk (sjá Hverjir voru Rómúlus og Remus?).

Þegar þetta er skrifað er ekki búið að gefa út sjöundu og síðustu bókina í bókaflokkinum. Hún hefur ekki enn fengið íslenskt heiti en nefnist á frummálinu Harry Potter and the Deathly Hallows. Miklar umræður hafa spunnist um það hvort Harry muni láta lífið í lok sögunnar. Það yrði ekki einsdæmi í bókmenntasögunni þótt í sumum verkum, svo sem Hringadróttinssögu, hafi persónurnar reyndar vaknað til lífsins á ný (sjá Hversu algengt er að höfundar drepi aðalpersónurnar í frægum bókum eða bókaröðum? eftir Stellu Soffíu Jóhannesdóttur). Hver örlög Harrys verða skal þó látið ósagt hér, og verða því lesendur sjálfir að komast að botni í málinu.


Höfundur þakkar áhugamönnum um Harry Potter á Huga.is kærlega fyrir hjálpina við íslenskar þýðingar á hugtökum sem tengjast bókunum.


Heimildir

Myndir

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

19.7.2007

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Hvað hefur Vísindavefurinn að segja um Harry Potter?“ Vísindavefurinn, 19. júlí 2007, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6726.

Heiða María Sigurðardóttir. (2007, 19. júlí). Hvað hefur Vísindavefurinn að segja um Harry Potter? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6726

Heiða María Sigurðardóttir. „Hvað hefur Vísindavefurinn að segja um Harry Potter?“ Vísindavefurinn. 19. júl. 2007. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6726>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað hefur Vísindavefurinn að segja um Harry Potter?
Bókaflokkurinn um galdrastrákinn Harry Potter eftir J. K. Rowling er einn vinsælasti, ef ekki sá allra vinsælasti, í heimi. Þegar þetta er skrifað hafa komið út sex bækur og sú sjöunda og síðasta er væntanleg. Allnokkur svör má finna á Vísindavefnum sem beint eða óbeint tengjast Harry Potter og ævintýrum hans. Hér á eftir er bent á mörg þeirra, en athugið þó að í textanum leynast spillar (e. spoilers) þar sem greint er frá hluta söguþráðar. Engir spillar eru þó úr sjöundu og síðustu bókinni heldur einungis getgátur.

Skrunið niður til að lesa svarið.


Hér má sjá Harry Potter og ugluna hans, Hedwig. Harry ber ör á enni sér eftir galdraáverka. Nær öll sár skilja eftir sig einhvers konar ör, en líkaminn myndar svokallaðan örvef í stað upphaflega vefsins (sjá Af hverju skilja sár eftir sig ör? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur).

Fyrsta bókin í bókaflokkinum nefnist Harry Potter og viskusteinninn (e. Harry Potter and the Philosopher's Stone). Þar er sagt frá því hvernig hinn 11 ára gamli Harry Potter kemst að því að hann er enginn venjulegur strákur heldur galdramaður. Galdramenn eru líka stundum kallaðir seiðskrattar, eins og lesa má um í svari Aðalheiðar Guðmundsdóttur, Hvað er seiðskratti?

Ólína Þorvarðardóttir segir í svari sínu við spurningunni Eru galdrar til?

Hugtakið galdur (lat. magice, magica) hefur í gegnum tíðina verið nátengt bæði trúarbrögðum og vísindum. Annars vegar felur galdurinn í sér yfirskilvitlega getu galdramanns til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður. Hins vegar felur hann í sér gjörning sem getur verið allt að því listræn athöfn. Í báðum tilvikum þarf galdramaðurinn að búa yfir einhverskonar verkkunnáttu...

Þessa kunnáttu öðlast Harry Potter í Hogwarts, skóla galdra og seiða, þar sem ungir breskir galdramenn og galdranornir læra til verka. Í fjórðu bókinni, Harry Potter og eldbikarinn (Harry Potter and the Goblet of Fire), eru nefndir til sögunnar fleiri galdraskólar, svo sem Beauxbatons í Frakklandi. Íslendingurinn Sæmundur fróði Sigfússon (1056-1133), goðorðsmaður og prestur, er einmitt oft sagður hafa gengið í galdraskóla í Frakklandi, Svartaskóla, og lært þar „fjölkynngi eður svartra rúna list“ (sjá Hvar var Svartiskóli sem Sæmundur fróði sótti? eftir Sverri Jakobsson).

Eins og í raunheimum fara nemendur í Hogwarts í tíma, reyndar ekki efnafræði, líffræði og aðra slíka, heldur taka fremur áfanga eins og töfradrykki (e. potions) og jurtafræði (e. herbology). Hálfgerð töfradrykkja- og jurtafræði hefur lengi verið iðkuð í alvörunni, en jurtir hafa gegnum tíðina verið mikið notaðar til galdra og lækninga. Símon Jón Jóhannsson segir til dæmis í svari sínu, Hvaða jurtir voru notaðar til galdraverka og lækninga?

Draumagras, eða klóelfting, er sagt vaxa allra grasa fyrst og á það að vera fullsprottið 16. maí. Þann dag skulu menn taka það, setja inn í Biblíuna og geyma í guðspjalli 16. sunnudags eftir trínitatis. Því næst skal láta það í hársrætur sér fyrir svefninn og dreymir mann þá það sem maður vill vita. Einnig er hægt að mylja draumagrasið saman við messuvín og taka inn á fastandi maga á hverjum morgni. Þessi blanda ver menn gegn holdsveiki.


Svona gæti Hogwarts, skóli galdra og seiða, litið út.

Eins og nafnið bendir til fjallar Harry Potter og viskusteinninn að nokkru leyti um töfrastein, viskusteininn, sem sagður er geta gefið mönnum eilíft líf. Samkvæmt íslenskri þjóðtrú voru til svipaðir steinar, svokallaðir lífsteinar, sem lífgað gátu við dauðvona manneskjur. Einnig var talað um huliðshjálmssteina sem gerðu mann ósýnilegan (sjá Hvað er vitað um töfrasteina eins og óskasteina og huliðshjálmssteina? eftir Ólínu Þorvarðardóttur). Í bókunum eignast Harry einmitt huliðsskikkju sem gegnir sama hlutverki; sveipi Harry utan um sig skikkjunni getur hann ferðast um óséður.

Harry Potter kynnist fljótt hinum risavaxna Rubeus Hagrid sem er skógarvörður við Hogwartsskóla. Hugsanlegt er að höfundurinn Rowling hafi nefnt Hagrid eftir risanum Agríosi sem lýst er í grískum goðsögum (sjá Er Hagrid í Harry Potter-bókunum til í grískri eða rómverskri goðafræði? eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur). Síðar í bókaflokkinum kemur í ljós að Hagrid á hálfbróðurinn Gráp sem er einmitt risi. Í ævintýrum eru risar oft sagðir gæta gulls og eiga glersali, en risar í Harry Potter bókunum búa yfirleitt á fjöllum uppi. Að því leyti líkjast þeir frekar hinum íslensku tröllum sem oft eru sögð bergbúar. Tröll koma líka fyrir í Harry Potter bókunum, en þar eru tröllin í fjöllunum sögð frekar grunnhyggin og heldur minni en risar. Fleiri en Rowling gera greinarmun á risum, tröllum og öðrum stórum vættum, eins og lesa má nánar um í svari Ólínu Þorvarðardóttur við spurningunni Hver er munurinn á trölli, jötni og risa? Þar segir meðal annars:

Vanalega er gerður greinarmunur á hugtökunum jötunn, tröll og risi, þó að vissulega skarist merking þeirra og skil geti verið óljós. Þannig tilheyra jötnar jafnan norrænni goðafræði, risar eiga heima í evrópskum ævintýrum en tröllin byggja kletta og klungur íslenskra þjóðsagna.

Nemendur í Hogwarts mega taka með sér gæludýr í skólann, til dæmis uglur, svo að Hagrid gefur Harry snæugluna Hedwig. Ron Weasley, einn besti vinur Harrys, eignast síðar ugluna Grísling (e. Pigwidgeon), sem er skopugla. Báðar þessar uglutegundir hafa fundist á Íslandi; snæuglur flækjast reglulega hingað til lands, líklega frá Grænlandi, og skopuglur eru sjaldgæfir flækingar (sjá Getið þið sýnt mér myndir af öllum uglutegundum á Íslandi og þeim sem hafa komið hingað? eftir Jón Má Halldórsson).

Hagrid er sjálfur sagður eiga margar furðuskepnur, svo sem þríhöfða hundinn Hnoðra (e. Fluffy) sem gætir fallhlera í Hogwartskastala. Hnoðri er byggður á hundinum Kerberosi sem gætir undirheimanna samkvæmt grískri goðafræði. Báða þessa hunda má svæfa með því að leika fyrir þá tónlist (sjá Hver er Kerberos og hvernig lítur hann út? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson).

Hagrid eignast einnig drekaungann Norbert, og aðrir drekar koma líka mikið við sögu í Harry Potter og eldbikarnum, eins og í svo mörgum öðrum ævintýrum. Rakel Pálsdóttir segir í svari sínu við spurningunni Af hverju eru drekar svona algengir í „þjóðsögum“ allra landa?

Drekinn er alþjóðlegt tákn og getur bæði vísað í hið góða og hið illa... Í vestrænni menningu er drekinn oftast illt og eyðileggjandi afl sem vinna þarf bug á.

Harry Potter þarf einmitt að sýna kjark sinn og dug með því að kljást við dreka í Þrígaldraleikunum, keppni á milli galdraskóla sem haldin er á fimm ára fresti.


Harry og Ron misstu eitt sinn af lestinni til Hogwarts. Því tóku þeir flugbíl Weasley-fjölskyldunnar traustataki. Þorsteinn Vilhjálmsson segir í svarinu Er líklegt að hægt verði að smíða flugbíla í framtíðinni? að ekki sé líklegt að slík farartæki verði almenningseign sökum tæknilegra og eðlisfræðilegra hindrana. Myndin er úr kvikmyndinni Harry Potter og leyniklefinn (Harry Potter and the Chamber of Secrets).

Margar vættir finnast í Forboðna skóginum (e. Forbidden Forest) við Hogwartsskóla. Þar búa kentárar (e. centaurs) sem eru hálfir menn og hálfir hestar. Kentárar eru til í mörgum sögnum og eru í raun bara ein tegund finngálkna, sem eru menn að ofan en dýr að neðan. Einnig eru til sögur af svipuðum skepnum sem nefnast hippopodes, en þeir voru menn sem höfðu hófa hests í stað fóta (sjá Hvað er finngálkn sem minnst er á í Njáls sögu? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson).

Í skóginum búa líka einhyrningar sem einnig líkjast hestum en hafa horn á höfði. Ekki ber þó öllum sögum saman um útlit einhyrninga. Pliníus eldri (23-79 e.Kr.) lýsir þeim til dæmis svo (sjá Hvað eru einhyrningar og fyrir hvað standa þeir? eftir Ulriku Andersson):

Einhyrningar hafa skrokk sem líkist hrossi, hjartarhöfuð, fílafætur, galtardindil. Horn einhyrninga er alveg svart en hljóðin sem dýrið gefur frá sér líkjast bauli.

Einhyrningar eru þó yfirleitt sagðir einkar glæsilegir og fallegir.

Í Forboðna skóginum lifa öllu viðskotaillri skepnur; þar finnst hópur af risaköngulóm (e. Acromantulas), hræðilegum ófreskjum sem éta gjarnan fólk sem álpast inn á yfirráðasvæði þeirra. Fuglaætuköngulær, stærstu köngulær sem til eru í raunveruleikanum, eru smávaxnar í samanburði við Acromantúlurnar, aðeins um 25 cm. Þær éta sem betur fer ekki menn, heldur nærast helst á skordýrum, músum og smávöxnum skriðdýrum (Hver er stærsta köngulóin í heiminum? En á Íslandi? eftir Jón Má Halldórsson).

Acromantúlurnar hræðast helst eina skepnu sem verður að teljast enn ógnvænlegri: Basilíuslönguna (e. basilisk). Í Harry Potter og leyniklefanum (Harry Potter and the Chamber of Secrets) er basilíuslangan sögð „konungur snákanna“ (e. King of Serpents), en gríska orðið „basilius“ merkir einmitt „konungur“. Hún getur drepið menn með augnaráðinu einu saman, en láti menn basilíuslönguna horfa á sig í spegli dettur hún sjálf dauð niður (sjá Getið þið sagt mér allt um hina ógnvænlegu basilíuslöngu?).


Augnaráð basilíkuslöngunnar er banvænt.

Samkvæmt þjóðsögum klekst basilíuslangan úr eggi sjö vetra hana, sem verpir þegar stjarnan Síríus sést á himni. Síríus er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stórahundi og er stundum kölluð hundastjarnan (sjá Hvaðan kemur orðið hundadagar?). Það er því líklega engin tilviljun að ein aðalpersónan úr bókinni Harry Potter og fanginn frá Azkaban (Harry Potter and the Prisoner of Azkaban) heitir Sirius Black, enda getur Sirius þessi breytt sér í svartan hund.

Það eru fleiri hamhleypur í Harry Potter bókunum, þeirra á meðal galdrakennarinn Remus Lupin. Lupin breytist þó ekki viljandi heldur er hann varúlfur og tekur því á sig úlfsmynd einu sinni í mánuði við fullt tungl. Orðið „varúlfur“ merkir bókstaflega „mannúlfur“, en „var“ er sama orð og „ver“, sem þýðir „maður“ (sjá Hvað getið þið sagt mér um varúlfa? eftir Símon Jón Jóhannsson).

Líkt og hjá Siriusi gefur nafn Lupins vísbendingu um eðli hans og ásýnd. „Lupus“ merkir „úlfur“, eins og sést til dæmis á latneska fræðiheiti gráúlfsins, Canis lupus (sjá Getið þið sagt mér frá þróun úlfa? eftir Jón Má Halldórsson). Tvíburarnir Rómúlus og Remus, sem samkvæmt þjóðsögum stofnuðu Rómaborg 753 f.Kr., lifðu svo af með því að nærast á úlfamjólk (sjá Hverjir voru Rómúlus og Remus?).

Þegar þetta er skrifað er ekki búið að gefa út sjöundu og síðustu bókina í bókaflokkinum. Hún hefur ekki enn fengið íslenskt heiti en nefnist á frummálinu Harry Potter and the Deathly Hallows. Miklar umræður hafa spunnist um það hvort Harry muni láta lífið í lok sögunnar. Það yrði ekki einsdæmi í bókmenntasögunni þótt í sumum verkum, svo sem Hringadróttinssögu, hafi persónurnar reyndar vaknað til lífsins á ný (sjá Hversu algengt er að höfundar drepi aðalpersónurnar í frægum bókum eða bókaröðum? eftir Stellu Soffíu Jóhannesdóttur). Hver örlög Harrys verða skal þó látið ósagt hér, og verða því lesendur sjálfir að komast að botni í málinu.


Höfundur þakkar áhugamönnum um Harry Potter á Huga.is kærlega fyrir hjálpina við íslenskar þýðingar á hugtökum sem tengjast bókunum.


Heimildir

Myndir

...