Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík

Hvernig myndi nútíma einstaklingur finna sig í Fögruborg Platons?

Geir Þ. Þórarinsson

Hér er spurningin skilin þeim skilningi að átt sé við líðan nútíma fólks í Fögruborg, hvernig því þætti að búa þar. Á hinn bóginn gæti orðasambandið „að finna sig“ í einhverju samhengi líka átt við það þroskaferli að átta sig á því hvaða mann maður hefur að geyma, hver gildi manns séu og þar fram eftir götunum.

Hvernig ætli nútíma fólki liði þá í Fögruborg Platons eins og henni er lýst í Ríkinu? Fyrst þarf að hafa í huga að Fagraborg er stéttskipt samfélag. Þar eru í grófum dráttum þrjár stéttir manna: Stjórnendur, varðmenn og almenningur. Stjórnendurnir eru allir heimspekingar, sérstaklega valdir í æsku og menntaðir áratugum saman áður en þeir taka til starfa sinna sem stjórnendur borgríkisins. Varðmenn eru líka sérstaklega valdir og þjálfaðir en þeirra hlutverk er að annast löggæslu og sjá um landvarnir. Almenningur í borgríkinu er síðan stétt framleiðenda, sem knýr hjól atvinnulífsins og heldur efnahag ríkisins gangandi.

Í Ríkinu er gengið út frá ákveðinni samsvörun milli ríkis og sálar. Sálin er sögð hafa þrjá hluta, skynsemi, skap og löngun en hver og einn hluti sálarinnar hefur sitt viðfang. Skynsemin sækist eðli sínu samkvæmt eftir sannleika og þekkingu og eftir því að stjórna, skapið sækist eftir heiðri og viðurkenningu og löngunin sækist eftir ánægju af mat, drykk og kynlífi. Stéttirnar þrjár í Fögruborg eiga að samsvara þessum þremur ólíkum hlutum sálarinnar og hver hefur sína dygð. Stjórnendurnir samsvara skynsemishluta sálarinnar en dygð þeirra er viskan. Verðirnir samsvara skapinu og dygð þeirra er hugrekki en framleiðendurnir – almenningur í borgríkinu – samsvarar lönguninni og hófstilling er dygð þeirra. Að lokum er réttlætið, sem er fjórða og síðasta höfuðdygðin, fólgið í því að hver stétt í borgríkinu og hver hluti sálarinnar vinni sitt verk og stígi ekki út fyrir sín mörk. Þannig er réttlætið sams konar í bæði sálinni og ríkinu; bæði stéttir borgríkisins og hlutar sálarinnar eiga að lúta stjórn skynseminnar.

Nútímafólk - að minnsta kosti á Vesturlöndum - hefur ákveðnar væntingar um frelsi til athafna, til dæmis að mótmæla og hafa þannig áhrif á stjórnendur, sem ekki er víst að passi við líf í Fögruborg.

Nú skiptir ef til vill miklu máli hvaða stétt maður kæmi til með að tilheyra hvort manni líkaði vel eða illa í Fögruborg. Nútímafólk hefur ákveðnar væntingar um frelsi til athafna, tækifæri í lífinu og réttindi sem væru Forngrikkjum vafalaust framandi. En auk þess má staldra aðeins við orðin „nútíma fólk“ og spyrja hvaða fólk það er eiginlega. Því kjör fólks á okkar dögum eru býsna ólík eftir kyni, búsetu, menntun og efnahag. Við skulum miða við Vesturlandabúa, sem búa flestir við svipuð kjör og Íslendingar.

Sá sem tilheyrði lægstu en langfjölmennustu stéttinni, það er almenningi í landinu, gæti lifað venjulegu fjölskyldulífi. Hann myndi starfa í landbúnaði, iðnaði eða þjónustu af einhverju tagi – eins og flestir gera reyndar á Vesturlöndum nú til dags – og líf hans myndi einkennast að einhverju marki af ákveðnu lífsgæðakapphlaupi sem við könnumst líka við úr nútímanum. Hann þyrfti þó að læra að gæta hófs og lifa ekki um efni fram. Og hann þyrfti að sætta sig þá fastskorðuðu stéttaskiptingu sem liggur til grundvallar í Fögruborg. Hann ætti ekki kost á að kjósa sér stjórnendur og þaðan af síður að komast í þeirra raðir. Fagraborg er ekki lýðræðisríki. Gætum við nútímafólk sætt okkur við svona fyrirkomulag?

Mögulega tilheyrði hann samt stétt varðmanna. Þá fengi hann stranga herþjálfun og myndi verja ævinni í herþjónustu; að fylgja skipunum stjórnenda og hugsanlega berjast fyrir land og þjóð. Þetta er auðvitað nú í dag hlutskipti margra í nágrannaríkjum okkar, sem halda úti herjum með tímabundinni herskyldu. Í öðrum löndum nútímans eru atvinnuherir – raunar eru einhverjir atvinnuhermenn í nær öllum herjum Vesturlanda í dag – og þar er ævistarf í hernum jafnvel val margra. Ef til vill eru þessi hlutskipti ekki svo fjarri því að tilheyra stétt varðmanna í Fögruborg, þótt þau séu í allt öðru samhengi.

Að lokum má ímynda sér að þessi nútímamaður, sem fengi að búa í Fögruborg, tilheyrði stétt stjórnendanna. Þá hefði hann að vísu þurft að hljóta stranga þjálfun í tónlist, stjörnufræði, stærðfræði og heimspeki alveg frá blautu barnsbeini áður en hann næði þeim þroska sem Platon telur að þurfi til að stjórna í ríkinu. En þá er hætt við að hann hefði líka allt önnur sjónarmið en við höfum flest nú á dögum hér á Vesturlöndum. Að spyrja hvernig honum líkaði þessi hlutskipti væri því varla eins og að spyrja hvern annan nútímamann hvernig honum litist á blikuna. Stjórnendur Fögruborgar mega ekki eiga neinar einkaeignir og eiga meira að segja maka og börn sameiginlega. En þeim er öllum haldið uppi af almenningi. Þess má geta að Platon taldi að það væri ákveðin spenna milli löngunar heimspekingsins til að láta sig einungis heimspekina varða og hins vegar löngunar hans til að gera samfélaginu gott með því að taka að sér að stjórna borgríkinu. Stjórnarsetan tæki nefnilega of mikinn tíma frá iðkun heimspekinnar og væri spekingnum mæðusöm.

Til að viðhalda fyrirkomulaginu verður síðan að koma á ritskoðun í ríkinu. Í Fögruborg er til að mynda bannaður kveðskapur sem vekur upp ákveðnar kenndir eins og ótta við dauðann eða dregur upp ófagra mynd af guðdómnum. En stjórnendur ríkisins fá einkarétt á að segja ósatt. Þannig er frelsi almennings til sköpunar og tjáningar, sem við teljum til grundvallarréttinda okkur nú til dags, býsna skert í Fögruborg; eiginlega fótum troðið. Og almenningur getur hvorki haft áhrif á val stjórnenda eða veitt þeim aðhald með kosningum og á enga möguleika á að komast sjálfur í stjórnarstöðu. Vafalaust gætu fæstir nútímamenn sætt sig við þetta fyrirkomulag. Það má hins vegar efast um hversu alvarlega Platon tekur stjórnviskuna í Ríkinu. Ríkið er margslungið verk sem fjallar um fleira en stjórnspeki en í síðari ritum sínum fjallar Platon um stjórnspeki á annað máta en hann gerir í Ríkinu og að því er virðist með næmara auga fyrir praktískum úrlausnarefnum.

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

14.11.2014

Spyrjandi

Atli Þór Rósinkarsson

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig myndi nútíma einstaklingur finna sig í Fögruborg Platons?“ Vísindavefurinn, 14. nóvember 2014. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=68443.

Geir Þ. Þórarinsson. (2014, 14. nóvember). Hvernig myndi nútíma einstaklingur finna sig í Fögruborg Platons? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=68443

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig myndi nútíma einstaklingur finna sig í Fögruborg Platons?“ Vísindavefurinn. 14. nóv. 2014. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=68443>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig myndi nútíma einstaklingur finna sig í Fögruborg Platons?
Hér er spurningin skilin þeim skilningi að átt sé við líðan nútíma fólks í Fögruborg, hvernig því þætti að búa þar. Á hinn bóginn gæti orðasambandið „að finna sig“ í einhverju samhengi líka átt við það þroskaferli að átta sig á því hvaða mann maður hefur að geyma, hver gildi manns séu og þar fram eftir götunum.

Hvernig ætli nútíma fólki liði þá í Fögruborg Platons eins og henni er lýst í Ríkinu? Fyrst þarf að hafa í huga að Fagraborg er stéttskipt samfélag. Þar eru í grófum dráttum þrjár stéttir manna: Stjórnendur, varðmenn og almenningur. Stjórnendurnir eru allir heimspekingar, sérstaklega valdir í æsku og menntaðir áratugum saman áður en þeir taka til starfa sinna sem stjórnendur borgríkisins. Varðmenn eru líka sérstaklega valdir og þjálfaðir en þeirra hlutverk er að annast löggæslu og sjá um landvarnir. Almenningur í borgríkinu er síðan stétt framleiðenda, sem knýr hjól atvinnulífsins og heldur efnahag ríkisins gangandi.

Í Ríkinu er gengið út frá ákveðinni samsvörun milli ríkis og sálar. Sálin er sögð hafa þrjá hluta, skynsemi, skap og löngun en hver og einn hluti sálarinnar hefur sitt viðfang. Skynsemin sækist eðli sínu samkvæmt eftir sannleika og þekkingu og eftir því að stjórna, skapið sækist eftir heiðri og viðurkenningu og löngunin sækist eftir ánægju af mat, drykk og kynlífi. Stéttirnar þrjár í Fögruborg eiga að samsvara þessum þremur ólíkum hlutum sálarinnar og hver hefur sína dygð. Stjórnendurnir samsvara skynsemishluta sálarinnar en dygð þeirra er viskan. Verðirnir samsvara skapinu og dygð þeirra er hugrekki en framleiðendurnir – almenningur í borgríkinu – samsvarar lönguninni og hófstilling er dygð þeirra. Að lokum er réttlætið, sem er fjórða og síðasta höfuðdygðin, fólgið í því að hver stétt í borgríkinu og hver hluti sálarinnar vinni sitt verk og stígi ekki út fyrir sín mörk. Þannig er réttlætið sams konar í bæði sálinni og ríkinu; bæði stéttir borgríkisins og hlutar sálarinnar eiga að lúta stjórn skynseminnar.

Nútímafólk - að minnsta kosti á Vesturlöndum - hefur ákveðnar væntingar um frelsi til athafna, til dæmis að mótmæla og hafa þannig áhrif á stjórnendur, sem ekki er víst að passi við líf í Fögruborg.

Nú skiptir ef til vill miklu máli hvaða stétt maður kæmi til með að tilheyra hvort manni líkaði vel eða illa í Fögruborg. Nútímafólk hefur ákveðnar væntingar um frelsi til athafna, tækifæri í lífinu og réttindi sem væru Forngrikkjum vafalaust framandi. En auk þess má staldra aðeins við orðin „nútíma fólk“ og spyrja hvaða fólk það er eiginlega. Því kjör fólks á okkar dögum eru býsna ólík eftir kyni, búsetu, menntun og efnahag. Við skulum miða við Vesturlandabúa, sem búa flestir við svipuð kjör og Íslendingar.

Sá sem tilheyrði lægstu en langfjölmennustu stéttinni, það er almenningi í landinu, gæti lifað venjulegu fjölskyldulífi. Hann myndi starfa í landbúnaði, iðnaði eða þjónustu af einhverju tagi – eins og flestir gera reyndar á Vesturlöndum nú til dags – og líf hans myndi einkennast að einhverju marki af ákveðnu lífsgæðakapphlaupi sem við könnumst líka við úr nútímanum. Hann þyrfti þó að læra að gæta hófs og lifa ekki um efni fram. Og hann þyrfti að sætta sig þá fastskorðuðu stéttaskiptingu sem liggur til grundvallar í Fögruborg. Hann ætti ekki kost á að kjósa sér stjórnendur og þaðan af síður að komast í þeirra raðir. Fagraborg er ekki lýðræðisríki. Gætum við nútímafólk sætt okkur við svona fyrirkomulag?

Mögulega tilheyrði hann samt stétt varðmanna. Þá fengi hann stranga herþjálfun og myndi verja ævinni í herþjónustu; að fylgja skipunum stjórnenda og hugsanlega berjast fyrir land og þjóð. Þetta er auðvitað nú í dag hlutskipti margra í nágrannaríkjum okkar, sem halda úti herjum með tímabundinni herskyldu. Í öðrum löndum nútímans eru atvinnuherir – raunar eru einhverjir atvinnuhermenn í nær öllum herjum Vesturlanda í dag – og þar er ævistarf í hernum jafnvel val margra. Ef til vill eru þessi hlutskipti ekki svo fjarri því að tilheyra stétt varðmanna í Fögruborg, þótt þau séu í allt öðru samhengi.

Að lokum má ímynda sér að þessi nútímamaður, sem fengi að búa í Fögruborg, tilheyrði stétt stjórnendanna. Þá hefði hann að vísu þurft að hljóta stranga þjálfun í tónlist, stjörnufræði, stærðfræði og heimspeki alveg frá blautu barnsbeini áður en hann næði þeim þroska sem Platon telur að þurfi til að stjórna í ríkinu. En þá er hætt við að hann hefði líka allt önnur sjónarmið en við höfum flest nú á dögum hér á Vesturlöndum. Að spyrja hvernig honum líkaði þessi hlutskipti væri því varla eins og að spyrja hvern annan nútímamann hvernig honum litist á blikuna. Stjórnendur Fögruborgar mega ekki eiga neinar einkaeignir og eiga meira að segja maka og börn sameiginlega. En þeim er öllum haldið uppi af almenningi. Þess má geta að Platon taldi að það væri ákveðin spenna milli löngunar heimspekingsins til að láta sig einungis heimspekina varða og hins vegar löngunar hans til að gera samfélaginu gott með því að taka að sér að stjórna borgríkinu. Stjórnarsetan tæki nefnilega of mikinn tíma frá iðkun heimspekinnar og væri spekingnum mæðusöm.

Til að viðhalda fyrirkomulaginu verður síðan að koma á ritskoðun í ríkinu. Í Fögruborg er til að mynda bannaður kveðskapur sem vekur upp ákveðnar kenndir eins og ótta við dauðann eða dregur upp ófagra mynd af guðdómnum. En stjórnendur ríkisins fá einkarétt á að segja ósatt. Þannig er frelsi almennings til sköpunar og tjáningar, sem við teljum til grundvallarréttinda okkur nú til dags, býsna skert í Fögruborg; eiginlega fótum troðið. Og almenningur getur hvorki haft áhrif á val stjórnenda eða veitt þeim aðhald með kosningum og á enga möguleika á að komast sjálfur í stjórnarstöðu. Vafalaust gætu fæstir nútímamenn sætt sig við þetta fyrirkomulag. Það má hins vegar efast um hversu alvarlega Platon tekur stjórnviskuna í Ríkinu. Ríkið er margslungið verk sem fjallar um fleira en stjórnspeki en í síðari ritum sínum fjallar Platon um stjórnspeki á annað máta en hann gerir í Ríkinu og að því er virðist með næmara auga fyrir praktískum úrlausnarefnum.

Mynd: