Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Á sá fund sem finnur?

Vignir Már Lýðsson

"Sá á fund sem finnur!" Þessi staðhæfing heyrist oft og notuð bæði í háði og alvöru. Margir nota þennan frasa sem réttlætingu þess að eigna sér hluti, til dæmis peninga, sem þeir finna á förnum vegi. Menn vilja friða samviskuna með einhverjum hætti. Þessi fullyrðing stenst þó ekki í mörgum tilfellum. Lítum til dæmis á 246. gr. almennra hegningalaga 19/1940:

Ef maður kastar eign sinni á fundna muni eða muni, sem án aðgerða hans eru komnir í vörslur hans, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 3 árum.

Kveðið var á um aðgerðir vegna fundinna muna í opnu bréfi frá kansellíinu árið 1767 og gildir nú tilskipun byggð á því bréfi frá 8. júní 1811 með breytingum sem gerðar voru á henni 5. desember 1812. Samkvæmt henni skal lögregla setja auglýsingu í kaupstaðablaðið um fundna muni og þeir geymdir á skrifstofu lögreglustjóra í eitt ár og einn dag frá því þeir berast þangað nema eigandinn gefi sig fram áður en sá tími er liðinn. Eftir þann tíma skal selja hið fundna handa lögreglusjóðnum og finnandi fá þriðjung þess í fundarlaun. Ef eigandinn gefur sig hins vegar fram skal hann greiða auglýsingakostnað og fundarlaun til finnanda eftir verðmæti hlutarins. Þess má til gamans geta að ef ekkert blað er gefið út í kaupstaðnum skal fundnum muni lýst með upphengdri auglýsingu og bumbuslætti.

Þessi tilskipun hefur ekki verið numin úr gildi og er enn framfylgt að einhverju marki. Meðal annars eru öðru hverju haldin uppboð á reiðhjólum sem eru í óskilum hjá lögreglunni.

Ákveðnar undantekningar eru frá því sem hér hefur verið rakið. Sú meginregla gildir samkvæmt íslenskum rétti að hver sem er getur slegið eign sinni á muni ef eigandinn hefur afsalað sér eignarrétti sínum. Þetta nefnist res derelictae á alþjóðlegu lagamáli (latínu). Þá er miðað við að sá sem finnur hlutinn megi ganga út frá því sem vísu að fyrri eigandi vilji ekki lengur eiga hann. Dæmi um þetta er að maður sem finnur dagblað liggjandi í auðu sæti í strætisvagni má ætla að kaupandi blaðsins kæri sig ekki lengur um að eiga það.

Önnur undantekning er nefnd res perditae. Ef hlutur finnst í reiðileysi og útilokað má telja að gengið verði úr skugga um hver eigandinn sé getur hver sem er slegið eign sinni á hlutinn. Dæmi um það er þegar 50 króna peningur finnst í alfaraleið.



Rekaviður í fjöru er eign landeiganda og því bannað að taka hann úr fjörunni án hans samþykkis.

Ekki er hægt að slá eign sinni á andrúmsloftið, geiminn eða hafið, því samkvæmt reglu sem nefnist Res communes eiga menn að hafa óheft afnot af þessum verðmætum. Þau geta því ekki verið háð eignarrétti. Menn geta aðeins eignast afmarkaðan hluta þessara verðmæta, til dæmis andrúmsloft í loftþéttum umbúðum eða rannsóknarsýni úr hafinu.

Reki í fjöru, til dæmis hvalur eða rekaviður, er eign þess landeiganda sem á þar land að sjó. Eins og fyrr segir þá er sjórinn í almannaeign en landeigandi á þó þann sjó og það sem í honum er sem nær 60 faðma (115 metrar er líka notað sem viðmið) út frá lægsta fjöruborði fjöru eða út frá eyju sem liggur á landareign hans. Þetta svæði nefnist í lögfræði netlög. Þó er til hugtak sem nefnist vogrek en það er mannlaust skip eða merktur skipshluti sem rekur á fjöru landeiganda og ætla má að séu eignarétti háðir. Landeiganda ber þá að varðveita skipið eða skipshlutana og tilkynna lögreglustjóra sem þá sendir út auglýsingu um vogrekið. Ef réttur eigandi gefur sig ekki fram innan ákveðins frests rennur skipið í ríkissjóð eða til landeiganda en það fer eftir verðmæti þess.

"Sá á fund sem finnur" gildir því ekki alltaf heldur verður að hlíta lögum og reglum sem gilda um hluti sem finnast.

Höfundur þakkar Þorsteini Magnússyni, lögfræðinema við HÍ, fyrir yfirlestur og góðar ábendingar.

Tengt efni:

Heimildir:

  • Gaukur Jörundsson. 1982-1983. Eignarréttur II (fjölrit), bls. 139. Reykjavík.
  • Þorgeir Örlygsson. 1998. Kaflar úr eignarrétti I (handrit), bls. 43. Reykjavík.
  • Björn Þ. Guðmundsson. 1989. Lögbókin þín - Lögfræðihandbók fyrir almenning jafnt lærða sem leikna. Rekalög; Res communes; Res derelictae; Res pereditae, bls. 344. Vogrek, bls. 306. Reykjavík.
  • 246. gr. almennra hegningalaga 19/1940.

Myndir:

Höfundur

Útgáfudagur

18.10.2007

Spyrjandi

Leifur Þorbergsson

Tilvísun

Vignir Már Lýðsson. „Á sá fund sem finnur?“ Vísindavefurinn, 18. október 2007. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6854.

Vignir Már Lýðsson. (2007, 18. október). Á sá fund sem finnur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6854

Vignir Már Lýðsson. „Á sá fund sem finnur?“ Vísindavefurinn. 18. okt. 2007. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6854>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Á sá fund sem finnur?
"Sá á fund sem finnur!" Þessi staðhæfing heyrist oft og notuð bæði í háði og alvöru. Margir nota þennan frasa sem réttlætingu þess að eigna sér hluti, til dæmis peninga, sem þeir finna á förnum vegi. Menn vilja friða samviskuna með einhverjum hætti. Þessi fullyrðing stenst þó ekki í mörgum tilfellum. Lítum til dæmis á 246. gr. almennra hegningalaga 19/1940:

Ef maður kastar eign sinni á fundna muni eða muni, sem án aðgerða hans eru komnir í vörslur hans, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 3 árum.

Kveðið var á um aðgerðir vegna fundinna muna í opnu bréfi frá kansellíinu árið 1767 og gildir nú tilskipun byggð á því bréfi frá 8. júní 1811 með breytingum sem gerðar voru á henni 5. desember 1812. Samkvæmt henni skal lögregla setja auglýsingu í kaupstaðablaðið um fundna muni og þeir geymdir á skrifstofu lögreglustjóra í eitt ár og einn dag frá því þeir berast þangað nema eigandinn gefi sig fram áður en sá tími er liðinn. Eftir þann tíma skal selja hið fundna handa lögreglusjóðnum og finnandi fá þriðjung þess í fundarlaun. Ef eigandinn gefur sig hins vegar fram skal hann greiða auglýsingakostnað og fundarlaun til finnanda eftir verðmæti hlutarins. Þess má til gamans geta að ef ekkert blað er gefið út í kaupstaðnum skal fundnum muni lýst með upphengdri auglýsingu og bumbuslætti.

Þessi tilskipun hefur ekki verið numin úr gildi og er enn framfylgt að einhverju marki. Meðal annars eru öðru hverju haldin uppboð á reiðhjólum sem eru í óskilum hjá lögreglunni.

Ákveðnar undantekningar eru frá því sem hér hefur verið rakið. Sú meginregla gildir samkvæmt íslenskum rétti að hver sem er getur slegið eign sinni á muni ef eigandinn hefur afsalað sér eignarrétti sínum. Þetta nefnist res derelictae á alþjóðlegu lagamáli (latínu). Þá er miðað við að sá sem finnur hlutinn megi ganga út frá því sem vísu að fyrri eigandi vilji ekki lengur eiga hann. Dæmi um þetta er að maður sem finnur dagblað liggjandi í auðu sæti í strætisvagni má ætla að kaupandi blaðsins kæri sig ekki lengur um að eiga það.

Önnur undantekning er nefnd res perditae. Ef hlutur finnst í reiðileysi og útilokað má telja að gengið verði úr skugga um hver eigandinn sé getur hver sem er slegið eign sinni á hlutinn. Dæmi um það er þegar 50 króna peningur finnst í alfaraleið.



Rekaviður í fjöru er eign landeiganda og því bannað að taka hann úr fjörunni án hans samþykkis.

Ekki er hægt að slá eign sinni á andrúmsloftið, geiminn eða hafið, því samkvæmt reglu sem nefnist Res communes eiga menn að hafa óheft afnot af þessum verðmætum. Þau geta því ekki verið háð eignarrétti. Menn geta aðeins eignast afmarkaðan hluta þessara verðmæta, til dæmis andrúmsloft í loftþéttum umbúðum eða rannsóknarsýni úr hafinu.

Reki í fjöru, til dæmis hvalur eða rekaviður, er eign þess landeiganda sem á þar land að sjó. Eins og fyrr segir þá er sjórinn í almannaeign en landeigandi á þó þann sjó og það sem í honum er sem nær 60 faðma (115 metrar er líka notað sem viðmið) út frá lægsta fjöruborði fjöru eða út frá eyju sem liggur á landareign hans. Þetta svæði nefnist í lögfræði netlög. Þó er til hugtak sem nefnist vogrek en það er mannlaust skip eða merktur skipshluti sem rekur á fjöru landeiganda og ætla má að séu eignarétti háðir. Landeiganda ber þá að varðveita skipið eða skipshlutana og tilkynna lögreglustjóra sem þá sendir út auglýsingu um vogrekið. Ef réttur eigandi gefur sig ekki fram innan ákveðins frests rennur skipið í ríkissjóð eða til landeiganda en það fer eftir verðmæti þess.

"Sá á fund sem finnur" gildir því ekki alltaf heldur verður að hlíta lögum og reglum sem gilda um hluti sem finnast.

Höfundur þakkar Þorsteini Magnússyni, lögfræðinema við HÍ, fyrir yfirlestur og góðar ábendingar.

Tengt efni:

Heimildir:

  • Gaukur Jörundsson. 1982-1983. Eignarréttur II (fjölrit), bls. 139. Reykjavík.
  • Þorgeir Örlygsson. 1998. Kaflar úr eignarrétti I (handrit), bls. 43. Reykjavík.
  • Björn Þ. Guðmundsson. 1989. Lögbókin þín - Lögfræðihandbók fyrir almenning jafnt lærða sem leikna. Rekalög; Res communes; Res derelictae; Res pereditae, bls. 344. Vogrek, bls. 306. Reykjavík.
  • 246. gr. almennra hegningalaga 19/1940.

Myndir:

...