Sjúkdómurinn berst manna á milli með kvenkyns moskítóflugum. Þegar þær sjúga blóð úr sýktum einstaklingi fá þær lirfur í sig. Lirfurnar þroskast í meltingarvegi flugnanna í 1-3 vikur og ná þar smithæfni. Þegar lirfurnar eru orðnar smithæfar berast þær í þann hluta munnsins sem flugan stingur fórnarlömb sín með. Lífsferli sníkjuormsins lýkur síðan þegar hann er orðinn fullþroskaður og kominn í blóðrás nýs hýsils.
Mjög áberandi ytri einkenni fylgja fílaveiki svo sem stækkun og afmyndun útlima, kynfæra eða brjósta vegna bjúgs af völdum stíflaðra æða. Auk ytri einkenna verða skemmdir á nýrum og vessakerfinu af völdum sníkjudýrsins. Í samfélögum þar sem fílaveiki er landlæg (e. endemic) er tíðni smits um 10-15% hjá körlum og allt að 10% hjá konum. Auk líkamlegra einkenna hefur sjúkdómurinn gífurleg sálræn og félagsleg áhrif á þolendur.
Sníkjudýrin sem valda fílaveiki eru þráðormar af tegundunum Wuchereria bancrofti og Brugia malayi. Þessi sníkjudýr lifa nær eingöngu í vessakerfi manna, nánar tiltekið í vessaæðum og eitlum. Vessakerfið gegnir því hlutverki að viðhalda vökvajafnvægi milli blóðs og vefja líkamans auk þess að vera lífsnauðsynlegur hlekkur í ónæmiskerfinu. Ormarnir lifa í 4-6 ár og á þeim tíma geta þeir af sér milljónir óþroskaðra lirfa sem berast í blóðrásarkerfi líkamans.

Mjög áberandi ytri einkenni geta fylgt fílaveiki og eru skemmdir og bjúgur í kynfærum algengar.
Bráðatilfelli staðbundinnar bólgu í húð, eitlum eða vessaæðum geta verið fylgifiskur þrálátrar fílaveiki. Í sumum tilvikum stafa þau af viðbrögðum ónæmiskerfisins við sníklunum en oftast má þó rekja þau til bakteríusýkingar í húð sem kemur fram þegar varnir líkamans veikjast vegna skemmda í vessakerfinu. Gætileg hreinsun sýktra svæða húðarinnar getur verið mjög hjálpleg og ekki aðeins hindrað frekari skaða, heldur jafnvel læknað þann skaða sem þegar hefur átt sér stað.
Þar til fyrir fáeinum árum var mjög erfitt að greina sýkta einstaklinga. Til þess þurfti að rannsaka bæði blóð og vessa í smásjá og leita að sníkjudýrinu. Ekki er heldur sama á hvaða tíma dags sýnið er tekið þar sem sníkillinn hefur dægursveiflu. Til þess að sníklarnir finnist í blóðinu þarf því að taka sýnið um miðnætti. Nú hefur verið þróuð ný, sértæk en þægileg aðferð til að greina smit. Hún byggir á því að nema með sérstökum strimli ákveðna vaka frá sníkjudýrinu í blóði sjúklingsins. Hægt er að beita þessari aðferð nánast hvar og hvenær sem er. Til eru tvær gerðir lyfja gegn fílaveiki.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sett á fót verkefni til að reyna að útrýma fílaveiki. Þetta verkefni byggir einkum á tveimur þáttum. Annars vegar að greina þau samfélög þar sem veikin er landlæg og reyna að koma í veg fyrir frekari smit með lyfjagjöf. Hins vegar þarf að draga úr áhrifum veikinnar hjá þeim sem eru þegar sýktir, meðal annars með því að fræða þá um hreinlæti.
Sjúkdómsbyrði fílaveiki er gífurleg á þeim svæðum þar sem hún er algeng. Fyrir utan líkamleg einkenni og afleiðingar þeirra eru sálræn og félagsleg áhrif ekki síður mikið vandamál. Einstaklingar sem hafa afmynduð kynfæri eða útlimi af völdum hennar eru oft útskúfuð úr samfélaginu og eiga erfitt með að eignast maka.
Margir tengja líklega myndina Fílamanninn, eftir kvikmyndagerðarmanninn David Lynch, við sjúkdóminn fílaveiki. Aðalpersónan í myndinni var hins vegar ekki með fílaveiki heldur þjáðist hann af heilkenni sem kennt er við gríska sjávargoðið Prótev (e. Proteus syndrome). Þetta heilkenni er afar sjaldgæft og aðeins hafa verið staðfest um 200 tilfelli af því.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hvað er samlífi, gistilífi, samhjálp og sníkjulíf dýra? eftir Jón Má Halldórsson
- Eru einhver sníkjudýr eða aðrar lífverur í eða á líkamanum, aðrar en rykmaurar? eftir Karl Skírnisson
- Af hverju lifa ekki moskítóflugur á Íslandi, fyrst þær geta lifað báðum megin á Grænlandi? eftir Gísla Má Gíslason