Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað eru meginreglur laga?

Baldur S. Blöndal

Meginreglur laga eru „þær hugmyndir, rök eða meginsjónarmið, sem liggja til grundvallar einstökum réttarreglum, lagabálkum, réttarsviðum eða réttinum í heild, og hægt er að setja fram sem almenn viðmið.“ Einnig er hægt að skilgreina meginreglur laga sem „óskráðar reglur sem ályktað verður um á grundvelli einstakrar réttarreglu, fleiri réttarreglna, heils réttarsviðs eða laganna í heild“.[1] Eins og sjá má af þessum skilgreiningum eru hugtakið meginreglur laga nokkuð flókið og hægt er að skilgreina og túlka það á ýmsa vegu. Oftast er þó litið svo á að hugtakið vísi annars vegar til sígildra reglna og hins vegar til stefnumótandi meginreglna.

Sígildar meginreglur grundvallast á rótgrónum hugmyndum um siðferði og hvað sé réttlátt. Þessar hugmyndir má iðulega rekja aftur til daga Rómaveldis. Sumar þeirra standa enn sem leiðsagnarreglur við túlkun laga og réttar og eru um leið grundvöllur þeirra. Þær birtast oft sem setningar og orðtök sem löggjafinn og dómstólar móta síðan enn frekar. Hér eru nokkur dæmi um sígildar meginreglur úr Rómarrétti, það er þeim rétti sem gilti fyrst í Róm til forna:
  • Pacta sunt servanda - Samninga skal halda.
  • Pretium justum – Hið réttláta verð (skal greitt).
  • Prior tempore potior jure – Sá sem fyrr er í tíma gengur framar að lögum.
  • Audiatur et altera pars – Hlýða ber á hinn aðilann.
  • Contractus ab initio voluntatis est, ex post facto necessitatis – Samningsgerð er í upphafi bundin við viljann, en að henni lokinni við nauðsyn.
  • In dubio pro reo – Vafinn kemur sökunautnum í hag.
  • Lex non obligat nisi promulgata – Lög skuldbinda ekki nema birt séu.
  • Lex prospicit, non respicit – Lög horfa fram, ekki aftur.
  • Libera sunt matrimonia – Hjúskapur er frjáls.
  • Nulla poena sine lege – Engin refsing án laga.

Hugtakið meginreglur laga vísar aðallega til sígildra reglna og stefnumótandi meginreglna. Sígildu meginreglurnar er iðulega hægt að rekja aftur til daga Rómaveldis.

Stefnumótandi meginreglur hafa hins vegar þann tilgang að lýsa stefnumörkun í stjórnmálum, slík stefnumörkun getur verið víðfeðm (til dæmis þingræðisreglan eða mannréttindareglur stjórnarskrárinnar) eða ætlað að hafa takmarkaðara gildi (til dæmis lögfest markmiðsákvæði náttúruverndarlaga eða meginreglur íslenskra fiskveiðistjórnunar).

Oft liggja stefnumarkandi eða sígildar meginreglur að baki tilteknum lagabálkum eða réttarsviðum. Þar má taka sem dæmi bæði barnaverndarlög og barnalög en þar er öllum reglum ætlað að útfæra meginregluna um að ávallt skuli gera það sem er barni fyrir bestu. Þetta er nokkuð óumdeilt sjónarmið frá siðferðislegum sjónarhóli þó framkvæmd meginreglunnar kunni að valda deilum. Ekki er nefnilega alltaf ljóst hvað barni sé raunverulega fyrir bestu. Af þeirri ástæðu hefur þessi meginregla barnaréttar takmarkað gildi við úrlausn ágreinings, þó nota megi hana til hliðsjónar við túlkun réttarreglna.

Dæmi um hagnýtari meginreglur er að finna á réttarsviði samningaréttar sem grundvallast á þremur óskráðum meginreglum. Þær eru meginreglan um skuldbindingargildi samninga, formfrelsi þeirra og almennt samningsfrelsi. Allar þessar reglur eru frávíkjanlegar og er meginþorri skráðra réttarreglna í samningarétti lögfesting á undantekningu einhverra hinna þriggja áðurnefndra meginreglna.

Þegar vísað er í „meginreglur laga“ er þó oftast átt við áðurnefndar sígildar meginreglur sem tíundaðar eru hér að ofan. Þær eru grundvallarsjónarmið og gert er ráð fyrir að flestir innan þess samfélags sem lögin taka til geti sammælst um.

Tilvísun:
  1. ^ Tilvitnanirnar eru fengnar úr heimildum sem vísað er til í heimildaskrá.

Heimildir:
  • Hafsteinn Dan Kristjánsson. (2014). Um sígildar og stefnumarkandi meginreglur laga. Tímarit Lögfræðinga :, 64(4), 423-457.
  • Hafsteinn Þór Hauksson. 2018. Almenn lögfræði - Meginreglur laga. Fyrirlestur í Háskóla Íslands 24. október.
  • Sigurður Líndal. (2007). Um lög og lögfræði : Grundvöllur laga - réttarheimildir. (3. útgáfa).
  • Skúli Magnússon. Eru meginreglur laga réttarheimild? Háskóli Íslands.

Mynd:

Höfundur

Baldur S. Blöndal

mag. jur. í lögfræði

Útgáfudagur

20.7.2022

Spyrjandi

Árný Sesselja

Tilvísun

Baldur S. Blöndal. „Hvað eru meginreglur laga?“ Vísindavefurinn, 20. júlí 2022. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=68939.

Baldur S. Blöndal. (2022, 20. júlí). Hvað eru meginreglur laga? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=68939

Baldur S. Blöndal. „Hvað eru meginreglur laga?“ Vísindavefurinn. 20. júl. 2022. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=68939>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru meginreglur laga?
Meginreglur laga eru „þær hugmyndir, rök eða meginsjónarmið, sem liggja til grundvallar einstökum réttarreglum, lagabálkum, réttarsviðum eða réttinum í heild, og hægt er að setja fram sem almenn viðmið.“ Einnig er hægt að skilgreina meginreglur laga sem „óskráðar reglur sem ályktað verður um á grundvelli einstakrar réttarreglu, fleiri réttarreglna, heils réttarsviðs eða laganna í heild“.[1] Eins og sjá má af þessum skilgreiningum eru hugtakið meginreglur laga nokkuð flókið og hægt er að skilgreina og túlka það á ýmsa vegu. Oftast er þó litið svo á að hugtakið vísi annars vegar til sígildra reglna og hins vegar til stefnumótandi meginreglna.

Sígildar meginreglur grundvallast á rótgrónum hugmyndum um siðferði og hvað sé réttlátt. Þessar hugmyndir má iðulega rekja aftur til daga Rómaveldis. Sumar þeirra standa enn sem leiðsagnarreglur við túlkun laga og réttar og eru um leið grundvöllur þeirra. Þær birtast oft sem setningar og orðtök sem löggjafinn og dómstólar móta síðan enn frekar. Hér eru nokkur dæmi um sígildar meginreglur úr Rómarrétti, það er þeim rétti sem gilti fyrst í Róm til forna:
  • Pacta sunt servanda - Samninga skal halda.
  • Pretium justum – Hið réttláta verð (skal greitt).
  • Prior tempore potior jure – Sá sem fyrr er í tíma gengur framar að lögum.
  • Audiatur et altera pars – Hlýða ber á hinn aðilann.
  • Contractus ab initio voluntatis est, ex post facto necessitatis – Samningsgerð er í upphafi bundin við viljann, en að henni lokinni við nauðsyn.
  • In dubio pro reo – Vafinn kemur sökunautnum í hag.
  • Lex non obligat nisi promulgata – Lög skuldbinda ekki nema birt séu.
  • Lex prospicit, non respicit – Lög horfa fram, ekki aftur.
  • Libera sunt matrimonia – Hjúskapur er frjáls.
  • Nulla poena sine lege – Engin refsing án laga.

Hugtakið meginreglur laga vísar aðallega til sígildra reglna og stefnumótandi meginreglna. Sígildu meginreglurnar er iðulega hægt að rekja aftur til daga Rómaveldis.

Stefnumótandi meginreglur hafa hins vegar þann tilgang að lýsa stefnumörkun í stjórnmálum, slík stefnumörkun getur verið víðfeðm (til dæmis þingræðisreglan eða mannréttindareglur stjórnarskrárinnar) eða ætlað að hafa takmarkaðara gildi (til dæmis lögfest markmiðsákvæði náttúruverndarlaga eða meginreglur íslenskra fiskveiðistjórnunar).

Oft liggja stefnumarkandi eða sígildar meginreglur að baki tilteknum lagabálkum eða réttarsviðum. Þar má taka sem dæmi bæði barnaverndarlög og barnalög en þar er öllum reglum ætlað að útfæra meginregluna um að ávallt skuli gera það sem er barni fyrir bestu. Þetta er nokkuð óumdeilt sjónarmið frá siðferðislegum sjónarhóli þó framkvæmd meginreglunnar kunni að valda deilum. Ekki er nefnilega alltaf ljóst hvað barni sé raunverulega fyrir bestu. Af þeirri ástæðu hefur þessi meginregla barnaréttar takmarkað gildi við úrlausn ágreinings, þó nota megi hana til hliðsjónar við túlkun réttarreglna.

Dæmi um hagnýtari meginreglur er að finna á réttarsviði samningaréttar sem grundvallast á þremur óskráðum meginreglum. Þær eru meginreglan um skuldbindingargildi samninga, formfrelsi þeirra og almennt samningsfrelsi. Allar þessar reglur eru frávíkjanlegar og er meginþorri skráðra réttarreglna í samningarétti lögfesting á undantekningu einhverra hinna þriggja áðurnefndra meginreglna.

Þegar vísað er í „meginreglur laga“ er þó oftast átt við áðurnefndar sígildar meginreglur sem tíundaðar eru hér að ofan. Þær eru grundvallarsjónarmið og gert er ráð fyrir að flestir innan þess samfélags sem lögin taka til geti sammælst um.

Tilvísun:
  1. ^ Tilvitnanirnar eru fengnar úr heimildum sem vísað er til í heimildaskrá.

Heimildir:
  • Hafsteinn Dan Kristjánsson. (2014). Um sígildar og stefnumarkandi meginreglur laga. Tímarit Lögfræðinga :, 64(4), 423-457.
  • Hafsteinn Þór Hauksson. 2018. Almenn lögfræði - Meginreglur laga. Fyrirlestur í Háskóla Íslands 24. október.
  • Sigurður Líndal. (2007). Um lög og lögfræði : Grundvöllur laga - réttarheimildir. (3. útgáfa).
  • Skúli Magnússon. Eru meginreglur laga réttarheimild? Háskóli Íslands.

Mynd:...