Frumefnið selen (e. selenium), táknað Se, hefur sætistöluna 34 í lotukerfinu og mólmassann 78,96 g/mól. Selen finnst í jarðvegi, vatni og í sumu fæði, svo sem smjöri, hvítlauk, sólblómafræjum, valhnetum, rúsínum og ýmsum innmat eins og lifur og nýrum svo eitthvað sé nefnt.
Selen gegnir mikilvægu hlutverki við ýmis efnaskipti í líkamanum og tengist meðal annars skjaldkirtlinum þar sem það kemur við sögu í myndun skjaldkirtilshormóna. Selenskortur getur því haft áhrif á virkni skjaldkirtilsins. Skortur á seleni getur einnig leitt til Keshan-sjúkdóms en það er hjartasjúkdómur sem kenndur er við héraðið Keshan í Kína þar sem hann uppgötvaðist. Sjúkdómurinn hefur síðan greinst víðar í heiminum, einkum þar sem magn selens í jarðvegi er mjög lítið.
Frumefnið selen er eitt af snefnilefnum líkamans.Selen virðist gegna hlutverki andoxunarefna sem hluti af efninu glutathíoni peroxíðasa. Auk þess hefur selen verið rannsakað í tengslum við krabbamein í blöðruhálskirtli og benda ýmsar niðurstöður til þess að hjá sumum karlmönnum geti aukið magn af seleni dregið úr líkum á krabbameini af því tagi. Þess ber þó að geta að selen er eitt af snefilefnum líkamans og eins og orðið gefur til kynna ætti það að finnast í líkamanum í snefilmagni. Í of miklu magni er það skaðlegt og getur valdið ógleði, uppköstum, magaverkjum, hárlosi, losi á nöglum og þreytu svo aðeins nokkur einkenni séu nefnd. Í versta falli getur ofgnótt selens leitt til dauða. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvaða ólífrænu efni eru í mannslíkamanum? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur.
- Getur kopar haft skaðleg áhrif á líkamsstarfsemi okkar? eftir Jón Má Halldórsson.
- Í hvaða matvælum er helst að finna frumefnið litín? eftir Magnús Má Kristjánsson.
- Housecroft, Catherine E. og Constable, Edwin C. 2006. Chemistry, þriðja útgáfa. Pearson education.
- Aihara, K. o.fl. 1984. Zinc, copper, manganese, and selenium metabolism in thyroid disease. American Journal of Clinical Nutrition, 40: 26-35.
- Selenium (Se) á MedlinePlus.
- Myndir: Chemistry Explained.