Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nýlega hafa birst fréttir af tilfellum um blóðtappa, og jafnvel dauðsfalla í kjölfarið, sem hugsanlega megi rekja til notkunar á getnaðarvarnarpillunni Yasmin. Það skal tekið fram að enn á eftir að rannsaka þessi tilfelli betur áður en upplýst er hver orsök þeirra er. Enn eru engar rannsóknir sem benda til þess að Yasmin valdi frekar blóðtöppum en sambærilegar getnaðarvarnartöflur og hafa flestar rannsóknir þvert á móti bent til þess að hún sé áhættuminni.
Engar rannsóknir benda til þess að getnarðarvarnarpillan Yasmin sé áhættusamari en aðrar hormónagetnaðarvarnir.
Getnaðarvarnartöflur eru flokkaðar sem lyf, enda hafa þær víðtæka verkun. Til þess að fá slíka getnaðarvörn þarf að fara í viðtal til læknis þar sem spurt er út í heilsufar. Þetta er gert vegna þess að ákveðnir hópar kvenna eru í meiri hættu á að fá ýmsar aukaverkanir. Þetta eru einkum þær sem hafa sögu um æðabólgur í fótum, slæma æðahnúta, blóðtappa eða ættarsögu um blóðtappa. Einnig ættu konur með lifrarsjúkdóma og tíðatruflanir af óþekktri orsök ekki að nota þessa tegund getnaðarvarna. Sykursýki og háþrýstingur geta versnað við töku pillunnar. Konum sem reykja og konum sem komnar eru yfir 35 er mun hættara við alvarlegum aukaverkunum. Ef móðir eða systir hafa fengið brjóstakrabbamein yngri en 50 ára er betra að nota aðra getnaðarvörn. Það hefur þó ekki verið fyllilega sýnt fram á að notkun getnaðarvarnartaflna auki líkur á krabbameini. Þungaðar konur ættu jafnframt aldrei að taka getnaðarvarnartöflur.
Eins og með önnur lyf eru þekktar ýmsar aukaverkanir og koma þær fram í fylgiseðli pillunnar eins og reglur gera ráð fyrir. Sumar eru algengar en aðrar sjaldgæfari. Meðal þeirra algengustu eru til dæmis höfuðverkur, ógleði, brjóstaspenna og skapsveiflur. Meðal sjaldgæfari aukaverkana eru meðal annars blóðtappar.
Blóðtappi er myndun blóðkögguls úr storknuðu blóði sem stíflað getur æð. Blóðtappi myndast stundum sem bólga í djúpum bláæðum. Ef blóðtappinn flyst burt úr bláæðum getur hann sest að í lungnaslagæðum og valdið svokölluðu „blóðreki í lungum“. Bólga í djúpum bláæðum er sjaldgæf. Hún getur komið fram hvort sem verið er að nota getnaðarvarnarpilluna eða ekki. Hætta á bólgu í djúpum bláæðum er meiri á meðgöngu en við notkun pillunnar. Konur sem nota pilluna eru þó í meiri hættu en þær sem nota hana ekki.
Hætta á bólgu í djúpum bláæðum hjá konum sem nota lágskammtapillu telst vera 10 - 15 tilfelli af 100.000 konum á ári, á móti 4 tilfellum af 100.000 konum sem ekki nota pilluna. Hjá heilbrigðum konum er áhættan þess vegna mjög lítil. Ákveðnir sjúkdómar geta þó aukið þessa áhættu og má kona ekki nota pilluna ef hún fær eða hefur fengið bólgu í djúpar bláæðar. Hættan á blóðtappa er einnig meiri hjá konum sem eru eldri en 35 ára og reykja mikið. Þessi hætta eykst enn frekar ef getnaðarvarnarpillan er notuð. Því þurfa konur eldri en 35 ára að hætta reykingum ef þær vilja nota pilluna áfram.
Það er ekki staðfest að hættan á blóðtöppum sé meiri af ákveðinni pillu heldur en annarri. Það hins vegar eðlilegt að hafa áhyggjur þegar svona fréttir koma fram. Blóðtappamyndun er þó þekkt aukaverkun og er varað við henni áður en konur byrja á samsettri hormónagetnaðarvörn, eins og til dæmis Yasmin. Til eru margar tegundir af pillum sem hægt er að ávísa og þær gera nákvæmlega sama gagn, það er koma í veg fyrir þungun. Margar eru jafnframt ódýrari en þessi Yasmin-pillan. Það er því ráðlegt að ræða þessi mál vel við sinn kvensjúkdóma- eða heimilislækni áður en ákvörðun er tekin um hvaða og hvort eigi að nota getnaðarvarnarpilluna.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Ástráður, forvarnastarf læknanema. „Er eitthvað til í fréttum um að getnaðarvarnarpillan Yasmin geti valdið blóðtappa?“ Vísindavefurinn, 15. nóvember 2007, sótt 12. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6908.
Ástráður, forvarnastarf læknanema. (2007, 15. nóvember). Er eitthvað til í fréttum um að getnaðarvarnarpillan Yasmin geti valdið blóðtappa? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6908
Ástráður, forvarnastarf læknanema. „Er eitthvað til í fréttum um að getnaðarvarnarpillan Yasmin geti valdið blóðtappa?“ Vísindavefurinn. 15. nóv. 2007. Vefsíða. 12. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6908>.