
Engar rannsóknir benda til þess að getnarðarvarnarpillan Yasmin sé áhættusamari en aðrar hormónagetnaðarvarnir.
Blóðtappi er myndun blóðkögguls úr storknuðu blóði sem stíflað getur æð. Blóðtappi myndast stundum sem bólga í djúpum bláæðum. Ef blóðtappinn flyst burt úr bláæðum getur hann sest að í lungnaslagæðum og valdið svokölluðu „blóðreki í lungum“. Bólga í djúpum bláæðum er sjaldgæf. Hún getur komið fram hvort sem verið er að nota getnaðarvarnarpilluna eða ekki. Hætta á bólgu í djúpum bláæðum er meiri á meðgöngu en við notkun pillunnar. Konur sem nota pilluna eru þó í meiri hættu en þær sem nota hana ekki.
Hætta á bólgu í djúpum bláæðum hjá konum sem nota lágskammtapillu telst vera 10 - 15 tilfelli af 100.000 konum á ári, á móti 4 tilfellum af 100.000 konum sem ekki nota pilluna. Hjá heilbrigðum konum er áhættan þess vegna mjög lítil. Ákveðnir sjúkdómar geta þó aukið þessa áhættu og má kona ekki nota pilluna ef hún fær eða hefur fengið bólgu í djúpar bláæðar. Hættan á blóðtappa er einnig meiri hjá konum sem eru eldri en 35 ára og reykja mikið. Þessi hætta eykst enn frekar ef getnaðarvarnarpillan er notuð. Því þurfa konur eldri en 35 ára að hætta reykingum ef þær vilja nota pilluna áfram.
Það er ekki staðfest að hættan á blóðtöppum sé meiri af ákveðinni pillu heldur en annarri. Það hins vegar eðlilegt að hafa áhyggjur þegar svona fréttir koma fram. Blóðtappamyndun er þó þekkt aukaverkun og er varað við henni áður en konur byrja á samsettri hormónagetnaðarvörn, eins og til dæmis Yasmin. Til eru margar tegundir af pillum sem hægt er að ávísa og þær gera nákvæmlega sama gagn, það er koma í veg fyrir þungun. Margar eru jafnframt ódýrari en þessi Yasmin-pillan. Það er því ráðlegt að ræða þessi mál vel við sinn kvensjúkdóma- eða heimilislækni áður en ákvörðun er tekin um hvaða og hvort eigi að nota getnaðarvarnarpilluna.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:- Hvernig verkar hettan sem getnaðarvörn? Er hún jafnörugg og aðrar getnaðarvarnir? eftir Doktor.is
- Er til getnaðarvarnarpilla eða -sprauta fyrir karlmenn? eftir Berglindi Júlíusdóttur
- Duga smokkar alltaf? eftir EDS
- Er hið örugga tímabil kvenna til? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hver er staða ótímabærra þungana á Íslandi miðað við önnur Norðurlönd? eftir Sóleyju S. Bender
- Þyngist maður við það að byrja á pillunni? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
Þessi grein birtist upphaflega á vefsetrinu astradur.is, heimasíðu forvarnarstarfs læknanema, og birtist hér með góðfúslegu leyfi.