Þeir sem þjást af áráttukenndum kaupum segja að kaup þeirra einkennist af því að hvötin til að kaupa sé óviðráðanleg, kaupin séu endurtekin og vörurnar ónauðsynlegar. Hugsanir um kaup ryðji sér leið inn í hugann og allar tilraunir til að stjórna kaupum og eyðslu mistakist. Þá greinir fólk einnig frá löngum og tíðum verslunarferðum. Einnig reynir það að forðast verslunarferðir og staði þar sem hægt er að versla en þessar tilraunir mistakast þó iðulega og á endanum missir fólk algjörlega stjórn á kaupum sínum. Afleiðingar kaupanna eru almennt slæmar, eins og áhyggjur og kvíði, árekstrar við maka, kreditkorta- og yfirdráttarskuldir og aðrir fjárhagslegir erfiðleikar.
Áráttukennd kaup hafa ekki enn fengið eigin greiningarviðmið hjá amerísku geðlæknasamtökunum (APA). Þau eru flokkuð í sama flokk og aðrar hvatvísiraskanir sem ekki eru öðruvísi tilgreindar, til dæmis húðplokk, og eru þá kölluð áráttukennd kaupröskun. Þó er viðurkennt að um alvarlegt vandamál sé um að ræða og er talið að frá 2% til allt að 8% Bandaríkjamanna eigi í vandræðum vegna áráttukenndra kaupa. Þeir sem greinast með áráttukennda kaupröskun hafa einnig oft greinst með þunglyndi, kvíðaraskanir, átraskanir og áfengis- eða eiturlyfjafíkn á sama tíma eða einhvern tíma á ævinni.
Áráttukennd kaup byrja yfirleitt að gera vart við sig á aldrinum 18 til 30 ára og verða oftast að meiriháttar vandamáli á tímabilinu 31 til 39 ára. Flestir sem glíma við áráttukennd kaup eru konur á fertugsaldri með lág til meðalhá laun og töluverðar skuldir. Algengustu vörurnar sem eru keyptar eru tískuvörur eins og föt, skór, skartgripir og snyrtivörur og margt af því er aldrei eða sjaldan notað.

Algengast er að keyptar séu tískuvörur og þá oft dýrar merkjavörur.
- Er hægt að lækna fólk sem „paníkerar“? Hvað með fólk með áráttu eða þráhyggju? eftir Jakob Smára
- Er hægt að tala um frjálsan vilja? eftir Atla Harðarson
- Hvaða tilgangi þjónar serótónín í heilanum? Hverjar eru afleiðingarnar ef starfsemi þess er raskað? eftir HMS
- Eru tölvuleikir vanabindandi? eftir Zulimu Gabríelu Sigurðardóttur og Sigurð J. Grétarsson
Þetta svar er birt hér með góðfúslegu leyfi vefsetursins persona.is.