Sólin Sólin Rís 08:23 • sest 18:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:16 • Síðdegis: 25:08 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:12 • Síðdegis: 18:26 í Reykjavík

Er heili siðblindingja öðruvísi en í venjulegu fólki?

Fróði Guðmundur Jónsson

Spurning Eneku hljóðaði upphaflega svona:
Er heilinn í siðblindingjum eitthvað öðruvísi en í venjulegum einstaklingi?

Stutta svarið við þessari spurningu er að heili svonefndra siðblindingja er að ýmsu leyti öðru vísi en í þeim sem ekki teljast vera siðblindir.

Þvert á það sem margir halda er siðblinda ekki persónuleikaröskun heldur svonefnt persónuleikahugtak eða persónuleikaþáttur. Siðblinda hefur hins vegar verið tengd við andfélagslega persónuleikaröskun, en nánar má lesa um persónuleikaraskanir í svari Jakobs Smára við spurningunni Hvað er persónuleikaröskun?

Oft er siðblindum lýst sem sjálfsöruggum einstaklingum sem hafi mikla persónutöfra en undir niðri séu þeir ofbeldisfullir og iðrist einskis. Sú lýsing á að ýmsu leyti við en þó ber að varast að setja alla siðblinda undir sama hatt.

Oft er siðblindum lýst sem sjálfsöruggum einstaklingum sem hafi mikla persónutöfra en undir niðri séu þeir ofbeldisfullir og iðrist einskis. Það á vel við persónuna Bruno Anthony sem kemur fyrir í skáldsögunni Strangers on a Train og samnefndri kvikmynd.

Almennt hefur einkennum siðblindra verið skipt upp í tvo yfirþætti sem hafa hvor um sig tvo undirþætti. Annar yfirþátturinn snýr að félagslegum og tilfinningalegum þáttum þar sem einkennin eru meðal annars gífurlega hátt sjálfsmat, lítil sem engin eftirsjá eða sektarkennd, harðlyndi, ábyrgðaleysi, yfirborðskennd (e. glibness) og stanslausar lygar. Hinn yfirþátturinn samanstendur af lífstíls- og andfélagslegum þáttum og einkennist til að mynda af spennusækni, hvatvísi, lélegri atferlisstjórn, hegðunarvandamálum og fjölbreyttri brotahegðun.[1]

Þeir sem eru siðblindir hafa ekki endilega öll einkenni siðblindu, en siðblinda er oftast greind með kvarða sem kallast á ensku The Hare Psychopathy Checklist-Revised. (PCL-R).[2] Talið er að um 0,5 til 1% einstaklinga séu siðblindir, en siðblinda er mun algengari á meðal fanga – þar er tíðnin um 20%.[3] Hins vegar eru alls ekki allir siðblindingjar endilega glæpamenn. Sumir siðblindingjar ná mjög langt í viðskiptalífinu og siðblindir einstaklingar eru einnig talsvert algengari í stjórnunarstöðum fyrirtækja en í almennu þýði.[4]

Flestar rannsóknir á heilavirkni siðblindra[5] benda til þess að þeir sýni minni taugavirkni og hafi minna heilaefni (e. brain matter) í forennisberki (e. prefrontal cortex) en aðrir.[6] Afbrigðileiki í hægri tóttarennisberki (e. orbitofrontal cortex) eða kviðmiðlægum forennisberki (e. ventromedial prefrontal cortex) getur valdið vanhæfni í félagshegðun, ákvarðanatöku og úrvinnslu tilfinninga og vanvirkni í bakhliðlægum forennisberki (e. dorsolateral prefrontal cortex) heftir hæfnina til þess að úthluta og viðhalda athygli að réttum áreitum.

Hvatvísi siðblindra virðist tengjast afbrigðilegri virkni í dópamín-umbunarhringrás heilans (e. dopamine reward circuitry)[7], en taugaboðefnið dópamín hefur meðal annars áhrif á upplýsingaflæði til ennisblaða heilans sem og tilfinningar, hvatir og ánægju manna.

Samanburður á heilbrigðum heila (vinstra megin) og heila siðblinds manns (hægra megin) úr starfrænni segulómmyndun. Heitari litir tákna meiri virkni, rauður er því mesta virknin og blár sú minnsta. Forennisbörkur og svonefnt limbískt-kerfi (einnig nefnt randkerfi á íslensku) siðblinda mannsins eru vanvirk.

Aðrar rannsóknir hafa greint mismun á virkni í því sem nefnist limbískt-kerfi heilans og nálægum heilastöðvum; möndlu, dreka, trjónulægum gyrðilberki (e. anterior cingulate cortex) og tóttarennisberki. Óeðlileg virkni í þessum svæðum veldur vanhæfni til þess að meta hvatningargildi (e. motivational value) áreita og getur haft áhrif á hvatvísi, ýgi (e. aggression) og hegðunarstjórn. Enn fremur getur það leitt til vöntunar á samúð og sektarkennd.[8]

Tilvísanir:
 1. ^ Hare, R. D. (2003). The psychopathy checklist-Revised. Toronto, ON, 2003.
 2. ^ Hare, R. D. (2003). The psychopathy checklist-Revised. Toronto, ON, 2003.
 3. ^ Nanna Briem. (2009). Um siðblindu. Geðvernd, 38, 25-29.
 4. ^ Babiak, P. og Hare, R. D. (2007) Snakes in suits: When psychopaths go to work. Harper Collins.
 5. ^ Nickerson, S. D. (2014). Brain abnormalities in psychopaths: A meta-analysis. North American Journal of Psychology, 16(1), 63-77.
 6. ^ Damasio, A. (1994) Descartes‘ error: Emotion, reason, and the human brain. New York: Penguin Group.
 7. ^ Buckholtz, J. W., Treadway, M. T., Cowan, R. L., Woodward, N. D., Li, R., Ansari, M. S. o.fl. (2010). Dopaminergic network differences in human impulsivity. Science, 329(5991), 532.
 8. ^ Mitchell, D. G. V., Colledge, E., Leonard, A. og Blair, R. J. R. (2002) Risky decisions and response reversal: Is there evidence of orbitofrontal cortex dysfunction in psychopathic individuals? Neuropsychologia, 40, 2013-2022.

Myndir:

Höfundur þakkar Heiðu Maríu Sigurðardóttur, lektor við Sálfræðideild HÍ, og Daníel Þór Ólasyni, prófessor við Sálfræðideild HÍ, kærlega fyrir yfirlestur á svarinu.

Aðrir spyrjendur voru: Þórður Ingvarsson, Friðrik S. og Ingibjörg Guðmundsdóttir.

Höfundur

Fróði Guðmundur Jónsson

B.S. í sálfræði

Útgáfudagur

14.3.2019

Spyrjandi

Eneka Abel Sigurðardóttir, Almar Heimir Jóhannsson, Pálmi John Price Þórarinsson og fleiri

Tilvísun

Fróði Guðmundur Jónsson. „Er heili siðblindingja öðruvísi en í venjulegu fólki?“ Vísindavefurinn, 14. mars 2019. Sótt 4. mars 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=69945.

Fróði Guðmundur Jónsson. (2019, 14. mars). Er heili siðblindingja öðruvísi en í venjulegu fólki? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=69945

Fróði Guðmundur Jónsson. „Er heili siðblindingja öðruvísi en í venjulegu fólki?“ Vísindavefurinn. 14. mar. 2019. Vefsíða. 4. mar. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=69945>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er heili siðblindingja öðruvísi en í venjulegu fólki?
Spurning Eneku hljóðaði upphaflega svona:

Er heilinn í siðblindingjum eitthvað öðruvísi en í venjulegum einstaklingi?

Stutta svarið við þessari spurningu er að heili svonefndra siðblindingja er að ýmsu leyti öðru vísi en í þeim sem ekki teljast vera siðblindir.

Þvert á það sem margir halda er siðblinda ekki persónuleikaröskun heldur svonefnt persónuleikahugtak eða persónuleikaþáttur. Siðblinda hefur hins vegar verið tengd við andfélagslega persónuleikaröskun, en nánar má lesa um persónuleikaraskanir í svari Jakobs Smára við spurningunni Hvað er persónuleikaröskun?

Oft er siðblindum lýst sem sjálfsöruggum einstaklingum sem hafi mikla persónutöfra en undir niðri séu þeir ofbeldisfullir og iðrist einskis. Sú lýsing á að ýmsu leyti við en þó ber að varast að setja alla siðblinda undir sama hatt.

Oft er siðblindum lýst sem sjálfsöruggum einstaklingum sem hafi mikla persónutöfra en undir niðri séu þeir ofbeldisfullir og iðrist einskis. Það á vel við persónuna Bruno Anthony sem kemur fyrir í skáldsögunni Strangers on a Train og samnefndri kvikmynd.

Almennt hefur einkennum siðblindra verið skipt upp í tvo yfirþætti sem hafa hvor um sig tvo undirþætti. Annar yfirþátturinn snýr að félagslegum og tilfinningalegum þáttum þar sem einkennin eru meðal annars gífurlega hátt sjálfsmat, lítil sem engin eftirsjá eða sektarkennd, harðlyndi, ábyrgðaleysi, yfirborðskennd (e. glibness) og stanslausar lygar. Hinn yfirþátturinn samanstendur af lífstíls- og andfélagslegum þáttum og einkennist til að mynda af spennusækni, hvatvísi, lélegri atferlisstjórn, hegðunarvandamálum og fjölbreyttri brotahegðun.[1]

Þeir sem eru siðblindir hafa ekki endilega öll einkenni siðblindu, en siðblinda er oftast greind með kvarða sem kallast á ensku The Hare Psychopathy Checklist-Revised. (PCL-R).[2] Talið er að um 0,5 til 1% einstaklinga séu siðblindir, en siðblinda er mun algengari á meðal fanga – þar er tíðnin um 20%.[3] Hins vegar eru alls ekki allir siðblindingjar endilega glæpamenn. Sumir siðblindingjar ná mjög langt í viðskiptalífinu og siðblindir einstaklingar eru einnig talsvert algengari í stjórnunarstöðum fyrirtækja en í almennu þýði.[4]

Flestar rannsóknir á heilavirkni siðblindra[5] benda til þess að þeir sýni minni taugavirkni og hafi minna heilaefni (e. brain matter) í forennisberki (e. prefrontal cortex) en aðrir.[6] Afbrigðileiki í hægri tóttarennisberki (e. orbitofrontal cortex) eða kviðmiðlægum forennisberki (e. ventromedial prefrontal cortex) getur valdið vanhæfni í félagshegðun, ákvarðanatöku og úrvinnslu tilfinninga og vanvirkni í bakhliðlægum forennisberki (e. dorsolateral prefrontal cortex) heftir hæfnina til þess að úthluta og viðhalda athygli að réttum áreitum.

Hvatvísi siðblindra virðist tengjast afbrigðilegri virkni í dópamín-umbunarhringrás heilans (e. dopamine reward circuitry)[7], en taugaboðefnið dópamín hefur meðal annars áhrif á upplýsingaflæði til ennisblaða heilans sem og tilfinningar, hvatir og ánægju manna.

Samanburður á heilbrigðum heila (vinstra megin) og heila siðblinds manns (hægra megin) úr starfrænni segulómmyndun. Heitari litir tákna meiri virkni, rauður er því mesta virknin og blár sú minnsta. Forennisbörkur og svonefnt limbískt-kerfi (einnig nefnt randkerfi á íslensku) siðblinda mannsins eru vanvirk.

Aðrar rannsóknir hafa greint mismun á virkni í því sem nefnist limbískt-kerfi heilans og nálægum heilastöðvum; möndlu, dreka, trjónulægum gyrðilberki (e. anterior cingulate cortex) og tóttarennisberki. Óeðlileg virkni í þessum svæðum veldur vanhæfni til þess að meta hvatningargildi (e. motivational value) áreita og getur haft áhrif á hvatvísi, ýgi (e. aggression) og hegðunarstjórn. Enn fremur getur það leitt til vöntunar á samúð og sektarkennd.[8]

Tilvísanir:
 1. ^ Hare, R. D. (2003). The psychopathy checklist-Revised. Toronto, ON, 2003.
 2. ^ Hare, R. D. (2003). The psychopathy checklist-Revised. Toronto, ON, 2003.
 3. ^ Nanna Briem. (2009). Um siðblindu. Geðvernd, 38, 25-29.
 4. ^ Babiak, P. og Hare, R. D. (2007) Snakes in suits: When psychopaths go to work. Harper Collins.
 5. ^ Nickerson, S. D. (2014). Brain abnormalities in psychopaths: A meta-analysis. North American Journal of Psychology, 16(1), 63-77.
 6. ^ Damasio, A. (1994) Descartes‘ error: Emotion, reason, and the human brain. New York: Penguin Group.
 7. ^ Buckholtz, J. W., Treadway, M. T., Cowan, R. L., Woodward, N. D., Li, R., Ansari, M. S. o.fl. (2010). Dopaminergic network differences in human impulsivity. Science, 329(5991), 532.
 8. ^ Mitchell, D. G. V., Colledge, E., Leonard, A. og Blair, R. J. R. (2002) Risky decisions and response reversal: Is there evidence of orbitofrontal cortex dysfunction in psychopathic individuals? Neuropsychologia, 40, 2013-2022.

Myndir:

Höfundur þakkar Heiðu Maríu Sigurðardóttur, lektor við Sálfræðideild HÍ, og Daníel Þór Ólasyni, prófessor við Sálfræðideild HÍ, kærlega fyrir yfirlestur á svarinu.

Aðrir spyrjendur voru: Þórður Ingvarsson, Friðrik S. og Ingibjörg Guðmundsdóttir.

...