Sólin Sólin Rís 03:49 • sest 23:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:41 • Sest 03:14 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:46 • Síðdegis: 24:13 í Reykjavík
COVID-19 borði í flokk

Hvað er MERS-veira og hvernig smitast hún?

Jón Magnús Jóhannesson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

MERS-CoV er ein þeirra sjö kórónuveira sem vitað er að geta sýkt menn, eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað eru til margar kórónuveirur sem sýkja menn og dugar ónæmi gegn einni þeirra fyrir hinum?

Sjúkdómurinn sem veiran veldur kallast MERS (e. Middle East respiratory syndrome). Hann kemur fram sem sýking í öndunarfærum þar sem algengustu einkennin eru hósti, hiti og mæði. Sjúkdómurinn leiðir oft til lungnabólgu en alls ekki alltaf. Í sumum tilfellum finna sjúklingar fyrir einkennum frá meltingarfærum svo sem ógleði eða niðurgangi, en einnig hafa komið fram alvarlegri fylgikvillar svo sem nýrnabilun. Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að sýktir einstaklingar geta verið án einkenna. Sjúkdómurinn leggst þyngra á eldra fólk, fólk með veikt ónæmiskerfi og undirliggjandi sjúkdóma, svo sem krabbamein, langvinna lungnasjúkdóma og sykursýki.

Veiran MERS-CoV greindist fyrst í Sádi-Arabíu árið 2012 og er enn að greinast. Síðan þá og fram til mars 2020 eru staðfest smit rúmlega 2.500 í alls 27 löndum. Af þeim hafa 876 látist. Miðað við opinberar tölur er dánarhlutfallið því töluvert hátt eða um 35%. Reyndar er talið að hlutfallið geti verið lægra því þegar einkenni eru væg er vel mögulegt að sjúkdómurinn hafi ekki verið greindur og tilfelli skráð.

Fjöldi greindra tilfella, fjöldi uppsafnaðra tilfella og fjöldi uppsafnaðra dauðsfalla - byggt á gögnum frá WHO. Fyrstu tilfellin af MERS komu fram árið 2012 en voru afar fá til að byrja með. Stærstu faraldrarnir enn sem komið er voru í Sádi-Arabíu 2014 og Suður Kóreu 2015. Í lok mars 2020 var heildarfjöldi tilfella rúmlega 2.500 og dauðsföll 876.

Yfir 80% smita eru í Sádi-Arabíu en smit hafa einnig greinst í öðrum löndum Arabíuskagans, til dæmis Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Jórdaníu, Katar og Óman. Þá hafa greinst smit í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu en þau virðast tengjast ferðalögum til eða frá Mið-Austurlöndum eða samskiptum við fólk frá því svæði. Fyrir utan Sádi-Arabíu var stærsti faraldurinn hingað til í Suður-Kóreu árið 2015 þar sem 186 smit greindust og 39 dauðsföll.

Rannsóknir á uppruna MERS-CoV benda til þess að veiran hafi hugsanlega komið frá leðurblökum og borist til manna gegnum drómedara (Camelus dromedarius), sem eru þá millihýslar. Talið er að forveraveira MERS-kórónuveirunnar hafi borist til drómedara fyrir rúmlega 30 árum en margar skyldar veirur finnast nú meðal þeirra. Smit í mönnum tengist aðallega beinum eða óbeinum samgangi manna og drómedara. Veiran getur hins vegar líka borist manna á milli en er ekki bráðsmitandi. Flest tilfelli þar sem veiran hefur smitast á milli manna tengjast heilbrigðisstofnunum þar sem fólk hefur smitast við umönnun eða samneyti við sjúka án viðeigandi varúðaráðstafana svo sem hlífðarbúnaðar.

MERS-CoV er súnuveira sem berst frá drómedörum yfir í menn. Ekki er því ráðlegt að kyssa eða kjassa drómedara á þeim svæðum þar sem veiran þrífst.

Ekki hefur tekist að þróa bóluefni við MERS-CoV í mönnum og ekki hefur komið fram lyf við sjúkdómnum. Hins vegar er til samþykkt bóluefni við veirunni í drómedörum og bólusetningar á dýrunum gagnast þess vegna í baráttunni við að hindra að veiran berist í menn.

Til þess að draga úr líkum á smiti milli dýra og manna er mikilvægt að sýna varfærni í umgengni við drómedara sem gætu verið sýktir, til að mynda að forðast að drekka mjólk úr þeim eða neyta kjöts úr þeim sem er lítið eldað. Þar sem smit manna á milli eru helst á heilbrigðisstofnunum er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk sé vel meðvitað um sjúkdóminn og noti viðeigandi hlífðarbúnað þegar það á við.

Heimildir og myndir:

Höfundar

Jón Magnús Jóhannesson

læknir og rannsakandi

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

4.6.2020

Spyrjandi

Þórólfur Þorvalds Kristjánsson

Tilvísun

Jón Magnús Jóhannesson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað er MERS-veira og hvernig smitast hún?“ Vísindavefurinn, 4. júní 2020. Sótt 22. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=70255.

Jón Magnús Jóhannesson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2020, 4. júní). Hvað er MERS-veira og hvernig smitast hún? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=70255

Jón Magnús Jóhannesson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað er MERS-veira og hvernig smitast hún?“ Vísindavefurinn. 4. jún. 2020. Vefsíða. 22. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=70255>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er MERS-veira og hvernig smitast hún?
MERS-CoV er ein þeirra sjö kórónuveira sem vitað er að geta sýkt menn, eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvað eru til margar kórónuveirur sem sýkja menn og dugar ónæmi gegn einni þeirra fyrir hinum?

Sjúkdómurinn sem veiran veldur kallast MERS (e. Middle East respiratory syndrome). Hann kemur fram sem sýking í öndunarfærum þar sem algengustu einkennin eru hósti, hiti og mæði. Sjúkdómurinn leiðir oft til lungnabólgu en alls ekki alltaf. Í sumum tilfellum finna sjúklingar fyrir einkennum frá meltingarfærum svo sem ógleði eða niðurgangi, en einnig hafa komið fram alvarlegri fylgikvillar svo sem nýrnabilun. Rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að sýktir einstaklingar geta verið án einkenna. Sjúkdómurinn leggst þyngra á eldra fólk, fólk með veikt ónæmiskerfi og undirliggjandi sjúkdóma, svo sem krabbamein, langvinna lungnasjúkdóma og sykursýki.

Veiran MERS-CoV greindist fyrst í Sádi-Arabíu árið 2012 og er enn að greinast. Síðan þá og fram til mars 2020 eru staðfest smit rúmlega 2.500 í alls 27 löndum. Af þeim hafa 876 látist. Miðað við opinberar tölur er dánarhlutfallið því töluvert hátt eða um 35%. Reyndar er talið að hlutfallið geti verið lægra því þegar einkenni eru væg er vel mögulegt að sjúkdómurinn hafi ekki verið greindur og tilfelli skráð.

Fjöldi greindra tilfella, fjöldi uppsafnaðra tilfella og fjöldi uppsafnaðra dauðsfalla - byggt á gögnum frá WHO. Fyrstu tilfellin af MERS komu fram árið 2012 en voru afar fá til að byrja með. Stærstu faraldrarnir enn sem komið er voru í Sádi-Arabíu 2014 og Suður Kóreu 2015. Í lok mars 2020 var heildarfjöldi tilfella rúmlega 2.500 og dauðsföll 876.

Yfir 80% smita eru í Sádi-Arabíu en smit hafa einnig greinst í öðrum löndum Arabíuskagans, til dæmis Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Jórdaníu, Katar og Óman. Þá hafa greinst smit í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu en þau virðast tengjast ferðalögum til eða frá Mið-Austurlöndum eða samskiptum við fólk frá því svæði. Fyrir utan Sádi-Arabíu var stærsti faraldurinn hingað til í Suður-Kóreu árið 2015 þar sem 186 smit greindust og 39 dauðsföll.

Rannsóknir á uppruna MERS-CoV benda til þess að veiran hafi hugsanlega komið frá leðurblökum og borist til manna gegnum drómedara (Camelus dromedarius), sem eru þá millihýslar. Talið er að forveraveira MERS-kórónuveirunnar hafi borist til drómedara fyrir rúmlega 30 árum en margar skyldar veirur finnast nú meðal þeirra. Smit í mönnum tengist aðallega beinum eða óbeinum samgangi manna og drómedara. Veiran getur hins vegar líka borist manna á milli en er ekki bráðsmitandi. Flest tilfelli þar sem veiran hefur smitast á milli manna tengjast heilbrigðisstofnunum þar sem fólk hefur smitast við umönnun eða samneyti við sjúka án viðeigandi varúðaráðstafana svo sem hlífðarbúnaðar.

MERS-CoV er súnuveira sem berst frá drómedörum yfir í menn. Ekki er því ráðlegt að kyssa eða kjassa drómedara á þeim svæðum þar sem veiran þrífst.

Ekki hefur tekist að þróa bóluefni við MERS-CoV í mönnum og ekki hefur komið fram lyf við sjúkdómnum. Hins vegar er til samþykkt bóluefni við veirunni í drómedörum og bólusetningar á dýrunum gagnast þess vegna í baráttunni við að hindra að veiran berist í menn.

Til þess að draga úr líkum á smiti milli dýra og manna er mikilvægt að sýna varfærni í umgengni við drómedara sem gætu verið sýktir, til að mynda að forðast að drekka mjólk úr þeim eða neyta kjöts úr þeim sem er lítið eldað. Þar sem smit manna á milli eru helst á heilbrigðisstofnunum er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk sé vel meðvitað um sjúkdóminn og noti viðeigandi hlífðarbúnað þegar það á við.

Heimildir og myndir:...