Ég heyrði um daginn að geitungur sem hafði verið fangaður í krukku hafi reynt að stinga sig í gegnum krukkuna og þá datt broddurinn af. Hvað gerist þegar broddurinn dettur af? Kemur þá nýr broddur á?Broddur geitunga, rétt eins og broddur hunangsflugna og býflugna, er ummynduð varppípa. Hjá hunangsflugum og býflugum hefur broddurinn krók á endanum, eins konar öngul, sem situr eftir í stungusárinu þegar flugurnar stinga. Við stunguna dregst broddurinn út úr flugunni ásamt eiturpoka og jafnvel hluta af innyflum og flugan deyr. Broddur geitunga hefur hins vegar ekki svona krók á endanum og því geta geitungar dregið hann út aftur eftir stungu án þess að hljóta skaða af. Þess vegna geta geitungar stungið aftur og aftur. Hins vegar gæti það vel komið fyrir að broddur geitunga brotni af einhverjum orsökum og þá er eðlilegt að menn spyrji hvað verður um geitunginn þá? Hunangsflugur deyja ekki eftir stungu af því að broddurinn er brotinn heldur af því að þær hafa misst hluta af innyflunum. Ef geitungur brýtur aðeins broddinn en skaðast ekki að öðru leyti má kannski líkja honum við riddara með brotið sverð. Hann verður varnarlausari en áður en brotinn broddur hefur ekki bein áhrif á líkamlegt heilbrigði hans. Höfundur þessa svars gat ekki fundið neinar heimildir um það að nýr broddur mundi vaxa ef geitungur lendir í því að brjóta eða missa þann upprunalega. Myndir:
Deyja geitungar ef þeir missa broddinn?
Útgáfudagur
15.9.2015
Spyrjandi
Ásta Kristbjörnsdóttir
Tilvísun
Jón Már Halldórsson. „Deyja geitungar ef þeir missa broddinn?“ Vísindavefurinn, 15. september 2015, sótt 10. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=70457.
Jón Már Halldórsson. (2015, 15. september). Deyja geitungar ef þeir missa broddinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=70457
Jón Már Halldórsson. „Deyja geitungar ef þeir missa broddinn?“ Vísindavefurinn. 15. sep. 2015. Vefsíða. 10. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=70457>.