Regnvatn eða snjór fellur úr skýjum á jörðina. Snjór getur sest á jökla og vatn safnast í stöðuvötn eða sigið niður í jarðlög (og kallast þá grunnvatn). Að lokum rennur vatn og bráðinn snjór í ám og lækjum til sjávar á ný. Þannig er allt vatn á jörðinni í eilífri hringrás frá hafi um lofthjúpinn og landið og til hafs. Það fer eftir hitastigi hvort vatn í þessari hringrás er ósýnileg gufa í loftinu, fljótandi vökvi, snjór eða harður ís.
Langur tími getur liðið frá því að snjókorn fellur á jörðina og þar til það skilar sér aftur út í sjó. Lengsta ferð vatns um loft, láð og lög er um jökla og tekur hún að meðaltali um níu þúsund ár. Hringrás um grunnvatn tekur um fimm þúsund ár, þrjú þúsund ár í hafi, eitt ár í stöðuvötnum, tólf daga í ám og tíu daga í andrúmslofti.
Lengsta ferð vatns um loft, láð og lög er um jökla og tekur hún að meðaltali um níu þúsund ár. Myndin er af Mýrdalsjökli.
- Fyrri myndin er fengin úr bókinni Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni? Spurningar af Vísindavefnum um jökla og loftslagsmál. Hún er eftir Þórarinn Má Baldursson og er birt með góðfúslegu leyfi.
- File:Myrdalsjökull glacier iceland 2005 1.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 30.09.2015).
Þetta svar er úr bókinni Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni? Spurningar af Vísindavefnum um jökla og loftslagsmál. Það er birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.