Skýrslan kom út árið 2007 og þar er fjallað um allar viðurkenndar vísindarannsóknir á krabbameini og mataræði sem gefnar hafa verið út fram til ársins 2005. Stór hópur fræðimanna um allan heim kom að gerð skýrslunnar, en hún var fimm ár í vinnslu. Skýrslan virðist því vera einhver besta heimildin um heildarviðhorf sem völ er á. Þegar fjallað er um mjólk, mjólkurafurðir og krabbamein í fyrrnefndri skýrslu þá er niðurstöðum rannsóknanna skipt í fjóra flokka. Það er gert með því að fara yfir margar rannsóknir og draga svo saman niðurstöður þeirra og setja í ákveðinn flokk. Þannig er flokkað hversu sterk og áreiðanleg gögnin eru um tengsl viðkomandi matvæla og krabbameins. Flokkarnir eru eftirfarandi:
- Sannfærandi (e. convincing)
- Líkleg eða sennileg (e. probable)
- Takmörkuð – gefur vísbendingu (e. limited-suggestive)
- Veruleg áhrif á áhættu talin ólíkleg (e. substantial effect on risk unlikely)
Mjólk og mjólkurafurðir eru bæði talin hafa verndandi áhrif gegn krabbameini og vera áhættuþáttur. Mjólk er talin verndandi gegn krabbameini í ristli og endaþarmi og niðurstöður rannsókna flokkaðar sem líklegar (flokkur 2). Einnig er talið að rannsóknir gefi vísbendingu um að mjólk sé verndandi gegn krabbameini í þvagblöðru (flokkur 3).
Kalkríkt mataræði er talið auka líkur á krabbameini í blöðruhálskirtli og niðurstöður eru flokkaðar sem líklegar (flokkur 2). Þar er bæði um að ræða matvæli sem eru náttúrulega rík af kalki eins og mjólk og mjólkurafurðir en einnig kalkbætt matvæli. Hér virðast niðurstöður eiga við um kalkneyslu sem er um 1500 mg á dag eða meiri, en það samsvarar að minnsta kosti sex og hálfu mjólkurglasi. Það skal þó tekið fram að vísbendingin er ekki sterk þegar skoðuð er hlutfallsleg áhætta, það er líkurnar aukast ekki mikið við mikla neyslu á kalkríkum matvælum.
Ein skýring á því hvers vegna kalkrík matvæli eru talin líkleg til að auka líkur á krabbameini í blöðruhálskirtli er sú að mikil kalkneysla hefur neikvæð áhrif á efnaskipti D-vítamíns í líkamanum. D-vítamín er einmitt talið verndandi gegn krabbameinsmyndun.
Ostneysla gefur vísbendingu um aukna hættu á krabbameini í ristli og endaþarmi (flokkur 3). Skýringin á þessu er ekki kunn en talið er að mettuð fita í ostum geti haft áhrif á bólguvaldandi efnaþætti í líkamanum sem eiga þátt í krabbameinsmyndun. En tekið skal fram að niðurstöður um þetta eru misvísandi.
Eins og er, er ekki hægt að benda á eitthvert efnasamband í mjólk sem sé beinlínis krabbameinsvaldandi.
Að lokum er rétt að ítreka að meginreglan í mataræði og lífsstíl er hófsemi. Eins og vitneskja okkar er í dag þá er best að borða fjölbreytt og hóflega úr öllum fæðuflokkunum, hreyfa sig reglulega og reyna að vera í kjörþyngd. Einnig er mikilvægt að fá nóg af D-vítamíni og því nauðsynlegt að kynna sér helstu uppsprettur D-vítamíns í matvælum.
Opinberar ráðleggingar um mataræði er að finna hjá Lýðheilsustöð.Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum krabbamein? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Eru til krabbameinsdrepandi efni? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Er mjólk holl? eftir Björn Sigurð Gunnarsson
- Hvað er hollt mataræði? eftir Björn Sigurð Gunnarsson
- Hver er tíðni og nýgengi hinna ýmsu krabbameinstegunda? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
Sigrún Eiríksdóttir spurði spurningarinnar:
Hvert er heitið á efnasambandinu í mjólk sem talið er að geti valdið krabbameini?