Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær urðu fyrstu skýjakljúfarnir til?

Iveta Chavdarova Ivanova, Lóa Björg Finnsdóttir, Gestur Diriangen Gutierrez og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Hugtakið skýjakljúfur er notað um mjög háar turnlaga byggingar. Hins vegar er ekki til ein ákveðin skilgreining á því hvað bygging þarf að uppfylla til þess að falla í þann flokk. Það sem fólki fannst svo hátt að það gæti klofið skýin seint á 19. öld er ekkert svo hátt miðað við ýmsar nýrri byggingar. Eitt viðmið fyrir nútímaskýjakljúfa er að þeir séu 40 hæðir eða meira, yfir 150 metrar háir og að hæðirnar séu nothæfar til dæmis sem skrifstofu-, verslunar-, hótel- eða íbúðarými. Þess vegna teljast há möstur eða turnar ekki til skýjakljúfa.

Fyrsti eiginlegi skýjakljúfurinn gekk undir heitinu Home Insurance Building og var byggður í Chicago á árunum 1884-1885. Byggingin var 10 hæðir og teygði sig 42 metra upp í loftið og var á þeim tíma hæsta bygging í heimi. Nokkrum árum seinna var tveimur hæðum bætt ofan á. Home Insurance-byggingin var rifin árið 1931. Einnig mætti nefna Wainwright-bygginguna í St. Louis sem einn af fyrstu skýjakljúfunum en hönnun hennar hafði mikil áhrif á útlit nútímaskrifstofubygginga.

Home Insurance byggingin í Chicago er gjarnan talin fyrsti skýjakljúfurinn. Hún var byggð 1884-1885 en rifin árið 1931.

Ein helsta forsenda þess að fýsilegt varð að reisa svona há hús voru framfarir í framleiðslu og notkun byggingarefna. Múrsteinar sem mikið voru notaðir í byggingar henta ekki í háar byggingar, ekki meira en um 10 hæðir, þar sem veggirnir neðst þurfa að vera þykkir og umfangsmiklir til þess að standa undir byggingunni. Á seinni hluta 19. aldar voru menn hins vegar komnir upp á lag með að framleiða járn og stál í miklu magni og árið 1864 var fyrsta stálgrindarbyggingin með glerveggjum reist. Hún hét Oriel Chambers og var byggð í Liverpool á Englandi. Oriel Chambers var aðeins 5 hæðir en þarna var komin grunnhugmyndin að fyrsta skýjakljúfnum. Þess má geta að Oriel Chambers stendur enn þann dag í dag.

Önnur mikilvæg forsenda þess að háar byggingar gætu nýst almennilega var lyftan. Fyrstu öruggu fólksflutningalyfturnar komu fram á sjónarsviðið upp úr 1850. Fólk var væntanlega ekkert sérlega áfjáð í að þramma upp stiga í 10 hæða húsi en með lyftu er ekkert mál að koma fólki á milli margra hæða.

Til að byrja með risu flestir skýjakljúfarnir í Chicago og New York en smám saman breiddist byggingarlagið út. Eftir 1930 fóru skýjakljúfar að verða æ algengari í helstu stórborgum, ekki bara í Bandaríkjunum heldur einnig í Suður-Ameríku og Asíu og nokkru síðar í Evrópu, Ástralíu og síðast í Afríku. Helsti kostur skýjakljúfanna og væntanlega hvati að byggingu þeirra var að með því að byggja upp í loftið má spara mikið landsvæði og þétta miðborgir.

Empire State-byggingin í New York er einn af frægari skýjakljúfum heims.

Margir skýjakljúfar hafa orðið frægir og gjarnan hluti af táknmyndum borganna sem þeir eru í. Þar má til dæmis nefna Empire State-bygginguna í New York sem var fyrsta byggingin sem var yfir 100 hæðir. Empire State-byggingin var hæsta bygging í heimi (381 m) frá því að hún var fullkláruð árið 1931 til ársins 1972 þegar tvíburaturnarnir World Trade Center risu í sömu borg. Eins og þekkt er hrundu þeir til grunna í hryðjuverkaárás árið 2001.

Síðustu ár og áratugi hafa margir háir skýjakljúfar verið reistir. Þegar þetta er skrifað, í júní 2016, er hæsti skýjakljúfur heims Burj Khalifa í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, 829,8 metrar á hæð.

Heimildir og myndir:

Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2016.

Höfundar

nemandi í Háskóla unga fólksins

nemandi í Háskóla unga fólksins

nemandi í Háskóla unga fólksins

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

27.6.2016

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Iveta Chavdarova Ivanova, Lóa Björg Finnsdóttir, Gestur Diriangen Gutierrez og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær urðu fyrstu skýjakljúfarnir til?“ Vísindavefurinn, 27. júní 2016, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=72375.

Iveta Chavdarova Ivanova, Lóa Björg Finnsdóttir, Gestur Diriangen Gutierrez og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2016, 27. júní). Hvenær urðu fyrstu skýjakljúfarnir til? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=72375

Iveta Chavdarova Ivanova, Lóa Björg Finnsdóttir, Gestur Diriangen Gutierrez og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvenær urðu fyrstu skýjakljúfarnir til?“ Vísindavefurinn. 27. jún. 2016. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=72375>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær urðu fyrstu skýjakljúfarnir til?
Hugtakið skýjakljúfur er notað um mjög háar turnlaga byggingar. Hins vegar er ekki til ein ákveðin skilgreining á því hvað bygging þarf að uppfylla til þess að falla í þann flokk. Það sem fólki fannst svo hátt að það gæti klofið skýin seint á 19. öld er ekkert svo hátt miðað við ýmsar nýrri byggingar. Eitt viðmið fyrir nútímaskýjakljúfa er að þeir séu 40 hæðir eða meira, yfir 150 metrar háir og að hæðirnar séu nothæfar til dæmis sem skrifstofu-, verslunar-, hótel- eða íbúðarými. Þess vegna teljast há möstur eða turnar ekki til skýjakljúfa.

Fyrsti eiginlegi skýjakljúfurinn gekk undir heitinu Home Insurance Building og var byggður í Chicago á árunum 1884-1885. Byggingin var 10 hæðir og teygði sig 42 metra upp í loftið og var á þeim tíma hæsta bygging í heimi. Nokkrum árum seinna var tveimur hæðum bætt ofan á. Home Insurance-byggingin var rifin árið 1931. Einnig mætti nefna Wainwright-bygginguna í St. Louis sem einn af fyrstu skýjakljúfunum en hönnun hennar hafði mikil áhrif á útlit nútímaskrifstofubygginga.

Home Insurance byggingin í Chicago er gjarnan talin fyrsti skýjakljúfurinn. Hún var byggð 1884-1885 en rifin árið 1931.

Ein helsta forsenda þess að fýsilegt varð að reisa svona há hús voru framfarir í framleiðslu og notkun byggingarefna. Múrsteinar sem mikið voru notaðir í byggingar henta ekki í háar byggingar, ekki meira en um 10 hæðir, þar sem veggirnir neðst þurfa að vera þykkir og umfangsmiklir til þess að standa undir byggingunni. Á seinni hluta 19. aldar voru menn hins vegar komnir upp á lag með að framleiða járn og stál í miklu magni og árið 1864 var fyrsta stálgrindarbyggingin með glerveggjum reist. Hún hét Oriel Chambers og var byggð í Liverpool á Englandi. Oriel Chambers var aðeins 5 hæðir en þarna var komin grunnhugmyndin að fyrsta skýjakljúfnum. Þess má geta að Oriel Chambers stendur enn þann dag í dag.

Önnur mikilvæg forsenda þess að háar byggingar gætu nýst almennilega var lyftan. Fyrstu öruggu fólksflutningalyfturnar komu fram á sjónarsviðið upp úr 1850. Fólk var væntanlega ekkert sérlega áfjáð í að þramma upp stiga í 10 hæða húsi en með lyftu er ekkert mál að koma fólki á milli margra hæða.

Til að byrja með risu flestir skýjakljúfarnir í Chicago og New York en smám saman breiddist byggingarlagið út. Eftir 1930 fóru skýjakljúfar að verða æ algengari í helstu stórborgum, ekki bara í Bandaríkjunum heldur einnig í Suður-Ameríku og Asíu og nokkru síðar í Evrópu, Ástralíu og síðast í Afríku. Helsti kostur skýjakljúfanna og væntanlega hvati að byggingu þeirra var að með því að byggja upp í loftið má spara mikið landsvæði og þétta miðborgir.

Empire State-byggingin í New York er einn af frægari skýjakljúfum heims.

Margir skýjakljúfar hafa orðið frægir og gjarnan hluti af táknmyndum borganna sem þeir eru í. Þar má til dæmis nefna Empire State-bygginguna í New York sem var fyrsta byggingin sem var yfir 100 hæðir. Empire State-byggingin var hæsta bygging í heimi (381 m) frá því að hún var fullkláruð árið 1931 til ársins 1972 þegar tvíburaturnarnir World Trade Center risu í sömu borg. Eins og þekkt er hrundu þeir til grunna í hryðjuverkaárás árið 2001.

Síðustu ár og áratugi hafa margir háir skýjakljúfar verið reistir. Þegar þetta er skrifað, í júní 2016, er hæsti skýjakljúfur heims Burj Khalifa í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, 829,8 metrar á hæð.

Heimildir og myndir:

Þetta svar er eftir nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2016.

...