Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Með lögleiðingu almenns kosningaréttar var stigið stórt skref í átt til lýðræðis á Íslandi. Það skiptir því miklu máli að vita hvenær og hvernig þessi réttur varð til. Í aðdraganda 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna 2015 urðu nokkur skoðanaskipti á opinberum vettvangi um hvenær kosningaréttur varð almennur og hversu miklu munaði á kosningarétti karla og kvenna. Hvenær varð kosningaréttur almennur? Fengu karlar almennan kosningarétt á undan konum? Sumum fannst sú staðreynd hafa gleymst í hátíðahöldunum 2015 að margir karlar, vinnumenn og aðrir í hópi hinna efnaminnstu, hefðu einnig fengið kosningarétt 1915 og væri tilefni til að fagna því.
Í fræðigrein vekur Sigríður Dúna Kristmundsdóttir athygli á þeim fjölmörgu körlum sem ekki höfðu kosningarétt fyrir 1915 og áætlar hún að 40% karla á kosningaaldri (25 ára og eldri) hafi verið án kosningaréttar eftir rýmkun hans 1903 og allt fram til 1915.[1] Einar Steingrímsson staðhæfir í Kvennablaðinu að karlar hafi fengið „almennan kosningarétt, óháðan öðru en aldri, um leið og konur, 19. júní 1915.“[2] Auður Styrkársdóttir svarar Einari og telur hæpið að tala um almennan kosningarétt kvenna 1915 þar sem aðeins 52% þeirra á kosningaaldri fengu hann.[3]
Engin almennt viðurkennd og nákvæm skilgreining er til á því hvað telst almennur kosningaréttur. Venjulega miða menn þó við það þegar svo til allir fullorðnir borgarar ríkisins hafa fengið kosningarétt. Myndin sýnir Reykjavík á sjöunda áratug 19. aldar en þá var kosningaréttur ekki orðinn almennur.
Mörgum og stundum misvísandi tölum var veifað í þessari umræðu. Því tók höfundur þessa svars sig til og lagðist í dálitla könnun á kosningaskýrslum til að henda reiður á þessum tölum. Í meðfylgjandi töflu er þróun kosningaréttar sýnd allt frá fyrstu kosningum til Alþingis 1844 og fram til 1934 en þá voru síðustu alvarlegu takmarkanir á kosningarétti fullorðins fólks afnumdar og kosningaldur færður úr 25 árum í 21 ár. Eftir það snerust breytingar á kosningarétti aðeins um lækkun aldurstakmarksins, fyrst í 20 ár 1968 og síðan í 18 ár 1984. Frá þeim tíma hafa um og yfir 70% íbúa landsins haft kosningarétt. Tölur eru birtar úr öllum kosningum á tímabilinu 1874-1934 og til samanburðar úr tvennum kosningum á tímum ráðgjafaþinganna, fyrstu kosningunum 1844 og kosningunum 1858 eftir að kosningarétturinn hafði verið víkkaður út með lagabreytingu árið áður.
Kjósendur og hlutfall þeirra af mannfjölda 1844-1934
Ár
Kjósendur á kjörskrá
Hlutfall af íbúum á kosningaaldri (%)
Hlutfall af öllum íbúum (%)
alls
karlar
konur
alls
karlar
konur
alls
karlar
konur
1844
1.311
1.311
-
4,9
10,8
-
2,3
4,8
-
1858
3.158
3.158
-
9,6
20,9
-
4,7
9,8
-
1874
6.183
6.183
-
18,6
41,5
-
8,8
18,5
-
1880
6.557
6.557
-
18,7
42,0
-
9,0
19,1
-
1886
6.648
6.648
-
18,4
40,8
-
9,2
19,4
-
1892
6.841
6.841
-
18,5
40,7
-
9,4
19,8
-
1894
6.733
6.733
-
18,4
40,3
-
9,2
19,2
-
1900
7.329
7.329
-
19,2
42,5
-
9,4
19,6
-
1902
7.539
7.539
-
19,5
43,0
-
9,5
19,9
-
1903
7.786
7.786
-
19,9
44,0
-
9,8
20,4
-
1908
11.726
11.726
-
29,3
64,7
-
14,0
29,1
-
1911
13.136
13.136
-
31,8
69,9
-
15,3
31,9
-
1914
13.400
13.400
-
31,5
69,0
-
15,2
31,6
-
1916
28.529
16.330
12.199
65,8
82,4
51,9
31,8
37,7
26,3
1919
31.870
17.630
14.240
70,7
84,6
58,7
34,3
39,1
29,8
1923
43.932
20.710
23.222
92,0
93,6
90,7
45,0
43,5
46,4
1927
46.047
21.721
24.326
90,6
91,6
89,7
44,6
43,0
46,0
1931
50.617
24.226
26.391
92,3
93,1
91,6
46,1
44,8
47,4
1933
53.327
25.605
27.722
93,3
94,0
92,6
47,0
45,8
48,2
1934
64.338
31.039
33.299
97,9
98,5
97,4
56,1
54,9
57,2
Skýring: Hlutfallstölur í töflunni eru í nokkrum tilvikum örlítið frábrugðnar tölum kosningaskýrslna vegna þess að þær miðast við íbúatölu í árslok en í kosningaskýrslum við íbúatölu nokkru fyrir kosningar.
Við skulum beina sjónum að miðhluta töflunnar sem sýnir hlutfall kjósenda af íbúum á kosningaaldri. Sá mælikvarði er betri vísbending um útbreiðslu kosningaréttar en hlutfall kjósenda af öllum mannfjölda þar sem kosningarétturinn varðar fullorðið fólk. Fyrsti dálkurinn í miðhlutanum sýnir hlutfall allra kjósenda af íbúum á kosningaaldri samkvæmt gildandi reglum hverju sinni, annar dálkurinn sýnir hlutfall karlkynskjósenda af körlum á kosningaaldri og þriðji dálkurinn samsvarandi tölur um konur.
Aðeins karlar 25 ára og eldri fengu að kjósa til Alþingis við endurreisn þess 1845 en kosningarétturinn var bundinn ýmsum skilyrðum og náði því aðeins til 10,8% karla. Árið 1857 var kosningarétturinn rýmkaður og komst hlutfallið í 20,9% í kosningunum 1858 og enn hærra í kosningunum 1874, 41,5%. Eftir það varð lítil breyting fyrr en með rýmkun kosningaréttarins 1903 sem hafði þau áhrif að hlutfallið skaust upp í 64,7% í kosningunum 1908, og komst í tæp 70% í næstu tvennum kosningum, 1911 og 1914. Með stjórnarskrárbreytingu 1915 var skilyrðið um útsvarsgreiðslu fellt niður og vinnumenn 40 ára og eldri fengu kosningarétt og átti síðan aldurstakmarkið að lækka á ári hverju um eitt ár þar til komið væri í 25 ára aldur. Við þessa breytingu voru 82,4% karla á kosningaaldri komnir með kosningarétt.
Árið 1915 fengu konur réttinn til að kjósa í Alþingiskosningum og neyttu hans í fyrsta sinn í kosningunum 1916. Hann var þó með sömu takmörkunum og hjá vinnumönnum að einungis konur 40 ára og eldri fengu að kjósa. Þessar takmarkanir þýddu að aðeins 51,9% kvenna á kosningaaldri höfðu kosningarétt 1915. Árið 1920 setti Alþingi lög sem veittu öllum 25 ára og eldri kosningarétt og voru nú konur komnar með jafnan rétt á við karla. Þetta fól í sér mikla útvíkkun kosningaréttarins og komst hlutfall kosningabærra kvenna í tæp 91% og karla í 93,6% í kosningunum 1923. Þótt hlutfall kvenna væri lægra en karla (vegna þess að á kosningaaldri voru konur heldur fleiri en karlar; karlar voru aftur á móti ívið fleiri en konur undir kosningaaldri) voru konur orðnar meirihluti kjósenda árið 1923. Árið 1934 hækkaði hlutfall kjósenda af mannfjölda á kosningaaldri verulega eða í um það bil 97,4% hjá konum og 98,5% hjá körlum. Mun meginástæðan hafa verið afnám skilyrðis um að kjósandi mætti ekki standa í skuld vegna þegins sveitarstyrks.
Það var í rauninni ekki fyrr en með stjórnarskrárbreytingunni 1920, sem veitti 92% fólks á kosningaaldri rétt til að kjósa, að segja má að almennur kosningaréttur fyrir bæði konur og karla hafi komist á hér á landi.
Hvenær varð kosningarétturinn almennur á Íslandi samkvæmt ofansögðu? Voru karlar komnir með almennan kosningarétt 1903, 1915, 1920? Fengu konur almennan kosningarétt 1915 eða 1920? Hér vandast málið því engin almennt viðurkennd og nákvæm skilgreining er til á því hvað telst almennur kosningaréttur. Venjulega miða menn þó við það þegar svo til allir fullorðnir borgarar ríkisins hafa fengið kosningarétt.
Árið 1915 var gerð stjórnarskrárbreyting sem fól í sér að stefnt skyldi að almennum kosningarétti en hann átti ekki að taka að fullu gildi fyrr en árið 1930. Með stjórnarskrárbreytingunni var sannarlega stigið stórt skref til almenns kosningaréttar, kjósendatalan meir en tvöfaldaðist í næstu kosningum en vegna 40 ára reglunnar voru tæpur fimmtungur karla og tæpur helmingur kvenna enn án kosningaréttar. Það var í rauninni ekki fyrr en með stjórnarskrárbreytingunni 1920, sem veitti 92% fólks á kosningaaldri rétt til að kjósa, að segja má að almennur kosningaréttur fyrir bæði konur og karla hafi komist á hér á landi.
Tilvísanir:
^ Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, „Men and the Suffrage“, Stjórnmál og stjórnsýsla 12:2 2016, 263.
Guðmundur Jónsson. „Hvenær varð kosningaréttur almennur á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 30. mars 2017, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=73712.
Guðmundur Jónsson. (2017, 30. mars). Hvenær varð kosningaréttur almennur á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=73712
Guðmundur Jónsson. „Hvenær varð kosningaréttur almennur á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 30. mar. 2017. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=73712>.