Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Er eitthvað vitað um tónlist á Íslandi um 1400-1450? Er til einhver saga um tónlist á Íslandi um 1400-1450? Hljóðfæri, dans og söngur? Hvaða upplýsingar sem er myndi ég vel þiggja.
Við rannsóknir fræðimanna á miðöldum koma sífellt í ljós meiri samskipti Íslendinga við aðrar þjóðir á meginlandinu. Það á ekki síður við um tónlist en aðrar greinar. Á þessum tíma var kirkjan ráðandi afl og því er sá tónlistararfur sem varðveist hefur á skinnbrotum að mestu eða öllu leyti síður úr niðurskornum messusöngsbókum þessa tíma. Eftir siðaskiptin voru þessar síður iðulega notaðar í bókband.
Svonefnt Rysum-orgel er elsta varðveitta pípuorgel sem enn er hægt að leika á. Það var smíðað árið 1457 af Meister Harmannus frá Groningen í Hollandi. Rysum-orgelið er í þorpinu Rysum í Þýskalandi.
Engin hljóðfæri hafa varðveist á Íslandi frá þessum tíma. Af rituðum heimildum, einkum biskupasögum, má þó ráða að þau hafi verið til hér á landi. Harpa er til að mynda gjarnan nefnd í heimildum: „Bjó þar þá síra Þorleifur er þá var mestur hörpuslagari á Íslandi“.[1] Þorleifur þessi bjó á Reykjum í Skagafirði á fyrri hluta 14. aldar. Þá kemur fram í heimildum að séra Arngrímur Brandsson hafi komið með orgel til Íslands á svipuðum tíma (1329). Eina staðfesta heimildin um orgel á Íslandi fyrir siðaskipti er að finna í bréfi í Ríkisskjalasafninu í Hamborg frá árinu 1542. Þar kemur fram að Hinrik Martens borgari (kaupmaður) hafi selt Ögmundi biskup í Skálholti orgel til kirkjunnar og fer fram á að kaupverðið verði að fullu greitt.
Síða úr Hamborgarbréfinu frá 1542. Þar er minnst á orgel sem Hinrik Martens seldi Ögmundi biskupi í Skálholti. Bréfið er geymt í Ríkisskjalasafninu í Hamborg. Neðst í svarinu er mynd af seinni síðu bréfsins og mynd af forsíðu möppunnar sem geymir bréfið.
Vinsælt alþýðuhljóðfæri á þessum tíma var svokallað symfón og gjarnan leikið á það fyrir dansi. Þá hefur fundist ein gyðingaharpa (munngígja) við uppgröft hér á landi. Einnig má nefna að hljóðfæri eins og fiðlur, gígjur, lúðrar, pípur, horn, salerium trumbur og regal[2] eru gjarnan nefnd sem miðaldahljóðfæri í Evrópu en ekki er ljóst hvort þau bárust öll til Íslands. Á lágmyndum yfir kirkjudyrum í Evrópu frá þessum tíma sjást iðulega hljóðfæri og líklegt er að þau hafi borist til íslands, að minnsta kosti sum þeirra.
Hvað aðrar almennar skemmtanir fólks varðar þá barðist kirkjan fyrir útrýmingu alþýðusöngs, dans- og leikskemmtana. Kirkjunnar menn báru fyrir sig léttúð og lauslæti sem fylgdi þessum athöfnum fólks. Elsta heimild um slíkt bann mun vera í sögu Jóns Ögmundssonar biskups en þar segir:
Leikur sá var kær mönnum, áður en hinn heilagi Jón varð biskup, að kveða skyldi karlmaður til konu í dans blautleg kvæði og regileg og kona til karlmanns mansöngsvísur. Þennan leik lét hann af taka og bannaði styrklega. Mansöngskvæði vildi hann eigi heyra né kveða láta, en fékk hann því eigi af komið með öllu.[3]
Tilraunir í þessa átt gengu ekki eftir að fullu enda dansskemmtanir haldnar á Íslandi alla tíð og alþýða manna kom saman frá fyrstu stund og „sló dans“ þegar við átti.
Rétt er að benda þeim lesendum sem hafa áhuga á að kynna sér íslenska tónlistarsögu nánar á þau tvö rafrænu rit sem gefin eru upp hér fyrir neðan.
Frekara lesefni:
Bjarki Sveinbjörnsson. „Er eitthvað vitað um tónlist á Íslandi fyrir siðaskiptin?“ Vísindavefurinn, 6. desember 2017, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74436.
Bjarki Sveinbjörnsson. (2017, 6. desember). Er eitthvað vitað um tónlist á Íslandi fyrir siðaskiptin? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74436
Bjarki Sveinbjörnsson. „Er eitthvað vitað um tónlist á Íslandi fyrir siðaskiptin?“ Vísindavefurinn. 6. des. 2017. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74436>.