Sólin Sólin Rís 03:26 • sest 23:27 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:21 • Sest 11:47 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:44 • Síðdegis: 24:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:37 • Síðdegis: 17:48 í Reykjavík

Hvort tala fræðimenn um siðbreytingu eða siðaskipti? Af hverju?

Hjalti Hugason

Orðnotkun í íslensku hefur verið nokkuð breytileg gegnum tíðina þegar rætt og ritað hefur verið um upptök, útbreiðslu og áhrif lútherskunnar á 16. öld. Fram undir þetta hafa fræðimenn almennt notað eitt heiti yfir alla þætti þessarar þróunar. Það hefur svo verið breytilegt hvort rætt hefur verið um siðbót, siðaskipti eða siðbreytingu. Val á heiti lengst af 20. aldar réðst mjög af afstöðu fólks til atburðanna sem hrintu þróuninni af stað. Þeir sem töldu Lúther hafa unnið þarft verk í kristninni nefndu kirkjugagnrýni hans og afleiðingar hennar siðbót. Þeir sem voru neikvæðir í hans garð eða hlutlausir notuðu frekar siðskipti eða siðaskipti. Heitið siðbreyting ruddi sér svo til rúms í anda hlutlægra og hlutlausra rannsókna.

Þannig mátti lengi lesa afstöðu eða viðhorf fræðimanna í þessu efni út úr orðnotkun þeirra. Nú á síðustu áratugum og ekki síst í tengslum við samningu ritverksins Kristni á Íslandi sem kom út í tilefni af 1000 ára kristni í landinu hefur þörf fyrir nákvæmari orð og heiti rutt sér til rúms. Nú eru öll þrjú heitin, siðbót, siðaskipti og siðbreyting notuð en í afmarkaðri merkingu eins og síðar verður rakið.

Á erlendum málum eru átökin sem ollu klofningi miðaldakirkjunnar í Evrópu á 16. öld í rómverk-kaþólsku kirkjudeildina og kirkjur mótmælenda, lúthersku kirkjuna, kalvínsku (reformertu) kirkjuna og þá anglíkönsku, almennt nefnd reformation sem dregið er af reformatio í latínu sem þýða má sem endurbót. Í elstu íslensku textunum er stuðst við þetta orð í ýmsum myndum og meðal annars talað um reformatíuna. Við myndun íslenskra orða var farin önnur leið en gert var erlendis og byggt á orðinu siður sem forlið. Þetta hefur síðan valdið ákveðnum ruglingi.

Á erlendum málum eru átökin sem ollu klofningi miðaldakirkjunnar í Evrópu á 16. öld í rómverk-kaþólsku kirkjudeildina og kirkjur mótmælenda, lúthersku kirkjuna, kalvínsku (reformertu) kirkjuna og þá anglíkönsku, almennt nefnd reformation sem þýða má sem endurbót. Myndin sýnir Péturskirkjuna í Vatíkaninu.

Mörgum er kunnugt um að einkum í fornu máli gat siður merkt trú eða trúarbrögð. Ýmsir hafa því haldið því fram að siðaskipti eigi ekki við um atburði 16. aldar þar sem ekki hafi verið skipt um trúarbrögð heldur hafi aðeins orðið umbætur eða breytingar í trúarefnum. Þessu til stuðnings má benda á að einstöku sinnum hefur verið rætt um kristnitökuna eða trúarbragðaskiptin um 1000 sem siðaskiptin fyrri. Hér er þó að öllum líkindum um misskilning að ræða. Þegar heitið siðaskipti varð til var líklega aldrei átt við sið í merkingunni trúarbrögð heldur verið átt við helgi- eða kirkjusiði. Fái sú skýring staðist er siðaskipti ágætlega gagnsætt og lýsandi orð.

Elsta íslenska orðið yfir „reformatíuna“ er einmitt siðaskipti og á líklega við breytinguna sem var þegar ýsmum kaþólskum kirkjusiðum var breytt til lútherskrar myndar og öðrum algerlega hafnað sem leiddi til þess að helgihald kirkjunnar og það sem því tengdist mest breyttist mikið. Ekki má þó yfirdrífa breytingarnar sem urðu. Messuform kirkjunnar hélst til dæmis í grundvallaratriðum fram til 1800 þegar það var einfaldað mikið í anda upplýsingarstefnunnar. Fólk varð þó vissulega vart við mikið siðarof á siðaskiptatímanum. Fyrstu lútherski biskupinn í landinu neitaði til dæmis alveg að ferma börn þótt fermingin væri svo tekin upp aftur síðar í breyttri mynd.

Elstu dæmi um siðbótarheitið sem skráð eru koma frá 19. öld. Hér er því um tiltölulega nýtt orð að ræða. Það ruddi sér þó hratt til rúms meðal guðfræðinga sem margir nota það enn í dag. Sagnfræðingar, ekki síst róttækir fræðimenn, notuðu hins vegar heitið sið-/siðaskipti áfram fram yfir miðja 20. öld. Á 8. áratugi 20. aldar var tekið að nota orðið siðbreyting í kirkjusögukennslu við guðfræðideild HÍ og hefur það fest sig nokkuð vel í sessi sem hlutlaust heiti. Orðið er þó eldra og kemur til dæmis fyrir í bréfi frá Einari Ásmundssyni bónda í Nesi í Höfðahverfi frá 19. öld. Loks hafa einstöku höfundar notað enn önnur orð eins og til dæmis siðbylting. Það kemur meðal annars fyrir hjá Guðbrandi Jónssyni kaþólskum fræðimanni sem meðal annars ritaði ævisögu Jóns Arasonar. Hefur það þótt yfirdrífa breytingarnar á siðunum sem þó urðu.

Biblía sem Marteinn Lúther þýddi yfir á þýsku árið 1534.

Áður fyrr var einkum fjallað um siðaskiptin út frá atburðasögulegri aðferð hvort sem var á sviði kirkjusögu eða pólitískri sögu. Nú eru aðferðir eða viðhorf í rannsóknum aftur á móti fjölbreytt. Mögulegt þarf að vera að nálgast sama atburð út frá fjölmörgum sjónarhornum. Þegar um siðaskiptin er að ræða þarf að fjalla um þau út frá guðfræði- og trúarsögu, hugmynda- og hugarfarssögu, félagssögu, hagsögu auk hefðbundnari sjónarhorna stjórmála- og kirkjusögu. Stór regnhlífarheiti eiga því ekki lengur við. Þvert á móti verður að fínstilla notkun orða og hugtaka. Af þessum sökum hefur verið leitast við að nota orðin þrjú, siðaskipti, siðbót og siðbreyting, í sértækri merkingu.

Siðbót er ágætt heiti þegar átt er við kirkjugagnrýni, stefnumið og sjálfsmynd manna á borð við Martein Lúther. Hugmyndir um að verk þeirra myndu kljúfa alheimskirkjuna og verða upphaf nýrra kirkjudeilda var þeim víðs fjarri. Zwingli, Kalvín og Lúther ætluðu til dæmis allir að vinna að umbótum á kirkju sinni. Lúther var til að byrja með líka sannfærður um að páfinn mundi grípa til aðgerða þegar hann yrði þess áskynja hvernig aflátssalar báru sig að víða meðal auðtrúa alþýðufólks í Þýskalandi. Margir fleiri róttækir kirkjugagnrýnendur voru virkir á 16. öld en héldu þó velli innan rómversku kirkjunnar.

Mikilvægt er að geta gert greinarmun á þessum tveimur hópum. Gagnrýnendur sem klofnuðu frá kirkjunni eru nú tíðum nefndir siðbótarmenn (reformator á Norðurlandamálum) en hinir sem héldu velli innan hennar eru þá nefndir umbóta- eða endurbótamenn (reformist á Norðurlandamálum). Í íslenskri sögu er mögulegt að ræða um Gissur Einarsson, Odd Gottskálksson og fleiri unga menntamenn sem unnu að framgangi lútherskunnar í landinu fyrir og um 1540 sem siðbótarmenn.

Stutta svarið við spurningunni er að fræðimenn tala nú um allt í senn siðbreytingu, siðaskipti og siðbót en í sértækri merkingu

Hugmyndir siðbótarmanna tóku fljótt að hafa félagsleg og pólitísk áhrif og höfða með mismunandi móti til veraldlegra valdhafa sem snerust ýmist á sveif með eða á móti sjónarmiðum þeirra. Því kom til þess að lögformlega var tekið við siðbótarkenningum á ákveðnum svæðum, ríkjum eða sjálfsstjórnarborgum eins og til dæmis í danska ríkinu. Annars staðar var hreyfingin bönnuð eins og til dæmis í Frakklandi. Þegar slík formleg ákvörðun var tekin með lútherskunni og í kjölfarið lögfest lúthersk kirkjuskipun er ekki lengur mögulegt að nota orðið siðbót í ofangreindri merkingu. Því er nú mælt með að heiti siðaskipti verði notað um þetta trúarpólitíska ferli. Atburðirnir hér á landi á tímabilinu 1540–1550 ætti því í þröngri fræðilegri merkingu að kallast siðaskipti.

Samfélagið og þjóðin voru ekki orðin lúthersk þótt kirkjuskipan Kristjáns þriðja hefði verið samþykkt hér en hún var grundvallarlöggjöf um lútherskt kristnihald. Það tók langan tíma að uppfræða þjóðina í lútherskum anda og móta menningu landsmanna að lútherskum hætti. Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup frá um 1570 lagði mikið af mörkum á þessu sviði með bókaútgáfu sinni. Hér var þó um langtímaferli að ræða sem sjálfsagt hefur tekið upp undir 300 ár. Mikilvægt er að til sé orð sem nær fyrst og fremst yfir þessa margþættu langtímaþróun. Þar kemur heitið siðbreyting að góðum notum.

Stutta svarið við þessari spurningu er að fræðimenn tala nú um allt í senn siðbreytingu, siðaskipti og siðbót en í sértækri merkingu.

Frekara lesefni:
  • Hjalti Hugason, „Heiti sem skapa rými. Hugleiðing um heiti og hugtök í siðaskiptarannsóknum“, Ritið. Tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands 3/2014, bls. 191–230.

Myndir:

Upprunalega var spurt:
Hvað eru siðaskipti?

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

15.2.2017

Spyrjandi

Hilmir Hrafn Garðarsson, Linda Jóhannsdóttir

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hvort tala fræðimenn um siðbreytingu eða siðaskipti? Af hverju?“ Vísindavefurinn, 15. febrúar 2017. Sótt 30. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=73386.

Hjalti Hugason. (2017, 15. febrúar). Hvort tala fræðimenn um siðbreytingu eða siðaskipti? Af hverju? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=73386

Hjalti Hugason. „Hvort tala fræðimenn um siðbreytingu eða siðaskipti? Af hverju?“ Vísindavefurinn. 15. feb. 2017. Vefsíða. 30. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=73386>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvort tala fræðimenn um siðbreytingu eða siðaskipti? Af hverju?
Orðnotkun í íslensku hefur verið nokkuð breytileg gegnum tíðina þegar rætt og ritað hefur verið um upptök, útbreiðslu og áhrif lútherskunnar á 16. öld. Fram undir þetta hafa fræðimenn almennt notað eitt heiti yfir alla þætti þessarar þróunar. Það hefur svo verið breytilegt hvort rætt hefur verið um siðbót, siðaskipti eða siðbreytingu. Val á heiti lengst af 20. aldar réðst mjög af afstöðu fólks til atburðanna sem hrintu þróuninni af stað. Þeir sem töldu Lúther hafa unnið þarft verk í kristninni nefndu kirkjugagnrýni hans og afleiðingar hennar siðbót. Þeir sem voru neikvæðir í hans garð eða hlutlausir notuðu frekar siðskipti eða siðaskipti. Heitið siðbreyting ruddi sér svo til rúms í anda hlutlægra og hlutlausra rannsókna.

Þannig mátti lengi lesa afstöðu eða viðhorf fræðimanna í þessu efni út úr orðnotkun þeirra. Nú á síðustu áratugum og ekki síst í tengslum við samningu ritverksins Kristni á Íslandi sem kom út í tilefni af 1000 ára kristni í landinu hefur þörf fyrir nákvæmari orð og heiti rutt sér til rúms. Nú eru öll þrjú heitin, siðbót, siðaskipti og siðbreyting notuð en í afmarkaðri merkingu eins og síðar verður rakið.

Á erlendum málum eru átökin sem ollu klofningi miðaldakirkjunnar í Evrópu á 16. öld í rómverk-kaþólsku kirkjudeildina og kirkjur mótmælenda, lúthersku kirkjuna, kalvínsku (reformertu) kirkjuna og þá anglíkönsku, almennt nefnd reformation sem dregið er af reformatio í latínu sem þýða má sem endurbót. Í elstu íslensku textunum er stuðst við þetta orð í ýmsum myndum og meðal annars talað um reformatíuna. Við myndun íslenskra orða var farin önnur leið en gert var erlendis og byggt á orðinu siður sem forlið. Þetta hefur síðan valdið ákveðnum ruglingi.

Á erlendum málum eru átökin sem ollu klofningi miðaldakirkjunnar í Evrópu á 16. öld í rómverk-kaþólsku kirkjudeildina og kirkjur mótmælenda, lúthersku kirkjuna, kalvínsku (reformertu) kirkjuna og þá anglíkönsku, almennt nefnd reformation sem þýða má sem endurbót. Myndin sýnir Péturskirkjuna í Vatíkaninu.

Mörgum er kunnugt um að einkum í fornu máli gat siður merkt trú eða trúarbrögð. Ýmsir hafa því haldið því fram að siðaskipti eigi ekki við um atburði 16. aldar þar sem ekki hafi verið skipt um trúarbrögð heldur hafi aðeins orðið umbætur eða breytingar í trúarefnum. Þessu til stuðnings má benda á að einstöku sinnum hefur verið rætt um kristnitökuna eða trúarbragðaskiptin um 1000 sem siðaskiptin fyrri. Hér er þó að öllum líkindum um misskilning að ræða. Þegar heitið siðaskipti varð til var líklega aldrei átt við sið í merkingunni trúarbrögð heldur verið átt við helgi- eða kirkjusiði. Fái sú skýring staðist er siðaskipti ágætlega gagnsætt og lýsandi orð.

Elsta íslenska orðið yfir „reformatíuna“ er einmitt siðaskipti og á líklega við breytinguna sem var þegar ýsmum kaþólskum kirkjusiðum var breytt til lútherskrar myndar og öðrum algerlega hafnað sem leiddi til þess að helgihald kirkjunnar og það sem því tengdist mest breyttist mikið. Ekki má þó yfirdrífa breytingarnar sem urðu. Messuform kirkjunnar hélst til dæmis í grundvallaratriðum fram til 1800 þegar það var einfaldað mikið í anda upplýsingarstefnunnar. Fólk varð þó vissulega vart við mikið siðarof á siðaskiptatímanum. Fyrstu lútherski biskupinn í landinu neitaði til dæmis alveg að ferma börn þótt fermingin væri svo tekin upp aftur síðar í breyttri mynd.

Elstu dæmi um siðbótarheitið sem skráð eru koma frá 19. öld. Hér er því um tiltölulega nýtt orð að ræða. Það ruddi sér þó hratt til rúms meðal guðfræðinga sem margir nota það enn í dag. Sagnfræðingar, ekki síst róttækir fræðimenn, notuðu hins vegar heitið sið-/siðaskipti áfram fram yfir miðja 20. öld. Á 8. áratugi 20. aldar var tekið að nota orðið siðbreyting í kirkjusögukennslu við guðfræðideild HÍ og hefur það fest sig nokkuð vel í sessi sem hlutlaust heiti. Orðið er þó eldra og kemur til dæmis fyrir í bréfi frá Einari Ásmundssyni bónda í Nesi í Höfðahverfi frá 19. öld. Loks hafa einstöku höfundar notað enn önnur orð eins og til dæmis siðbylting. Það kemur meðal annars fyrir hjá Guðbrandi Jónssyni kaþólskum fræðimanni sem meðal annars ritaði ævisögu Jóns Arasonar. Hefur það þótt yfirdrífa breytingarnar á siðunum sem þó urðu.

Biblía sem Marteinn Lúther þýddi yfir á þýsku árið 1534.

Áður fyrr var einkum fjallað um siðaskiptin út frá atburðasögulegri aðferð hvort sem var á sviði kirkjusögu eða pólitískri sögu. Nú eru aðferðir eða viðhorf í rannsóknum aftur á móti fjölbreytt. Mögulegt þarf að vera að nálgast sama atburð út frá fjölmörgum sjónarhornum. Þegar um siðaskiptin er að ræða þarf að fjalla um þau út frá guðfræði- og trúarsögu, hugmynda- og hugarfarssögu, félagssögu, hagsögu auk hefðbundnari sjónarhorna stjórmála- og kirkjusögu. Stór regnhlífarheiti eiga því ekki lengur við. Þvert á móti verður að fínstilla notkun orða og hugtaka. Af þessum sökum hefur verið leitast við að nota orðin þrjú, siðaskipti, siðbót og siðbreyting, í sértækri merkingu.

Siðbót er ágætt heiti þegar átt er við kirkjugagnrýni, stefnumið og sjálfsmynd manna á borð við Martein Lúther. Hugmyndir um að verk þeirra myndu kljúfa alheimskirkjuna og verða upphaf nýrra kirkjudeilda var þeim víðs fjarri. Zwingli, Kalvín og Lúther ætluðu til dæmis allir að vinna að umbótum á kirkju sinni. Lúther var til að byrja með líka sannfærður um að páfinn mundi grípa til aðgerða þegar hann yrði þess áskynja hvernig aflátssalar báru sig að víða meðal auðtrúa alþýðufólks í Þýskalandi. Margir fleiri róttækir kirkjugagnrýnendur voru virkir á 16. öld en héldu þó velli innan rómversku kirkjunnar.

Mikilvægt er að geta gert greinarmun á þessum tveimur hópum. Gagnrýnendur sem klofnuðu frá kirkjunni eru nú tíðum nefndir siðbótarmenn (reformator á Norðurlandamálum) en hinir sem héldu velli innan hennar eru þá nefndir umbóta- eða endurbótamenn (reformist á Norðurlandamálum). Í íslenskri sögu er mögulegt að ræða um Gissur Einarsson, Odd Gottskálksson og fleiri unga menntamenn sem unnu að framgangi lútherskunnar í landinu fyrir og um 1540 sem siðbótarmenn.

Stutta svarið við spurningunni er að fræðimenn tala nú um allt í senn siðbreytingu, siðaskipti og siðbót en í sértækri merkingu

Hugmyndir siðbótarmanna tóku fljótt að hafa félagsleg og pólitísk áhrif og höfða með mismunandi móti til veraldlegra valdhafa sem snerust ýmist á sveif með eða á móti sjónarmiðum þeirra. Því kom til þess að lögformlega var tekið við siðbótarkenningum á ákveðnum svæðum, ríkjum eða sjálfsstjórnarborgum eins og til dæmis í danska ríkinu. Annars staðar var hreyfingin bönnuð eins og til dæmis í Frakklandi. Þegar slík formleg ákvörðun var tekin með lútherskunni og í kjölfarið lögfest lúthersk kirkjuskipun er ekki lengur mögulegt að nota orðið siðbót í ofangreindri merkingu. Því er nú mælt með að heiti siðaskipti verði notað um þetta trúarpólitíska ferli. Atburðirnir hér á landi á tímabilinu 1540–1550 ætti því í þröngri fræðilegri merkingu að kallast siðaskipti.

Samfélagið og þjóðin voru ekki orðin lúthersk þótt kirkjuskipan Kristjáns þriðja hefði verið samþykkt hér en hún var grundvallarlöggjöf um lútherskt kristnihald. Það tók langan tíma að uppfræða þjóðina í lútherskum anda og móta menningu landsmanna að lútherskum hætti. Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup frá um 1570 lagði mikið af mörkum á þessu sviði með bókaútgáfu sinni. Hér var þó um langtímaferli að ræða sem sjálfsagt hefur tekið upp undir 300 ár. Mikilvægt er að til sé orð sem nær fyrst og fremst yfir þessa margþættu langtímaþróun. Þar kemur heitið siðbreyting að góðum notum.

Stutta svarið við þessari spurningu er að fræðimenn tala nú um allt í senn siðbreytingu, siðaskipti og siðbót en í sértækri merkingu.

Frekara lesefni:
  • Hjalti Hugason, „Heiti sem skapa rými. Hugleiðing um heiti og hugtök í siðaskiptarannsóknum“, Ritið. Tímarit Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands 3/2014, bls. 191–230.

Myndir:

Upprunalega var spurt:
Hvað eru siðaskipti?

...