Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Er artemisinin eina lyfið sem læknar malaríu? hvenær var það fundið upp og hvernig virkar það? Hvað getið þið sagt mér um Artemisia annua? og Hvernig tengist það við Artemisinin og hvernig virkar Artemisinin?
Til eru fjölmörg lyf sem notuð eru til að fyrirbyggja og meðhöndla malaríu, önnur en artemisínin. Artemisínin var fyrst uppgötvað í nóvember 1972, en það var teymi vísindamanna við Akademíu hefðbundinna kínverskra lækninga (e. Academy of Traditional Chinese Medicine) sem fann efnið í plöntunni Artemisia annua undir forystu Youyou Tu, en hún fékk Nóbelsverðlaun fyrir rannsóknir sínar árið 2015.[1]
Forn lækningarit í Kína gátu um lækningamátt Quinghasou, seyðis af plöntunni, og komu vísindamönnunum á sporið. Næstu skref fólust í að ákvarða nákvæma byggingu artemisiníns, ásamt því að rannsaka hvernig mætti hreinsa efnið og framleiða í miklu magni. Fyrstu klínísku rannsóknirnar í mönnum hófust síðla árs 1973 og héldu áfram næstu 5 ár. Artemisinín var samþykkt sem nýtt lyf árið 1986. Enn virkari afleiða, dihydroartemisinín fannst árið 1973 og var samþykkt sem lyf árið 1992. Enn öflugri afleiður, artemether og artesúnat voru síðar þróaðar frá þessu efnasambandi.[2]
Kínverska vísindakonan Youyou Tu hlaut Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- eða læknisfræði árið 2015 fyrir rannsóknir sem leiddu til nýrra lyfja við malaríu.
Verkunarháttur artemisinínsambanda er ekki að fullu þekktur. Þó er talið að lyfin drepi malaríu með því að bindast við járnsameindir og stuðla að myndun svonefndra sindurefna (e. free radicals), sem leiða til alvarlegra skemmda á mikilvægum prótínum og himnum í öllum fjórum tegundum malaríusníkla í blóði.[3] Í dag er mælt með gjöf artesúnats í æð sem fyrstu meðferð við alvarlegri malaríu, enda lækkar það sníkladreyra (parasitemiu) mun hraðar og dregur marktækt meira úr dauðsföllum sjúklinga en meðferð með kínini, sem lengi vel var mælt með.[4][5]
Verkun artemisinínsambanda er afar hröð, en þau drepa ekki sníkla sem hafast við í lifur. Ef þau eru gefin ein sér er aukin hætta á ónæmismyndun og þau eru því oft gefin í lyfjasamsetningum (e. artemisinin-based combination therapy, ACT), svo sem artemether-lumefantrín, artesúnat-amodíakín, artesúnat-meflókín, artesúnat-súlfadoxín-pyrimethamín, og dihydroartemisinín-píperakín.[6] Hægt er að gefa þau um munn og einnig sem stíla í endaþarm ef ekki er hægt að gefa lyfin í æð.
Malaría er alvarlegur smitsjúkdómur sem berst í menn með biti moskítóflugna.
Ónæmi fyrir artemisinínsamböndum hefur verið lýst í SA-Asíu og nokkrar mismunandi stökkbreytingar virðast geta leitt til ónæmis.[7][8] Ef sníkillinn myndar ónæmi fyrir artemisiníni aukast jafnframt líkur á ónæmismyndun gegn öðrum malaríulyfjum. Á Íslandi greinist malaría sem staðfest er með rannsóknum 2-3 sinnum á ári að jafnaði,[9] en fleiri fá meðferð vegna gruns um sýkinguna. Af þeim sem greinst hafa með malaríu hérlendis hefur artesúnat verið notað í fáeinum tilfellum.[10] Talverður áhugi er á mögulegu notagildi þessara efnasambanda við öðrum sjúkdómum, einkum krabbameini og er það allnokkuð rannsakað um þessar mundir.
Tilvísanir:
^ Magnús Gottfreðsson. Nóbelsverðlaun í læknisfræði fyrir uppgötvun nýrra sýklalyfja. Læknablaðið 2015; 101:509.
^ Eckstein-Ludwig U, Webb RJ, Van Goethem ID, East JM, Lee AG, Kimura M, O'Neill PM, Bray PG, Ward SA, Krishna S. Artemisinins target the SERCA of Plasmodium falciparum. Nature. 2003;424(6951):957.
^ Dondorp A, Nosten F, Stepniewska K, Day N, White N, South East Asian Quinine Artesunate Malaria Trial (SEAQUAMAT) group. Artesunate versus quinine for treatment of severe falciparum malaria: a randomised trial. Lancet. 2005;366(9487):717.
^ Dondorp AM, Fanello CI, Hendriksen IC, Gomes E, Seni A, Chhaganlal KD, Bojang K, Olaosebikan R, Anunobi N, Maitland K, Kivaya E, Agbenyega T, Nguah SB, Evans J, Gesase S, Kahabuka C, Mtove G, Nadjm B, Deen J, Mwanga-Amumpaire J, Nansumba M, Karema C, Umulisa N, Uwimana A, Mokuolu OA, Adedoyin OT, Johnson WB, Tshefu AK, Onyamboko MA, Sakulthaew T, Ngum WP, Silamut K, Stepniewska K, Woodrow CJ, Bethell D, Wills B, Oneko M, Peto TE, von Seidlein L, Day NP, White NJ, AQUAMAT group. Artesunate versus quinine in the treatment of severe falciparum malaria in African children (AQUAMAT): an open-label, randomised trial. Lancet. 2010;376(9753):1647.
^ Phyo AP, Ashley EA, Anderson TJ, Bozdech Z, Carrara VI, Sriprawat K, Nair S, White MM, Dziekan J, Ling C, Proux S, Konghahong K, Jeeyapant A, Woodrow CJ, Imwong M, McGready R, Lwin KM, Day NP, White NJ, Nosten F. Declining Efficacy of Artemisinin Combination Therapy Against P. falciparum Malaria on the Thai-Myanmar Border (2003-2013): The Role of Parasite Genetic Factors. Clin Infect Dis. 2016 Sep;63(6):784.
^ Kristján Godsk Rögnvaldsson, Sigurður Guðmundsson, Magnús Gottfreðsson. Malaría á Íslandi, sjaldgæf en stöðug ógn fyrir ferðalanga. Læknablaðið 2016;102:271.
^ Kristján Godsk Rögnvaldsson, Sigurður Guðmundsson, Magnús Gottfreðsson. Malaría á Íslandi, sjaldgæf en stöðug ógn fyrir ferðalanga. Læknablaðið 2016;102:271.
Magnús Gottfreðsson. „Hvernig læknar artemisínin malaríu og hvenær var lyfið fundið upp?“ Vísindavefurinn, 5. október 2018, sótt 5. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74449.
Magnús Gottfreðsson. (2018, 5. október). Hvernig læknar artemisínin malaríu og hvenær var lyfið fundið upp? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74449
Magnús Gottfreðsson. „Hvernig læknar artemisínin malaríu og hvenær var lyfið fundið upp?“ Vísindavefurinn. 5. okt. 2018. Vefsíða. 5. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74449>.